Færsluflokkur: Bækur
8.1.2012 | 14:53
Hlutverk Pennans í íslenskri bókmenningu
Allt hlutafé Pennans á Íslandi ehf. sem er nú í eigu Eignabjargs ehf., dótturfélags Arion banka, hefur verið boðið til sölu í einu lagi.
Það hefur legið fyrir lengi að Eignabjarg /Arion banki myndi bjóða Pennann til sölu á fyrsta ársfjórðungi 2012 og endurskipulagning fyrirtækisins miðast við það. Frá því að Penninn á Íslandi ehf. var stofnaður um mánaðarmótin mars/apríl 2009 hefur þetta fyrirtæki verið grunnstoð íslenska bókabransans. Rannsóknarsetur verslunarinnar á Bifröst hefur tekið saman tölur frá bókaútgefendum um tekjur og samsetningu á þeim árin 2009 og 2010 og samkvæmt þeim koma 54% af tekjum félagsmanna í Félagi íslenskra bókaútgefenda frá almennum bóksölum, þar sem hlutdeild Pennans er langtstærst, um 80-90%.
Þegar Penninn hf. fór í þrot í ársbyrjun 2009 blasti hrikaleg staða við bókaútgefendum. Ofan í efnahagshrunið virtist sem langstærsti endursöluaðili bóka á Íslandi myndi verða gjaldþrota og draga megnið af bókaútgáfu landsins með sér. Þá tóku forsvarsmenn hins nýja fyrirtækis, sem var í eigu Arion banka, þá merkilegu ákvörðun að greiða að stórum hluta það sem bókaútgefendur áttu inni hjá þrotabúi Pennans í gegnum nýja fyrirtækið, tóku yfir skuldir þess að hluta og stóðu skil á þeim eftir að hafa samið við birgja. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að þessi ákvörðun var ekki léttbær fyrir efnahagsbókhald Pennans á Íslandi ehf. og margir hafa orðið til að gagnrýna afleiðingar þessarar ákvörðunar - þá staðreynd að Arion banki varð að leggja fyrirtækinu til fé.
Séð frá menningarpólitískum forsendum hafði þessi ákvörðun hins vegar mikið gildi. Hún hafði grundvallaráhrif á afkomu íslenskra bókaútgefenda, rithöfunda og þeirra fjölmörgu einstaklinga og skapandi fólks sem gefur út bækur og tjáir sig á Íslandi. Bókamarkaður okkar og ekki síst sölustefna Pennans / Eymundssonar hefur verið að bjóða til sölu í helstu verslunum nánast allt sem út kemur á Íslandi. Það þýðir að um 170 aðilar geta árlega vænst þess að það sem þeir gefa út sé miðlað í gegnum endursölukerfið til kaupenda. Þetta er einn af hornsteinum bókmenningar okkar og þeirrar staðreyndar að við teljum okkur bókmenntaþjóð.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að síðustu ár hafa verið stormasöm. Það hefur verið mjög mikilvægt fyrir bókaútgefendur að vita af traustum bakhjörlum á markaðinum. Á sama tíma hafa gjaldþrot og nauðungarsamningaferli Office 1, A4 og svo gjaldþrot BMM verið þung högg fyrir útgefendur.
Við megum ekki gleyma því að miðlun ritaðs máls er þrátt fyrir allt ekki bara einkamál rithöfunda og útgefenda og svo óskilgreins hóps endursöluaðila. Útgáfa bóka og texta er hornsteinn þess að móðurmál okkar og samskiptatæki, íslenskan, fái yfirleitt þrifist. Við erum stolt af bókmenningu okkar sem hefur sýnt sig að er meiriháttar fyrirbæri sem hefur gildi langt út fyrir mörk þeirra sem lesa og tala íslensku. Íslenskir rithöfundar njóta þess nú að þeir eru lesnir á tugum tungumála og að íslenskar bókmenntir eru hluti af "heimslitteratúrnum". Staða Íslands á Bókastefnunni í Frankfurt am Main nú nýverið staðfesti þetta á svo magnaðan hátt að þetta ætti héðan í frá að vera fullkomlega óumdeild staðreynd.
En bókmenning okkar þrífst ekki án grunnstoða. Þær eru nokkrar: til að mynda starfslaunakerfi rithöfunda og fræðimanna, áhugi og vilji íslensks almennings til að kaupa bækur á markaði (yfir 70% Íslendinga gefa t.d. bækur í jólagjöf) og svo lestrarkennsla í skólum og miðlun lesefnis til barna og unglinga. Þessi síðast talda stoð er því miður stöðugt áhyggjuefni, nýjar rannsóknir sýna það, og staðreyndin er að svo áratugum skiptir hefur ekki verið jafn litlu kostað til að kaupa bækur fyrir grunnskólanemendur og nú eftir hrun.
Ef almenningur á þess heldur ekki kost að nálgast úrval íslenskra bóka allt árið í góðum bókaverslunum um allt land þá brestur þar meginþráður. Þrátt fyrir örsmæð sína er íslensk bókaútgáfa ákaflega lítið styrkt af hinu opinbera og sinnir samt því að gefa út kennsluefni fyrir alla nemendur eftir að grunnnámi sleppir, gefa út undirstöðurit, fræðsluefni, niðurstöður rannsókna, skáldskap, ljóð, barnabækur og skemmtiefni - allt vegna þess að til eru fyrirtæki sem geta hagnast á því að selja þessar vörur.
Því er það mikið áhyggjuefni fyrir alla sem starfa við að gefa út bækur: rithöfunda, bókaútgefendur, prentara og dreifingaraðila, hvernig söluferli Eignabjargs ehf. á Pennanum á Íslandi lyktar. Við vonum öll að þar verði metnaður fyrir bóksölu hafður að leiðarljósi og þróaðar leiðir til að styrkja heilsársmarkað fyrir bækur en ekki öfugt.
Bækur | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2010 | 15:41
Eru þeir hjá AGS ekki nógu vel að sér eða eru þeir að plata?
Skýrsla AGS um umbyltingu skattkerfisins er ekki skemmtileg lesning. En burtséð frá því vekur það manni undrun að fullyrðingar í henni eru beinlínis rangar.
Þannig er talað í henni um óvenjulegar undanþágur frá almennri vaskprósentu og neikvæð áhrif þeirra á skattkerfið og er þar vísast átt við bækur, geisladiska, húshitun og fjölmiðla sem borið hafa 7% skatt. Þetta eru undarleg ummæli ef hugsað er um bókaútgáfuna því ekkert er óvenjulegt við undanþágur á virðisaukaskatti á bækur í Evrópu. Í tilskipun framkvæmdastjórnar Evrópusambandins, 2006/112/EC, sem liggur til grundvallar samræmingu virðisaukaskattslöggjafar EES, er skýrt kveðið á um að ákveðnir vöruflokkar geti notið undanþágu frá almennri virðisaukaskattsprósentu, s.s. bækur. Í nýlegri tilskipun framkvæmdastjórnarinnar um breytingar á fyrri tilskipun um virðisaukaskatt, 2009/47/EC, er enn hnykkt á þessu og heimildin raunar rýmkuð þannig að bækur í sama hvaða formi þær eru seldar, hvort heldur rafrænt eða prentaðar, geti notið undanþágu frá almennri virðisaukaskattsprósentu. Þessar undanþágur ná nú þegar til rafbóka á Spáni, í Hollandi, Noregi, Frakklandi og Slóveníu. Ennig bera hljóðbækur sömu virðisaukaskattsprósentu og prentaðar bækur í Svíþjóð, Noregi og á Íslandi.
Hefur AGS ekkert kynnt sér þessi mál eða er þetta bara úr lausu lofti gripið? Ljóst er að þetta orðalag vekur ekki traust á að skýrslan sé meira en pólitískt plagg, ættað úr koppum ríkisstjórnarinnar og sé pöntuð til að reyna skattaísinn áður en beljurnar æða út á hann.
Bækur | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2009 | 13:20
Jólavertíðin 2009
Á tímum eins og þessum þegar ráðstöfunartekjur almennings dragast saman harðnar slagurinn um hylli neytenda. Bókaútgefendur hafa tekið þátt í þeim slag af mikilli hörku á síðustu mánuðum og náð umtalsverðum árangri.
Þróunin á síðustu árum hefur verið í þá átt að sífellt stærri hluti bóksölunnar miðast við að vörurnar séu keyptar til notkunar - lesturs -, ekki til gjafa. Fyrir vikið hafa orðið til nýir möguleikar í markaðssetningu og sölu á helstu vörutegundum gjafaverslunarinnar á borð við ævisögur, skáldsögur og innlendar barnabækur. Þetta sannast til að mynda á útgáfu Bjarts á tveimur síðustu bindum þríleiks Stigs Larssons nú í haust. Hið heðbundna módel slíkrar útgáfu var að láta eitt bindi koma út á ári á hefðbundnum tíma vikurnar fyrir jól. Kvikmyndun Larssons-bókanna og mikil ásókn í þær á öðrum tungumálum breytti þeim áætlunum og útgáfan tók þá ákvörðun að gefa annað bindið út strax í september en þriðja bindið í nóvember. Ef marka má metsölulista og fréttir forlagsins sjálfs heppnaðist þetta betur en nokkur hefði þorað að vona. Bæði annað og þriðja bindið seldust í umtalsverðum upplögum. Raunar má segja að útkoma annars bindisins í september hafi verið snemmbúið upphaf jólavertíðarinnar.
Þetta er aðeins eitt dæmið af mörgum um stöðuga þróun bókamarkaðarins. Bókavertíðin 2009 er athyglisverð fyrir þær sakir að hún staðfestir gamla flökkusögn um að bækur spjari sig sem vara á tímum þegar ráðstöfunartekjur dragast saman eða standa í stað. Þetta hefst vegna þess að bókaverð er hlutfallslega lágt og bókaverðið getur orðið lágt vegna þess að smásalarnir eru svo margir og verðið frjálst. Bækur verða í vikunum fyrir jól þegar gafasalan nær hámarki ein vinsælasta varan á markaðnum. Útgefendur kynda svo svo undir með miklu auglýsingaflóði. Það fer ekki framhjá nokkru mannsbarni þessi jólin að það kemur mikill fjöldi bóka út á landinu og hægt að fullyrða að enginn vöruflokkur í menningarneyslu, hvorki tölvuleikir, DVD myndir né tónlist, hafi verið jafn heiftarlega auglýstir og bækur að undanförnu. Svo mikið kveður af þessu að Síminn hefur meira að segja gert einhvers konar grínauglýsingu þar sem fyrirferð bókaauglýsinganna er höfð að skotspæni: Óræk sönnun fyrir fyrirferð bókanna.
Annað einkenni þessara bókabylgju er að fjöldi útsölustaða eykst enn. Um 1980 var aldargamalt kerfi bóksöluleyfa og festrar verðlagningar brotið upp að þegar Hagkaup tók að selja bækur innlendra útgefenda. Innkoma annarra stórmakaða á markaðinn, ekki síst Bónuss, hefur án efa leitt til þess að bóksala fyrir jólin hefur stóraukist og verð lækkað þótt svo sem áreiðanlegar rannsóknir á mynstri bóksöluundanfarna áratugi vanti. Nú er svo komið að nánast allar dagvöruverslanir selja bækur fyrir jól. Krónan og Nettó-Samkaup eru orðnir fyrirferðarmiklir aðilar í bóksölu og nú nýverið bættist 10-11 við og er farið að selja jólabækur og auglýsa grimmt. Það vantar aðeins öfluga netverslun inn í þessa mynd. Netverslun sem þá gæti boðið upp á allar tiltækar bækur á Íslandi, breitt vöruúrval.
Það eru hins vegar ekki allir sáttir við þetta fyrirkomulag og það er oft gagnrýnt, jafnvel af neytendum sjálfum, sem eru þeir sem þó fá mest út úr því. Fjöldi útsölustaða kallar á öflugri dreifingu með meira utanumhaldi, stærri upplögum og samningum við fleiri útsöluaðila. Takmarkanir á fjölda titla sem teknir eru til sölu í stórmörkuðum valda því að fjölmargir verða frá að hverfa og útgefendur kvarta yfir því að geðþóttaákvarðanir innkaupastjóra ráði meiru um bókavalið en skilgreind viðmið. Síðan heyrast oft raddir um að þetta séu villigötur, um að margskonar verð og verðtilboð "rugli neytandann" og að hverfa eigi aftur til fasts bókaverðs sem yrði þá grundvöllur fyrir endurreisn Bókabúðarinnar.
Að mínu mati er varhugavert að sjá þróunni allt til foráttu. Stórmarkaðsvæðingin hefur gert það að verkum að helstu sölubækur seljast nú í tvöfalt stærri upplögum en fyrir um áratug síðan. Þær ná einfaldlega til fleira fólks. Auk þess eru viðfangsefni næstu ára sannarlega ekki áhyggjur af föstu bókaverði. Stafræn dreifing lesefnis verður æ fyrirferðarmeiri í rekstraráætlunum stóru útgáfufyrirtækjanna á heimsvísu og þar liggja áskoranir dagsins. Dreifing lesefnis í framtíðinni mun ekki ráðast af handföstum bókabúðum, heldur þeim sem munu ná tök á stafrænni dreifingu. Um leið mættu bókabúðir vinna betur með afl sitt sem söluaðilar á breiðum vörulínum með öflugri netverslunum þar sem hægt er að finna og panta allt sem tiltækt er, en það eru nú um 12.000 titlar á íslensku. Í stærstu bókabúðunum hérlendis fást hins vegar undir 1.000 titlum og það yrði ekkert meira þótt bókaverð yrði bundið. Um leið þarf að byggja upp sambandið við smásalana í dagvöruverslununum allt árið, þannig að samkeppni á bókamarkaði sé árið um kring. Árangur bókaútgáfunnar nú er byggður á hve bækur fást víða, hve markaðsstarf er öflugt og hve vel tekst að höfða til kaupenda með vöruna þrátt fyrir að ráðstöfunartekjur minnki. Jólavertíðin 2009 hefur ekki verið auðveld. En hún hefur líka sannað að sé vel staðið að útgáfu og markaðssetningu og sölumálum eru bækur ein eftirsóttasta vara landsmanna.
Bækur | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2009 | 09:48
Hangikjöt og bækur
Í Morgunblaðinu í dag er mikil frétt á baksíðu um velgengni hangikjöts sem starfsmannagjafar. Þar er haft erftir forstjóra SS að það líki ekki öllum sömu bækurnar en allir borði hangikjöt. Mikið er sorglegt þegar natírumbarónarnir geta ekki stillt sig um að mæra hangiketið sitt án þess að þurfa í leiðinni að hnýta í aðra. Því þegar búið er að skófla í sig hangikjötinu þá er ekkert eftir. Bókin lifir þó af jólin.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2009 | 22:39
Góð tilnefningahátíð
Það var góður andi í Listasafni Íslands í dag þegar tilkynnt var um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Íslensku þýðingaverðlaunanna. Frábært líka að geta tilnefnt með Bandalagi þýðenda og túlka og mér fannst þetta stækka atburðinn og þyngja vægi hans að hafa þýðingarnar með. Löngu tímabært að vinna saman.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2009 | 21:56
Fréttastofa RÚV ruglar og bullar
Frétt sem RÚV sýndi í kvöld um bókaverð var sett fram til að koma höggi á bækur og bóksölu. Það er ekki hægt að skilja hana öðruvísi. Í landi með nærri 9% verðbólgu og með gjaldmiðil sem hefur fallið um tugi prósenta gagnvart evru á síðustu 14 mánuðum var því lýst sem stórskandal að bókaverð hefði hækkað um nokkur hundurð króna miðað við árið 2008. Þar var gripið til þess örþrifaráðs að bera ekki saman raunverð bóka eins og það birtist neytendum í búðum, enda bókaverð frjálst, heldur nota "leiðbeinandi útsöluverð" bóka Arnaldar Indriðasonar og Yrsu Sigurðardóttur sem viðmið, jafnvel þótt "leiðbeinandi útsöluverð" bæði Forlagsins og Bjarts og Veraldar, útgefenda þeirra, sé ekki birt í Bókatíðindum, heldur megi finna sem einhvers konar "forlagsverð", gefið upp á heimasíðum forlaganna.
En leiðbeinandi útsöluverð segir enga sögu af veruleikanum. Bækur kosta allt annað í verslunum og það kom raunar skýrt fram í fréttinni. Vandamálið var bara að fréttamaðurinn kaus að draga ekki ályktanir af því, heldur leiðbeinandi verðinu. Það hentaði málflutningi hans betur. Það hefði verið mjög athyglisvert að sjá raunverulegan verðsamanburð en hann var ekki gerður.
Við sem fylgjumst með bókamarkaðinum og verslun vitum vel að bækur eru mjög ódýrar miðað við aðrar vörur á gjafamarkaði í dag. Ef bókaverð er borið saman við t.d. innflutta gjafavöru sést þetta undir eins. Ég skoðaði gönguskó um daginn. Samskonar par og ég á af gönguskóm og kostaði 25.000 fyrir tveimur árum kostar nú 58.000. Mér þætti gaman að sjá þá bók sem hefði hækkað svo mikið.
En þannig er veruleikinn og neytendur skynja hann mætavel eins og maður heyrir alls staðar. Fólk veit vel að bækur eru ódýrar. Var það kannski ástæðan fyrir fréttinni?
Það sem kom illa við mann í fréttinni var ekki þetta, því raunveruleikatékkið hristir þetta af manni, heldur að fréttamaðurinn vildi greinilega koma höggi á bókaútgefendur. Hann var í herferð. Hann fullyrti því að lækkun virðisaukaskatts árið 2007 hafi ekki skilað sér í lægra bókaverði. Og rökstuðningurinn: Jú, leiðbeinandi útsöluverð á bókum Yrsu Sigurðardóttur og Arnaldar Indriðasonar árin 2006, 2007, 2008 og 2009.
Þegar virðisaukaskattur á bækur var lækkaður 1. mars 2007 var lagt mikið upp úr því að lækkunin væri raunveruleg og skilaði sér til neytenda. Bóksalar voru skilningsríkir enda fylgdist t.d. ASÍ mjög vel með þessum málum og allir kappkostuðu að fylgja eftir lækkuninnni. Lækkunin á kiljum og barnabókum og seinna á námsbókum var sannarlega viðvarandi. En fréttamaðurinn skoðar ekki þetta. Hann skoðar verð á bók eftir Arnald Indriðason jólin 2006 og svo aftur jólin 2007 og kemst að þeirri niðurstöðu að Arnaldarbókin 2007 sé 100 krónum dýrari en bókin 2006 og þar með hafi vasklækkunin engin áhrif haft.
Bíddu við. Átti vasklækkunin ekki að hafa haft áhrif á bókna sem kom út árið 2006 því árið 2007 var önnur bók á markaði? Þetta var jú sitt hvor bókin? Fréttamaðurinn sleppir því sum sér fyrst að afla sér upplýsinga um áhrif vasklækkunarinnar 2007 á bókaverð 2007 og fer síðan að búa til falsfrétt um að vsklækkunin hafi ekki haft áhrif á ALLAR BÆKUR út frá 10O króna hækkun á Arnaldi, sem þó er ekki hækkun á sömu vörunni, þ.e. ný bók sem kom út árið 2007 kostaði í krónutölu í leiðbeinandi útsöluverði 100 krónum meira en bókin sem kom út 2006. Það segi okkur s.s. að lækkun virðisaukaskatts á bækur 1. mars 2007 hafi ekki skilað sér til neytenda!!!!
Upplýsingar, sem honum voru þó látnar í té, um að bækur hafi ekki hækkað neitt í krónum frá 2001 til 2008 en vísitala neysluverð á sama tíma um 44% kaus hann að láta liggja milli hluta. Hann notar öll hálmstrá til að tjakka upp þá sögu að vasklækkun 2ö07 hafi öll runnið í vasa bókaútgefenda og bóksala og fer í því skyni með einfaldlega með fleipur.
Fréttamaðurinn skrumskælir sannleikann til að koma höggi á bækur og bóksölu. Hvers vegna? Ég veit það ekki en ég veit hins vegar að allt á sér ástæður.
Bækur | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2009 | 14:55
Sölulistaklandur
Í fyrsta sinn í háa herrans tíð er komin upp sú staða að enginn samræmdur heildarsölulisti bóka er til staðar í landinu. Morgunblaðið birtir eins og sakir standa eina samantektarlistann en hann er á mörkum þess að vera marktækur þar sem tveir stórir söluaðilar bóka taka ekki þátt í gerð hans, Penninn-Eymundsson og Bónus. Þeir sem taka þátt í gerð Morgunblaðslistans eru Hagkaup, Krónan, Samkaup-Úrval og Nettó auk Iðu og Bókabúðar Máls og menningar. Ýmsar aðrar sjálfstæðar bókaverslanir eru ekki með.
Félagsvísindastofnun sá um langt skeið um gerð samræmds heildarlista yfir bóksölu á Íslandi og um nokkurt skeið var hann samstarfsverkefni Félags íslenskra bókaútgefenda og Morgunblaðsins en Morgunblaðið fjármagnaði hann eitt síðustu árin. Í ár hefur þetta samstarf ekki verið framlengt af kostnaðarástæðum. Eymundsson sendir sinn lista vikulega og hefur gert svo frá því að flestir forleggjarar og endursöluaðilar fóru búa til eigin metsölulista fyrir um áratug síðan. JPV Forlag, síðar Útgáfa var fyrst til að hnykkja af festu á því að forlagið væri sjálft með slíkan lista og auglýsan hann. Í kjölfarið hermdu svo margir eftir. Þetta varð stundum fremur kómískt eins og þegar forlag með 4 útgáfubækur birti "metsölulista" bóka sinna.
Síðan hættu forlögin að djöflast með eigin lista, nema þá helst inni á heimasíðum sínum, en nú er þetta komið aftur og ástæðan einföld: Engin samræmd heildarmæling er til. Um leið spretta alls kyns smálistar upp.
Félag íslenskra bókaútgefenda hefur um nokkurt skeið ætlað að standa að samræmdi mælingu á bóksölu allt árið, ekki síst til að eiga í fórum sínum áreiðanlega yfirsýn yfir bókamarkaðinn til þess til að mynda að hafa einhverjar tölur í höndunum þegar við berum okkur saman við útlönd, eða bara til að hafa eitthvað í höndunum sem segir okkur hver staðan er. Viðræður við bóksölufyrirtækin um að taka þátt í slíku hafa hins vegar verið ákaflega stirðar. Jafnvel þótt óháð stofnun vinni slíka samantekt hefur mikillar tortryggni gætt.
Í Danmörku og Bretlandi sér Nielsen BookScan um að mæla þessa sölu og þar eru áreiðanlegar og sterkar tölfræðilegar heimildir um raunsölu til staðar. Það væri betra fyrir alla aðila að hafa grunn til að standa á og geta þannig mælt söluna af viti. Fram að jólum munu menn auglýsa bækur með tilvísan til hinna og þessara lista sem munu gera neytandann ringlaðan og brengla raunveruleika jólasölunnar sem er sá að um 130 til 150 útsölustaðir um landið allt selja bækur. Við þurfum að vita hvað þeir eru að selja.
Bækur | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2009 | 11:09
Google lætur enn bíða eftir sér
Eftir allt saman báðu Google og AAP og Authors Guild um frest til 13. nóvember til að fjalla um sátt Google við AAP og Authors Guild um skiptingu á tekjum á höfundarréttarvörðu efni sem skannað hefur verið og sett á netið innan ramma Book Search prógramms Google. Enn er deilt um hvernig eigi að ráðstafa tekjum af munaðarlausum verkum og hvort þau eigi að falla undir sáttina eða ekki. Google hefur lagt mikla áherslu að setja munaðarlaus verk þarna inn (þ.e. verk sem ekki er vitað hver á höfundarréttinn að) en um leið er ljóst að margt í því stangast á við bandaríska löggjöf.
Evrópskir útgefendur bíða enn eftir næstu skrefum og halda áfram að bræða með sér hver úrskurður dómarans í New York verður eftir að menn hafa reifað málin fyrir honum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2009 | 21:18
Ríkisstjórnin ræðst gegn bókaútgáfu
Samkvæmt fréttum RÚV er ætlun ríkisstjórnarinnar að hækka virðisaukaskatt á bækur og geisladiska. Ríkisstjórnum þessa lands er aldrei alvara þegar kemur að stóru orðunum um stuðning við íslenskt málsamfélag. Það skiptir engu máli hver er við völd. Stjórnmálaflokkarnir hafa allir brugðist í þessu máli og nú bregðast einmitt þeir sem mest hafa miklað sig af tengslum við menningarlífið. Þess vegna á einmitt ekki að líða þeim þessa aðför að bókaútgáfu, ritstörfum og hljóðbókaútgáfu.
Virðisaukaskattur á bækur á Íslandi er að verða eins og einhvers konar jójó, sem er algjört einsdæmi í Evrópu, en í öllum löndum evrópska efnahagssvæðisins er virðisaukaskatti á bækur haldið vísvitandi lágum af menningarpólitískum ástæðum. Nú nýverið reyndu stjórnvöld í Lettlandi það sama: Að skella hækkun á virðisaukaskatti á bækur í kreppustýringartilraunum sínum. Þar fór skatturinn 1. janúar 2009 í 21% úr 10% en eftir harðvítug mótmæli útgefenda og höfunda auk mikils þrýstings frá evrópska útgefendasamfélaginu lækkuðu stjórnvöld aftur skattinn 1. ágúst síðastliðinn eftir að bókasala í Lettlandi hafði gjörsamlega hrunið. Það er algerlega ljóst að FEP, félag evrópskra útgefenda, mun einnig standa við bakið á okkur í baráttu útgefenda við stjórnvöld. Öll samtök útgefenda um alla álfuna standa dyggilega vörð um það meginprinsípp að bækur og lestur eigi ekki að skattleggja eins og hverja aðra vöru. Staða bókaútgáfu sem þekkingarmiðlunar og hornsteins málsfarsstefnu í þjóðlöndunum er slík. Og þegar Þýskaland og Frakkland eru á þessari skoðun þá finnst náttúrlega eðlilega Íslendingum besta mál að setja góðan skatt á bækur af því að íslenskan er slíkt heimsmál. Nýleg könnun á vegum FEP staðfesti að undanþágur frá almennum virðisaukaskatti á bækur eru við lýði í öllum Evrópulöndum eða þá að bækur eru í lægsta virðisaukaskattþrepi. Nú ætlar hin mikla mennta- og menningarstjórn VG og Samfylkingar að setja bækur í 14% til að borga reikninginn fyrir menn eins og fyrrverandi varaformann Samfylkingar sem lagði það til í fúlustu alvöru að íslenska yrði að hluta til lögð niður sem opinbert tungumál svo bankarnir gætu betur starfað.
En það sem er grátlegast og sýnir enn og aftur þá kaldhæðni sem að síðustu er alltaf einkenni stjórnmálanna að menntamálaráðherra og menntamálaráðuneytið er nú að blása til kynningar á íslenskum bókmenntum í París árið 2011 á Salon de Livre bókamessunni í fyrsta lagi án þess að ráðfæra sig við kóng eða prest sem gefið hafa út bækur eða skrifað þær en ætlar svo líka svona í leiðinni að eyðileggja innviði bókabransans. Það er betra að líta vel út í kámugum spegli umheimsins en gera eitthvað að viti í eigin garði.
Félag íslenskra bókaútgefenda hefur algeran stuðning frá evrópskum systurfélögum sínum um alla álfuna til að sporna gegn þessum skemmdarverkum. Um leið köllum við á félög rithöfunda og fræðihöfunda, sem og félagasamtök sem miða að eflingu barnabókmennta og bókmenningar að láta ekki þessa regindellu ganga yfir sig. Árið 1993 lét Viðeyjarstjórnin þannig að sjálft líf íslensku þjóðarinnar lægi við ef ekki yrði settur virðisaukaskattur á bækur. Bókabransinn þoldi þá mikið högg sem setti mark sitt á útgáfuna á tíunda áratugnum. Það var reiðarslag þegar Friðrik Sophusson skellti 14% skatti á bækur eftir að bækur höfðu verið undanþegnar virðisaukaskatti árin á undan. Rökstuðningsplaggið frá ráðuneytinu má enn lesa og mjög líklega mun bókarhöfundurinn Steingrímur J. Sigfússon nú dusta rykið af því og veifa framan í fólk. Þar er því til dæmis haldið fram í fúlustu alvöru að þessi aðgerð hafi verið nauðsynleg til að stemma stigu við hættunni á undanskotum!
Ég skora á alla rithöfunda, fræðimenn, tónlistarmenn og alla sem vinna við greinar tónlistar, útgáfu, ritstarfa og fræðimennsku að taka nú höndum saman og koma í veg fyrir enn ein svikin við uppbyggingu íslenskrar menningarstefnu í nafni ímyndaðs ofsagróða af vinnu skapandi fólks. Höldum bókum og hljóðefni í lægsta virðisaukaskattþrepinu þar sem allar evrópskar þjóðir halda því.
Bækur | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2009 | 11:22
Stóri Google dagurinn í dag
Í dag verður sátt Google og bandarískra útgefenda og höfunda tekin fyrir dóm í New York. Fyrir um mánuði síðan ákvað dómari að fresta málsmeðferðinni um mánuð til að gefa andmælendum betri tíma til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og endurskoða sáttina með hliðsjón af áhyggjum erlendra útgefenda af því að sáttin náði einnig til bóka sem ekki hafa verið gefnar út í Bandaríkjunum og eru á erlendum málum. Með skilgreiningu sáttarinnar á því hvað væri "commercially available" voru í raun allar bækur sem bandarískir neytendur gátu pantað á netinu innifaldar í sáttinni. Þessu hafa einkum þýskir, sænskir og franskir útgefendur viljað breyta og nú síðast hafa stjórnvöld þessarra landa blandað sér í málið og raunar einnig kínversk stjórnvöld.
Auk þessa hafa fyrirtæki Vestanhafs sem og samkeppnisyfirvöld viljað koma í veg fyrir ýmsa þætti í sáttinni sem brjóta í bága við ýmislegt í hringamyndunarlöggjöf og samkeppnislöggjöf Bandaríkjanna. Það er því ekki víst að sáttin verði samþykkt fyrir dómi.
Tekjur Google af sölu stafrænna bóka munu að nokkru leyti renna til nýrrar stofnunar, Books Right Registry, sem verður að öllum líkindum eitt valdamesta apparat framtíðarinnar í stafrænni bóksölu. Nú þegar hafa staðið yfir miklar hrókeringar og átök um hver eigi meðlimi þar í stjórn. Ef sáttin stenst fyrir dómi í dag verður það hlutverk þessarar stofnunar að útdeila öllum hugsanlegum tekjum af stafrænni sölu verka sem Google skannaði úr safneign stórra bókasafna.
Með breytingum á sáttinni er meginviðhorf evrópskra útgefenda viðurkennt, þ.e. að maður sæki um að fá að nýta höfundarrétt verka til þeirra sem eiga höfundarréttinn en byrji ekki á því að setja verkin á markað og láta svo þeim sem eiga höfundarréttinn eftir að sækja rétt sinn. Þessi umsnúningur hefur verið mikið gagnrýndur, ekki síst fyrir þá sök að þar með er hefðbundinni bókaútgáfu gert erfitt fyrir í samkeppninni.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)