Færsluflokkur: Bækur

Slavo Zizek

Í síðustu viku kom hingað til lands einn af helstu hugsuðum samtímans, Slavo Zizek. Hann hélt tvo fyrirlestra, einn fyrir Borgfirðinga á Bifröst og annan í raunvísindahúsinu Öskju. Ég fór og hlustaði á hann í Öskju í yfirfullum sal. Hefði sprengju verið varpað á hann hefði góður hluti menningarelítu þessa lands og bróðurpartur hinnar skapandi krúttkynslóðar verið þurrkaður út á einu bretti. Þetta var fínn fyrirlestur, raunar alveg stórmagnaður, því eins og við mátti búast var hann mátulega kaótískur til að vera skemmtilegur og svo svaraði Zizek náttúrlega í raun ekki fremur leiðinlegri spurningu sem lögð var fram sem umræðuefni: Can art still be subversive?

Ein áhrifamesta bók sem ég hef lesið um mína ævidaga er kynning Zizeks á Jaques Lacan með hjálp bókmennta og Hollywood í bókinni Looking Awry, sem var með fyrstu públíkasjónum hans á ensku. Síðan þá er hann búinn að dæla út bókum og greinum og er orðinn algerlega óumflýjanleg stærð ef maður vill átta sig á samtímanum og rifja upp að heimurinn og orðin sem notuð eru um hann eru pólitísk og að okkur leyfist í raun ekki að spyrja spurninga um ákveðin svið hans.

Ótti okkar við grundvallarbreytingar, við að sjá fyrir okkur heiminn í grundvallaratriðum öðru vísi en sem markaðsdrifið sósíaljafnaðarbatterí með mismiklum sköttum og leikskólagjöldum og mismikilli kostnaðarþáttöku í heilbrigðis- og menntamálum er svo agalegur að við komumst ekkert áfram. Zizek er einn örfárra raunverulegra byltingarmanna í nútímanum sem hlustandi er á þótt hann sé í raun gamaldags ídealisti sem byggir á traustum grunni marxisma (hegelísku) og sálgreiningar. Útleggingar hans á hugmyndafræði Hollywood og túlkanir á Titanic eða myndum Spielbergs voru skemmtilegur útúrdúr í fyrirlestrinum og voru kennslustund í þeirri stöðugu glímu sem við erum alltaf í við hugmyndfræðina, við staðalmyndir hins rétta og góða.

Hann spjallaði um Lenín í lokin og um möguleika vinstri manna við að kljást við eigin kreppu. Auðvitað má hann ekki fjalla um Lenín, hann sagðist hafa komið sér út úr húsi í Þýskalandi þar sem hann áður naut hylli eftir að hann skrifaði bók um Lenín. Hann sagði vinstri mönnum að feta í fótspor Leníns sem árið 1915 hvarf af vettvangi heimsstríðsins og fór til Sviss til að lesa Hegel. Now we need theory, more theory. Ég sá engan frá Samfylkingunni þarna.


Dagur barnabókarinnar

Í dag, 2. apríl, er alþjóðlegur dagur barnabókarinnar. Tilefnið er að þetta er fæðingardagur þjóðskálds Dana, hins mikla ævintýrasmiðs Hans Kristjáns Andersen. Nokkrum sinnum hefur verið reynt að hefja þennan dag til vegs og virðingar hérlendis en ekki tekist sem skildi og fáir þekkja hann.

Nú hafa IBBY samtökin haft forgöngu um að koma þessum degi á kortið og vilja stuðla að því að hann verði eftirleiðis einn af hápunktum bókaársins. Af því tilefni er vakin athygli á barnabókum í Borgarbókasafni, sýning tólf barnabókateiknara er í Ásmundarsafni en það sem líklegast ber hæst er verðlaunaafhending þar sem nýjum barnabókaverðlaunum IBBY og Glitnis verður hleypt af stokkunum. IBBY hefur jafnan veitt svokallaða Vorvindaviðurkenningu hvert ár og taka þessi nýju verðlaun, sem eru peningaverðlaun, við henni.

Umræðan um barnabækur og gildi þeirra er merkilega mikil og mjög margir hafa áhuga á að vegur þeirra sé sem mestur en þetta debatt fer að mestu fram á sporbaug sem er utan við daglegt vafstur höfuðfjölmiðla okkar. Útgáfa barnabóka, ekki hvað síst þýddra barnabóka, er vaxandi og nokkrir íslenskir höfundar hafa búið til heilt úníversum af sögum og karakterum sem eru nú byrjaðir að ferjast milli kynslóða þótt sumt af því efni sem gert hefur verið fyrir börn á Íslandi hafi orðið eftir í sínum tíma og eigi erfitt um útgöngu þaðan.

Mér finnst hins vegar að þessi mikli fjársjóður sé stundum frátekinn fyrir þá sem lesa. Eitt af megináhersluatriðum okkar útgefenda og allra sem vinna við bækur og útgáfu er að stuðla að auknum lestri: Við vitum einfaldlega að það er öllum til heilla. En við verðum líka að viðurkenna að til er hópur, sjálfsagt nokkuð stór hópur, kannski upp í 40% landsmanna, sem ekki lesa bækur sér til ánægju. Hins vegar myndi sama fólk vilja sjá ýmsa karaktera úr barnabókaflórunni í öðrum myndum: Sem teiknimyndir, sem fígúrur, sem myndir á ýmsum varningi, sem efni í öðrum miðlum.

Síðasta sumar fórum við fjölskyldan í frábært skemmtihús í miðborg Stokkhólms, Junibacken, sem er einskonar upplifunarsenter þar sem sænskar barnabækur og þeirra kúltúr er hylltur. Þetta var snilldarstaður sem bauð í senn um á möguleika til að leika sér, ferðast í gegnum sagnaheim Astridar Lindgren og djöflast um í Sjónarhóli sem hafði verið reistur þarna inni í mínatúrmynd með öllu tilheyrandi og engum bannað að snerta neitt. Góðir menn á borð við Dr. Gunna, hafa oft bent á sorglegan skort á tækifærum til að "gera eitthvað með krökkunum um helgar" á höfuðborgarsvæðinu. Það væri rakin snilld að eignast svona hús einhvers staðar á fallegum og björtum stað sem gæti verið mótvægi við leiksvæði krakka í verslunarmiðstöðvum og líkamsræktunarstöðvm sem eru alltaf í kjallaranum eða á einhverjum dimmum stað, líkt og börnin séu geymd í bunker á meðan foreldrarnir fegra líkama sinn og sál í birtunni ofanjarðar.  

 


Klisjan um staðkvæmdarvöruna

Fjármálaráðherra bar á góma í síðustu færslu. Hann vekur athygli á því í Morgunblaðinu 20. mars að virðisaukaskattur á fleiri vörum en matvælum hafi lækkað þann 1. mars síðastliðinn. Hann nefnir þar húshitun og fjölmiðlaáskrift og svo náttúrlega bækur, en virðisaukaskattur á bókum lækkaði úr 14% í 7% þann dag.

Félag íslenskra bókaútgefenda kynnti þessa lækkun í tengslum við árlegan bókamarkað sinn sem hófst einmitt 1. mars og bóksalar og bókaútgefendur eru sammála um að lækkunin hafi skilað sér og borið árangur. Engar kvartanir hafi borist vegna þess að menn telji vanefndir hafa verið á lækkuninni. Þvert á móti hafi útgefendur lækkað bækur sínar meira en sem nam hreinni virðisaukaskattsprósentulækkun og rúnnað niður í næstu heilu tölu fyrir neðan. Þar sem fáir ef nokkrir hafa barist jafn mikið fyrir lækkun og helst afnámi virðisaukaskatts á sínar vörur og bókaútgefendur og höfundar væri það líka fullkomin vitleysa að láta þetta happ úr hendi sleppa.

Fjármálaráðherra vakti líka athygli á því að verð á hljómdiskum hefði lækkað úr 24% í 7%. Það ber að fagna þeirri ákvörðun, sérstaklega ef hún getur orðið til stuðnings íslenskum tónlistarmönnum á innanlandsmarkaði, en sjálfsagt er engin grein íslenskrar samtímamenningar sem hefur átt jafn alþjóðlega skírskotun og tónlistin. Nýja þjóðernisstoltið, hin nýja réttlæting þjóðernisins sem skapandi og sérstakt og framandi, hefur átt sína helstu stoð í tónlistinni þar sem íslensk Björk og Rós hafa vaxið í öllum hornum og átt "að vinum gamburmosa og stein" jafnt sem "aldintré með þunga og frjóva grein". Allar aðrar íslenskar listgreinar, þar á meðal bókmenntir, njóta góðs af þessu og geta með jákvæðum hætti stýrt ímynd sinni og markaðssetningu á alþjóðavettvangi með hliðsjón af jákvæðum straumum úr tónlistargeiranum.

En réttlætingin fyrir þessari ákvörðun eins og hún birtist í pistli fjármálaráðherra sem og í athugasemdum sem fylgja lögum um afnám vörugjalda og lækkun virðisaukaskatts kemur bókaútgefendum ákaflega spánskt fyrir sjónir. Í athugasemdunum við 3. gr. laganna segir orðrétt:

Í c-lið ákvæðisins er lagt til að virðisaukaskattur á geisladiska, hljómplötur og segulbönd með tónlist verði 7%. Er það gert til að jafna samkeppnisstöðu tónlistarútgefenda við bóka- og tímaritaútgefendur en bent hefur verið á að geisladiskar með tónlist séu staðkvæmdarvara við bækur og tímarit og því óeðlilegt að önnur varan beri 24,5% virðisaukaskatt en hin 7%.

Þessi orð bergmálar svo fjármálaráðherra í greininni í Morgunblaðinu.

Mér vitanlega eru engar markaðsrannsóknir til sem styðja þessa fullyrðingu. Aldrei hefur farið fram nákvæm rannsókn á því hvort tónlist sé staðkvæmdarvara fyrir bækur, eða þá aðra vöruflokka á borð við DVD myndir, sem ég held að hljóti að vera "eðlilegri" staðkvæmdarvara ef maður er á höttunum eftir diski hvort eð er. Sem og tölvuleikir eða önnur rafræn skemmtan sem öll mun áfram bera 24% virðisaukaskatt þrátt fyrir andmæli, t.d. hafa kvikmyndagerðarmenn verið ósáttir við að DVD-útgáfur íslenskra kvikmynda skuli ekki fá að fylgja geisladiskunum eftir. Þeir byggja sína röksemd á því að geisladiskar séu staðkvæmdarvara fyrir DVD-diska, þannig að ormurinn lengist stöðugt.

Í raun skiptir engu hvort bækur eru staðkvæmdarvara fyrir geisladiska og öfugt. Ég hef áður sagt og stend við það að samkeppnin þarna á milli sé óveruleg og fari aðallega fram í hausnum á talsmönnum hljómplötuútgefenda sem horfa nú á gjörbreytta neysluhætti á tónlist og eru að reyna að bregðast við því með einhverju móti. Sá sem er tilbúinn til að greiða 3000-4000 kr. fyrir bók til gjafa er ekki á höttunum eftir geisladiski. Ég þekki engan sem hugsar með sér: Hvort ætti ég fremjr að kaupa tímarit eða geisladisk í dag? Þetta er ekki spurning um hvort ég ætla að eyða 1500 kr. í léttan hádegisverð og latte í dag eða fá mér kilju að lesa. Neytendur haga sér ekki þannig.

Þetta er hins vegar óstaðfestur heilaspuni í mér. Enn liggja engar rannsóknir á hegðan þeirra sem neyta menningarvöru og á meðan er svona frasar, eins og þeir sem sömdu athugasemdir við frumvarp til laga nr. 175/2006 um afnám vörugjalda og lækkunar virðisaukaskatts bera á borð fyrir mann, ekkert annað en það sem það þeir eru: Heilaspuni. Ég vona að ráðherrar og aðrir mætir menn hætti að bera þessa gerviréttlætingu á borð fyrir okkur.


Sjáiði veisluna

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra gladdi okkur Viðvíkursveitarmenn á laugardaginn þegar hann kvaddi Bjössa á Hofstöðum sér til stuðnings í kröppum dansi og ljáði fleygum orðum hans - "Sjáið þið ekki veisluna, drengir!" - nýjan svifkraft. Mér hefur alltaf verið sagt að Árni hafi sjálfur verið viðstaddur þegar Björn Runólfsson, hrossabóndi á Hofstöðum í Skagafirði, mælti þessi orð yfir borðum og að gikkirnir sem þeim var beint að hafi verið förunautar Árna.

Þegar gengi Bjössa var hvað hæst og hann átti enn fjör og kraft til að láta eldlegar gáfur leiftra voru Hofstaðir vinsæll samkomustaður mektarmanna úr Reykjavík. Þangað komu hrossamenn og grósserar úr höfuðstaðnum til að skemmta sér á góðum stundum og margir bundust honum tryggðarböndum og áttu þar samastað á ferðum sínum. Hæst bar þó skemmtanina þegar Björn hafði sín kunnu "paról". Þau voru ógleymanleg öllum þeim sem á hlýddu og náðu venjulega að lyftast mest þegar Bjössi settist við orgelið. En "parólin" gátu raunar einnig farið kyrrlátar fram. Þau gátu dúkkað upp utan annatíma grósseranna þegar Björn settist niður og viðhafði einskonar sókratískt samtal þar sem hann reyndi kenningar sínar um manneðið og lífið á jörðinni á áheyrendum sínum sem ýmist fussuðu eða glottu. Nágrannar voru kannski ekki jafn uppnæmir yfir stórmerkilegum hugmyndum og utansveitarfólk.

Hrossabúskapur hefur alltaf verið að því marki ólíkur öðrum bústörfum að hann felur í sér stöðuga sölumennsku. Kúabóndinn er með skilgreinda afurð á sínum snærum: mjólk. Hún er keypt af afurðastöð og svo er það komið undir skriffinnskunni og búmannshæfileikum hvernig tekst að tosa saman kvóta, erfðir, fóður og vinnu í eina afraksturstaug. Kúabóndinn þarf hins vegar aldrei að láta reyna á hæfileika sína í markaðsmálum. Það eru aðrir sem selja. En sá sem stundar hrossabúskap þarf að kunna skil á því að setja upp sjóv. Núna geta menn raunar látið tölfræði, blurp og hrossasundlaugar vinna verkin fyrir sig. En Bjössi var ekki upp á sitt besta á þeirri öld. Hann var í blóma á því skeiði þegar töfrar seldu hesta. Hann kunni að halda fallegum hryssum undir góða klára og vissi hvernig ættirnar röktu sig áfram sinn genetíska veg. En það sem gerði útslagið í sölutækninni var ekki hæfileikinn til að ryðja upp úr sér byggingardómum og ættbókarnúmerum, heldur "parólið" og orgelspilið í hinni hálfbyggðu höll á Hofstöðum þar sem hann velti stundum fyrir sér að setja upp bensínstöð "og græða ógurlega", eins og hann sagði með sinni vinalegu og djúpu rödd með langa seimnum og lyfti kannski vísifingri í leiðinni. Sá sem breytir lífi gestsins í stöðugt undur á létt með að lokka að sér fleiri og þegar gesturinn er á höttunum eftir fallegum klár eða góðri meri þá eru viðskiptin ekki viðskipti, heldur einfalt afgreiðslumál sem eiginlega er bara hluti af gríninu. Hrossabændurnir gömlu hefðu farið létt með að selja Zero kók án þess að nokkur hefði tekið eftir viðskiptunum.

Það mun hafa verið "paról" á boðstólum þegar núverandi fjármálaráðherra átti leið um Skagafjörð í góðra vina hópi. Þeir rekast á Björn sem sagði þeim að koma við á Hofstöðum "þar væri ógurleg veisla". Veisluföngin voru hins vegar ekki önnur en nokkuð ótæpilegt magn af brenndum vínum, í sumum sögugerðum var það víst bara landi, og kex og fannst sunnanmönnum þeir vera sviknir um dýrðlegan fagnað. Sveiflaði þá Hofstaðabóndinn hönd fislétt en ákveðið yfir flöskur og beinakex og sagði með þjósti: "Sjáið þið ekki veisluna, drengir!"

Frekari vitna þurfti víst ekki við.


Bókmenntasjóður

Um kvöldmatarleytið á laugardaginn samþykkti Alþingi ný bókmenntalög. Þar með er langþráðum áfanga í endurskipulagningu opinbers stuðnings við bókaútgáfuna náð. Með lögunum er þremur sjóðum steypt saman í einn: menningarsjóði, þýðingarsjóði og bókmenntakynningarsjóði. Í stað þess að ákvarðanir um útdeilingu á opinberum fjármunum séu í höndum ólíkra sjóðsstjórna, sem illmögulegt var á stundum að skilja á hvaða forsendum deildu út fénu, á að taka til starfa ein öflug stjórn bókmenntasjóðs. Hennar hlutverk verður að marka stefnu í stuðningi við bókmenningu og bókaútgáfu til þriggja ára í senn.

Að vísu er heimanmundurinn rýr. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir neinni stórbrotinni hækkun á fjármunum til sjóðsins umfram það sem rann í sjóðina þrjá áður. En fögur loforð fylgja nefndaráliti mennamálanefndar auk þess sem því eru gerðir skórnir í athugasemdum með frumvarpinu að vel megi sjá fyrir sér að það fé sem nú rennur til styrktar bókaútgáfu í ýmsum ráðuneytum geti átt þarna heima.

Þess ber líka að gæta að opnað er fyrir þátttöku einkaaðila í stuðningi við þennan málaflokk sem er mikilvægt.

Okkar bíða margvísleg verkefni sem von er til að bókmenntasjóður geti stutt við bakið á. Nóg að nefna hér eitt: útflutning íslenskra bókmennta og íslenskra rita almennt.

Bókmenntakynningarsjóður er algjörlega vanburða eins og hann er nú. Takmarkaðir fjármunir hans hrökkva rétt til reksturs á skrifstofu sem á sér svo ekki einu sinni heimasíðu. Hann einfaldlega virkar ekki sem bakland fyrir sölu á réttindum íslenskra bóka erlendis og hefur ekki tekist að sinna nógu vel hlutverki sínu sem kynningarmiðstöðvar fyrir íslenskar samtímabókmenntir og samtímabókmenningu. Á meðan erum við í blússandi samkeppni við gríðaröflugar bókmenntakynningamiðstöðvar nágrannalandanna sem hafa dælt styrkjum og stuðningi út um allar jarðir. Hér verða nýju bókmenntalögin vonandi til þess að hleypa nýju lífi og styrk í þennan mikilvæga málaflokk. Fyrst ímynd Íslands tengist menningu og bókmenntum jafn lítið og haldið er fram þá er kominn tími til að taka af sér vettlingana.


Fjórtán ára

Í nýjustu skáldsögu sinni Möguleiki á eyju orðar Houellebecq vel eitt líflegasta hneykslunarefnið þessa dagana: Miðpunktur kynferðislegrar löngunar okkar daga eru fjórtán ára stúlkur. Þess vegna verða vestræn samfélög að verja þær með öllum ráðum, þess vegna er líka löngunin eftir þeim glæpsamleg. Þær eru æðsta takmark kynferðislegrar þrár en um leið algerlega forboðnar. Menning vestrænna samfélaga veltir sér upp úr táknmyndum hins kynferðislega á mörkum bernsku og fullorðinsára. Um leið er eytt gríðarlegum kröftum í að skilgreina þá sem eru á þeim aldri sem börn, velta sér upp úr kynferðisglæpum og marka þá sem fremja slíka glæpi sem sjúklegt fólk. Það er hins vegar ekki lengra síðan en svo, að ég man eftir því sem strákur að stelpur á þessum aldri, jafnvel jafnöldrur mínar, voru með sér miklu eldri mönnum og þótti ekki tiltökumál. Á aðeins 20-30 árum hefur þetta hins vegar gjörbreyst. Unglingsstúlkan er nú dularfullt sprengjusvæði kynóranna og hneykslunarinnar. Þráin eftir henni er tabúíseruð sem aldrei fyrr og verður um leið að kollektífu móðursýkisástandi. Fólk sér árásir á ímyndað sakleysi bernskunnar í hverju horni og blandar því grimmt saman við raunverulega glæpi og býr til skýrt kerfi útilokunar, útlegðar og úthrópunar. Þetta eru merkilegir tímar sem við lifum á.

En aftur að Michel Houellebecq. Í öllum sínum verkum skoðar hann, greinir og segir frá þessum tvístringi í vestrænni menningu. Hvernig kynferðismálin hafa þróast og hvernig þau draga dám af þróun efnahagskerfisins. Hann er sögulegur efnishyggjumaður í gamla stílnum, saga framleiðslunnar og efnahagsins verður alltaf að sögu hugmyndanna, eitt er aldrei aðskilið frá öðru. Þetta er gott að hafa í huga í núverandi klámumræðu. Hún fer fram í sögulegu tómarúmi, rétt eins og viðmiðin séu óbreytanleg og hafi alltaf verið fyrir hendi, og þetta gengur jafnt yfir alla. Bæði þá sem eru í afneituninni og láta eins og vestræn menning samtímans sé á einhvern hátt ósnortin af valdaafstæðum og verða voðalega hissa og vilja spangóla uppi á fjöllum ef einhver minnist á klám. En líka yfir hina sem upphefja táknmyndir þrárinnar í nornaveiðunum og greina þær með orðfæri sem stundum minnir á pervertisma dómara hjá rannsóknarréttinum.

Í fyrstu bók sinni sem því miður hefur ekki verið enn þýdd á íslensku, Útbreiðsla baráttunnar (Extension du domaine de la lutte), er brilljant kafli þar sem Houellebecq teflir einmitt saman kynlífi og efnahag í mögnuðum dansi (hér frjálslega þýtt):

Það er algerlega skýrt að í samfélögum okkar er kynlífið annað helsta kerfi mismununar, sem þó er óháð efnahagskerfinu þótt það sé alveg jafn miskunnarlaust í mismunun sinni og það. Afleiðingar beggja kerfanna eru í einu og öllu sambærilegar. Líkt og óheft efnahagsleg frjálshyggja hefur frjálslyndi í kynferðismálum hvarvetna alið af sér algera örbirgð. Sumir gera það alla daga, sumir fimm til sex sinnum alla sína ævi, sumir aldrei. Sumir njóta ásta með tugum kvenna, aðrir njóta aldrei ásta. Hér er að verki það sem kallað er "lögmál markaðarins". Innan efnahagskerfis þar sem atvinnuþáttaka er öllum tryggð, tekst öllum að finna sér farborða með einum eða öðrum hætti. Innan kynlífskerfis þar sem framhjáhald er bannað, tekst öllum að finna sér rekkjufélaga. En í algerlega frjálsu markaðshagkerfi sanka örfáir að sér gríðarlegum fjármunum, hinir veslast upp atvinnulausir og févana. Í algerlega frjálsu kynlífskerfi tekst örfáum að lífa stórbrotnu og fjölbreyttu kynlífi, hinir eru dæmdir til einveru og sjálfsfróunar. Efnahagskerfi frjálshyggjunnar breiðir baráttuna út, það þenur hana út yfir alla aldurshópa, allar stéttir. Á sama hátt breiðir frjálslyndi í kynferðismálum baráttuna út, það þenur hana út yfir alla aldurshópa, allar stéttir.

 

 


Líflegur bókamarkaður

Hurðum að bókamarkaði Félags íslenskra bókaútgefenda var hrundið upp fyrir almenningi nú á fimmtudaginn og hann fór strax vel af stað. Það er ótrúlega skemmtileg stemmning á markaðnum, háir gluggar Perlunnar varpa inn birtunni, fólk grúfir sig yfir bækurnar með stórar innkaupakerrur í eftirdragi og bókstaflega mokar bókunum í þær. Starfsmenn markaðarins eru á þönum við að finna til bækur og bæta á og raða upp á nýtt og annað slagið er lágvært skraf viðskiptavinanna rofið með gjálfrinu í innanhúsgosbrunni Perlunnar.

Ég var góða stund á markaðnum bæði á fimmtudaginn og í dag föstudag og það var einhver upphafin stemmning í loftinu, fólk rólegt og yfirvegað og rýndi í úrvalið. Þetta er líka góður staður til að hitta rithöfunda. Þarna voru Bragi Ólafsson, Steinar Bragi, Jón Kalman Stefánsson, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Kristján Hreinsson, Stefán Máni og sjálfsagt miklu fleiri sem mér auðnaðist ekki að sjá eða frétta af. Þarna voru þekktir bókagrúskarar og kátir karlar eins og Egill Helgason sem ferðaðist um í fylgd með myndatökumanni.

Sjálfur keypti ég svolítið af bókum, Ljóðmæli Hallgríms Péturssonar í hinni vísindalegu útgáfu Margrétar Eggertsdóttur og félaga á Árnastofnun og sölumennirnir frá bókaforlögunum hlógu mikið að mér fyrir nördismann. Svo voru þarna mónógrafíur Þjóðminjasafnsins um íslenska ljósmyndara á ágætis verði og ég sló til og keypti þær allar, bækur um Ólaf Magnússon, Sigríði Zoëga og Loft Guðmundsson. Fallegar litlar og gullfallegar bækur. 


Óskarsmyndir eftir bókum

Ótrúlega margar myndir sem tilnefndar voru til Óskarsverðlauna eru byggðar á bókum. Hollywood er reyndar gríðarlega fíkin í bækur og sum bransablöð bókaiðnaðarins birta mánaðarlega skýrslur yfir hve margar bækur hafi verið seldar til Hollywood. Auðvitað er verður ekki nema brotabrot af þessu að bíómynd og sumt verður ekki einu sinni góð bíómynd, en þegar kemur að því að heyja að sér efni leitar kvikmyndagerðarfólk ótrúlega oft í bækur. Þeir sem eru að kvaka yfir því að íslensk kvikmyndagerð sé alltof tengd bókmenntum og bókum hafa einfaldlega rangt fyrir sér, þannig er þetta út um löndin víð og fer fremur vaxandi en hitt.

Það hefur líka gleymst að Al Gore hafði ekki aðeins hönd í bagga með heimildarmyndinni An Inconvenient Truth, upphaflega var þetta og er bók eftir hann, ansi hreint fallega unnin og myndskreytt rit sem hefur selst ákaflega vel um heim allan. Raunar fékk þessi sama bók svonefnd Quills bókmenntaverðlaun í USA nú fyrir áramót en þar reynir bókabransinn að herma eftir glamúr Óskarsverðlaunaafhendingarinnar með nánast engum árangri. Almenningur tók ekkert eftir þeim verðlaunum og almennt voru menn á því að athöfnin hefði verið frámunalega leiðinleg.

Síðasti konungur Skotlands, sagan um Idi Amin eftir Giles Foden er upphaflega bók, skáldsaga/frásögn sem kom út árið 1998 og vakti raunar talsverða athygli þá. Það hefur ratað í fjölmiðla að Balthasar Kormákur var næstum því búinn að kaupa réttinn á bókinni og sem ég veit að er satt. Óttar Proppé mælti með henni við mig á sínum tíma og þetta var ákaflega forvitnileg lesning, bók af þeirri tegund sem grípur mig helst, sem eru ótrúlegar og reifarakenndar frásagnir sem gerðust mestanpart í raun og veru og varða rás sögunnar en lúta lögmálum skáldsögunnar. Bókin er komin út hjá Faber í nýrri kilju.

Notes on a Scandal eftir Zoe Heller kom út fyrir þremur árum og þótt myndin með Dench og Blanchett hafi ekki fengið óskar er þetta ein þeirra mynda sem mesta athygli vöktu af óskarstilnefningunum.

Children of Men, hin dimma framtíðarmynd um barnlaust samfélag, er byggð á sögu gömlu glæpasagnadrottningarinnar P.D. James, The Children of Men, sem kom út árið 1992.

Venus sem gamla brýninu Peter O'Toole í aðalhlutverki, en hann var tilnefndur í áttunda sinn fyrir besta leik í aðalhlutverki, er skrifuð af Hanif Kureishi, sem hefur verið í sérstöku uppáhaldi hjá Bjarti þar sem bækur hans hafa verið gefnar út hér á Íslandi og kom raunar hingað á bókmenntahátíð fyrir nokkrum árum. Almennt er álitið að myndin og tilnefningin hafi hækkað gengi Kureishis sem var sannast sagna orðið nokkuð bágborið. Hann sló í gegn á tíunda áratugnum með bókinni Budda of Suburbia en íslensku eru fyrir hendi bækurnar Náðargáfa Gabríels (2002) og Náin kynni (1999) eða Intimacy, en eftir því framhjáhaldsdrama var líka gerð kvikmynd sem yrði áreiðanlega bönnuð í innra kerfinu á Hótel Sögu.

Mynd Clints Eastwoods, Bréf frá Iwo Jima, er eins og nafnið bendir til byggð á bréfum sem gefin voru út í bókarformi og raunar hefur myndin vakið athygli ekki aðeins á þeim, heldur nokkrum öðrum útgáfum á stríðsbréfum japanskra hermanna sem komið hafa út á ensku á síðustu árum. Bréfin voru eins og kunnugt er rituð af Kuribayashi hershöfðingja og yfirmanni heraflans á Iwo Jima eyju og bera titilinn Pictures, Letters from Commander in Chief í enskri útgáfu japanska forlagsins Shogakugan. Ævisaga hershöfðingjas, So Sad To Fall In Battle : An Account of War eftir Kumiko Kakehashi, kom nýverið út á ensku á imprinti Random House Presidio. Bréfasafn sjálfsmorðsflugmanna í ritstjórn Emiko Ohnuki-Tierney sem University of Chicago Press sendir frá sér er líka talsvert í umræðunni.

Little Children hefur fengið rífandi dóma hérlendis og fékk nokkrar tilnefningar. Bókin er eftir Tom Perotta, virtan höfund og enskukennara við Yale og Harvard, og kom út árið 2004. Hann er einnig meðhöfundur handritsins að myndinni og bókin var á sínum tíma kosin besta bók ársins af NYT og fleiri blöðum í USA. Önnur mynd Election, sem frumsýnd var árið 1999 er einnig byggð á samnefndri bók hans.

Síðan er það náttúrlega The Devil Wears Prada, en sú mynd kom mér að minnsta kosti hressilega á óvart og mér fannst algerlega réttlátt að Maryl Streep væri tilnefnd til besta kvenleikara í aðalhlutverki fyrir hana. Sagan er eftir Lauren Weisberger og kom út árið 2003, varð umsvifalaust metsölubók og hefur verið þýdd á öll heimsins tungumál, nema íslensku. Er raunar sannfærður um að hún hefði orðið metsölubók í kilju, en líklegast er of seint í rassinn gripið nú. Bókin er enn á metsölulistum í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi og var raunar ein mest selda bók Frakklands á síðasta ári.


Lægri vaskur á bókamarkaði

Þann 1. mars næstkomandi hefst hinn árlegi og klassíski bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda í Perlunni og stendur til 11. mars. Þann 1. mars verður virðisaukaskattur á bækur líka lækkaður úr 14% í 7%. Lækkun virðisaukaskatts á bækur kemur því ofan á ríflega afslætti og ætti að gera það fýsilegra en nokkru sinni að uppfæra heimilisbókasafnið.

Lækkun og raunar afnám virðisaukaskatts á bækur er gamalt baráttumál bókaútgefenda og höfunda, en þegar skipt var úr söluskatti yfir í virðisaukaskatt um 1990 voru bækur undanþegnar skattinum og svo var fram til ársins 1993 að þáverandi ríkisstjórn lagði hann á í tilraunum sínum til að ná höktandi íslensku hagkerfi þessara þrengingarára aftur á skrið. Á meðan þessu fór fram urðu margskonar breytingar á skattprósentu á bækur í nágrannalöndunum. Árið 1993 var 14% skattur síður en svo óvenjulegur á Norðurlöndum ef framtíðarlandið Noregur er undanskilið þar sem enginn virðisaukaskattur hefur verið lagður á bækur nokkru sinni. En skattbreytingar í Finnlandi og í Svíþjóð þar sem skatturinn er nú kominn niður í 7 og 6% valda því að íslenski vaskurinn var orðinn nokkuð kjánalegur í evrópsku samhengi.

Þann 1. mars gerist það að íslensk vask-prósenta á bækur verður í efra milliþrepinu í evrópskum samanburði en enn hafa stjórnvöld og ef til vill ekki almenningur heldur viðurkennt þau meginrök fyrir því að bækur bera engan virðisaukaskatt líkt og í Bretlandi og Írlandi að tjáningu borgaranna eigi ekki að skattleggja. Ódýrar bækur og ódýrir fjölmiðlar séu mikilvirk tæki til að viðhalda frjálsu samfélagi, örva þátttöku borgaranna í samræðu um mikilvæg mál og láta í sér heyra.

En á meðan ber að fagna því sem vel er gert. Á Stóra bókamarkaðinum í Perlunni verður hægt að kaupa bækur á einstaklega hagstæðu verði með nýrri og hagstæðri virðisaukaskattsprósentu.


Nú þegar allir eru femínistar

Steingrímur J. Sigfússon segist vera"róttækur femínisti". Hallgrímur Helgason skammar kynbræður sína fyrir að "kvenelta" eina kvenmanninn sem hugsanlega gæti orðið forsætisráðherra eftir næstu kosningar. Sambloggarar á borð við minn gamla góða samstarfsfélaga Hrannar B. Arnarsson skamma huldukarlana í athugasemdakerfunum sem óskráðir jafnt sem fullskráðir marínerast í eigin fantasíulegi og sjá fyrir sér heitar pornóstjörnur rjúka í klámiðnaðinn knúðar af óseðjandi kynlífslöngun. Og rifjast þá upp að jafnvel Ingvi Hrafn sem alltaf er alveg við það að opna fyrstu sjónvarpsstöðina í heimi þar sem hrafnar sjá um dagskrágerð, telur sig álíka róttækan femínista og Steingrímur J. Svo trommar hver sómamaðurinn fram eftir annan og fordæmir klámsálirnar sem ætla að eiga náðuga stund í Bændahöllinni og nú nenni ég ekki einu sinni að setja hina skyldubundnu fyrirvara hingað inn um að ég sé að sjálfsögðu á móti þessu líka. Það er bara einfaldlega það sem menn verða að gera núna því allir vilja vera "róttækir femínistar". Nú þegar borgarstjórinn og ritstjórn Morgunblaðsins komplett eru orðin óskabörn femínismans.

Það sem er athyglisvert í þessu öllu er að enginn er þess lengur umkominn að taka ekki afstöðu til femínisma. Þarna gæti orðið ein meginlína pólitískra átaka næstu kosninga, en auðvitað hlaut að koma að því. Eftir dauða stéttastjórnmálanna er kynjapólitík eitt helsta svið pólitískrar umræðu vorra daga, gömlum kommum og bláum höndum til ómældrar mæðu. Því skammar til dæmis höfundur bókar um baráttu mæðgna við karlveldið (Barist fyrir frelsinu), Björn Ingi Hrafnsson, Steingrím J. fyrir að vera karlremba og byggir það á bókinni Stelpan frá Stokkseyri þar sem Margrét Frímannsdóttir segir nokkuð dæmigerða eineltissögu af barátunni við ósýnilegar fordómamyllur sem mala henni í mót. En það er greinilegt að þetta er þungt högg, pólitískt séð, enginn vill vera karlremba, allir vilja vera femínistar. Það sem tekur við er skilgreiningin á því hve mikill femínisti maður er og hvernig.

Það er hins vegar grunsamlega lítið til af litteratúr á íslensku um femínisma, um jafnréttissjónarmið og ýmsar meginröksemdir sem liggja að baki mörgu af því sem heyrist í umræðunni. Þegar Sóley Tómasdóttir (einn ritstjóra bókarinnar Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð, sem ætlað er að varpa ljósi á reynslu kvenna af barnsfæðingum og viðhorfum umhverfisins til þeirra) þarf til að mynda að svara nafnlausum draugaher klámfantasíumanna með því að segjast víst hafa áhuga á kynlífi (!) þá vantar líkegast gagnáætlun femínista um hvernig ríki fantasíunnar í kynferðismálum án valdbeitingar og kynjamismununar líti út. Vísi af því má sjá á bloggsíðu Elísabetar Ronaldsdóttur. En fyrst að allir eru orðnir femínistar (nema náttúrlega klámvæddi draugaherinn með pornófantasíurnar sínar um æstar kellingar sem dreymir um að komast í klámið) langar mig til að benda á bók sem er ansi góð sem inngangur að skilningi á ýmsum deilumálum samtímans. Til dæmis upplifuninni af mismunun stelpna og stráka innan fótboltafélaga, upplifuninni af því að umgangast klámvædda jafnaldra sína af strákakyni og fleiri slíkt. Þetta er sú prýðisbók Píkutorfan (Forlagið 2000) sem þær Belinda Olsson og Linda Skugge ritstýrðu á sínum tíma og var þýdd á íslensku af Bríeti, sem ég veit ekki hvort enn starfar, einkum af þeim Hugrúnu Hjaltadóttur og Kristbjörgu Konu.

Nú þegar allir eru orðnir femínistar - í það minnsta í orði kveðnu - þá er þessi bók nánast skyldulesning. Í kjölfarið þyrftum við síðan nýtt hugmyndafræðilegt grundvallarrit á íslensku sem gæti brynjað jafnt stjórnmálamenn sem almenning með rökum þegar mál á borð við klámráðstefnur og kosningar til stjórnar KSÍ ber á góma. Ef menn vilja endurheimta fantasíuna úr heilanum á klámvæddum porningum verðum við líka að fá að heyra hvernig það getur farið fram. 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband