Ríkisstjórnin ræðst gegn bókaútgáfu

Samkvæmt fréttum RÚV er ætlun ríkisstjórnarinnar að hækka virðisaukaskatt á bækur og geisladiska. Ríkisstjórnum þessa lands er aldrei alvara þegar kemur að stóru orðunum um stuðning við íslenskt málsamfélag. Það skiptir engu máli hver er við völd. Stjórnmálaflokkarnir hafa allir brugðist í þessu máli og nú bregðast einmitt þeir sem mest hafa miklað sig af tengslum við menningarlífið. Þess vegna á einmitt ekki að líða þeim þessa aðför að bókaútgáfu, ritstörfum og hljóðbókaútgáfu.

Virðisaukaskattur á bækur á Íslandi er að verða eins og einhvers konar jójó, sem er algjört einsdæmi í Evrópu, en í öllum löndum evrópska efnahagssvæðisins er virðisaukaskatti á bækur haldið vísvitandi lágum af menningarpólitískum ástæðum. Nú nýverið reyndu stjórnvöld í Lettlandi það sama: Að skella hækkun á virðisaukaskatti á bækur í kreppustýringartilraunum sínum. Þar fór skatturinn 1. janúar 2009 í 21% úr 10% en eftir harðvítug mótmæli útgefenda og höfunda auk mikils þrýstings frá evrópska útgefendasamfélaginu lækkuðu stjórnvöld aftur skattinn 1. ágúst síðastliðinn eftir að bókasala í Lettlandi hafði gjörsamlega hrunið. Það er algerlega ljóst að FEP, félag evrópskra útgefenda, mun einnig standa við bakið á okkur í baráttu útgefenda við stjórnvöld. Öll samtök útgefenda um alla álfuna standa dyggilega vörð um það meginprinsípp að bækur og lestur eigi ekki að skattleggja eins og hverja aðra vöru. Staða bókaútgáfu sem þekkingarmiðlunar og hornsteins málsfarsstefnu í þjóðlöndunum er slík. Og þegar Þýskaland og Frakkland eru á þessari skoðun þá finnst náttúrlega eðlilega Íslendingum besta mál að setja góðan skatt á bækur af því að íslenskan er slíkt heimsmál. Nýleg könnun á vegum FEP staðfesti að undanþágur frá almennum virðisaukaskatti á bækur eru við lýði í öllum Evrópulöndum eða þá að bækur eru í lægsta virðisaukaskattþrepi. Nú ætlar hin mikla mennta- og menningarstjórn VG og Samfylkingar að setja bækur í 14% til að borga reikninginn fyrir menn eins og fyrrverandi varaformann Samfylkingar sem lagði það til í fúlustu alvöru að íslenska yrði að hluta til lögð niður sem opinbert tungumál svo bankarnir gætu betur starfað.

En það sem er grátlegast og sýnir enn og aftur þá kaldhæðni sem að síðustu er alltaf einkenni stjórnmálanna að menntamálaráðherra og menntamálaráðuneytið er nú að blása til kynningar á íslenskum bókmenntum í París árið 2011 á Salon de Livre bókamessunni í fyrsta lagi án þess að ráðfæra sig við kóng eða prest sem gefið hafa út bækur eða skrifað þær en ætlar svo líka svona í leiðinni að eyðileggja innviði bókabransans. Það er betra að líta vel út í kámugum spegli umheimsins en gera eitthvað að viti í eigin garði.

Félag íslenskra bókaútgefenda hefur algeran stuðning frá evrópskum systurfélögum sínum um alla álfuna til að sporna gegn þessum skemmdarverkum. Um leið köllum við á félög rithöfunda og fræðihöfunda, sem og félagasamtök sem miða að eflingu barnabókmennta og bókmenningar að láta ekki þessa regindellu ganga yfir sig. Árið 1993 lét Viðeyjarstjórnin þannig að sjálft líf íslensku þjóðarinnar lægi við ef ekki yrði settur virðisaukaskattur á bækur. Bókabransinn þoldi þá mikið högg sem setti mark sitt á útgáfuna á tíunda áratugnum. Það var reiðarslag þegar Friðrik Sophusson skellti 14% skatti á bækur eftir að bækur höfðu verið undanþegnar virðisaukaskatti árin á undan. Rökstuðningsplaggið frá ráðuneytinu má enn lesa og mjög líklega mun bókarhöfundurinn Steingrímur J. Sigfússon nú dusta rykið af því og veifa framan í fólk. Þar er því til dæmis haldið fram í fúlustu alvöru að þessi aðgerð hafi verið nauðsynleg til að stemma stigu við hættunni á undanskotum!

Ég skora á alla rithöfunda, fræðimenn, tónlistarmenn og alla sem vinna við greinar tónlistar, útgáfu, ritstarfa og fræðimennsku að taka nú höndum saman og koma í veg fyrir enn ein svikin við uppbyggingu íslenskrar menningarstefnu í nafni ímyndaðs ofsagróða af vinnu skapandi fólks. Höldum bókum og hljóðefni í lægsta virðisaukaskattþrepinu þar sem allar evrópskar þjóðir halda því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband