Alvöru innlegg í eftir-hruns umræðuna

Fyrir ári síðan var sú von sterk í samfélaginu að Hrunið myndi leiða til þess að íslensku lýðræði yrði umbylt frá grunni. Enn lét svokallaða "þriskipta neitundarvald" (Geir, Davíð, Árni) sem efnahagsmál þjóðarinar væru einkamál þeirra þriggja og Samfylkingin ráfaði um í ráð- og valdaleysi. Samt varð um þetta leyti ljóst að hin hefðbundna tregða íslenskra valdsmanna við að hlusta á annað en eigin raddir gæti hugsanlega gefið eftir. Allt að því útópískar vonir um endurskipulagningu stjórnmálavettvangsins vöknuðu. Hugmyndir á borð við stjórnlagaþing, þátttökulýðræði og afnám hefðbundinna stjórnmálaflokka virtust í fyrsta sinn í manna minnum vera raunveruleiki innan seilingar og ekki dæmdar til að brotna á múrum valdsins eins og alltaf. Það þarf varla að taka það fram að þessar hugmyndir eru nú ómur fortíðar. Það sem er efst á baugi í umræðunni í dag er hvernig megi endurreisa Gamla Ísland sem hraðast og auðveldast líkt og Hrunið hafi aldrei orðið.

Í nýjasta hefti Skírnis, Tímarits Hins íslenska bókmenntafélags, er að finna fyrstu greinin um nokkurt skeið þar sem þráðurinn frá því vikurnar eftir Hrun er tekinn upp að nýju. Ekki þessi þumbaraumræða um hver sé sekur og hvern eigi að loka inni, heldur alvöru umræða um dýpri rök Hrunsins. Aftur er sleginn hinn útópíski tónn, eða öllu heldur, aftur er farið að þeim punkti að ræða um misgengið sem hér var orðið milli ólíkra valdahópa og almennings og hvað það þýddi í raun.

Ólafur Páll Jónsson heimspekingur leitast við í greininni að átta sig á aðstæðum, greina firringuna sem olli því að þjóðin skynjar hvorki Alþingi né ráðamenn sem hluta þess samfélags sem hún lifir í. Hann fjallar um hnignun lýðræðisins og hugmyndafræðilegt gjaldþrot ríkisins eins og það birtist fólki í Hruninu. Þetta er sorgleg lesning en henni er ætlað að finna traustari fót fyrir samfélagsgerð sem byggir á réttlæti sem aftur myndi þá birtast í því hvernig lýðræðið vinnur í samfélaginu, hvernig eignarhaldi á atvinnutækjum er háttað sem og dreifingu gæða og aðgengi að tjáningartækjum og ákvarðanatöku stofnana ríkisins.

Í síðustu viku var fjallað í öllum fjölmiðlum um aðra grein í Skírni þar sem Páll Theodórsson eðlisfræðingur reifar hugmyndir sínar um rannsóknir á mannvistarleifum frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar og að hugsanlega hafi föst búseta manna hér á landi hafist fyrr en ætlað hefur verið. Allt það er merkilegt, en grein Ólafs Páls verður að komast í umræðuna. Hún er raunverulegt framlag til þess að skerpa sýn á það sem á að taka við núna í hinni svokölluðu endurreisn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband