Færsluflokkur: Bækur
8.11.2009 | 22:42
Alvöru innlegg í eftir-hruns umræðuna
Fyrir ári síðan var sú von sterk í samfélaginu að Hrunið myndi leiða til þess að íslensku lýðræði yrði umbylt frá grunni. Enn lét svokallaða "þriskipta neitundarvald" (Geir, Davíð, Árni) sem efnahagsmál þjóðarinar væru einkamál þeirra þriggja og Samfylkingin ráfaði um í ráð- og valdaleysi. Samt varð um þetta leyti ljóst að hin hefðbundna tregða íslenskra valdsmanna við að hlusta á annað en eigin raddir gæti hugsanlega gefið eftir. Allt að því útópískar vonir um endurskipulagningu stjórnmálavettvangsins vöknuðu. Hugmyndir á borð við stjórnlagaþing, þátttökulýðræði og afnám hefðbundinna stjórnmálaflokka virtust í fyrsta sinn í manna minnum vera raunveruleiki innan seilingar og ekki dæmdar til að brotna á múrum valdsins eins og alltaf. Það þarf varla að taka það fram að þessar hugmyndir eru nú ómur fortíðar. Það sem er efst á baugi í umræðunni í dag er hvernig megi endurreisa Gamla Ísland sem hraðast og auðveldast líkt og Hrunið hafi aldrei orðið.
Í nýjasta hefti Skírnis, Tímarits Hins íslenska bókmenntafélags, er að finna fyrstu greinin um nokkurt skeið þar sem þráðurinn frá því vikurnar eftir Hrun er tekinn upp að nýju. Ekki þessi þumbaraumræða um hver sé sekur og hvern eigi að loka inni, heldur alvöru umræða um dýpri rök Hrunsins. Aftur er sleginn hinn útópíski tónn, eða öllu heldur, aftur er farið að þeim punkti að ræða um misgengið sem hér var orðið milli ólíkra valdahópa og almennings og hvað það þýddi í raun.
Ólafur Páll Jónsson heimspekingur leitast við í greininni að átta sig á aðstæðum, greina firringuna sem olli því að þjóðin skynjar hvorki Alþingi né ráðamenn sem hluta þess samfélags sem hún lifir í. Hann fjallar um hnignun lýðræðisins og hugmyndafræðilegt gjaldþrot ríkisins eins og það birtist fólki í Hruninu. Þetta er sorgleg lesning en henni er ætlað að finna traustari fót fyrir samfélagsgerð sem byggir á réttlæti sem aftur myndi þá birtast í því hvernig lýðræðið vinnur í samfélaginu, hvernig eignarhaldi á atvinnutækjum er háttað sem og dreifingu gæða og aðgengi að tjáningartækjum og ákvarðanatöku stofnana ríkisins.
Í síðustu viku var fjallað í öllum fjölmiðlum um aðra grein í Skírni þar sem Páll Theodórsson eðlisfræðingur reifar hugmyndir sínar um rannsóknir á mannvistarleifum frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar og að hugsanlega hafi föst búseta manna hér á landi hafist fyrr en ætlað hefur verið. Allt það er merkilegt, en grein Ólafs Páls verður að komast í umræðuna. Hún er raunverulegt framlag til þess að skerpa sýn á það sem á að taka við núna í hinni svokölluðu endurreisn.
Bækur | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2009 | 12:21
Bókavertíðin farin á fullt en hvað er með þessa Kilju?
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2009 | 22:25
Kiljan á ný
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2009 | 23:23
Er grunsamlegt athæfi að kaupa bækur?
Undanfarna daga og vikur hefur dunið í öllum fjölmiðlum umfjöllun um hve dýrt það er að mennta sig. Þetta er ekki nýr söngur. Þetta er sami flöturinn ár eftir ár: Fjölmiðlar fara á stúfana og fárast yfir að fólk kaupi stílabækur, blýanta, yddara og skólabækur. Af hverju var ekki fárast yfir því að fólk keypti sér viðarkol á grillin eða pylsur ofan á þau í góða veðrinu í sumar? Ég veit það ekki, en það hefur komist á sá skilningur að útgjöld vegna skólagöngu barna og unglinga sem og háskólanemenda séu varhugaverð. Fjölmiðlanir eru hættir að spyrja sig af hverju þeir flyja þessar fréttir. Þetta er bara gert á sjálfstýringu. Skilaboðin eru þessi: Menntun er dýr, íþyngjandi og leiðinleg. Bækur, sérstaklega skólabækur eru fáránlegur munaður sem enginn ætti að þurfa að leggja út fyrir. Það er ekki verið að segja að það sé á einhvern hátt óréttlátt að greiða fyrir námsgögn og stílabækur. Það er verið að segja að það sé kjánalegt og að peningarnir eigi fremur að nýtast í annað.
Og nú er kreppa. Þá gerist það óhjákvæmilega að fjölmargir eiga í erfiðleikum við að bæta á sig útgjöldum sem hljótast vegna skólagöngu barnanna en fréttirnar af gangi mála eru óljósar. Um helgina fjallaði RÚV um prest í Grafarvogi sem sagði frá því að fólk leitaði á náðir kirkjunnar vegna kostnaðar við skólagöngu barnanna. Ég lagði við hlustir og hélt að þetta væri mikill fjöldi fólks. Í ljós kom að fjórir höfðu talað við hana. Allt í lagi, það er nóg, þetta er ekki gott mál. Síðan hugsar maður: Hvað er hægt að gera? Fyrir kreppu lofaði Samfylkingin því að ríkið myndi kaupa skólabækur handa framhaldsskólanemum, líkt og grunnskólanemum, en í raun er það ekki lengur flöturinn á umfjölluninni. Það er jafn dýrt að vera með barn í grunnskóla þótt skólabækurnar kosti ekkert ef marka má fréttir. Í það minnsta náði ég því aldrei í fréttinni um prestinn um hvaða skólastig hún var að tala, og á því hlytur jú að vera einhver munur, hvort um skyldunám eða valnám sé að ræða. Aftur: Hverju eiga fréttir að koma til leiðar ef þær eru þokukenndar? Í það minnsta virðist hins vegar af öðrum fréttum á RUV vera svo dýrt að koma börnum í grunnskóla að það tekur engu tali, en um það get ég ekki dæmt, enda hefur enginn fjölmiðill sett niður einfaldar tölur á blað þar sem þetta kemur fram á skýran hátt. Niðurstaðan er þessi: Við vitum ekki um hvað er verið að tala nema að ljóst að einhverjir eiga um sárt að binda eða þá að við eigum ekki að eyða fé í menntun barnanna okkar.
En í umfjöllun Kastljóss nú í kvöld kastaði tólfunum og menn fóru langt út fyrir þennan samfélagslega flöt, sem hlýtur eðlilega að vera ofarlega á baugi um þessar mundir. Þar var þeim sem kaupa námsgögn á framhalds- og háskólastigi stillt upp með leiðandi spurningum með augljósum tóni sem vildi kreista fram vandlætingu yfir bókakaupunum. Aldrei var minnst á að innfluttar v0rur hafa hér risið upp í verðskýin vegna falls krónunnar. Nýjar sendingar sem keypar voru inn á um 90 kr. evruna fyrir tveimur árum eru nú helmingi dýrari. Bjóst Kastljós við að ekkert myndi gerast? Að erlendar námsbækur, t.d. í stórum námsgreinum í HÍ svo sem viðskiptafræði og eru stöðugt endurnýjaðar myndu bara kosta svpað og áður? Nei, því bjuggust þeir ekki við og vildi vita að fólk væri að sligast undan bókakaupum og hve íþyngjandi þau væru, en ekki orð um almenna verðþróun fylgdi með. Og það sem verrra er: Það lá í fréttinni einhver pirringur, ef ekki vandlæting, yfir því að fólk þurfi yfirleitt að verða sér út um bækur til að menntast. Af hverju er annars verið að spyrja?
En öllum til upplýsingar: Innlendar bækur munu hækka nú í haust vegna þess að jafnvel þótt prentað sér innanlands þar sem launin hækka ekkert, en lækka heldur, hækka öll aðföng. Kennslubækur hafa hækkað. En þá ber þess að geta að alla þessa öld hafa bækur lækkað að raungildi. Frá því 2001 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 45% en launavísitalan um 64% (þótt hún fari nú aftur lækkandi). Á sama tíma hefur skráð listaverð sambærilegara bóka í Bókatíðindum ekkert hækkað, krónutalan stóð í stað frá 2000 til 2008.
En eigum við ekki að sýna menntun aðeins meiri virðingu nú þegar það er aftur markmið í sjálfu sér að tileinka sér þekkingu en ekki bara leið að því að komast í gott starf í banka? Þetta sífur um kostnað af því að kaupa bækur er það eina sem talað er um þegar menntun ber á góma á haustin. Það er eins og verið sé að kaupa fótanuddtæki en ekki mikilvæga leið að því að eflast og styrkjast og verða eitthvað af sjálfum sér, menntast.
Bækur | Breytt 25.8.2009 kl. 09:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2009 | 06:13
Jólabækurnar í ágúst
Á menningarnótt, laugardaginn 22. ágúst, verður opið hjá Crymogeu á Barónsstíg 27 og þar gefst menningarþyrstum vegfarendum á ráfi um miðborgina færi á að skoða væntanlegar jólabækur útgáfunnar. Því er þannig farið að Crymogea gefur einungis út sjónræn verk. Bækurnar fjalla allar um listir, ljósmyndum eða hönnun og því er auðvelt að glöggva sig á verkunum og sjá hvað í vændum er. Svo er líka boðið upp á kaffi og vöfflur.
Fyrsta jólabókin er þegar komin úr prentun en kemur ekki út fyrr en um miðjan september. Þetta er bókin BLÓMALANDIÐ. Í henni má sjá nýjustu verk Eggerts Péturssonar sem verða til sýnis á sýningu í Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn. Sýningin verður opnuð um miðjan septembermánuð og stendur fram í janúar 2010. Andri Snær Magnason skrifar burðargrein bókarinnar: BLÓMALANDIÐ. Andri setur flóruskrásetningu Eggerts í blómamálverkunum í samband við hugmyndalist annars vegar og hins vegar verk og hugmyndir upplýsingar og rómantíkur um heildarsýn yfir formheim náttúrunnar: jafnt hugmyndir Goethes um myndbreytingar á formum jurta sem hugmyndir Jónasar Hallgrímssonar um Flóru Íslands sem koma fram í hugmyndadrögum hans að Íslandslýsingunni sem hann vann að öll sín manndómsár en auðnaðist ekki að ljúka.
Bókin er glæsilega hönnuð og ólík öllum örðum bókum í útliti. Hún er hönnuð af þeim Hildigunni Gunnarsdóttur og Snæfríði Þorsteins sem einnig hönnuðu útgáfu Crymogeu á Floru Islandicu, safni teikninga Eggerts af íslenskri flóru og hlutu fyrir ýmis verðlaun, sem og bókina sem fylgdi yfirlitssýningunni um Eggerts sem haldin var á Kjarvalsstöðum 2007. Nánast engar síður í bókinni eru jafnstórar hinum, til að mynda er kápan að framan minni en flesar síður bókarinnar og kápan aftan á minni en afstasta síðan, en hins vegar stærri en flestar aðrar síðunnar. Í bókinni eru stórar útflettiopnur (fold outs) sem sýna í allri sinni dýrð "sprungumyndir" Eggerts, sem og hálfar útflettiopnur sem sýna önnur verk.
Auk þessa eru fleiri bækur sem er gaman að fletta ... Allir eru velkomnir frá hádegi og fram á kvöld laugardaginn 22. ágúst.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2009 | 09:47
Bækur á iPhone
Litlar fréttir af viðskiptasíðum geta verið stórmerkilegar því oft er þar sagt í stuttu máli frá grundvallarbreytingum á samfélaginu. Ein slík frétt er sögð í alþjóðlegum miðlum í dag af ársafmæli Stanza, rafbókalesara Apple. Fyrr á þessu ári keypti Apple dýrum dómum að talið er fyrirtækið Lexcycle sem þróaði Stanza hugbúnaðinn. Stanza gengur fyrir Apple iPhone símana og iPod Touch og hefur nú verið hægt að hlaða þennan búnað niður í heilt ár.
Nú nota tvær milljónir manna Stanza og alls hefur 12 milljónum bóka verið hlaðið niður á þessum tíma samkvæmt talsmanni Lexcycle. Ég hef séð þetta í símum fólks, enda á ég ekki svona flottan síma sjálfur (er með Nokia síma sem ég fékk gefins árið 2005), og þetta kemur merkilega vel út þótt erfitt sé raunar að lesa á iPhone skjáinn í mikilli birtu ólíkt lestrarvélnum Kidle og Sony Reader sem nota e-ink tæknina þar sem ekki er baklýsing. Ég er hins vegar nokkuð viss um að framtíð rafbókarinar liggi fremur í þarna en í sérstöku lestrartæki, jafnvel þótt útbreiðsla slíkra tækja geti orðið mikil um tíma. Að vera með eitt tæki sem hringir, sækir tölvupóst, fer inn á netið og er hljóðhlaða og lestartæki er málið.
Eftir kaupin á Lexcycle mun Apple ætla að einbeita sér ennfrekar að þróun Stanza og veit Kindle (Amazon) og Sony fulla samkeppni auk náttúrlega allra hinna litlu aðilana sem þessi misserin vinna að því að þróa og markaðssetja tæki til að lesa stafræna texta án milligöngu pappírs.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2009 | 15:54
Penninn ræðst gegn kiljuútgáfu
Félagið Penninn á Íslandi ehf. var stofnað eftir að eldra félag, Penninn hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 3. apríl síðastliðinn. Þetta félag er í eigu Nýja Kaupþings banka hf. sem þremur vikum fyrr hafði tekið yfir rekstur félagsins af fyrri eigendum. Þetta fyrirtæki er stærsti einstaki endursöluaðili bóka á Íslandi og skiptir þá ekki máli hvernig er mælt. Bókaútgefendur eiga gríðarlega mikið undir góðum samskiptum við fyrirtækið og erfiðleikar þess hafa jafnframt mikil áhrif á afkomu bókaútgefenda. Sem betur fer fóru gjaldþrotaskiptin betur með útgefendur en á horfðist sökum þess að birgðir færðust yfir til nýju kennitölunnar. Yfirlýst stefna forstjóra og forvígismanna Pennans á Íslandi ehf. var að vinna náið og dyggilega með bókaútgefendum og öðrum við að tryggja að Íslendingar héldu áfram að vera bókaþjóð. Þar með að tryggja að öll virðiskeðjan frá höfundum til lesenda virkaði og gæti staðið undir sér, en það hefur verið eitt af kraftaverkum okkar menningarlífs að eiga tiltölulega sjálfbæran bókabransa.
Í morgun rak alla útgefendur landsins í rogastans. Í Fréttablaðinu blasti við auglýsing og umfjöllun um að Penninn hefði ákveðið að gjaldfella allar nýjar kiljur, þó ekki með samráði við birgja, enda höfðu útgefendur ekkert heyrt af þessari ráðstöfun fyrr en nú, heldur með því að búa til birgja úr manninum á götunni. Öllum kiljum frá árinu 2007 til dagsins í dag, séu þær í söluhæfu ástandi, má nú skila til Pennans og fá kr. 200 fyrir. Síðan geta kúnnar keypt þessar sömu kiljur með 80% afslætti frá hefðbundnu kiljuverði á kr. 400. Kaupi maður tvær fær maður þá þriðju frítt, s.s. þrjár "notaðar" kiljur á kr. 800.
Markmiðið segir Penninn vera að auka lestur, koma til móts við neytendur sem hafi ekki mikið fé á milli handanna, fá Íslendinga inn í búðirnar í júlímánuði. Allar eru þessar röksemdir mjög undarlegar frá sjónarmiði útgefenda. Í fyrsta lagi hefur bóksala á árinu verið mjög góð og bókabransinn einn af þeim fáu geirum sem ekkert hafa gefið eftir í kreppunni. Í öðru lagi hafa kiljur ekkert hækkað frá því í febrúar 2008, ÞRÁTT FYRIR að útgefendur taki á sig sífellt meiri kostnað við prentun. Framlegðarhlutfallið er m.v. óbreytt verð á kiljum fyrir löngu komið niður fyrir sársaukamörk. Í þriðja lagi er júlí einn sterkasti sölumánuður á kiljum á árinu.
Ekkert sem Penninn boðar stenst. Þetta eru óskiljanleg rök því enn furðulegra er að sjá eitthver bissnesvit í þessu dæmi. Penninn segist einmitt ekkert græða á þessu því það sama gangi yfir erlendar kiljur. Ef ætlunin er að styðja við lestur landsmanna, hefði þá ekki verið ráð að fá útgefendur og hvað þá rithöfunda, í lið með sér og gera eitthvað sem allir myndu vilja standa að og væru stoltir af?
Þessi ráðstöfun er árás á tekjumöguleika rithöfunda sem fá 23% af andvirði hverrar seldar kilju, en að sjálfsögðu ekkert í endurnýtingarprógrammi Pennans. Með öðrum orðum: Penninn hlýtur að ætla sér að koma höggi á útgefendur og höfunda. Það er eina haldbæra skýringin á þessari undarlegu ráðstöfun. Öll önnur rök eru haldlaus.
Af hverju er fyrirtæki sem er í umsjá ríkisbanka tímabundið og hlýtur á þeim tíma að vilja halda sjó fyrst og fremst að standa í skæruhernaði? Er það s.s. vilji Nýja Kaupþings hf. að Árni Þórarinsson, Arnaldur Indriðason, Auður Jónsdóttir, Hallgrímur Helgason og Yrsa Sigurðardóttir, svo nefnd séu nöfn nokkurra íslenskra höfunda sem nú nýverið hafa komið út í kilju, fái engar tekjur af hugverkum sínum? Er þessu fólki illa við íslenskar bókmenntir?
Bækur | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2009 | 23:33
Upprisa Máls og menningar
Miðpunktur Reykjavíkur er á horni Laugavegar og Vegamótastígs. Ef marka má nýlega skoðanakönnun um örlög Bókabúðar Máls og menningar er yfirgnæfandi meirihluti höfuðborgarbúa og nágrennis sammála þessari fullyrðingu. Ég held að öllum hafi komið á óvart hve sterkar tilfinningar lætu á sér kræla eftir að spurðist að Bókabúð Máls og menningar myndi ekki hafast lengur við í húsnæði sínu á Laugavegi 18. Þetta var eins og staðfesting þess að heimurinn væri ekki lengur í lagi.
Nú hafa lyktir orðið þær að gamla Bókmenntafélagið, hið eigendalausa en þó ekki hirðislausa eignarhaldsfélag hafi ákveðið í félagi við Iðu að opna bókabúð eftir að Penninn flytur nú í haust. Eigendur húsnæðisins, Kaupangur, hafa ekki viljað endurnýja leigusamninginn við Pennann, af þeirri einföldu ástæðu að leigan var ódýr, en fá nú greinilega meira fyrir sinn snúð.
Þetta eru gleðileg málalok. Líklegast er þarna líka komin aukin samkeppni á heilsársbóksölumarkaði. Penninn hefur verið langmikilvægasti endursöluaðili íslenskra bóka alla þessa öld og staða hans styrktist sífellt. Svo varð fyrirtækið gjaldþrota og er nú í eigu Kaupþings banka. Það er engin framtíðarlausn og þótt hún virki í bili er ljóst að núverandi eigendur munu ekki reka fyrirtækið til eilífðar. Spurningin "hvað verður?" hangir alltaf yfir, hvernig svo sem gengur frá degi til dags.
Um leið er þetta svolítið kaldhæðnislegt alltsaman. Ástæðan fyrir öllu havarínu er jú að eigendur húsnæðisins vildu fá hærri leigu. En áður áttu Vegamót, félag í eigu Bókmenntafélagsins, húsnæðið, svo salan á því er í raun ástæðan fyrir því að bókabúðin var í hættu. Með því að stíga inn nú er komin enn einn hlykkurinn á þeirri snúnu leið sem Bókmenntafélag Máls og menningar hefur gengið í gegnum á heilum áratug. Fyrst var rekstrinn seldur undan Eddu, sem Bókmenntafélagið átti þá hlut í, árið 2002, síðan var húsnæðið selt 2007 til að fjármagna sameiningu JPV-útgáfu og útgáfuhluta Eddu útgáfu undir heitinu Forlagið þar sem Bókmenntafélagið á 50% hlut. Þar með er Bókmenntafélagið aftur farið að reka búð og forlag eins og það gerði fyrir 10 árum síðan, en nú í félagi við fjölskyldu Jóhanns Páls Valdimarssonar annars vegar og Iðu hins vegar. En það sem er enn skemmtilegra er að Arndís í Iðu var einmitt verslunarstjóri Bókabúðar Máls og menningar um það leyti sem búðin var seld, þannig að "allir komu þeir aftur".
Bókmenntafélagið er þannig búið að ná mestu af vopnum sínum aftur, nema náttúrlega húsnæðinu sem Kaupangur á enn sem fyrr, það glaðbeitta félag sem borgarbúar urðu að greiða lausnargjald fyrir 19. aldar götumynd Ólafs Magnússonar þegar timburhjallarnir við Laugaveg 4. og 6. voru seldir. Nú er s.s. nýi samkeppnisaðilinn í bókabúðabransanum jafnframt annar aðaleigandi stærsta forlagsins. Það væri fremur kjánalegt að halda því fram og hvað þá trúa því að þar verði hagsmunir ekki stilltir saman.
Ástæðan fyrir því að Bókabúð Máls og menningar virkaði var ekki síst sú að búðin var í fararbroddi nýrra verslunarhátta: Sérhæfing, langur opnunartími, kaffihús, upplestrar í búðinni og annað menningarstarf, en um leið var framlegðin tjúnuð upp með sölu á sérvettum, lundastyttum og stílabókum. Það var "atmó" í búðinni sem þrátt fyrir sívaxandi póleringu og standardíseringu Pennaáranna yfirgaf aldrei staðinn.
Nú geta þeir sem ætluðu að hlekkja sig við stigann geymt keðjurnar sínar fram að næsta baráttumáli. Bókabúð Máls og menningar er komin til að vera í miðpunkti Reykjavíkur.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2009 | 00:18
Æsingaland
Vofur Hugos Chavezar og Ernestos Moralesar ganga nú um landið. Og það sem er merkilegast! Þær sjást einkum á heimilum Sjálfstæðismanna.
Hákommúnískir demógógar hafa sprottið fram úr veggjum einbýlishúsa í Garðabæ, Keflavík og Bolungarvík. Þeir vita að heimsvaldasinnar, knúðir af hroka og græðgi, seilast nú í auðlindir og vasa alþýðu fátæks lands og ætla að arðræna það og kúga með óskammfeilnum hætti. Viðbjóðsleg svikastjórn sem keypti sér völd með því að moka brauði og brennivíni í æstan mótmælamúg notaði fyrsta tækifærið um leið og hún hafði tök á og samdi við heimsvaldasinnana. Ástæðan er að hin gerspillta valdastétt, rýtingsstungufólkið, ætlar sér með lúabrögðum að vefja landi og þjóð í kúgunarvef ESB, þetta fangelsi Evrópu sem ekki aðeins kúgar alþýðu álfunnar til ómanneskjulegs strits undir járnhæl búrókratanna, heldur útilokar í leiðinni öll frelsisöfl heimsins sem berjast hvern dag fyrir sjálfstæði sínu og reisn. Hin makráðu leiguþý Evrópuvaldsins hafa framið landráð, stungið rýtingi á bak þjóðarinnar og bundið landsmenn á klafa þrældóms um aldur og ævi, hlekkjað íslensk börn á galeiðu heimsvaldakúgunarinnar. Nú erum við reið! Við borgum ekki skuldir glæpamanna! Við heimtum að hver króna í þeirra eigu verði gerð upptæk og mokað í hít heimsvaldastefnunnar. Landráðahyskið og rýtingsstungufólkið mun fá að kenna á því! Enga nýja Versalasamninga! Við stöndum vörð við Rín ... nei, fyrirgefið þið, við ... já ...
Við stefnum hraðbyri í gott plebeískt ríki þar sem ný stjórn tekur við eftir hverja byltingu eins og í góðu upplausnarlandi. Fyrst voru það pottarnir, nú verða það golfkylfurnar.
Bækur | Breytt s.d. kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2009 | 06:49
Sorgarvinnan
Íslenska þjóðin þarf meira en nokkuð annað að vinna sorgarvinnu vegna hrunsins. Hins vegar hefur lítið verið gert í að ná tökum á einföldustu og áhrifaríkustu leiðinni til að vinna sig út úr sorginni: að segja sögu áfallsins. Í staðinn hafa ýmiss konar frávarpsaðferðir verið notaðar, ekki síst aðferð ofurjákvæðninnar. En það er sama hversu margir tromma fram og segja fólki frá því hve gríðarleg tækifæri leynist í rústabjörgun er sjálfsmynd þjóðarinnar löskuð og það er algengara en maður heldur að fólk sé í áfalli. Ef marka má þau ótölulegu vanstilltu ummæli sem birtast allajafna við hverja einustu frétt á Eyjunni eða þær ofsóknaæddu og hitasóttarkenndu bloggfærslur sem reka á fjörur manns á hverjum degi, hvað þá aðsendar greinar í blöðum, þá hefur stór hópur fólks greinilega óljósa mynd af andlegu ástandi sínu eftir hrun. Áfallið er stærra en fólk vill láta í veðri vaka.
Þegar ég heyrði Guðna Th. Jóhannesson rekja atburðarásina hrunsdagana 29. september til 9. október í Kastljósinu á þriðjudaginn fór um mig gamalkunn kennd: Ég fann að það var eins og þetta þokukennda tímabil með öllum sínum óljósu öngum og óljósu blórabögglum öðlaðist festu. Um leið áttaði ég mig á að hann er að vinna sorgarvinnuna sem við þörfumst svo mikið.
Í dag kemur bókin hans HRUNIÐ út. Enn og aftur sannar bókarmiðilinn að ekkert stenst honum snúning þegar kemur að því að ná heildaryfirsýn yfir málefni og setja fram yfirvegaða mynd af atburðum. Það erfiða einstigi sem Guðni fetaði í Kastljósviðtalinu á milli þess að taka eindregna afstöðu og afstöðuleysis er vonandi leiðarstjarna þessarar bókar sem ég hlakka til að lesa.
HRUNIÐ kemur út í kjölfar velgengni bókar Ólafs Arnarsonar, Sofandi að feigðarósi og bókar Þorkels Sigurlaugssonar, Ný framtíðarsýn, en þótt ólíkar séu taka þær báðar á hruninu út frá nokkuð skilgreindum sjónarhólum. Guðni ætlar sér greinilega víðara svið. Hvort heldur er þá þarfnast þjóðin þessara bóka. Eina leiðin til að vinna sig út úr sorginni er að segja söguna af hruninu aftur og aftur og ná þannig smám saman tökum á veruleikanum og skilningunum á honum. Þessar bækur eru gríðarlega mikilvægt framlag til að ná aftur áttum í þessu samfélagi sem manni finnst stundum að sé að drepa sig sjálft af áfallaraskaðri vitleysu.
Bækur | Breytt s.d. kl. 06:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)