Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Klisjan um staðkvæmdarvöruna

Fjármálaráðherra bar á góma í síðustu færslu. Hann vekur athygli á því í Morgunblaðinu 20. mars að virðisaukaskattur á fleiri vörum en matvælum hafi lækkað þann 1. mars síðastliðinn. Hann nefnir þar húshitun og fjölmiðlaáskrift og svo náttúrlega bækur, en virðisaukaskattur á bókum lækkaði úr 14% í 7% þann dag.

Félag íslenskra bókaútgefenda kynnti þessa lækkun í tengslum við árlegan bókamarkað sinn sem hófst einmitt 1. mars og bóksalar og bókaútgefendur eru sammála um að lækkunin hafi skilað sér og borið árangur. Engar kvartanir hafi borist vegna þess að menn telji vanefndir hafa verið á lækkuninni. Þvert á móti hafi útgefendur lækkað bækur sínar meira en sem nam hreinni virðisaukaskattsprósentulækkun og rúnnað niður í næstu heilu tölu fyrir neðan. Þar sem fáir ef nokkrir hafa barist jafn mikið fyrir lækkun og helst afnámi virðisaukaskatts á sínar vörur og bókaútgefendur og höfundar væri það líka fullkomin vitleysa að láta þetta happ úr hendi sleppa.

Fjármálaráðherra vakti líka athygli á því að verð á hljómdiskum hefði lækkað úr 24% í 7%. Það ber að fagna þeirri ákvörðun, sérstaklega ef hún getur orðið til stuðnings íslenskum tónlistarmönnum á innanlandsmarkaði, en sjálfsagt er engin grein íslenskrar samtímamenningar sem hefur átt jafn alþjóðlega skírskotun og tónlistin. Nýja þjóðernisstoltið, hin nýja réttlæting þjóðernisins sem skapandi og sérstakt og framandi, hefur átt sína helstu stoð í tónlistinni þar sem íslensk Björk og Rós hafa vaxið í öllum hornum og átt "að vinum gamburmosa og stein" jafnt sem "aldintré með þunga og frjóva grein". Allar aðrar íslenskar listgreinar, þar á meðal bókmenntir, njóta góðs af þessu og geta með jákvæðum hætti stýrt ímynd sinni og markaðssetningu á alþjóðavettvangi með hliðsjón af jákvæðum straumum úr tónlistargeiranum.

En réttlætingin fyrir þessari ákvörðun eins og hún birtist í pistli fjármálaráðherra sem og í athugasemdum sem fylgja lögum um afnám vörugjalda og lækkun virðisaukaskatts kemur bókaútgefendum ákaflega spánskt fyrir sjónir. Í athugasemdunum við 3. gr. laganna segir orðrétt:

Í c-lið ákvæðisins er lagt til að virðisaukaskattur á geisladiska, hljómplötur og segulbönd með tónlist verði 7%. Er það gert til að jafna samkeppnisstöðu tónlistarútgefenda við bóka- og tímaritaútgefendur en bent hefur verið á að geisladiskar með tónlist séu staðkvæmdarvara við bækur og tímarit og því óeðlilegt að önnur varan beri 24,5% virðisaukaskatt en hin 7%.

Þessi orð bergmálar svo fjármálaráðherra í greininni í Morgunblaðinu.

Mér vitanlega eru engar markaðsrannsóknir til sem styðja þessa fullyrðingu. Aldrei hefur farið fram nákvæm rannsókn á því hvort tónlist sé staðkvæmdarvara fyrir bækur, eða þá aðra vöruflokka á borð við DVD myndir, sem ég held að hljóti að vera "eðlilegri" staðkvæmdarvara ef maður er á höttunum eftir diski hvort eð er. Sem og tölvuleikir eða önnur rafræn skemmtan sem öll mun áfram bera 24% virðisaukaskatt þrátt fyrir andmæli, t.d. hafa kvikmyndagerðarmenn verið ósáttir við að DVD-útgáfur íslenskra kvikmynda skuli ekki fá að fylgja geisladiskunum eftir. Þeir byggja sína röksemd á því að geisladiskar séu staðkvæmdarvara fyrir DVD-diska, þannig að ormurinn lengist stöðugt.

Í raun skiptir engu hvort bækur eru staðkvæmdarvara fyrir geisladiska og öfugt. Ég hef áður sagt og stend við það að samkeppnin þarna á milli sé óveruleg og fari aðallega fram í hausnum á talsmönnum hljómplötuútgefenda sem horfa nú á gjörbreytta neysluhætti á tónlist og eru að reyna að bregðast við því með einhverju móti. Sá sem er tilbúinn til að greiða 3000-4000 kr. fyrir bók til gjafa er ekki á höttunum eftir geisladiski. Ég þekki engan sem hugsar með sér: Hvort ætti ég fremjr að kaupa tímarit eða geisladisk í dag? Þetta er ekki spurning um hvort ég ætla að eyða 1500 kr. í léttan hádegisverð og latte í dag eða fá mér kilju að lesa. Neytendur haga sér ekki þannig.

Þetta er hins vegar óstaðfestur heilaspuni í mér. Enn liggja engar rannsóknir á hegðan þeirra sem neyta menningarvöru og á meðan er svona frasar, eins og þeir sem sömdu athugasemdir við frumvarp til laga nr. 175/2006 um afnám vörugjalda og lækkunar virðisaukaskatts bera á borð fyrir mann, ekkert annað en það sem það þeir eru: Heilaspuni. Ég vona að ráðherrar og aðrir mætir menn hætti að bera þessa gerviréttlætingu á borð fyrir okkur.


Sjáiði veisluna

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra gladdi okkur Viðvíkursveitarmenn á laugardaginn þegar hann kvaddi Bjössa á Hofstöðum sér til stuðnings í kröppum dansi og ljáði fleygum orðum hans - "Sjáið þið ekki veisluna, drengir!" - nýjan svifkraft. Mér hefur alltaf verið sagt að Árni hafi sjálfur verið viðstaddur þegar Björn Runólfsson, hrossabóndi á Hofstöðum í Skagafirði, mælti þessi orð yfir borðum og að gikkirnir sem þeim var beint að hafi verið förunautar Árna.

Þegar gengi Bjössa var hvað hæst og hann átti enn fjör og kraft til að láta eldlegar gáfur leiftra voru Hofstaðir vinsæll samkomustaður mektarmanna úr Reykjavík. Þangað komu hrossamenn og grósserar úr höfuðstaðnum til að skemmta sér á góðum stundum og margir bundust honum tryggðarböndum og áttu þar samastað á ferðum sínum. Hæst bar þó skemmtanina þegar Björn hafði sín kunnu "paról". Þau voru ógleymanleg öllum þeim sem á hlýddu og náðu venjulega að lyftast mest þegar Bjössi settist við orgelið. En "parólin" gátu raunar einnig farið kyrrlátar fram. Þau gátu dúkkað upp utan annatíma grósseranna þegar Björn settist niður og viðhafði einskonar sókratískt samtal þar sem hann reyndi kenningar sínar um manneðið og lífið á jörðinni á áheyrendum sínum sem ýmist fussuðu eða glottu. Nágrannar voru kannski ekki jafn uppnæmir yfir stórmerkilegum hugmyndum og utansveitarfólk.

Hrossabúskapur hefur alltaf verið að því marki ólíkur öðrum bústörfum að hann felur í sér stöðuga sölumennsku. Kúabóndinn er með skilgreinda afurð á sínum snærum: mjólk. Hún er keypt af afurðastöð og svo er það komið undir skriffinnskunni og búmannshæfileikum hvernig tekst að tosa saman kvóta, erfðir, fóður og vinnu í eina afraksturstaug. Kúabóndinn þarf hins vegar aldrei að láta reyna á hæfileika sína í markaðsmálum. Það eru aðrir sem selja. En sá sem stundar hrossabúskap þarf að kunna skil á því að setja upp sjóv. Núna geta menn raunar látið tölfræði, blurp og hrossasundlaugar vinna verkin fyrir sig. En Bjössi var ekki upp á sitt besta á þeirri öld. Hann var í blóma á því skeiði þegar töfrar seldu hesta. Hann kunni að halda fallegum hryssum undir góða klára og vissi hvernig ættirnar röktu sig áfram sinn genetíska veg. En það sem gerði útslagið í sölutækninni var ekki hæfileikinn til að ryðja upp úr sér byggingardómum og ættbókarnúmerum, heldur "parólið" og orgelspilið í hinni hálfbyggðu höll á Hofstöðum þar sem hann velti stundum fyrir sér að setja upp bensínstöð "og græða ógurlega", eins og hann sagði með sinni vinalegu og djúpu rödd með langa seimnum og lyfti kannski vísifingri í leiðinni. Sá sem breytir lífi gestsins í stöðugt undur á létt með að lokka að sér fleiri og þegar gesturinn er á höttunum eftir fallegum klár eða góðri meri þá eru viðskiptin ekki viðskipti, heldur einfalt afgreiðslumál sem eiginlega er bara hluti af gríninu. Hrossabændurnir gömlu hefðu farið létt með að selja Zero kók án þess að nokkur hefði tekið eftir viðskiptunum.

Það mun hafa verið "paról" á boðstólum þegar núverandi fjármálaráðherra átti leið um Skagafjörð í góðra vina hópi. Þeir rekast á Björn sem sagði þeim að koma við á Hofstöðum "þar væri ógurleg veisla". Veisluföngin voru hins vegar ekki önnur en nokkuð ótæpilegt magn af brenndum vínum, í sumum sögugerðum var það víst bara landi, og kex og fannst sunnanmönnum þeir vera sviknir um dýrðlegan fagnað. Sveiflaði þá Hofstaðabóndinn hönd fislétt en ákveðið yfir flöskur og beinakex og sagði með þjósti: "Sjáið þið ekki veisluna, drengir!"

Frekari vitna þurfti víst ekki við.


Bókmenntasjóður

Um kvöldmatarleytið á laugardaginn samþykkti Alþingi ný bókmenntalög. Þar með er langþráðum áfanga í endurskipulagningu opinbers stuðnings við bókaútgáfuna náð. Með lögunum er þremur sjóðum steypt saman í einn: menningarsjóði, þýðingarsjóði og bókmenntakynningarsjóði. Í stað þess að ákvarðanir um útdeilingu á opinberum fjármunum séu í höndum ólíkra sjóðsstjórna, sem illmögulegt var á stundum að skilja á hvaða forsendum deildu út fénu, á að taka til starfa ein öflug stjórn bókmenntasjóðs. Hennar hlutverk verður að marka stefnu í stuðningi við bókmenningu og bókaútgáfu til þriggja ára í senn.

Að vísu er heimanmundurinn rýr. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir neinni stórbrotinni hækkun á fjármunum til sjóðsins umfram það sem rann í sjóðina þrjá áður. En fögur loforð fylgja nefndaráliti mennamálanefndar auk þess sem því eru gerðir skórnir í athugasemdum með frumvarpinu að vel megi sjá fyrir sér að það fé sem nú rennur til styrktar bókaútgáfu í ýmsum ráðuneytum geti átt þarna heima.

Þess ber líka að gæta að opnað er fyrir þátttöku einkaaðila í stuðningi við þennan málaflokk sem er mikilvægt.

Okkar bíða margvísleg verkefni sem von er til að bókmenntasjóður geti stutt við bakið á. Nóg að nefna hér eitt: útflutning íslenskra bókmennta og íslenskra rita almennt.

Bókmenntakynningarsjóður er algjörlega vanburða eins og hann er nú. Takmarkaðir fjármunir hans hrökkva rétt til reksturs á skrifstofu sem á sér svo ekki einu sinni heimasíðu. Hann einfaldlega virkar ekki sem bakland fyrir sölu á réttindum íslenskra bóka erlendis og hefur ekki tekist að sinna nógu vel hlutverki sínu sem kynningarmiðstöðvar fyrir íslenskar samtímabókmenntir og samtímabókmenningu. Á meðan erum við í blússandi samkeppni við gríðaröflugar bókmenntakynningamiðstöðvar nágrannalandanna sem hafa dælt styrkjum og stuðningi út um allar jarðir. Hér verða nýju bókmenntalögin vonandi til þess að hleypa nýju lífi og styrk í þennan mikilvæga málaflokk. Fyrst ímynd Íslands tengist menningu og bókmenntum jafn lítið og haldið er fram þá er kominn tími til að taka af sér vettlingana.


Fjórtán ára

Í nýjustu skáldsögu sinni Möguleiki á eyju orðar Houellebecq vel eitt líflegasta hneykslunarefnið þessa dagana: Miðpunktur kynferðislegrar löngunar okkar daga eru fjórtán ára stúlkur. Þess vegna verða vestræn samfélög að verja þær með öllum ráðum, þess vegna er líka löngunin eftir þeim glæpsamleg. Þær eru æðsta takmark kynferðislegrar þrár en um leið algerlega forboðnar. Menning vestrænna samfélaga veltir sér upp úr táknmyndum hins kynferðislega á mörkum bernsku og fullorðinsára. Um leið er eytt gríðarlegum kröftum í að skilgreina þá sem eru á þeim aldri sem börn, velta sér upp úr kynferðisglæpum og marka þá sem fremja slíka glæpi sem sjúklegt fólk. Það er hins vegar ekki lengra síðan en svo, að ég man eftir því sem strákur að stelpur á þessum aldri, jafnvel jafnöldrur mínar, voru með sér miklu eldri mönnum og þótti ekki tiltökumál. Á aðeins 20-30 árum hefur þetta hins vegar gjörbreyst. Unglingsstúlkan er nú dularfullt sprengjusvæði kynóranna og hneykslunarinnar. Þráin eftir henni er tabúíseruð sem aldrei fyrr og verður um leið að kollektífu móðursýkisástandi. Fólk sér árásir á ímyndað sakleysi bernskunnar í hverju horni og blandar því grimmt saman við raunverulega glæpi og býr til skýrt kerfi útilokunar, útlegðar og úthrópunar. Þetta eru merkilegir tímar sem við lifum á.

En aftur að Michel Houellebecq. Í öllum sínum verkum skoðar hann, greinir og segir frá þessum tvístringi í vestrænni menningu. Hvernig kynferðismálin hafa þróast og hvernig þau draga dám af þróun efnahagskerfisins. Hann er sögulegur efnishyggjumaður í gamla stílnum, saga framleiðslunnar og efnahagsins verður alltaf að sögu hugmyndanna, eitt er aldrei aðskilið frá öðru. Þetta er gott að hafa í huga í núverandi klámumræðu. Hún fer fram í sögulegu tómarúmi, rétt eins og viðmiðin séu óbreytanleg og hafi alltaf verið fyrir hendi, og þetta gengur jafnt yfir alla. Bæði þá sem eru í afneituninni og láta eins og vestræn menning samtímans sé á einhvern hátt ósnortin af valdaafstæðum og verða voðalega hissa og vilja spangóla uppi á fjöllum ef einhver minnist á klám. En líka yfir hina sem upphefja táknmyndir þrárinnar í nornaveiðunum og greina þær með orðfæri sem stundum minnir á pervertisma dómara hjá rannsóknarréttinum.

Í fyrstu bók sinni sem því miður hefur ekki verið enn þýdd á íslensku, Útbreiðsla baráttunnar (Extension du domaine de la lutte), er brilljant kafli þar sem Houellebecq teflir einmitt saman kynlífi og efnahag í mögnuðum dansi (hér frjálslega þýtt):

Það er algerlega skýrt að í samfélögum okkar er kynlífið annað helsta kerfi mismununar, sem þó er óháð efnahagskerfinu þótt það sé alveg jafn miskunnarlaust í mismunun sinni og það. Afleiðingar beggja kerfanna eru í einu og öllu sambærilegar. Líkt og óheft efnahagsleg frjálshyggja hefur frjálslyndi í kynferðismálum hvarvetna alið af sér algera örbirgð. Sumir gera það alla daga, sumir fimm til sex sinnum alla sína ævi, sumir aldrei. Sumir njóta ásta með tugum kvenna, aðrir njóta aldrei ásta. Hér er að verki það sem kallað er "lögmál markaðarins". Innan efnahagskerfis þar sem atvinnuþáttaka er öllum tryggð, tekst öllum að finna sér farborða með einum eða öðrum hætti. Innan kynlífskerfis þar sem framhjáhald er bannað, tekst öllum að finna sér rekkjufélaga. En í algerlega frjálsu markaðshagkerfi sanka örfáir að sér gríðarlegum fjármunum, hinir veslast upp atvinnulausir og févana. Í algerlega frjálsu kynlífskerfi tekst örfáum að lífa stórbrotnu og fjölbreyttu kynlífi, hinir eru dæmdir til einveru og sjálfsfróunar. Efnahagskerfi frjálshyggjunnar breiðir baráttuna út, það þenur hana út yfir alla aldurshópa, allar stéttir. Á sama hátt breiðir frjálslyndi í kynferðismálum baráttuna út, það þenur hana út yfir alla aldurshópa, allar stéttir.

 

 


Líflegur bókamarkaður

Hurðum að bókamarkaði Félags íslenskra bókaútgefenda var hrundið upp fyrir almenningi nú á fimmtudaginn og hann fór strax vel af stað. Það er ótrúlega skemmtileg stemmning á markaðnum, háir gluggar Perlunnar varpa inn birtunni, fólk grúfir sig yfir bækurnar með stórar innkaupakerrur í eftirdragi og bókstaflega mokar bókunum í þær. Starfsmenn markaðarins eru á þönum við að finna til bækur og bæta á og raða upp á nýtt og annað slagið er lágvært skraf viðskiptavinanna rofið með gjálfrinu í innanhúsgosbrunni Perlunnar.

Ég var góða stund á markaðnum bæði á fimmtudaginn og í dag föstudag og það var einhver upphafin stemmning í loftinu, fólk rólegt og yfirvegað og rýndi í úrvalið. Þetta er líka góður staður til að hitta rithöfunda. Þarna voru Bragi Ólafsson, Steinar Bragi, Jón Kalman Stefánsson, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Kristján Hreinsson, Stefán Máni og sjálfsagt miklu fleiri sem mér auðnaðist ekki að sjá eða frétta af. Þarna voru þekktir bókagrúskarar og kátir karlar eins og Egill Helgason sem ferðaðist um í fylgd með myndatökumanni.

Sjálfur keypti ég svolítið af bókum, Ljóðmæli Hallgríms Péturssonar í hinni vísindalegu útgáfu Margrétar Eggertsdóttur og félaga á Árnastofnun og sölumennirnir frá bókaforlögunum hlógu mikið að mér fyrir nördismann. Svo voru þarna mónógrafíur Þjóðminjasafnsins um íslenska ljósmyndara á ágætis verði og ég sló til og keypti þær allar, bækur um Ólaf Magnússon, Sigríði Zoëga og Loft Guðmundsson. Fallegar litlar og gullfallegar bækur. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband