Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Lýðræði án stjórnmálaflokka

Undirbúningurinn fyrir alþingiskosningarnar í vor sýnir vel að einstaklingshagsmunir eru mál málanna í dag. Heildarstefna stjórnmálaflokks í öllum mögulegum og ómögulegum málum er á hverfanda hveli. Hvers vegna þurfum við yfirleitt stjórnmálaflokka? Gera þeir líf mitt betra? Hvernig hjálpar það mér að setja bara eitt X á seðil, þegar ég augljóslega myndi vilja raða saman mínu persónulega prógrammi líkt og ég myndi hlaða lögum inn á iPod? Er þetta kerfi ekki alveg óskaplega 20. aldarlegt, so last age?

Einmitt slíkum spurningum reynir þýski rithöfundurinn Juli Zeh að svara í verkefni sem hún vinnur að þessi misserin. Markmiðið er hvorki meira né minna en að skrifa stjórnskipunarkenningu fyrir lýðræðissamfélög 21. aldar þar sem stóru límtúburnar - fjölskyldan, föðurlandið, kirkjan, herinn - eru ekki lengur með tonnatak sitt á borgurunum. Hún hefur komið fram í nokkrum viðtölum undanfarna mánuði í þýskum fjölmiðlum og reifað lítillega þessar hugmyndir sínar um "lýðræði án flokka". Þær eru allrar athygli virði nú þegar við horfum upp á flokka vaxa og hrynja, sérhagsmunaframboð fæðast og kaffið klárast á könnunni.

Juli Zeh er ung kona, fædd árið 1974. Hún er frá Bonn en nam í Leipzig og er útskrifuð úr hinum fræga rithöfundaskóla þar í borg, Deutsches Literaturinstitut, en einnig útskrifaður lögfræðingur og er með málflutningsréttindi, varð reyndar efst í sínum árangi í Saxlandi. Hún sérhæfði sig í þjóðarrétti og kom að rannsókn á stríðsglæpum í Bosníu. Hefur reyndar skrifað mjög áhrifamikla ferðabók um ferðir sínar um Balkanskaga. Hún gaf út sína fyrstu skáldsögu, Örn og engill (Adler und Engel) árið 2001 og sló í gegn, bókin hefur verið þýdd á um 30 þjóðtungur. Hún hefur skrifað bók um rétt ríkja til að ganga í Evrópusambandið og skáldsöguna Leikþörf (Spieltrieb) sem kom út árið 2004, þar sem hún fjallar meðal annars um siðferðislegar spurningar um leikreglur nútíma lýðræðis.

Rithöfundar ættu að finna hjá sér stöðuga skyldu til að hugsa samfélagið og hætti þess algerlega upp á nýtt. Fræðimenn eru bundnir styrkjum, hagsmunum og kennslu við menntastofnanir. Rithöfundar skulda ekki neinum neitt. Þeir eru alfrjálsir, sérstaklega þeir sem núna voru að fá starfslaun. Juli Zeh tók þetta frelsi á orðinu og teiknar upp stjórnmálakerfi sem samsvarar þróun evrópskra samfélaga. Hún bendir jafnframt á að það sé engin von til þess að slíkar breytingar verði teknar til umræðu innan þess kerfis sem nú er við lýði. Það muni verjast öllum tilraunum til breytinga með kjafti og klóm, það muni spyrna við þeim fótum, gera þær hlægilegar, bola þeim burt, eyða þeim úr umræðunni. Það er eðli kerfa að hræðast breytingar og ekkert til að hafa áhyggjur af, þannig séð.

Í viðtali sem Welt am Sonntag tók við hana nú í haust segir hún þetta:

Ég er ekki á móti grundvallarreglunni um aðskilnað valdsviða ríkisins. Ég er ekki á móti grundvallarhugmyndum lýðræðisins. Hins vegar eru ótalmargar leiðir til að útfæra þær og megnið af þeim hafa aldrei verið reyndar, né hefur fólk árætt að hugsa þessar leiðir áfram. Vangaveltur mínar og tillögur snúast því um þetta: Ég sé vel fyrir mér lýðræðisríki án stjórnmálaflokka. Ég sé fyrir mér kjörseðil þar sem maður þarf ekki að kjósa stefnu, stóran stefnupakka, heldur getur tekið afstöðu til fjölbreyttra stefnumála sem hólfuð eru niður á kjörseðlinum eftir sviðum.

Og í hennar augum er lýðræðisskipulagið í evrópskum löndum statt í djúpri krísu:

Mikilvægasti samkomustaður þeirra sem hafa líka hagsmuni og vilja verja þá í lýðræðissamfélaginu hefur verið stjórnmálaflokkurinn. Þegar stéttir riðlast, þegar aldagömlum valdastofnunum á borð við kirkju og fjölskyldu hnignar og þegar fólki finnst það fjarlægjast "samkrull" stefnumála innan flokkanna vegna þess að það sem einstaklingar nær ekki að tengja sig þeim fjölmörgu og eðlisólíku stefnumiðum sem stjórnmálaflokkar eru að reyna að hýsa undir einu þaki, þá hlýtur fulltrúalýðræðið að missa gildi sitt.

Þeir sem ekki lesa þýsku geta gluggað í skáldsöguna Eagle and Angel eftir Zeh. Hún fékkst hér í Eymundsson við Laugaveg síðast þegar ég vissi.


Að iðrast nóg

Á forsíðu Blaðsins í dag segist Árni Johnsen halda að hann hafi iðrast nóg. Líklegast er það vegna þess að ég er þessa dagana að lesa skáldskap frá 16. og 17. öld að þessi orð stungu mig. Það sem skáldum á þessum tíma lá einna helst á hjarta var einmitt hitt: að maðurinn fengi aldrei iðrast nóg.

Ég þykist gruna að Árni sé með orðum sínum að vísa til þeirra ummæla formanns Sjálfstæðisflokksins að Árni yrði að iðrast verka sinna. Þar talaði Geir Haarde eins og hann væri skáld frá 17. öld. Refsingin sem hin veraldlegu yfirvöld leggja á líkama Árna með því að hindra frelsi hans, koma honum undir manna hendur, er ekki refsing í sjálfu sér, heldur tilefni til andlegra umskipta. Bregðist þessi "endurfæðing" á refsitímanum, er refsingin í raun misheppnuð. Því beri hinum brotlega að iðrast. Þetta er nokkuð "árnýaldarlegur" skilningur á hlutverki refsingarinnar. Endurhæfingin sem felst í líkamlegri refsingu er náttúrlega aldrei tryggð, þess vegna er líka víða um lönd reynt að nota refsitímann til "innrætingar" á nýjum skoðunum og þykir raunar ekki alltaf mannúðlegt. Þegar ég velti því fyrir mér veit ég raunar ekkert um hvernig þessu er háttað í fangelsum hérlendis: Eru kannski allir settir í einhverskonar iðrunar- og endurhæfingarkúrsa? Ég held raunar ekki.

Raunar er Árni líka mjög "árnýaldarlegur" í orðum sínum. Hann hefur kórréttan lúterskan skilning á eðli iðrunarinnar og segir réttilega að menn hafi ekki tök á því að leggja mat á iðrunina. Aðeins Guð getur tekið á móti iðruninni og hún hefur ekkert gildi nema sem iðrun gagnvart Guði. Skiptiborð mannsins og Guðs, samviskan, er síðan hinn endinn á þessum skilningsspíral. Það er í samtalinu við samviskuna sem hann metur umfang iðrunarinnar. Hér heggur Árni raunar á ákveðinn óvissuhnút þar sem fæstir sem stungu niður penna á 16. og 17. voru vissir um hvenær iðrunin hætti; hvenær væri komið nóg.

Það er gaman að verða vitni að því hve sterk ítök lútersk hugmyndafræði á í hugsun okkar um glæpi og refsingu og hlutverk iðrunarinnar. Það er eins og við búum ekki við veraldlegt réttarkerfi þar sem Ríkið hefur ekkert að segja um andlega stöðu sakamanna, heldur lætur það eitt nægja að brotamenn teki út refsingu sína. Við búum enn við Stóradóm þar sem hlutverk laganna er að tyfta þjóðina með tilvísun til Mósebóka. Þetta offors hellist síðan yfir þegar fólk fer að tala um tískusakamenn dagsins: kynferðisglæpamenn.

En fyrir áhugafólk um iðrun bendi ég á frábæra útgáfu þess mikla fjölfræðings og alhliða fræðimanns Jóns Torfasonar (maður sem hefur gefið út Gísla Konráðsson og Guðbrand Þorláksson og sett saman rit um íslenska refinn og er nú víst búinn að leggja lokahönd á nýjustu ferðafélagsbókina um hið algerlega vanmetna hérað Austur-Húnavatnssýslu - snillingur) og sveitunga míns og nafna Kristjáns Eiríkssonar á Vísnabókinni 1612, sem þeir kalla Vísnabók Guðbrands og Bókmenntafræðistofnun gaf út árið 2000. Þar er að finna mikið og aðgengilegt magn kvæða þar sem iðrunin kemur mjög við sögu.

Eitt af þeim er eftir Magnús Ólafsson í Laufási sem var einn helsti mektarprestur og gáfumaður sinnar tíðar og einstaklega vel að sér í skáldskaparfræðum. Í einu kunnasta kvæði siðskiptatímans, Klögun af þremur sálar óvinum, holdi, heimi og djöfli ákallar skáldið Jesú (læknirinn) og vonar að "hyggju múr", hugurinn, geti haldið iðraninni sjóðheitri sem allra allra lengst:

Bíð eg mér drífi brjósti úr / blundinn dauða læknir trúr, / heitri kunni hyggju múr / halda iðran lengi. / Visku augu verki hrein / vondan ár og holdsins mein, / héðan í frá með hreysti grein / hatað ríkt eg fengi. / Herrann öllum hjálpa lýð, / svo helvískt níð / hreppi minna gengi.

 


Á íslenskan möguleika sem rafrænt útgáfumál?

Síðustu tvö ár hefur allt logað vegna áforma Google um að skanna inn bókakost nokkurra stórra bókasafna og bjóða netnotendum upp á að leita í bókunum eftir efnisorðum og lesa síðan sér að kostnaðarlausu stutt brot úr viðkomandi verki. Að sjálfsögðu tekur þessi innskönnun, eða stafræn endurgerð eins og þetta er lika nefnt, til verka sem eru höfundarréttarvarin.

Aðferðin sem Google beitir er sú að skanna fyrst og spyrja svo. Höfundarrétthafar eru ekki beðnir um leyfi, né gerðir við þá samningar um stafræna endurgerð og birtingu á netinu, heldur stendur fyrirtækið þannig að málum að þeir sem ráða yfir höfundarrétti hafa samband við Google og semja við fyrirtækið um leiðir til að hagnast af þjónustunni, nú eða þá banna birtingu verka sinna, eftir að þau hafa verið skönnuð inn og gerð, amk. að hluta, aðgengileg á netinu. Þetta þýðir í raun að grundvallarreglunni um hvernig staðið er að nýtingu höfundarréttar er snúið á haus. Í stað þess að útgefandi leiti til höfundarrétthafa og semji við hann um afnot af verkum hans, hyggst Google standa þannig að málum að það sé í verkahring höfundar að leita til fyrirtækisins sem þegar hefur gefið út verk höfundarins um leyfisveitingar og almenna samningagerð eftir á. Það væri óskaplega auðvelt að vera bókaútgefandi væri málum þannig háttað. Hvaða jólasveinn sem er gæti því gefið út t.d. bækur Arnaldar Indriðasonar, selt þær og svo bara séð til hvort höfundur eða upprunalegur útgefandi hans semdu við hann um réttinn til útgáfu. Allir sjá að meginhugsunin að baki útgáfu og gæslu höfundarréttar er komin hér í talsvert uppnám.

Því standa nú fyrir dyrum málaferli í Bandaríkjunum þar sem samtök bandarískra höfunda, Authors Guild, sem og hópur nokkurra stórra útgefenda kæra Google fyrir brot á höfundarréttarlögum. Eins og nærri má geta eru þetta viðamikil málaferli sem enn eru á umsagnarstigi. Á síðasta ári hættu þýskir útgefendur við málshöfðum á hendur Google þar sem grundvöllur þeirra til málshöfðunar var ekki talinn nógu sterkur. Hins vegar tapaði Google máli fyrir belgískum dómstóli þar sem blaða- og tímaritaútgefendur fengu því áorkað að sá möguleiki að Google að leita í efnisveitum blaðanna án samþykkis útgefenda var úrskurðaður ólöglegur. IPA, alþjóðasamtök útgefenda, beita sér nú fyrir því að koma á koppinn ókeypis veflausn sem gerir inngrip leitarvéla á efnisveitur blaða og bókaútgefenda gegnsærri en nú er og háða leyfisveitingu útgefenda.

Google bendir á að þeir séu ekki að gefa út bækurnar, heldur aðeins að birta lítið brot úr bókunum og að þetta brot tengist efnisleit eftir stikkorðum. Vilji menn lesa allan textann verði þeir að kaupa verkið og Google bjóði upp á þá þjónustu að leiða menn áfram uns þeim áfanga er náð. Margir sem velta þessum málum fyrir sér eru á því að þessi leið sé rétt og góð. Allir hagnist. Neytendur kynnist margskonar verkum og margskonar upplýsingum sem þeir annars hefðu aldrei haft veður af. Google skaði engan með því að búa til nýjar leiðarlýsingar fyrir Gutenberg-stjarnkerfið eins og McLuhan kallaði upplýsingakerfi Bókarinnar, þessa ótrúlegu og mögnuðu veröld sem hefur verið að hlaðast upp og vaxa síðan um 1470.

Aðrir, fyrst og fremt Evrópubúar, en einkum þó Frakkar, eru hins vegar á því að þetta snúist ekki aðeins um útópíu upplýsingaflæðis, að allir, frá Ulaan Bator til Úlfdala, geti nálgast heimsbókasafnið á netinu og síðan bara pantað bækurnar sem þeim líkar á hjá Amazon. Frakkar og raunar fleiri stórar Evrópuþjóðir, sjá í Google-væðingunni skýrt dæmi um að frá sjónarhóli Google, Amazon, Sony og annara slíkra fyrirtækja sé texti það sama og enskur texti. Önnur tungumál séu í raun ekki inn í myndinni, jafnvel þótt fjöldi texta á öðrum tungumálum en ensku verði skannaður inn, því Google hefur gert samninga við bókasöfn háskóla á borð við Harvard, Stanford, Columbia og Oxford. Frakkar hafa hleypt af stokkunum innskönnunarverkefni á vegum franska þjóðarbókasafnsins sem ætlað er að veita aðgang að frönskum textum. Hvernig það módel verður útfært í viðskiptalegum tilgangi er hins vegar óljóst, markmiðið er fyrst og fremst menningarpólitískt: Að Frakkar séu ekki komnir upp á Google um aðgang að frönskum textum á netinu.

Google Book Search heldur hins vegar áfram á fullu spani. Nú 18. janúar var haldin viðskiptaráðstefna í New York þar sem Google boðaði fulltrúa um 400 útgefenda af enska málsvæðinu á sinn fund til að kynna þeim fyrirætlanir sínar. Google lítur svo á að samningar við nokkra stærstu útgefendur Bandaríkjanna og Bretlands náist brátt og þá verði hægt að skoða og lesa heila texta á Google Book Search. Þetta verði þó aðeins hægt gegn gjaldi en um leið verði líka hægt að hala textana niður á þau tæki sem í boði eru til þess arna. Google ætlar sér með öðrum orðum að verða iTunes búð alheimsins. Þar verði textar til sölu og sú sala færi höfundum og útgefendum tekjur, að því tilskyldu að góð vörn finnist eða DRM tæknin (Digital Rights Management) sé ásættanleg.

Nú er það raunar svo að markaður fyrir rafrænar bækur er agnarsmár. Samtök bandarískra útgefenda, AAP, létu gera könnun á heildarhlutdeild sölu á öllum rafrænum bókum, efnisveituáskrift að uppsláttarverkum og handbókum meðtalin. Árið 2005 nam salan 0,5% af heildarveltu bandaríska bókabransans, eða sem samsvaraði 12 milljónum dala. Allur bransinn halaði inn 25 milljarða. Allir fjölmiðlaspegúlantar eru sammála um að enn hafi enginn markaður í líkingu við iPod markaðinn opnast fyrir rafræna texta. Neytendur sækist að vísu eftir uppsláttarverkum, upplýsingaveitum og handbókum á rafrænu formi og að líkindum muni kennslubókaútgáfa og handbókaútgáfa færast í æ meira mæli í rafrænt horf, en enn sem komið er fari fólk ekki upp í rúm á kvöldin með kjöltutölvuna eða Sony Readerinn sinn og lesi skáldsögu af skjá. Sumir segja að það verði hreinlega aldrei. Þarna eigi hinn stafræni heimur einfaldlega ekki við.

En á meðan öllu þessu vindur fram heldur Google áfram að veðja á stafræna framtíð bóklesturs og upplýsingageymslu. En það gera svo sem líka flestar þjóðarbókhlöður Evrópu, þar með talin sú íslenska. Stafræn endurgerð prentaðra texta er alls staðar á dagskrá. Sem leiðir hugann að því hvernig staða lítilla þjóðtungna verður í þessu rafræna umhverfi sem er að svo miklu leyti stjórnað af enskumælandi hagsmunum. Til að mynda er vita vonlaust fyrir Íslendinga að sjá rafræna gerð sinna helstu bókgersema í Sony Readernum. Aðeins er hægt að kaupa þar bækur á ensku og það er aðeins hægt að kaupa þær fyrir Bandaríkjamarkað. Öll sala fer í gegnum eina veitu sem rekin er af Sony, Connect, og notað sama módel hjá iTunes búðinni. Þetta sama gildir raunar einnig um hljóðbækur. Jafnvel þótt svo ólíklega vildi til að stærstu eigendur hljóðefnis á Íslandi, RÚV og Blindrabókasafnið, tækju höndum saman við einhvern um að búa nú öllum þessum gersemum og góðmeti stað á netinu þar sem hægt væri að hlusta á Halldór Laxness lesa Brekkukotsannál, Ingvar E. Sigurðsson lesa Mýrina osfrv. þá yrði aldrei hægt að koma þessu efni að á iTunes eða audiobooks.com, þetta væri of lítið snitti til þess eða þá að ekki mætti veita markaðsaðgang hérlendis. Jafnvel þótt Sykurmolarnir fáist á iTunes er Halldór Kiljan ekki sama hittið gagnvart íslenskuómæltum heimi.

Ef þessi mál verða ekki tekin föstum tökum á næstu misserum og kraftar hér samstilltir getum við vaknað upp við það vonda draum að bókmenning okkar - sem er sú menningargrein okkar sem á sér fortakslaust ríkulegasta og lengsta hefðina - verður utanveltu í stafrænum nútímaheimi. Hér ríður á að finna lausnir til að tryggja textunum stað þar sem möguleikar íslenskumælandi fólks til að nálgast þá og nýta eru gagnsæir, auðveldir og í samræmi við það sem gerist og gengur í miðlun upplýsinga á heimsvísu. Til þess að svo geti orðið þarf í senn að finna tæknilegar og efnahagslegar lausnir.

Félag íslenskra bókaútgefenda hyggst á komandi mánuðum tengja saman sem flesta sem vinna við þessi mál hérlendis í því skyni að skýra stefnuna og vekja alla sem koma að útgáfu, skriftum, bóksölu, varðveislu, rannsóknum og kennslu til umhugsunar um möguleika og vandkvæði rafrænnar útgáfu og dreifingu höfundarréttarvarins efnis í stafrænu formi. Markmiðið er að íslenskan verði tæk sem stafrænt útgáfumál, rétt eins og henni tókst að verða prentmáli einum 60 árum eða svo eftir uppfinningu prentverksins.


Frakkar tapa á fleiri vígstöðvum

Franski bókabransinn horfir nú á bak fremur slöppu bókaári. Bóksala minnkaði í flestum geirum nema hvað örlítil aukning varð á kiljusölu og á sölu nonfiksjónverka. Raunar seljast ríflega tveimur milljónum færri eintök af bókum árið 2006 en árið 2005 og bransinn kvartar sárlega yfir skorti á almennilegum hvellsöluverkum á borð við Harry Potter, Ástrík og Da Vinci-lykilinn, en þessar þrjár miklu bækur gerðu garðinn frægan á árinu 2005. Hver um sig seldist þá í yfir milljón eintökum og náðu þar með að rífa tölfræðina upp svo það virtist sem bóksala væri í góðum farvegi. Nú duga engar slíkar afsakanir. Það er einfaldlega frekar dapurt yfir franska bókabransanum þessa dagana.

Þannig seldist engin bók í Frakklandi í milljón eintökum eða meira sem hefur ekki gerst í nokkur ár. Raunar seldist engin bók í meira en 600.000 eintökum, en því náði söluhæsta bókin - og haldið ykkur nú fast - hin fræga Titeuf! Eða þekkja hann ekki allir? Þetta er grínaktug frönsk teiknimyndasöguhetja sem aðdáendur franskrar menningar hérlendis kannast svo sem við, en hefur ekki náð sama árangri í útflutningi og austurlenskar mangasögur sem virðast endanlega vera að taka yfir alla teiknimyndasögumarkaði heimsins.

Hinn eiginlegi sigurvegari franska bókaársins 2006 er hin alræmda og fræga saga Les Bienveillantes eftir Jonathan Littell, sannarlega bók ársins 2006 í öllu tilliti. Engin bók hefur verið jafn mikið skeggrædd og umdeild á árinu í Evrópu og hún. Ég hef áður lítillega tæpt á henni hér á síðunni, t.d. því ótrúlega við hana að hún er skrifuð á frönsku af Bandaríkjamanni sem býr á Spáni og fjallar um þýskan stormsveitarforingja sem lítur til baka á ævikvöldinu og lýsir útrýmingu og voðaverkum sér til hugarhægðar. Sagan hirti öll helstu bókmenntaverðlaun Frakka og endaði síðan sem þriðja mest selda bók ársins. Það er ofsa árangur.

Annars eru á topp 10 listanum yfir mest seldu bækur Frakka árið 2006 nokkrir góðkunningjar á borð við Dan Brown (sem er með tvo titla) og helstu metsöluhöfundar Frakka á borð við Marc Levy og Önnu Gavalda. Óvænt kemur líka inn gellusaga Láru Weisberger, Djöfullinn er í Prada, en þar hjálpaði hörkufín mynd til, enda Parísarhluti myndar og bókar fyrirferðamikill.

Annars er listinn svona:

  1. Zep : Titeuf (Glénat)
  2. Dan Brown : Da Vinci code (Pocket)
  3. Jonathan Littell : Les bienveillantes (Gallimard)
  4. Marc Levy : Vous revoir (Pocket)
  5. Dan Brown : Deception point (Lattès)
  6. Anna Gavalda : Ensemble, c'est tout (J'ai lu)
  7. Guillaume Musso : Sauve-moi (Pocket)
  8. Marc Levy : Mes amis, mes amours (R. Laffont)
  9. Lauren Weisberger : Le diable s'habille en Prada (Pocket)
  10. Guillaume Musso : Et après... (Pocket)

Vopnabúrið í stofunni

Fyrir óinnvígðan og óflokkskólagenginn er það eins og að skoða líf orma undir grastorfu að fylgjast með deilum Jóns Ólafssonar við Þór Whitehead, að ekki sé minnst á hina deiluna um síldveiðiflota Sovétmanna. Þetta er manni undarlega órafjarlægt, en svo sem áhugavert, þannig séð.

Nýjustu hreyfingar mátti sjá í langri grein Þórs í Lesbók helgarinnar og raunar var mér bent á að Björn Bjarnason hefði minnst á það á heimasíðu sinni að undarlegt hefði verið að sjá annars vegar grein Þórs og hins vegar grein Maríu Kristjánsdóttur, sem hann kallaði "erkikomma", um ferð hennar til Venesúela, hlið við hlið, og fannst Þröstur ritstjóri hafa dregið um of taum Maríu. Ekki veit ég það, en eitt er víst að Hugo Chavez er mikið undur af manni og ég hef fengið að heyra nokkuð skrautlegar lýsingar á honum og hans framkomu hjá vini mínum og kærustu hans sem er alin upp í Venesúela. Þær lýsingar sem og fréttaflutningur af fyrirhugaðri þjóðnýtingu, hernaðaruppbyggingu, sem og "21. aldar sósíalismanum" (sem ég hélt að Blair hefði fundið upp) valda því að þetta er allt saman ákaflega forvitnilegt. Mun forvitnilegra raunar fyrir venjulegt fólk en deilan endalausa um vopnaeign kommúnista á millistríðsárunum. Grein Maríu, svo því sé haldið til haga, svalaði raunar ekki þeirri forvitni.

En deilan um baráttusveitir kommúnista og þarf af leiðandi þörfina á sterkum innri vörnum, þyrfti nauðsynlega að fara að komast á nýtt stig. Þótt við, sem fædd erum eftir 1960, "getum aldrei sett okkur inn í tilfinningar kalda stríðsins" eins og marghamrað hefur verið á, og tengjumst jafnvel hvorki kommúnistum né hvítliðum þess tíma fjölskylduböndum, þá er það svo að sum okkar hafa áhuga á að skoða sögu 20. aldar í ljósi ákveðinnar yfirvegunar þar sem hefðbundnir flokkadrættir þess tíma eru ekki á dagskrá. Slíka yfirvegun má raunar sjá í frábærum bókum Þórs um seinni heimsstyrjöld: Ófriður í aðsigi (AB 1980), Íslandsævintýri Himmlers 1935-1937 (AB 1988), Milli vonar og ótta (Vaka-Helgafell 1993) og Bretarnir koma (Vaka-Helgafell (1999). Þór tókst með eindæmum að skrifa þannig að atburðarásin varð æsispennandi, þrátt fyrir lýsa mjög stuttum tíma í sögunni. Hann lýsti gerendum með lifandi hætti, naskur á smátriði sem fengu persónur til að lifna á sviðinu. Raunar er það svo að lýsingar til dæmis á Hermanni Jónassyni í þessum bókum beinlínis skilgreina þann mann fyrir mér enn í dag og oft þegar ég geng eftir Túngötunni sé ég fyrir mér lýsingar Þórs á töku Gerlachs og fjölskyldu í þýska sendiráðinu.

Mér finnst því miður þessi deila við Jón Ólafsson (ég játa raunar að hafa ekki lesið Kæru félagar, en bókin glottir til mín úr bókaskápnum) ekki draga þessa hæfileika fram. Mjög líklega voru til baráttusveitir og það vopnaðar, en það sér hver maður í hendi sér að á bak við þátttöku í þeim lágu ekki bara einhverjar annarlegar kenndir. Reynsla af fátækt, réttindaleysi og slæmum aðbúnaði og aðstæðum alþýðufólks var grunnþráður í pólitískri vakningu þeirra sem tóku þátt í pólitísku starfi kommúnista og raunar einnig jafnaðarmanna, þær mörgu ævisögur alþýðumanna sem út hafa komið sýna þetta morgunljóst. Það þýddi náttúrlega ekki heldur að tæki maður þátt í pólitísku starfi kæmi maður kæmi sér upp vopnabúri í stofunni.

Ástæðan fyrir þessum hugleiðingum er raunar kvikmynd sem ég sá um helgina: The Wind That Shakes The Barley og hlaut Gullpálmann í Cannes í vor. Þetta er rammpólitísk mynd sem fjallar um afleiðingarnar af borgarastríðinu á Írlandi og stofnun írska fríríkisins á þriðja áratug 20. aldar. Umræður um eignaupptöku, lýðræðisþátttöku, borgaralega uppreisn, vopnaða baráttu og réttlætisspursmál eru í fókus allan tímann og kristallast í örlögum bræðra sem lenda sitt hvorum megin við víglínur stjórnmálanna uns þeir verða að takast á í vopnuðum átökum. Í henni er ekkert hvítt eða svart. Ekkert afdráttarlaust hægri eða vinstri. Við þurfum meira af slíku.


Klámfengið og dapurlegt

Tugþúsundir Íslendinga hafa á síðastliðnum dögum horft á upptöku af rekkjubrögðum þjóðþekkts manns. Ég veit að margir þeirra veltu því fyrir sér eftir að hafa beðið óratíma eftir að myndskeiðið halaðist niður og síðan setið við tölvuna og horft á aðfarirnar hvað í ósköpunum þeir voru eiginlega að gera. Af hverju var maður að horfa á þessa sorglegu sýningu sem skyndilega er rædd í jafnt fréttatímum sem þingsölum? Hvað er þetta eiginlega?

Það merkilega er að nöfnin sem við notum yfir þetta svið mannlífsins eru flest ættuð úr bókmenntum. Raunar eru bókmenntirnar án efa það svið þar sem tilfinningar áhorfenda og gerenda gagnvart snúnum rangölum kynlífs og valds hafa helst verið kannaðar. Þeir mörgu sem stóðu óvænt frammi fyrir óþekktum hliðum sjálfs sín og vissu ekki hvort þær sneru upp eða niður gætu því nú tekið sér nokkrar þessara bóka í hönd og glöggvað sig á þeim.

Því miður hefur helstu grunnritum á þessum vettvangi ekki verið snarað yfir á íslensku. Það er til að mynda ekki til snifsi eftir de Sade markgreifa (raunar er hægt að hala honum niður á frönsku og ensku, hann er jú dottinn úr rétti) og því síður litteratúr á borð við Sagan af O eða Pelsklædda ástargyðjan eftir Sacher-Masoch (sem einnig er komin til ára sinna, 19. aldar rit). Reyndar er það svo með þennan nafngjafa masókismans að vegur hans hefur vaxið mjög á síðustu árum og hann er raunar orðin einskonar menningarstofnun í borginni Graz í Austurríki, þar sem hann bjó lengstum. Þegar Graz var menningarhöfuðborg Evrópu árið 2003 var ýmislegt gert til að halda nafni hans á lofti, þar má meðal var bökuð kaka sem hét því frumlega nafni Sacher-Masoch og er eins og nafnið bendir til afbrigði af Sacher-tertunni frægu. "Má bjóða herranum meira af masókistatertu?" Það eina sem hins vegar hefur verið þýtt af viti er Saga augans eftir Georges Bataille (þýðandi: Björn Þorsteinsson) og vegna þess að hún er stutt og þægileg aflestrar er gott að byrja á henni sem grunnriti í klámfræðum fyrir lengra komna.

Sagan er ákaflega einföld. Nokkrir franskir unglingar - forríkir og siðspilltir - leiða saman hesta sína í orgíum sem storka foreldravaldi og siðum samfélags og trúarstofnana. Þetta byrjar sakleysislega en brátt stika sögumaður og vinkona hans Simone út úr öllum borgaralegum kortum og halda út á ónumdar erótískar lendur. Klám, geðveiki, ritúalísk kynferðismorð, ofbeldi, valdníðsla og vessaböð ganga í samband við innblásnar og ljóðrænar lýsingar á fegurð dáinna skepna, greddukrampaköstum og ógnarafli náttúrunnar. Bataille var sjaldnast að skafa af hlutunum í ritum sínum þar sem nálægð dauða og sköpunar er síendurtekið stef. Hin djúpa nautn af sundrun, ofbeldi og eyðileggingu rís á aðra hönd, en unaðurinn - sem aldrei er saklaus og rómantískur - á hina. Allt er þetta klætt í fremur klisjulegan nýgotneskan búning þar sem geðveikrahæli í þrumveðri, siðspilltir enskir aðalsmenn og dráp á katólskum prestum eru traustir póstar.

En að baki er traust meginafstaða sem felst í því að klám sé ekki bara borgaraleg afþreying miðaldra fólks í lífskreppu, heldur einkonar veruháttur eða leið að djúpum veruleikans. Klámið er afhjúpun á stærstu borgaralegu blekkingunni: Að heiðarleikinn ráði ríkjum í veruleikanum og þar með í kynlífinu. Fræg er ræða sögumannsins um þetta mál:

Í augum annarra er heimurinn heiðarlegur. Heiðarlegu fólki virðist hann heiðarlegur vegna þess að augu þess eru geld. Þess vegna vekur klám því ugg. Það finnur ekki til minnstu angistar þegar það heyrir hana gala eða þegar það horfir upp í stjörnubjartan himininn. Þetta fólk nýtur aðeins "lystisemda holdsins" að því tilskildu að þær séu bragðdaufar. En upp frá þessari stundu var það hafið yfir allan vafa að ég hafði engan áhuga á því sem kallað er "lystisemdir holdsins", einmitt vegna þess að þær eru bragðdaufar. Ég kaus heldur það sem menn telja "saurugt".

Þessi þekking er að sjálfsögðu dýru verði keypt. Miðpunktur þekkingaröflunarinnar er hin tryllta Simone, sem er aflvaki hinnar erótísku kraftabylgju sem hríslast gegnum textann. Að sjálfsögðu eyðist hún í þessum átökum, kastar smám saman mennskum ham sínum og líkst æ meira dýri, enda verða kynferðisathafnir hennar smám saman að einkonar vúdú-ritúölum. Henni hverfur veröldin og það sem í henni er - fegurð hennar myndum við kannski segja. Það er svo komið fyrir henni að fátt heillar. Kannski þekkjum við okkur sjálf þar aftur?

Helst opnaði Simone þreytuleg augu sín þegar eitthvað klámfengið og dapurlegt átti sér stað.

 


Sænskir metsalar

Félög útgefenda á Norðurlöndum eru misdugleg í að halda saman margskonar statistík og skyggnast yfir smásöluakurinn en þar eru Svíar án efa fremstir í flokki, enda litið svo á í stóru löndunum að Svíþjóð sé meiriháttar aðili í alþjóðlegu bókahringrásinni. Sænskir útgefendur taka saman mjög nákvæma árslista hvert ár sem eiga að endurspegla sem allra best raunverulega bóksölu í konungsríkinu. Svo smásmugulegir eru menn að nokkur diskússjón fer fram í bransablaðinu Svensk bokhandel um hvernig mæla beri bóksölu utan hefðbundinna sölukanala, en þar hefur hið spræka og markaðssækna Pirat forlag helgað sér völl. Niðurstaðan er þó að erfitt sé að ná utan um þá sölu og því látið nægja að nefna möguleikann á skekkjum.

Þeim sem valsað hafa um sænskar bókabúðir og stórmarkaði ætti ekki að koma á óvart að krimmar, jafnt innbundir sem í kiljumynd eru langfyrirferðarmesti þátturinn í sænskri bóksölu. Af 10 mest seldu innbundnu skáldverkum Svía á árinu 2006 eru 7 þeirra hreinir krimmar. Þar af eru 5 mest seldu innbundu skáldverkin öll krimmar. Krimmarnir eru eftir stórsöluhöfunda á borð við Jan Guillou og Lizu Marklund, Stieg Larsson og Dan Brown, Håkan Nesser og Camillu Läckberg, sem er án efa vinsælasti höfundur Svía um þessar mundir. Á heildarsölulistanum er hún með 3 bækur á topp 10, allt eldri bækur hennar í kilju, og svo er sú nýjusta, Óheillakrákan, bæði á topp 10 yfir innbundin skáldverk og á topp 40 heildarlistanum. Og það besta er að hún hefur aðeins skrifað þessar fjórar bækur!

Hinn vinsæli höfundur Svía er Stieg Larsson. Sjálfsagt kannast margir við ótrúlegan höfundarferil hans, en hann varð í raun þekktur krimmahöfundur eftir sinn dag, lést af hjartaslagi haustið 2004, rétt eftir að fyrsta bókin hans, Karlar sem hata konur, kom út. Hann hlaut í fyrra Glerlykilinn fyrir nýjustu bók sína Stúlkan sem lék sér að eldinum, en fyrir dauða sinn hafði hann gengið frá þremur bókum til fullnustu, tvær þeirra hluti af bálki sem hann nefndi þúsöldina og átti raunar að fylla heilan tug. Larsson var þekktur á alþjóðavísu sem blaðamaður og baráttumaður gegn kynþáttahatri og hatursglæpum og höfundur og meðhöfundur ótal verka um þau mál jafnt sem sænsk stjórnmál og var mikill harmur kveðinn að honum. Inni á vinnutölvu hans var uppkast að fjórðu bókinni og nú deila eftirlifendur um réttinn á þessum textabútum og réttinn til að klára bókina. Þar stendur annars vegar í flokki sambýliskona hans eftirlifandi, sú sem ætlar að ljúka bókinni, og bróðir hans og faðir hins vegar. Svante Weyler, fyrrverandi útgáfustjóri Norstedts, útgefenda bókanna, sagði að þegar Larsson hefði komið með fyrstu bókina á hans fund og sagt að hann væri búinn með tvær aðrar, hefði hann spurt forviða af hverju í ósköpunum hann hefði skrifað þrjár bækur þegar hann hefði ekki einu sinni verið viss um að sú fyrsta kæmi út. Stieg var á því að þetta væri svo óskaplega gaman að hann hefði einfaldlega ekki getað hætt.

Hvað forlög áhrærir kemur víst engum á óvart hve Bonnier grúppan eða Bonnierförlagen samsteypan er fyrirferðarmikil með Albert Bonniers í fagurdeildinni, Bonnier Carlsen í barnadeildinni og Forum í faktadeildinni (auk þess að vera útgefandi Camillu Läckberg) auk Månpocket í kiljunum. Samsteypan á bróðurpartinn af bókunum á listunum. En síðan er það hinn mikli skelfir bókaútgáfu á Norðurlöndum: Piratförlaget. Þessi metsöluhöfundasamsteypa sem gengur út á 50/50 splitt á hagnaði, massíft markaðsapparat og vægðarlausa sölumennsku sannar gildi sitt. Stórbomburnar Jan Guillou og Liza Marklund eru að selja mest í innbundnum skáldverkum og líklegast að selja enn meira en sem nemur listanum ef marka má fyrrgreinda fyrirvara Svensk bokhandel. Ég var í Stokkhólmi í vor þegar Erfðaskrá Nóbels eftir Lizu Marklund kom út og sá hvernig var gengið til verka. Það var að sönnu aðdáunarvert, Åhlens var pakkað inn í risavaxinn dúk sem sýndi krimmadrottninguna í ballkjól að nóttu til við Ráðhúsið þar sem Nóbelinn er veittur og hvert strætóskýli, hver auglýsingatími í sjónvarpi og hver smápúblíkasjón innihélt auglýsingu um bókina, auk þess sem hún blasti við á hverju götuhorni.

Annars eru topplistarnir fyrir innbundin skáldverk og heildarlisti svona:

Innbundin skáldverk (Topp 10)

1. Madame terror - Jan Guillou, Piratförlaget
 2. Nobels testamente - Liza Marklund, Piratförlaget
 3. Flickan som lekte med elden - Stieg Larsson, Norstedts
 4. Gåtornas palats - Dan Brown, Albert Bonniers Förlag
 5. Olycksfågeln - Camilla Läckberg, Forum
 6. Sucka mitt hjärta men brist dock ej - Mark Levengood, Piratförlaget
 7. Svart stig - Åsa Larsson, Albert Bonniers Förlag
 8. Människa utan hund - Håkan Nesser, Albert Bonniers Förlag
 9. Svinalängorna - Susanna Alakoski, Albert Bonniers
 10. Mannen som dog som en lax - Mikael Niemi, Norstedts

Heildarlisti (Topp 40)

1. Män som hatar kvinnor - Stieg Larsson, Månpocket (p)
 2. Stenhuggaren - Camilla Läckberg, Månpocket (p)
 3. Tillsammans är man mindre ensam - Anna Gavalda, Bonnierpocket (p)
 4. Små citroner gula - Kajsa Ingemarsson, Månpocket (p)
 5. Självkänsla nu! - Mia Törnblom, Månpocket (p)
 6. Isprinsessan - Camilla Läckberg, Månpocket (p)
 7. Predikanten - Camilla Läckberg, Månpocket (p)
 8. Giraffens tårar - Alexander McCall Smith, Månpocket (p)
 9. Madame terror - Jan Guillou, Piratförlaget
 10. Damernas detektivbyrå - Alexander McCall Smith, Damm (p)
 11. Den amerikanska flickan - Monika Fagerholm, Bonnierpocket (p)
 12. Nobels testamente - Liza Marklund, Piratförlaget
 13. Den ryske vännen - Kajsa Ingemarsson, Månpocket (p)
 14. Flickan som lekte med elden - Stieg Larsson, Norstedts
 15. Skam - Karin Alvtegen, Anderson Pocket (p)
 16. Da Vinci-koden - Dan Brown, Månpocket (p)
 17. Kalla det vad fan du vill - Marjaneh Bakhtiari, Ordfront (p)
 18. Gåtornas palats - Dan Brown, Albert Bonniers Förlag
 19. Våra bästa GI-recept: 100 recept utan socker och snabba kolydrater - Ola Lauritzson/Ulrika Davidsson, ICA
 20. Svenska Akademiens ordlista över svenska språket,, Norstedts Akademiska Förlag
 21. Olycksfågeln - Camilla Läckberg, Forum
 22. Konsten att vara snäll - Stefan Einhorn, Forum
 23. En lek med eld - Peter Robinson, Månpocket (p)
 24. Box 21 - A Roslund & B Hellström, Piratförlaget (p)
 25. Elva minuter - Paulo Coelho, Bazar (p)
 26. Mossvikenfruar. Chansen - Emma Hamberg, Bonnierpocket (p)
 27. Den silvriga barnkammarboken, Bonnier Carlsen
 28. Guldmysteriet - Martin Widmark, Bonnier Carlsen
 29. Saffransmysteriet - Martin Widmark, Bonnier Carlsen
 30. Istanbul: minnen av en stad - Orhan Pamuk, Norstedts
 31. Flickan med majblommorna - Karin Wahlberg, Månpocket (p)
 32. Mordet på Harriet Krohn - Karin Fossum, Månpocket (p)
 33. Ninas resa: En överlevnadsberättelse - Lena Einhorn, Norstedts pocket (p)
 34. Sucka mitt hjärta men brist dock ej - Mark Levengood, Piratförlaget
 35. Svart fjäril - Anna Jansson, Månpocket (p)
 36. Svart stig - Åsa Larsson, Albert Bonniers Förlag
 37. Godmorgon midnatt - Reginald Hill, Minotaur (p)
 38. Zahiren - Paulo Coelho, Bazar (p)
 39. Djävulen bär Prada - Lauren Weisberger, Norstedts pocket
 40. Underbar och älskad av alla - Martina Haag, Piratförlaget

 

 


Rafrænn pappír á leiðinni

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum sem fylgst hefur með bókaútgáfu á síðustu árum að ýmiss konar tækninýjungar knýja nú á dyr hefðbundinnar útgáfu, prentunar og framleiðslu bóka. Margskonar tæki hafa komið fram á síðustu 10 árum sem hugsuð hafa verið sem rafræn lestrartól en ekkert þeirra hefur náð fótfestu. Sala rafrænna texta hefur því ekki vaxið nándarnærri eins hratt og haldið var fyrir áratug síðan, en það er ljóst af tíðum fréttum úr herbúðum rafeindafyrirtækja að brátt verða útgáfufyrirtæki að bjóða upp á rafrænar vörur í miklu úrvali.

Sony Reader kom á markað vestanhafs og í Japan á síðasta ári. Það er samdóma álit að þar sé á ferð besta tækið til þessa. Skjárinn er af nýrri kynslóð rafræns pappírs sem lesa má jafnt í dagsbirtu sem myrkri. Rafhleðslan er þannig gerð að tækið eyðir einungis straumi við flettingar, þess vegna er afkastageta þess mæld í flettingum, og það má hlaða allmiklu textamagni inn á það, eða sem samsvarar hundruðum hefðbundinna textatitla. Gagnrýnendur eru hins vegar á þeirri skoðun að gagnvirkir notkunarmöguleikar séu alltof takmarkaðir til þess að tækið nái verulegri fótfestu. Þessi skoðun endurspeglar vel væntingar neytenda til slíkra tækja. Einfaldur lestur er í raun ekki það sem við höfum vanist af lestrartækjum, heldur viljum við "vinna með textana". Fræðikenningar millitextafræðinga síðustu áratuga virðast einfaldlega vera réttar. Um leið og við hættum að skynja texta sem lokaða einingu á milli bókarspjalda missum við "virðinguna" fyrir þeim. Þeir breytast í gangvirka upplýsingaveitu sem á að vera okkur til framdráttar við "vinnu" okkar. Þeir "framleiða aðra texta" og framleiða um leið okkur sjálf, sem er í anda þeirrar menntunarhugsunar sem er efst á baugi í upphafi þessarar aldar og gengur út á samþættingu sköpunar og rannsókna við framleiðslukerfi markaðssamfélagsins. Það er í senn heillandi og óhugnanlegt að sjá fram á þetta, ekki síst vegna þeirrar tilhneigingar allra sem umgangast rafræna texta að líta svo á að enginn eigi að fá greitt fyrir að hafa búið þá til.

Nú berast fréttir af því að þessar spírur sem vitað hefur verið af undanfarin ár, til dæmis hugmyndin um rafpappír sem ekki er studdur af tæki, en getur einn og óstuddur birt lesmál, eru að vaxa og verða að alvöru iðnframleiðslu. Þann 3. janúar tilkynnti fyrirtækið Plastic Logic að það hyggist byggja fyrstu rafpappírsverksmiðju sína í Dresden. Fyrirtækið er dæmigert þekkingarþorpsfyrirtæki, sprottið úr samþættingu háskólarannsókna og praktískra lausna, stofnað í Cambridge árið 2000 af fólki sem vann við Cavendish-rannsóknarstöðina í eðlisfræði. Þar á bæ þróuðu menn þunn blöð, jafn þunn og meðfærileg sem alvöru gamaldags pappír, sem tengd eru við rafhlaðna smágræju og getur geymt þúsundir og milljónir blaðsíðna. Plastic Logic mun ekki framleiða fyrir neytendamarkað, en verða birgir fyrir stóra iðnframleiðendur sem geta notað rafpappírinn í vörur sínar, t.d. Sony, en einnig mun Amazon vera áhugasamt um málið.

Með stórvirkri fjöldaframleiðslu á rafpappír mun kostnaðurinn við rafræn lestrartæki snarlækka á næstu árum og fyrir vikið auka á þörfina á að hafa rafbækur á boðstólum. Fyrirtækið hefur aflað yfir 100 milljóna bandaríkjadala í hlutafé og er í eign fyrirtækja á borð við Intel, BASF og Bank of America. Þetta er því ekkert grín. Saxland og höfuðborgin Dresden hafa á undanförnum árum þróast yfir í að verða öflug miðstöð fyrir hátækniðnað, enda rík hefð fyrir fíniðnað á þeim slóðum og þar var hjarta iðnframleiðslu gamla A-Þýskalands. Gott skattaumhverfi og sterkur þekkingariðnaður hafa skapað það sem kallað er í gamni "sílikon-Saxland" í þýskum fjölmiðlum. Áætluð framleiðslugeta verksmiðjunnar er 1 milljón stykki rafskjáa á ári. Framleiðsla hefst árið 2008. Plastic Logic gerir ráð fyrir að 40 milljón einingar af rafpappírsskjám verði í umferð árið 2010.

Það eru þrjú ár þangað til.

 


Staða skáldsögunnar?

Í sveitinni er ekkert Fréttablað og helgarmogginn kemur ekki fyrr en með póstinum seinnipartinn á mánudögum svo ég sá ekki helgarblöðin fyrr en ég kom í saltslabbið og heiðríkjuna í höfuðborginni. Það vakti strax athygli mína að á útsíðu sunnudagsblaðs Fréttablaðsins stóð að þar væri að finna fyrstu grein af þremur um stöðu íslensku skáldsögunnar. Það vakti líka athygli mína að uppistaðan í fyrstu lotu var opnuviðtal við rithöfund sem ég held að komi fæstum í hug þegar minnst er á "skáldsöguna", jafnvel ekki "íslensku skáldsöguna", en tel að hér sé um að ræða bragð að hálfu blaðsins. Það á að fá okkur til að hugsa um möguleika og þanþol formsins: ekkert er sjálfgefið.

Umfjöllunarflokkurinn hófst því á viðtali við rithöfundinn og leikskáldið Jón Atla Jónasson og smáspjalli við gagnrýnandann Þórdísi Gísladóttur sem einnig er ritstjóri tímaritsins Barna og menningar. Bæði vel gefin til munns og handa, en hvað höfðu þau nýstárlegt fram að færa um "stöðu skáldsögunnar"?

Jón Atli Jónasson setti sig í "jaðarstöðu", ef svo má að orði komast, og varði með orðum sínum, en kannski frekast með lestrarlistanum sem hann rétti okkur (Eiríkur Guðmundsson, Steinar Bragi, Oddný Eir Ævarsdóttir - Bjartur rules!) hugmyndina um skáldsöguna sem form rannsóknar og leitar handan við "hefðbundin" og "gefin" frásagnarlögmál. Sem dæmi um slíkt steinrunnið form nefndi hann blessaða glæpasöguna og kom reyndar með einn ágætis punkt sem snýst um réttlætingu formsins gagnvart mögulegri ákæru um gagnsleysi, nokkuð sem er nánast innbyggt í samtímaumfjöllun listamanna um sjálfa sig og sín verk og er rannsóknarefni í sjálfu sér: Ef glæpasagan er merkileg vegna þess að hún fjallar um kjör útlendinga á Íslandi, af hverju skrifa menn þá ekki bara um Pólverja og sleppa morðinu, eltingarleiknum og "Fundinn!" í lokin? Hér hitti Jón Atli á veikan blett.

Hvort hér sé hins vegar um að ræða mjög nýstárlegan fréttaflutning af stöðu skáldsögunnar er annað mál. Ríkuleg og flókin hefð hins opna verks sem bregst oft ofsafengið við kröfunni um endurvarpsstöðu listarinnar er orðin löng, vörðurnar á leiðinni eru margar. Ef við skrælum allt af ummælum Jóns Atla (þegar höfundar fara að tala um upplagstölur og rómantísera starfsgrundvöll sinn, þá er staða skáldsögunnar komin út á hálan ís) þá stendur þetta eftir: Jón Atli heldur fast við módernískan listskilning eins og hann birtist okkur í samanlagðri sögu þeirrar fagurfræði, allt frá rómantík yfir Adorno til póststrúktúralistanna "and beyond": Listaverkið verður ekki umritað á annað snið, það skreppur undan "hugtakinu". Innihald er ekki óbundið "efni" sem finna má form eftir hentugleikum, heldur verður skáldverkið til "í forminu". Skáldverkið er leit að formgerð tungumáls og er gagnrýnið á hefðbundnar framsetningarleiðir og hugmyndafræði þess að hægt sé að heimfæra veruleikann í 1+1 formi upp á listaverkið. Thor hefði getað sagt okkur þetta. Hannes Sigfússon hefði getað sagt okkur þetta. Og báðir hefðu getað sagt okkur þetta árið 1953.

Ég held nefnilega að þetta sé aðeins snúnara nú á nýrri öld. Ef sjálfvirk svör standardíseruðu skáldsögunnar (þ.e. glæpasögunnar) hafa ekkert gagnrýnið gildi, af hverju ætti okkur ekki bara að standa á sama, ef það er ekki ljóst hvert hið gagnrýna gildi hinnar tegundarinnar af bókmenntum yfirleitt er? Eða á mannamáli: Sögugerðin sem Jón Atli teflir fram á sér enga réttlætingu nema í "heiðarleikanum", eins og hann kallar það, en hvaða siðferðiskerfi verður Jón Atli fyrst að selja lesendum sínum til að þeir kaupi þennan "heiðarleika"? Hættan við framlengingu hinnar módernísku listar er einmitt að "heiðarleikinn" fer að virka fóní. Tilgerð og heiðarleiki geta nefnilega alltof oft verið samnefnarar. Hvenær veit ég að heiðarleiki er sannur? Hver sannar hann fyrir mér? Við erum stödd andspænis samfélagslegum samkomulagsatriðum, "leikjum" eins og það hét í póstmódernistafræðunum. Um leið erum við komin á svið þar sem ekki er hægt að fella fagurfræðilega dóma. Ég er að minnsta kosti ekki á því að þeir eigi að byggjast á siðfræði, en þar eru svo sem ekki allir sammála mér.

Ég er nefnilega aðeins skúffaður með þetta framtak Fréttablaðsins. Mér finnst það því miður hálf klúðurslegt. Blaðið ætlar ekki sjálft að segja neitt, en etur "viðmælendum" á foraðið nánast athugasemdalaust og aðrir, eins og ég, verðum að reyna að átta okkur á hvernig viðtölin ganga í samband við "stöðu skáldsögunnar". Við verðum að lesa viðtölin eins og rabbínar að túlka Talmúd, því "staða skáldsögunnar" er aðeins lausleg hugmynd sem kastað er fram. Staða íslensku skáldsögunnar kemur áreiðanlega jólavertíðinni, sölutölum og "heiðarleika" við, en mig grunar að henni sé betur lýst ef þessu er sleppt, eða horft í gegnum það, og það er hlutverk blaðsins og blaðamanna þess. Þeir halda sig hins vegar í myrkrinu. Og þarna í myrkrinu er líka einhvers staðar staða íslensku skáldsögunnar.

 


Íslensku árslistarnir

Þá hafa Penninn/Eymundsson og Félagsvísindastofnun birt lista sína yfir bóksölu árið 2006. Eins og oft áður eru listarnir nokkuð ólíkir og endurspegla mismunandi neyslumynstur heilsárssölunnar og jólasölunnar. Megnið af bókunum á lista Félagsvísindastofnunar kom út á haustmánuðum, en miklu stærri hluti bókanna á Pennalistanum kom út á fyrri hluta ársins.

Stórmarkaðsverslunin setur raunar svo mikinn svip á lista Félagsvísindastofnunar að mest selda bók á Íslandi er samkvæmt honum hin stórglæsilega eftirréttabók stórbakaranna Hafliða, Jóa Fel og Ásgeirs Sandholt. Hér hitti Hagkaup naglann á höfuðið því síðasta Hagkaupsbók sem helguð var grænum réttum Sollu náði ekki sama flugi. Þessi markaðsstefna Hagkaupa/Haga virðist því vera að ganga fullkomlega upp því svo virðist sem bókin sé ekkert sérstaklega mikið styrkt af heildsölum, að minnsta kosti er það ekkert áberandi þegar bókinni er flett. Ef kostnaður við útgáfu svona bókar er hins vegar tekinn saman og borinn saman við útsöluverðið, sem rétt slefar í 1500 kallinn, þá getur vart verið að Hagkaup græði mikið á útgáfunni, en útbreiðslan og auglýsingin fyrir vörumerkið er ómetanleg.

Ég hef ekki fengið staðfest frá Högum hvað bókin var prentuð í stóru upplagi eða hvað hún seldist mikið, en það væri gaman að vita það því Edda útgáfa hefur ekkert legið á því að upplagstölur Konungsbókar Arnaldar og Draumalands Andra Snæs eru 21 þúsund annars vegar og 18 þúsund hins vegar, hverjar svo sem nettótölurnar eru, en það veit svo sem enginn enn þar sem smásalar hafa ekki lokið skilum. Draumalandið var mest selda bókin í verslunum Pennans/Eymundssonar á árinu og er það skiljanlegt í ljósi þess að meginsala bókarinnar fór fram utan jólamarkaðarins. Raunar virðist sem bókin hafa misst af hluta jólamarkaðarins því hún var uppseld þegar havaríið fór af stað í byrjun nóvember og "viðhafnarútgáfa" bókarinnar, hin innbundna, tölusetta og áritaða extraútgáfa, kom síðan nokkuð seint á markað. Arnaldur heldur síðan sinni stöðu áfram sem hinn mikli metsöluhöfundur því Konungsbók virðist hafa selst ívið betur en Vetrarborgin árið 2005 og næstum því jafn mikið og Kleifarvatn árið áður. Hrjúfar tungur sem maður heyrir stundum skrafa um að nú sé komið að falli "konungsins" hafa því greinilega alls ekkert til síns máls.

Annars sýnir listi Félagsvísindastofnunar glöggt að stóru útgáfurnar tvær, Edda og JPV, hafa algera yfirburðastöðu á markaðnum. Á topp tíu eru þær með sitt hvorar fjórar bækurnar (að vísu er Edda með fleiri á efri hluta listans) og sætin tvö sem eftir eru skiptast á milli tveggja sterkra "útgáfu-branda": Hagkaupa og Útkalls. Af þeim 50 sætum sem eru á listanum er Edda með 21 bók og JPV með 16, samtals 37 titla. Þeir 13 titlar sem eftir eru skiptast milli 9 útgefenda. Svona lítur listinn út:

  1. Edda útgáfa 21
  2. JPV útgáfa 16
  3. Bjartur 2
  4. Hólar 2
  5. Nýhil 2
  6. Útkall 2
  7. Hagkaup 1
  8. Setberg 1
  9. Skálholtsútgáfan 1
  10. Skrudda 1
  11. Veröld 1

Það er gaman að skoða hlutfall bóka gefinna út 2006 miðað við eldri "bakklistatitla". Af þeim 21 titli sem kemur frá Eddu eru 6 titlar sem eru í raun "bakklistatitlar", titlar á borð við Jólin koma (sem kom fyrst út árið 1932) eftir Jóhannes úr Kötlum, Vísnabókina (sem kom fyrst út árið 1946), Ísland, landið hlýja í norðri (sem kom fyrst út árið 1994) og Spámaðurin (sem kom fyrst út árið 1927). Sálmabók íslensku kirkjunnar stendur svo á gömlum merg, en Guðbrandur gaf hana fyrst út á Hólum á níunda áratug 16. aldar auk þess sem jólalög Setbergs sem Ólafur Gaukur valdi er eldri titill. Annað á listanum er frumútgefið eða ný kiljuútgáfa bóka síðasta árs á borð við Flugdrekahlauparann og Vetrarborgina. Raunar slæðist inn á skáldverkalistann kiljuútgáfa sjálfshjálparbókarinnar Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn, en hún er ekki skáldverk, heldur telst vera rit almenns efnis og er flokkuð þannig í Bókatíðindum. Sjálfsagt myndi það breyta myndinni aðeins ef við sæjum hvaða bók kæmi inn neðan við Vetrarborg Arnaldar í 10 sætið eða hvar Munkurinn myndi lenda á almenna listanum.

Og kemur hér eitthvað á óvart? Já, raunar. Ég hefði fyrirfram ekki haldið að Reynir Traustason næði svo góðum árangri með Ljósið í Djúpinu, en saga Rögnu talaði beint til þjóðarsálarinnar og raunar án stórkostlegrar og brjálæðislegrar plöggherferðar á borð við þá sem Reynir setti af stað þegar hann gaf út Lindu og Sonju hér um árið. Nú sást hann varla í fjölmiðlum en bókin rann út af sjálfri sér nánast, þetta var til að mynda eina bókin sem amma mín registreraði um jólin. Stefán Máni skýst svo upp í efstu hæðir metsöluhöfunda með Skipinu sem var vandlega orkestrerað markaðslega af JPV. Það ber að horfa á að kilja Svarts á leik sem kom út fyrir tveimur árum fór víða og að þótt Stefán Máni hafi í raun hafið feril sinn sem ígrundandi skáldsaganahöfundur af listræna taginu hefur almenningur einkum horft til hans sem tryllahöfundar. Nú uppsker hann sem slíkur, enda Skipið fáránlega spennandi bók, þótt persónurnar verði á stundum eilítið yfirdrifnar. Brandarabækur Nýhils, Barkakýli úr tré eftir meistara Þorstein Guðmundsson og Hannes: Nóttin er blá mamma "eftir" Óttar M. Norðfjörð, eru síðan krydd í þessa lista. Athygli vekur að Bjartur hefur oft verið fyrirferðarmeiri á lista Féló en nú, en á lista Pennans/Eymundssonar má sjá að heilsárssala þar á bæ er sterk þar sem neon-bækurnar virðast hafa stimplað sig vel inn.

Nýliðar ársins? Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir er eini "nýliðinn" á topp 10. Sif Sigmarsdóttir, höfundur Ég er ekki dramadrottning og bókaútgefandi, er einnig nýliði en þá er það í raun upp talið. Stefán Máni, Andri Snær og Auður Jónsdóttir tilheyra kynslóð rithöfunda sem virðist nú hafa skapað sér pláss og fyrirferð og mun án efa gefa tóninn á næstu árum í bókmenntum okkar og bókaútgáfu. Arnaldur, Ólafur Jóhann, Kristín Gunnarsdóttir og Bragi Ólafsson eru að uppskera hvert á sinn hátt. Á sviði "non-fiksjónar" eru ævisagnaritararnir og bókmenntaverðlaunahafarnir Halldór Guðmundsson og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir að feta áfram sínar brautir og það sama má segja um Guðna Th. Jóhannsesson.

Það er síðan magnað að sjá hér höfund með tvær bækur sem sjaldan er í umræðunni, þótt hann sé í raun einn mesti metsöluhöfundur þessa lands: Sigurgeir Sigurjónsson. Lost in Iceland hefur verið á þessum heilsárslista síðan hún kom út árið 2002. Ísland landið hlýja í norðri sem til er á 14 tungumálum og hefur verið á markaði frá því árið 1994 að fyrstu fjögur tungumálin komu út er áreiðanlega einn mest seldi titill Íslandssögunnar, en um 100.000 eintök hafa nú verið seld af henni.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband