Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Stolið og stælt

Þegar fréttir tengdar hinum alþjóðlega útgáfubransa frá síðasta ári eru skoðaðar er eins og aðeins tvennt hafi verið merkilegt: Google og svínarí.

Þótt nokkrir þessara svindlstorma hafi verið bundnir við drykkjarílát náðu nokkrar lægðir að dýpka það snarplega að fólk missti æruna. Þó komust sumir í var eins og Ian McEwan sem kollegar úr öllum heimsins áttum slógu fyrir skjöldum þegar hann var sakaður um að hafa hnuplað textum annarra í löngu útgefinni skáldsögu, Amsterdam, sem hann hlaut fyrir Booker verðlaunin á sínum tíma. Að einhverju leyti má segja að Dan Brown hafi einnig bjargast úr sinni hildi þegar það undarlega höfundareyki Michael Baignent og Richard Leigh kærðu hann fyrir ritstuld og náðu svo langt að koma honum fyrir dóm í London. Þeim þótti sem öllum meginhugmyndinum í Da Vinci lyklinum hefði verið stolið úr gömlum megabestseller þeirra, The Holy Blood And The Holy Grail, sem fyrst kom út árið 1982 og þeir rituðu í félagi við þriðja mann, Henry Lincoln. Ég mæli raunar með þeirri bók, sérstaklega ef menn hafa lesið Lykilinn, því hugmyndir hans verða í raun vart skýrar fyrr en ofsóknarbrjáluð furðuflétta þessa "sagnfræðiverks" er skoðuð. Réttarhöldin urðu reyndar þegar á leið stórmerkileg þar sem Dan Brown lýsti eiðsvarinn dæmigerðum vinnudegi sínum sem og vinnulagi (en þær upplýsingar höfðu ekki komið fram áður). Kom þá upp úr pokunum að konan hans er potturinn og pannan í ritferli hans. Hún vinnur forvinnuna og sankar að sér upplýsingunum, raðar saman brotunum, les yfir textann hans og "editerar" auk þess sem hún er einskonar umboðsmaður hans. Sjálfur vaknar hann klukkan fjögur á morgnana og skrifar til átta eða þar um bil, þá er friðurinn úti að hans mati og einbeitingin horfin. Hann gerir ýmsar leikfimiæfingar á milli skriftarlota, en ver síðan deginum í stúss. Konan hans er hins vegar eins og útspítt gæra að lesa sér til um sögu kvenna í árkristni, raða saman ættartölum Mervíkinga og skima eftir undarlegum teiknum í sveitum og bæjum Frakklands, rétt eins og aðrir sem hafa étið við garðann í þessu sauðahúsi dellufræðanna.

Dan Brown var náttúrlega sýknaður - enda hafði enginn svo sem búist við öðru - en allt þetta tilstand náði engu að síður að koma höggi á hann, það er í það minnsta skoðun nokkurra bandarískra blaða, t.d. The Post og LA Times. Hann var settur í sama mengi og helstu konungar ritstuldarins og svindlsins - og sú konungaröð var orðin nokkuð löng vestur í Bandaríkjunum þegar upp var staðið.

Þar ber náttúrlega hæst lygalaupinn og rauparann James Frey sem mölbrotinn gekkst undir dóm sjónvarpsþjóðarinnar og játaði syndir sínar en uppskar ekki fyrirgefningu, heldur reiði sjálfrar Ophru Winfrey sem aðallega var svekkt yfir að hafa verið plötuð og sem niðurlægði Frey með því að játa eigin niðurlægingu. Öllu sorglegri var saga indverskættuðu stúlkunnar Kaavya Viswanathan sem til skamms tíma var táknmynd velgenginnar eftir hafa aðeins 17 ára að aldri fengið hálfa milljón dala í fyrirframgreiðslu fyrir tvær óskrifaðar bækur frá Little, Brown og hafið stuttu síðar nám við Harvard. Í marsbyrjun 2006, skömmu eftir útkomu bókar hennar How Opal Metha Got Kissed, Got Wild, and Got a Life var þessi nokkuð fyrirsjánlega og formúlukennda "young adult" bók (eða YA eins og bókmenntagreinin heitir einfaldlega í fagpresunni) fyrir barðinu á heiftarlegri gagnrýni um að þar væri gengið skör framar í ritstuldi en venjan er í formúlubransanum, bókin var í kjölfarið innkölluð og höfundinum gert að skila peningunum.

Lítum nánar á þessi tvö tilfelli:

Saga James Frey hófst þannig að Mölbrotinn (eins og drykkjumannaævisaga Freys heitir á íslensku, A Million Little Pieces heitir hún á frummálinu) varð til í kollinum á höfundi fyrir einum fimm til fjórum árum og var þá ekki minningabók, heldur einskonar frjálsleg skáldleg útfærsla á lífshlaupi hans. Hins vegar hafði enginn áhuga á þannig skáldverki og umboðsmaður hans var gerður afturreka með þennan samsetning hjá einum 17 forlögum! Þá hugkvæmdist Frey nokkuð sem síðar átti eftir að koma honum í koll: Hann ákvað að láta sem þetta væri allt satt. Í kjölfarið ákvað Dobleday imprintið að taka hana upp á sína arma og bókin kom út árið 2003 og var talsvert mikið lagt í markaðssetninguna. Þrátt fyrir að fjölmargir í bransanum könnuðust við kauða og forsögu handritsins og þrátt fyrir að ýmsir gagnrýnendur (t.d. gagnrýnandi NYT og staðargagnrýnendur í miðvesturríkjunum þaðan sem Frey er ættaður) settu mikla fyrirvara við sannleiksgildi þessarar frásagnar og gæði hennar tókst engu að síður að afla henni nægilegs fylgis á markaði til að vegur hennar ykist smám saman. Um mitt ár 2005, einum tveimur árum eftir að bókin kom fyrst út, var síðan hafin ný herferð, eftir að bókin hafði setið lengi á trade paperback non-fiction listum NYT og PW. Þá blésu vindar þannig að sögur af þessum toga, sannar sögur af ævintýrum glæpamanns og fíkils, voru í mikilli eftirspurn og svo viðburðarrík og spennandi var saga Freys að Ophra Winfrey vakti heila nótt og las. Þann 26. október 2005 fór í loftið þáttur Ophru sem hét "The Man Who Kept Oprah Awake At Night". Allt starfslið þáttarins las bókina og grét, fólk vakti, fólk borðaði ekki, heldur las Mölbrotinn upp til agna. Þannig hljómaði lýsing blaðamanns vefblaðsins The Smoking Gun á atburðum:

In emotional filmed testimonials, employees of Winfrey's Harpo Productions lauded the book as revelatory, with some choking back tears. When the camera then returned to a damp-eyed Winfrey, she said, "I'm crying 'cause these are all my Harpo family so, and we all loved the book so much."

Það er sjálfsagt mörgum kunnugt að þessi þáttur sendi Frey og bók hans upp í skýin. Bókin var mest selda bók í Bandaríkjunum árið 2005 og var vikum saman í efsta sæti metsölulista NYT. Um leið varð Frey sjálfur að frægðarmenni sem fengið var til að koma fram við margskonar tækifæri og segja sögu sína. En aðeins nokkrum mánuðum síðar, í janúar 2006 sprakk loftbelgurinn. Frásögn The Smoking Gun var sett á vefinn og í henni var afhjúpað að Frey hefði ekki getað reynt það á eigin skrokki sem hann sagðist hafa lent í. Eftirgrennslan sýndi að hann sjálfur hefði hvorki verið jafn djúpt sokkinn í fen fíknarinnar og hann gaf sig út fyrir, né hefði honum tekist að komast jafn duglega í kast við lögin og hann sjálfur taldi. Hælbítar hans bentu á að lögregluskýrslur segðu aðra sögu, þeir bentu á að ómögulegt væri að hann héldi út rótarnám án deyfingar (það var til að sanna hve dofinn Frey var orðinn) og að hann hafði flogið milli hinna amerísku stranda ósjálfbjarga og í sárum sínum í lörfum sem hefðu verið "útataðir í hráka, hori, blóði, hlandi og ælu" og að enn fáránlegra væri að hann hefði drepið katólskan prest í París eftir að sá hefði reynt að þukla á pungnum á honum við skriftir (ferð Freys til Parísar var farin til að farga sér í Signu!). En þeir komust líka að því að þrátt fyrir að Frey hefði ítrekað sagst hafa setið margoft í fangelsi hefði hann aldrei komist nær því en svo að hafa farið á lögreglustöð til að hjálpa vini sínum út úr steininum, að unglingsáraafbrotaferill hans hefði í raun vart verið til og að margar persónur bókarinnar væru helber tilbúningur. Nú væri þetta alltsaman í sjálfu sér ekkert mál, hefði Frey sjálfur ekki ítrekað lýst því yfir og reynt að mikla sem mest að þetta væri allt satt. Hámarki náði þessi yfirlýsingagleði hjá Ophru sem lýsti manninum sem kraftaverki.

Eftir fálmkenndar tilraunir höfundar og forlags við að neita ásökunum The Smoking Gun og í kjölfarið allra helstu fjölmiðla USA neyddist Random House til að játa að þeir hefðu verið plataðir. Furðulegt nokk jók það aðeins söluna á bókinni um hríð, en að endingu var sú yfirlýsing gefin út að Frey hefði verið leystur frá samningum sínum við forlagið, að framhald Mölbrotins kæmi ekki út og að Random House myndi endurgreiða öllum sem keypt hefðu bókina beint af forlaginu. Í stórundarlegum þætti hjá Ophra þar sem Frey reyndi að slá vopnin úr höndum gagnrýnenda sinna var hann grillaður af spjalldrottningunni sem lét hann finna til tevatnsins og sagði að hann hefði blekkt þjóðina og ætti að skammast sín. Samkvæmt síðustu fréttum er það líka rétt. Bransinn skellti á hann dyrunum og síðan hefur ekki heyrst frá honum meir.

Eftirmál urðu nokkur því mikil og heit umræða var innan bransans um hver ætti eiginlega að taka ábyrgðina á svona uppákomum. Mega forlög bara plata lesendur sína og láta svo eins og ekkert hafi í skorist? Talsmenn forlaganna sögðu að þau gætu ekki gátað bækur sem þau gæfu út, það væri út í hött. Þau yrðu að treysta höfundum sínum. Um leið bentu gagnrýnendur á að áður fyrr hefðu ritstjórar forlaganna eimitt gert þetta, gátað útgáfubækurnar, en nú væru forlögin fyrst og fremst markaðsdrifin fyrirtæki sem reyndu að koma bók út eins hratt og hægt væri til að spara kostnað og létu sensasjón ráða fremur en fagleg vinnubrögð. Líklegast hafa báðir rétt fyrir sér, en ef eftirspurn eftir sensasjón eykst er líka freistingin til að svindla meiri og þá eru varnarmekkansimarnir inni á forlögunum orðnir svo veikir að þeir standast ekki þetta áhlaup. "Heiðursmannasamkomulagið" sem gilti um að hafa það sem sannara reynist gildir einfaldlega ekki í bókaútgáfu lengur - amk þeirri bókaútgáfu sem einbeitir sér að snöggri sölu. Þar með verða báðir aðilar, höfundar og forlög, að veðja á sensasjónina, og láta svo hitt ráðast. Þetta er kannski svolítið sorgleg niðurstaða, en endurspeglar hvernig útgáfa í stóru löndunum er komin þétt upp að blaðaútgáfu, netmiðlun og sensasjón, og sækir raunar samfélagslegt vægi sitt sífellt meira í fréttatengsl. Það þarf ekki að skoða það grannt að það sama er uppi á teningnum hérlendis líka.

En þá aðeins um hana Kaavya Viswanathan. Gullfalleg stúlka sem virtist vera að gera þetta allt rétt nema það eitt að bókin sem "hún" skrifaði var minnst eftir "hana". Það kom nefnilega í ljós þegar nánar var skoðað að "bókmenntaframleiðslufyrirtækið" Alloy Entertainment býr til bækur eins og hennar og að fyrirtækið er ábyrgt fyrir stórum hluta af YA framleiðslu Bandaríkjanna. Þetta fyrirtæki og önnur slík vinna hins vegar þannig að nánast enginn veit af þeim. Sögur sem t.d. hafa komið út á íslensku og þykja mjög góðar, eins og Gallabuxnaklúbburinn, sem er bókaflokkur um vinkvennahóp, er að mestu unninn "eftir hugmynd" þess sem titlaður er höfundur, Ann Brashares, en er í raun afurð slíks "bókmenntaframleiðslufyrirtækis" þar sem láglaunahöfundar Alloy Entertainment raða saman textunum og "vinna bókina". Þetta er alþekkt úr ástarsagnabransanum t.d. hjá fyrirtækjum eins og Harlequin (en þaðan koma Rauðu seríurnar frá Ás-útgáfunni), munurinn er sá að þessar YA bækur eru ekki gefnar út undir ákv. vörumerki, heldur koma út hjá þekktustu forlögum hins enskumælandi heims og neytendur skynja þær ekki sem kalkúlerað kollektíft verk, heldur sem höfundarverk. Hluti höfundarlauna þessara verka fer til framleiðslufyrirtækjanna og þau reikna sér "þróunarkostnað" sem annað hvort höfundur, umboðsmaður eða forlag greiða, venjulega allir þrír. Þessi fyrirtæki stytta sér stundum leiðina og þá er "ritlán" góð aðferð. Fegurðardísin Viswanathan lenti raunverulega í klemmu sem varðaði hana ekki neitt, hún var fórnarlamb "framleiðsluafstæðna" kapítalískrar bókaútgáfu og sem slík uppskar hún meðaumkun starfsbræðra á borð við Salman Rushdie, sem kom henni opinberlega til varnar. Hún fékk skítinn og skömmina, "bókmenntaframleiðslan" heldur hins vegar áfram með alla sína hnyttnu YA titla með pastelkoverum og teiknuðum stelpum með handtöskur í gellustellingum sem alltaf eru að gera eitthvað skemmtilegt og mátulega hættulegt án þess að fara yfir strikið. Þegar síðast fréttist af How Opal Metha Got Kissed, Got Wild, and Got a Life voru eintökin sem seldust fyrir innköllun (heil 8.000) til sölu á uppsprengdu verði á e-bay. 


Árslistinn

Nú er runnin upp heyskapartíð árslistanna með brakandi þurrki og hver sem haldið getur á hrífu er sendur út á völl að koma töðunni í stabbann. Annað slagið áræða fjölmiðlar hérlendis að mana sitt vinnufólk í að búa til árslista yfir bækur en þar sem túnin liggja ekki saman og langar leiðir eru milli skikanna verður einhver smábólstur úr þessu í staðinn fyrir þær stoltu fúlgur sem stóru löndin töfra fram.

Mér sýndist New York Times vera með þeim fyrstu til að birta sinn lista, 10 bóka lista þar sem fimm stykki eru úr heimi skáldskaparins og fimm úr heimi "ekki-skáldskaparins". Það gefur auga leið að margt var þar sniðgengið sem ef til vill hefði mátt vera með af þeim milljón titlum sem gefnar eru út í N-Ameríku ár hvert, mengið er með öðrum orðum fremur lítið. Bransablaðið Kirkus Review birtir hvert ár 25 bóka lista yfir þær bækur sem hefðu átt að fá meiri athygli en fengu það ekki úr hópi þeirra mörg þúsund titla sem blaðið ritdæmir ár hvert. Sá listi er mjög athyglisverður því á honum eru raunverulegar uppgötvanir, þýðingar t.d. á brasilískum höfundum eða höfundum frá Pakistan eða einhverjum smásagnahöfundi frá Iowa sem maður hefur aldrei heyrt á minnst en skrifaði einhverja snilldina sem seldist í 200 eintökum. Þegar maður heyrir raunverulegar sölutölur minna seldra bóka í USA rekur mann nefnilega í rogastans, það eru áþekkar tölur og hér heima.

Af 10 bókum NYT las ég tvær á árinu 2006, og raunar er ekki rétt að segja að ég hafi lesið þær, því aðra lagði ég frá mér eftir að hafa lesið þrjá fyrstu kaflana, þótti komið nóg. Þetta er sagan A Special Topics in Calamity Physics eftir Marisha Pessl sem Viking gefur út. Mér fannst þetta átakanlega tilgerðarleg bók en álitsgjöfum NYT fannst þetta algjör snilld og lofuðu einmitt það sem fór fyrir brjóstið á mér, það er alveg eins líklegt að ég hafi bara ekki skilið hvert höfundurinn var að fara. Mér fannst tengingarnar við bókmenntaarfinn sem þeim fannst svo sniðugar vera eins og hjá versta "überstreber" í skapandi skrifum við einhvern Midwestern University, allt unnið með skóhorni og þvingum. Þeim fannst bókin tilfinningarík á gáfulegan hátt. Ég sá bara einhverja sykurhúðaða væmni. Ég byrjaði svo á skáldsögunni Absurdistan eftir Gary Shteyngart sem Random House gefur út. Fyrir þá sem hafa gaman að höfundum af yngri kynslóðum amerískra karlrithöfunda: Dave Eggers eða þeirra Jónatana: Jonathan Lethem, Jonathan Safran Foer og Jonathan Franzen, er þetta í raun skyldulesning. Einkum er tengingin við bók Foers, Everything is Illuminated, mjög skýr þar sem Absúrdistan gerist einnig í A-Evrópu, nánar tiltekið í Pétursborg. Hjá Shteyngart (hvernig ætli maður beri þetta nafn fram? Það tók tíma að læra hvernig bera ætti fram Chuck Palahniuk) er sami harmsögulegi tónninn, sama harmljóðið um hnattvætt nýkapítalískt heimsþorp þar sem "venjulegt fólk" er fóður fyrir hina miklu efnahagsvél. Misha Vainberg er sonur 1238. ríkasta manns Rússlands, fjall af manni og gefinn fyrir vondan vodka. Andhetjubragur hans er með slíkum angandi óþokka að nokkur unun er af en maður finnur líka fyrir einhverju sem nefna mætti andspyrnu við lesandann í þessari bók. Sérviskur og langt mál gera sitt til að girða fyrir málamiðlunarlausu aðgengi að sögufléttu og atburðarás en hugleiðingar margar eru ágengar, líkt og raunar í hinu mikla söguljóði The Corrections eftir Franzen, þótt Absúrdistan komist nú ekki á sama gæðabekk og hún.

Enga bók af non-fiction lista NYT hef ég lesið en langar þó til að lesa eina sem fjallar um mat og matarframleiðslu: The Omnivore's Dilemma: A Natural History of Four Meals eftir Michael Pollan. Það tengist einkum því að sökum náinna kynna af matvælaframleiðslu öll mín bernsku- og unglingsár finnst mér gæðavíddina í eilífa matarverðssífrinu gjörsamlega vanta. Það er eins og helsta þrá neytendasamtaka og hagspekinga okkar sé að landsmenn gúffi í sig nógu ódýru drasli; þar með séu í raun flest vandamál þessa þjóðfélags leyst. Þessi misserin er vart hægt að hafa tölu á þeim debattbókum sem koma út í öllum vestrænum löndum og fjalla um algjört skipbrot stórvirku iðnaðarlandbúnaðarstefnunnar sem hér um slóðir er básúnað að sé lokasvar í efnahagsmálunum. Þessir höfundar segja okkur að þessi stefna sé að drepa vestrænar þjóðir úr offitu og umhverfið úr ofurálagi. Þetta er ein þessara bóka sem taka á því máli.

Ég reyndi að taka saman topp tíu lista yfir bækur sem ég hef lesið á árinu og komið hefðu út á árinu en sýndist það flest vera gamalt raus sem ég hafði hrifist af, til dæmis bókin Fjallamenn eftir Guðmund frá Miðdal sem var mikil uppgötvun fyrir mig í sumar. Bókin Vestfirðir eftir Hjálmar Bárðarson var líka mikilvæg sem leiðsögn yfir Drangajökul og um Norðurstrandir og Jökulfirði og svo tók ég mig til og las Göngur og réttir, allt safnið loksins, misjafnir kaflar náttúrlega, en sumt þar snilldarlegt, raunar fannst mér mest til koma að lesa kaflana um göngur á Vestfjörðum. Hitti svo Vestfirðing í Laufskálaréttum sem hafði oft gengið í Dýrafirði í svimhámum klettum svo þetta passaði allt. Suite francaise eftir Irène Némirovsky var frábær saga, sérstaklega fyrri helmingurinn, sem ég las í sænska skerjagarðinum í miklu bíðskaparverðri. Og svo náttúrlega Grass: Beim Häuten der Zwiebel, fannst þetta raunar ekki mjög góður árgangur af kallinum, en ég er heldur ekkert svo óskaplega hrifinn af þessum síðustu verkum, er enn að reyna að lesa Ein weites Feld. Er núna kominn inn í verðlaunasöguna Die Habenichtse eftir Katharina Hacker, þá sem fékk þýska Bookerinn eins og oft er sagt, Deutscher Bücherpreis og finn gríðarlegan samhljóm með Auði Jóns og hennar Tryggðarpanti. Þetta er 9/11 with a continental twist. Svo má ekki gleyma Houllebecq, La possibilité d'une île. Það er stórkostleg bók. Ekki síst lokakaflarnir sem eru svo sláandi vonleysislegir um leið og þeir eru póetískir að maður fyllist kæruleysislegu en upphöfnu tómlæti andspænis óhjákvæmilegu hvarfi og dauða mannkynsins og tortímingu þess af eigin völdum - sem verða mun fyrr en seinna skv. Houllebecq.

Er ekki rétt að kveðja á þessum bjartsýnu nótum?


Bókin sem fréttamiðill

Ég heyri og sé að þeir sem fengið hafa bækur í jólagjöf eru byrjaðir að endurvarpa efni þeirra með íblöndun af eigin dómi. Ótrúlega margir virðast hafa komist í Óvini ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson nú um hátíðarnar; maðurinn sem með einum fyrirlestri innréttaði nýja vídd í samfélagsumræðuna. 

Hinir alltvitandi Páll Baldvin Baldvinsson og Illugi Jökulsson gáfu það út í blöðunum rétt fyrir Þollák að þeir teldu langbandið í bókinni kaldan óttann og deyfilyfin gegn honum vera að þeirra mati í lagi sem burðarás og það hefði líka verið í lagi að gefa hana út, þrátt fyrir að blöðin væru enn vot (nokkuð var kvartað undan bleytu í bókum þetta árið, það á sér víst tæknilegar skýringar þar sem rakastýrivél í vinnslusal prentsmiðjunnar Odda sem jafna á sveiflur í hita- og rakastigi andrúmsloftsins virkaði ekki sem skyldi; þannig á alllt sér skynsamlegar skýringar í alheiminum). Mér hefur verið sagt nú eftir jólalesturinn að Guðni sé "ákaflega efnilegur sagnfræðingur" og hann hafi alla burði til að verða "mikið átórítet". Eitt veit ég: Umfram marga menn hefur Guðni til að bera lifandi og ríka kímnigáfu sem þó dregur ekki úr öðrum meginmannkosti, sem er furðulegt nokk sjaldgæfur, og það er réttsýni. Eins og miðlar stórir og smáir bera ríkulegt vitni er fólk meira og minna "inni á línum" í sinni tjáningu og því nokkurn veginn ljóst hvað sagt verður áður en sagt er. Svokallað "vinstra fólk" og svokallað "hægra fólk" hefur hvorttveggju hvíslað í mín eyru að Guðni sé málpípa andhverfunnar, en mér sýnist hann einmitt þiggja sitt mikla "átórítet" (ekki skyldi maður forsmá þörf fólks fyrir átórítet) af því að hafa smokrað sér út úr hinum mikla línudansi þessa dvergþjóðfélags og komist í mátulega fjarlægð frá danskennurunum.

Það sem er hér athyglisvert er að hinn eiginlegi hlerunarþáttur, það sem dagmiðlarnir hafa mest hamast á og raunar af svo miklu offorsi að hlustirnar eru orðnar eilítið aumar, er í raun minnsti hluti þessar bókar og það sem gefur henni ekki hvað síst gildi er samhengið. Gleymdir þættir í andspyrnusögu okkar fá hér nýtt líf, ekki sem þættir af heilögum mönnum og blessuðum meyjum vinstri sinnaðrar frelsunarsögu, heldur sem viðspyrnendur í reiptogi valds og valdaleysis, hinu raunverulega samhengi sem andóf verður til í. Um leið fær maður skilning á valdinu sem nánast töfrandi fyrirbæri sem borið er uppi af tálsýnum og hitasótt, draumum og vonum. Manúveringar þess verða í sjálfu sér stórheillandi fyrirbæri, enda ganga víst nógu margir því á hönd af þeirri ástæðu einni.

Þetta samhengi er óskiljanlegt nema sem frásögn á bók. Fyrr á árinu sýndi Andri Snær Magnason að umræðuefni sem menn héldu að væri búið að segja um allt sem þyrfti að segja öðlaðist allt aðra stöðu um leið og búið var að setja málin í nýtt samhengi, setja viðfangsefnið fram í bókarformi. Viðtökur og áhugi almennings á þessum tveimur "umræðuverkum", jafn ólík og þau nú eru, sýnir í fyrsta lagi að það er hægt að nýta sér bókaformið til að koma nýjum hugmyndum að í "samfélagsumræðunni". Þær sýna líka að líklegast er bókin vanmetin sem fréttamiðill. Ein af húsviskum bókaútgafunnar hefur verið að "debattbækur seldust ekki", og að sönnu hefur það líka sannast, en alltof oft er litið svo á að bækur séu ekki sérstakur miðill, heldur miklu frekar einskonar safnhaugur. Lærdómurinn af þessum tveimur bókum er að ein besta leiðin til að koma á framfæri samhengi mála í samtímaumræðunni og jafnvel breyta henni algerlega er að skrifa um það bók. (Þetta var raunar líka skilningur dómnefndar Blaðamannafélags Íslands við síðustu úthlutun blaðamannaverðlauna þeirra.) En þá verða menn að taka þau mál skapandi tökum og aðgæta að bókin er ekki framlengd blaðagrein, safnþró eða stökkbreyttur fréttaskýringarþáttur. 


Áramót bókaútgáfunnar

Á miðnætti á Þorláksmessu lýkur bókaflóðinu. Þá er rennslið komið úr 700 rúmtitlum á sekúndu niður í eðlilega bókabunu og fólk getur gengið þurrum fótum yfir lækinn. Það má líkja þessu við vínuppskeru. Búið að tína þrúgurnar, pressa og gerja og setja á flöskur og nú má taka tappann úr. Vínsmakkarar hafa ferðast um sveitir með skrifblokkir og bragðlaukana vafða inn í loftbólupappír til að halda þeim frá hroðanum á meðan bragðað var á því helsta úr þessum árgangi: næturfrost snemma í september skemmdu krimmauppskeruna en fræðabókaekrunar nutu þess að borið var á þær snemma.

Sjálfur hef ég verið að stelast í ungvínin og fundið hitt og þetta til að smjatta á þótt ég sé raunar alltaf spenntastur fyrir óvæntum uppákomum í smakkmálum. Í ár er mikið framboð af bókum í flokknum "almenn rit", sumt af því gefið út í litlu upplagi fyrir fámennan hóp og algerlega án markaðsvinnslu og þessi skortur á kynningu dregur mig að þessu efni fremur en hitt. Til dæmis greinasafn um Brynjólf Skáholtsbiskup Sveinsson. Sérlega áhugverðar eru líka útgáfur Söguspekingastiftisins sem eru endurútgáfur gamalla prentaðara bóka (oftast reyndar) og fallegur vitnisburður um útgáfusögu okkar en innan fárra áratuga stendur íslensk prentsaga á hálfu árþúsundi.

Línur á markaðnum skýrðust nú í vikunni þegar Morgunblaðið birti sölulista Félagsvísindastofnunar. Ekki eru reyndar allar bókabúðir þar í hópi og sjálfsögðu hvorki bókaklúbbar né forlagssala, sem getur verið gríðarleg á þessum árstíma. En þarna eru allir stóru útsölustaðirnir og í raun öll almenn bóksala í landinu representeruð. Það er forvitnilegt að skoða þessa lista og mynstrið sem teiknast þar upp og nauðsynlegt fyrir þá vilja átta sig á útgáfulandslagi samtímans, smekk almennings og straumum og stefnum. Hér er smá bókhald yfir fyrirferð einstakra útgefenda á listanum. Tekið skal fram að það eru 50 sæti í boði í flokkunum: Íslensk og þýdd skáldverk, Íslensk og þýdd ljóð, Íslenskar og þýddar barna- og unglingabækur, Almennt efni og handbækur og Ævisögur og endurminningar:

  • Edda útgáfa - 17 sæti
  • JPV útgáfa - 15 sæti
  • Bjartur - 4 sæti
  • Útkall - 3 sæti
  • Hólar - 2 sæti
  • Nýhil - 2 sæti
  • Hagkaup - 1 sæti
  • Setberg - 1 sæti
  • Skjaldborg - 1 sæti
  • Skrudda - 1 sæti
  • Tindur - 1 sæti
  • Uppheimar - 1 sæti
  • Veröld - 1 sæti

Séu listarnir skoðaðir á þennan hátt sést að Edda og JPV bera höfuð og herðar yfir önnur útgáfufyrirtæki landsins á þessum vettvangi, og raunar er komið upp einskonar tvegga turna tal á jólamarkaði. Sé Bjartur undanskilinn nær samanlagður titlafjöldi allra hinna útgáfanna samt ekki að komast upp fyrir titlafjölda JPV. Sé aðallistinn skoðaður er hlutfallið í raun það sama. Þar er Edda með 5 titla, JPV með 3, Hagkaup 1 og Útkall 1. Þess ber náttúrlega að geta að Hagkaup er með mest seldu bókina þessi jólin, en Hagar lögðu gríðarlega áherslu á það að vera jafnfætis öðrum útgáfum í slagnum, þ.e. hvað varðar aðgengi allra neytenda að vörunni, og komu bókinni í sölu hjá Pennanum. Hef hins vegar ekki séð Eftirréttina í Bónus eða Krónunni. Sjálfsagt er árangur Útkalls á jólamarkaði merkilegastur. Mér telst til að þeir hafi gefið út þrjár bækur og þær er allar að finna á listunum. 100% árangur! Veröld getur líka verið tölfræðilega kát, útgáfan gaf út þrjár bækur í haust og er því samkvæmt þessu viðmiði með 33% árangur!

Mér sýnist að til að bók mælist á topp tíu á þessum lista verði hún að vera komin að minnsta kosti yfir 5000 eintök í dreifingu og "vera á skriði" eins og sagt er. Ég býst við að Hagar hafi prentað Eftirréttina í um 15.000 eintökum, kannski meira. Arnaldur var prentaður í 20.000 eintökum ef talin er með trade paperback útgáfa fyrir Leifsstöð. Ljósið í Djúpinu eftir Reyni Trausta var prentuð í 12.000 eintökum og er búin á lager útgáfunnar, sem er raunar með því mesta sem ævisaga hefur selst á seinni árum. Útkallið er á svipuðu róli, þetta 10-12.000 eintök; ferill þeirrar útgáfu er orðinn sérkafli í íslenskri útgáfusögu, stórmerkileg röð og ótrúlegar viðtökur, Óttar hlýtur að fara að fá orðu bráðum. Skipið eftir minn gamla góðvin Stefán Mána er eitthvað í kringum 10.000 eintökin að mér skilst sem er meiriháttar árangur hjá honum og skilar honum í nýtt tíðnisvið í stjörnukerfi íslenskra rithöfunda og Eragon lika, aðrir minna eins og sagt var í spurningakeppnunum hér í gamla daga. Þetta minna er á bilinu 8000-5000 eintök. Svo má náttúrlega ekki gleyma því að Draumaland Andra Snæs var uppselt þegar vertíðin byrjaði og þá voru búin 17.000 eintök. Hátíðarútgáfan er 1.000 eintök og mér skilst að hún hafi tekið vel við sér og klárast af lager. Það þýðir náttúrlega að Draumalandið er næst mestselda bók ársins 2006.

Þetta er massasala "by any standards" eins og útlendingurinn segir. Íslensk bókaútgáfa er í rokna gír þessi jólin.  


Stórbrotinn útgefandi í stappi við fjármagnseigendur

Eitt helsta mál útgáfubransans í hinum enskumælandi heimi um þessar mundir eru átök forlagsstýrunnar Judith Regan og yfirmanna hennar í fjölmiðlaveldi Roberts Murdochs; hinn misþokkaði útgáfukóngur þar með talinn. Þótt Regan sé ekki þekktur persónuleiki í hérlendum fjölmiðlakreðs hefur hún að mati jafnt hatursmanna og viðhlæjenda verið einn aðsópsmesti útgefandi Bandaríkjanna mörg undangengin ár og þokað þeim bransa enn lengra upp í kjöltuna á sjóbissnessinum og skandalpressunni en áður var talið gerlegt.

Fyrir tveimur árum innsiglaði hún tengsl þessa tveggja stólpa menningariðnaðarins með því að færa útgáfu sína, Regan Books, til Los Angeles frá New York, en þar er eins og kunnugt er miðstöð bókaútgáfu í Bandaríkjunum. Þetta imprint hefur verið sterk tekjueining innan HarperCollins útgáfunnar og hún hefur notið sérstakrar náðar í News Corp.-veldinu sem góðvinur Róberts sjálfs og fengið að valsa um allar hunda og katta grundir með tékkheftið.  Hún er heilinn á bak við bækur á borð við How To Make Love Like A Porn Star, æviminningar Jennu Jameson, og hún kom auga á útgáfupótensíal Michaels Moores áður en hann trylltist yfir ritskoðun Regan Books (forlagið gerði ítrekað kröfur um endurritun á viðkvæmum post 9/11 köflum eins og MM reifar í formála sínum að breskri útg. Karlanna) á Heimskum, hvítum körlum og fór yfir á Time Warner (sem nú er reyndar orðið franskt fyrirtæki, þannig að Moore er nú gefinn út af Evrópumönnum; hefnd heimsvæðingarinnar). Hún gerði líka útgáfusamninga við útvarpsmanninn Rush Limbaugh sem skrifaði tvær bækur um ævi sína og skoðanir snemma á 10. áratug 20. aldar, The Way Things Ought To Be, og I Told You So sem báðar komust í efsta sæti metsölulista NYT. Frá Regan Books hefur komið mikill straumur metseldra frægðarmennabóka og útgáfukatalóginn er í senn furðulegur og frumlegur, kaffiborðsbækur eftir fræga innanhússhönnuði innan um dramatískar skandalsögur og afhjúpanir, íþróttabækur eins og Kanar eru svo hrifnir af og svo patríótískar stríðsbækur í bland við hreinræktaða trylla.

En nú "skeit hún upp á bak" eins og Gillzenegger hefði orðað það. Bókin How I Did It, sem O.J. Simpson ritaði í félagi við draughöfund og fjallaði um hvernig hann hefði hugsanlega ráðið sáluga eiginkonu sína og ástmann hennar af dögum, þótti fara yfir mörk velsæmisins auk þess sem málsóknir af hálfu ættingja hinna látnu blöstu við. Murdoch þvoði hendur sínar, stöðvaði útgáfuna, rifti samningum og rak síðan frú Regan í lok vinnudags föstudaginn 16. des. Nú hefur lögfræðingur Regans boðað málsókn á hendur HarperCollins og News Corp. fyrir meiðyrði, en að sögn talsmanna HarperCollins á Regan að hafa sagt útgáfustjóra HarperCollins, Jane Friedmann, og fleiri gyðingættaða starfsmenn útgáfunnar hafa blásið til "júðsks samsæris" gegn sér. Judith blessunin á sér fáa fylgismenn á þessum erfiðu tímum því ekki hefur vantað á henni kjaftinn og hún látið flest flakka um kollegana og hina ölluráðandi agenta í áranna rás.

Án efa er það einhver snarbilaðasta útgáfuhugmynd allra tíma að fá mann sem sýknaður var í réttarhöldum af morðákæru til að skrifa bók um það hvernig hann hefði getað framið morðin. Og ekki nóg með það: Hún kom líka tveggja þátta sjónvarpsprógrammi um sama mál á koppin og var víst búin að landa kvikmyndaréttinum líka. Ég sæi íslenska útgefendur vera búna að blása í flesta sína herlúðra til að tilkynna slíka alslemmu í afleiddri réttindasölu. En þetta var of mikið fyrir fólk og nú veit enginn hvað verður um Regan Books. Kannski er það líka áminning um að fara varlega í nefna fyrirtæki í höfuðið á sjálfum sér. Enginn ræður jú sínum næturstað.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband