Bókin sem fréttamiðill

Ég heyri og sé að þeir sem fengið hafa bækur í jólagjöf eru byrjaðir að endurvarpa efni þeirra með íblöndun af eigin dómi. Ótrúlega margir virðast hafa komist í Óvini ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson nú um hátíðarnar; maðurinn sem með einum fyrirlestri innréttaði nýja vídd í samfélagsumræðuna. 

Hinir alltvitandi Páll Baldvin Baldvinsson og Illugi Jökulsson gáfu það út í blöðunum rétt fyrir Þollák að þeir teldu langbandið í bókinni kaldan óttann og deyfilyfin gegn honum vera að þeirra mati í lagi sem burðarás og það hefði líka verið í lagi að gefa hana út, þrátt fyrir að blöðin væru enn vot (nokkuð var kvartað undan bleytu í bókum þetta árið, það á sér víst tæknilegar skýringar þar sem rakastýrivél í vinnslusal prentsmiðjunnar Odda sem jafna á sveiflur í hita- og rakastigi andrúmsloftsins virkaði ekki sem skyldi; þannig á alllt sér skynsamlegar skýringar í alheiminum). Mér hefur verið sagt nú eftir jólalesturinn að Guðni sé "ákaflega efnilegur sagnfræðingur" og hann hafi alla burði til að verða "mikið átórítet". Eitt veit ég: Umfram marga menn hefur Guðni til að bera lifandi og ríka kímnigáfu sem þó dregur ekki úr öðrum meginmannkosti, sem er furðulegt nokk sjaldgæfur, og það er réttsýni. Eins og miðlar stórir og smáir bera ríkulegt vitni er fólk meira og minna "inni á línum" í sinni tjáningu og því nokkurn veginn ljóst hvað sagt verður áður en sagt er. Svokallað "vinstra fólk" og svokallað "hægra fólk" hefur hvorttveggju hvíslað í mín eyru að Guðni sé málpípa andhverfunnar, en mér sýnist hann einmitt þiggja sitt mikla "átórítet" (ekki skyldi maður forsmá þörf fólks fyrir átórítet) af því að hafa smokrað sér út úr hinum mikla línudansi þessa dvergþjóðfélags og komist í mátulega fjarlægð frá danskennurunum.

Það sem er hér athyglisvert er að hinn eiginlegi hlerunarþáttur, það sem dagmiðlarnir hafa mest hamast á og raunar af svo miklu offorsi að hlustirnar eru orðnar eilítið aumar, er í raun minnsti hluti þessar bókar og það sem gefur henni ekki hvað síst gildi er samhengið. Gleymdir þættir í andspyrnusögu okkar fá hér nýtt líf, ekki sem þættir af heilögum mönnum og blessuðum meyjum vinstri sinnaðrar frelsunarsögu, heldur sem viðspyrnendur í reiptogi valds og valdaleysis, hinu raunverulega samhengi sem andóf verður til í. Um leið fær maður skilning á valdinu sem nánast töfrandi fyrirbæri sem borið er uppi af tálsýnum og hitasótt, draumum og vonum. Manúveringar þess verða í sjálfu sér stórheillandi fyrirbæri, enda ganga víst nógu margir því á hönd af þeirri ástæðu einni.

Þetta samhengi er óskiljanlegt nema sem frásögn á bók. Fyrr á árinu sýndi Andri Snær Magnason að umræðuefni sem menn héldu að væri búið að segja um allt sem þyrfti að segja öðlaðist allt aðra stöðu um leið og búið var að setja málin í nýtt samhengi, setja viðfangsefnið fram í bókarformi. Viðtökur og áhugi almennings á þessum tveimur "umræðuverkum", jafn ólík og þau nú eru, sýnir í fyrsta lagi að það er hægt að nýta sér bókaformið til að koma nýjum hugmyndum að í "samfélagsumræðunni". Þær sýna líka að líklegast er bókin vanmetin sem fréttamiðill. Ein af húsviskum bókaútgafunnar hefur verið að "debattbækur seldust ekki", og að sönnu hefur það líka sannast, en alltof oft er litið svo á að bækur séu ekki sérstakur miðill, heldur miklu frekar einskonar safnhaugur. Lærdómurinn af þessum tveimur bókum er að ein besta leiðin til að koma á framfæri samhengi mála í samtímaumræðunni og jafnvel breyta henni algerlega er að skrifa um það bók. (Þetta var raunar líka skilningur dómnefndar Blaðamannafélags Íslands við síðustu úthlutun blaðamannaverðlauna þeirra.) En þá verða menn að taka þau mál skapandi tökum og aðgæta að bókin er ekki framlengd blaðagrein, safnþró eða stökkbreyttur fréttaskýringarþáttur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband