Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Inngrip við Gambíufljót

Til að komast á milli suður- og norðurhluta Senegal þarf að fara yfir Gambíufljót sem er óbrúað og hið undarlega land Gambíu sem er mjó ræma meðfram Gambíufljóti. Það hefur verið reynt að brúa fljótið en flóð hrifu mannvirkin með sér og menn hafa ákveðið að notast við ferjur. Ferjurnar voru gefnar Gambíumönnum af Japönum. Maður sér japanska fánann víða í Senegal og Gambíu og mér skilst að honum sé jafnvel flaggað í öðrum löndum Vestur-Afríku fyrir framan skóla og stofnanir. Hins vegar er vegurinn sem liggur í gegnum Gambíu nær ómalbíkaður. Hann var einu sinni með biki en með tímanum hefur það spænst upp og Senegal og Gambía geta ekki komið sér saman um hver á að greiða fyrir vegaframkvæmdirnar. Þetta er eins og þegar ríki og borg rífast um Sundabraut. Eini munurinn er sá að það er enginn annar vegur milli landshlutanna á þessum slóðum. Beggja vegna eru langar biðraðir af vörubílum. Þeir bíða í allt að því viku eftir því að komast yfir, venjuleg bið eru þrír dagar.

Vegna þess að nú er regntími er allt á kafi í drullu við ferjustaðina. Einhvers konar framkvæmdir eiga sér stað við suðurbakkann en þær eru ekki mjög markvissar. Vörubíll, valtari og nokkrir kallar hræra í drullunni og bera ofan í hana meiri drullu. Einmitt þegar við erum við það að fara um borð í ferjuna bilar stór trukkur beint framan við rampann með 40 tonn af mangó um borð og sekkur smám saman í eðjuna. Það tekur senegalíska og gambíska jeppakalla rúmar tvær klukkustundir að koma ferlíkinu upp. Manni finnst eins og maður sé uppi á hálendi eða í sveitinni í gamla daga þegar vél fór niður í pytt. Allir hafa skoðanir á því hvað sé best að gera og hvernig sé best að standa að þessu, mikið er um pat og öskur, dísilvélar drynja og mikið spáð og spegúlerað. Málið fer loks að ganga þegar vírtrossa kemur með hinni ferjunni af hinum fljótsbakkanum og eina raunverulega öfluga trukknum er beitt í átökunum.

Kannski væri það áhrifamikið inngrip í íslenskri utanríkisstefnu að kanna hvort hægt væri að breyta þessu smáræði sem virðist þarfnast málamiðlunar annars ríkis. Fátt myndi sannarlega bæta lífskjör fólks í öðrum löndum jafn áþreifanlega og að leiða Senegal og Gambíu að samningaborðinu og fá þá til að malbika þennan 35 kílómetra spotta sem liggur yfir Gambíu sem og að rýmka opnunartíma ferjunnar yfir Gambíufljót. Þetta hljómar smátt og lítið en einmitt við með okkar samgöngukerfi myndum skilja að þetta er vandamál sem þarfnast lausnar. Svona eins og Sundabrautin.


Það er lína sem sker sundur landið

Fyrir austan hana er Ísland en fyrir vestan hana Reykjavík. Reykjavík teygir sig frá Akureyri vestur um landið og til Víkur í Mýrdal. Um leið og maður kemur austur fyrir þessa útpósta höfuðborgarsvæðisins snarlækkar tala Porche Cayenne jeppa, hjólhýsa, tjaldvagna og golfvalla. Í staðinn sér maður fyrst og fremst bílaleigubíla, stóra vöruflutningabíla og svo erlent fólk á sínum eigin farartækjum sem oftast líta út eins og bedúínalestir: fjórir til fimm saman í hnapp með vafninga bundna á topp, skut og hliðar. Þó er magnað að sjá Benz með belgísku númeri á hraðferð um Mýrar í Hornafirði og ekki örlar á hjóli, flísfötum eða vafningum. Snyrtilega klædd eldri hjón í framsæti. Þau virðast vera á heimleið úr bústaðnum, hafa ætlað að drífa sig snemma af stað því það er von á krökkunum í sunnudagsgrillið um kvöldið.

Skaftafellssýslur eru annar heimur. Reyndar er eitthvað enn höfuðborgarlegt við vestursýsluna. Hér og þar sjást bústaðir, fólk á leið í golf. En austursýslan er fjarlæg þessum höfuðborgarheimi. Þar eiga heimamenn og útlendingarnir sviðið. Í aðeins einum bíl af tíu er Íslendingur undir stýri. Bæirnir eru fáir, en oftast saman í hnapp. Þeir kúra sig undir grænum fjöllum andspænis óaðgengilegri, óárennilegri og óendanlegri strönd. Að baki er stærsti jökull Evrópu (raunar aðeins að rúmtaki, ekki flatarmáli ef menn eiga að vera mjög nákvæmir). Skriðjökulstungur sleikja björgin og spýta kolmóruðu. Tindarnir skaga til himins upp úr jökulbákninu í furðulega margbreytilegum litum. Sandarnir verða sviplitlir í sólskini, þá logar jökullinn og bláar sprungurnar, en í súldinni eru þeir eins og steppa.

Allt er stórt á þessum slóðum. Þegar maður les héraðssöguna er ekki einblínt á skopsögur eða skringilegt fólk, það er ekki hugað að lausaleiksmálum eða sauðaþjófnaði. Sögurnar eru um landkönnuði sem leggja á jöklblámann og sigrast á hrikalegum sprungum á sauðskinnsskóm, leiðsögumenn sem höggva spor í skriðjökla til að koma hrossum yfir þá, vatnamenn og vatnaklára sem leggja í jökulhröngl og hafa það af, jökulvötn sem sveipa burtu bæ þar sem vanfær kona er að eignast barn og hleypur undan flóðinu bak við stein þar sem hún verður léttari. Hross falla ofan í sprungur og hverfa. Menn hverfa í sprungur. Það þarf að fara allt upp í sex sinnum í göngur til að ná fénu neðan úr hæstu tindum landsins. Hver smá útrétting í kaupstað er heill leiðangur. Það tekur viku að reka féð yfir vötnin á sláturhús. Það er jafn löng vegalengd frá Höfn að Vík og er frá Vík til Stykkishólms. Það er golfvöllur á Höfn en það var enginn á honum og í bænum sést enginn Porche Cayenne.


Það er GSM samband í Surtsey

Heyrði í félaga mínum áðan. Hann var úti í Surtsey. Einn af þeim 20 sem fá að fara út í eyjuna á hverju ári. Hann var að tala í GSM símann sinn í eyjunni. Hann segir að upplifunin sé einstök og að staðurinn sé engu líkur. Sambandið var svolítið skrítið, alls konar gos_gap_01[1]brak og brestir heyrðust. Það hlýtur að vera stórkostlegt að að standa á kyrrlátu júlíkvöldi uppi á hól á einum yngsta bletti jarðar með allt Atlantshafið fyrir framan sig og geta ef hugurinn bíður hringt í vin sinn í Kíríbatí.  

Þorskar

Ég skrifaði pistil í Lesbók Morgunblaðsins í dag um þorskkvótann og úthlutun hans þar sem ég reyni að skilja af hverju þorskurinn hverfur í hvert skipti sem kratar komast í ríkisstjórn. Hér má lesa pistilinn í sinni rafrænu mynd:

 

Þorskurinn hefur greinilega ofnæmi fyrir samsteypustjórnum krata og sjalla. Vart var Viðeyjarstjórnin sest í sína stóla 1991 en þorskurinn flúði undan rannsóknarskipum Hafrannsóknarstofnunar, faldi sig í gjótum og álum og beið á meðan óvinurinn slæddi djúpin svo enn ein „svört skýrslan“ leit dagsins ljós með tillögum um „stórfellda skerðingu aflaheimilda“. Á þeim tíma átti að skrúfa þorskkvótann niður í 190.000 tonn fyrir árið 92/93 og svo enn neðar árið eftir, alveg niður í 175.000 tonn, erlendir sérfræðingar vildu sjá 150.000 tonn. Þessar tillögur voru uppistaðan í pólitískum gúrkuslag sumarsins 1992. Núverandi ritstjóri Fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson, barðist eins og ljón við að fá því framgengt að allir hagsmunaaðilar fiskveiðiflotans yrðu hunsaðir og loksins látið á það reyna að hlusta á Hafró og ekkert múður. Davíð Oddsson, nú seðlabankastjóri, Friðrik Sophusson, nú forstjóri Landsvirkjunar, og Jón Baldin Hannibalsson, nú fríþenkjari, voru hins vegar á andstæðri skoðun og rifust við Þorstein bæði opinberlega og innan stjórnar. Davíð og Friðrik sögðu að það yrðu engar „sértækar aðgerðir“ til að hjálpa þeim sem ættu um sárt að binda vegna kvótaskerðingar, ríkissjóður ætti ekki borð fyrir báru, Jón Baldvin sagði, líkt og talsmenn Fjálslynda flokksins nú, að engin vísindaleg rök styddu að vöxtur í framtíðinni yrði vegna skerðingar í nútíðinni, sambandið þarna á milli væri ósannað.

Hinn fælni þorskur hafði um þessar mundir ýmis ráð við að hræða útvegsbændur við Norður-Atlantshaf. Hann gufaði til dæmis algerlega upp á Miklabanka svo Kanadamenn lokuðu sjoppunni og hafa ekki opnað hana síðan nema rétt á stórhátíðum. Því var haldið fram um þetta leyti að þorskveiðistofn Færeyinga væri hruninn, meira að segja skitin 100.000 tonn þóttu of mikið þar. Hvergi var þorsk að sjá nema náttúrlega í hinni merkilegu Smugu. Guðbergur Bergsson ritaði á þessum tíma að þar ætti sér stað „útrás“ (og hann notaði þetta hugtak í fullnægingarlegum skilningi en ekki efnahags-hernaðarlegum) íslenska sjómannsins. Ráðagóðir skipverjar skiptu á viskíflöskum og sjókortum við rússneska sjómenn sem um þetta leyti fjölmenntu hér á hafnir á ryðkláfum sínum og keyptu gamlar Lödur í gríð og erg. Síðan héldu menn af stað norður í myrkvað Ballarhaf kvótalausir með öllu og lágu úti eins og víkingar mánuðum saman í djögulganginum og ránortu sem mest þeir máttu í fullkomnu ósætti við alþjóðasamfélagið. Íslendingar fóru í alvöru samkeppni um yfirráðin yfir Norður-Íshafi við Norðmenn og Rússa, samkeppni sem þeir standa í enn í dag og virðist opinber utanríkisstefna okkar ef marka má yfirlýsingar ISG í kjölfar Noregsheimsóknar nýverið. Við þurftum hráefni fyrir sjávarútveginn og tókum þann kostinn líkt og aðrar þjóðir sem þarfnast auðlinda að taka slaginn við aðrar auðlindaþjóðir.

Á meðan þorskurinn faldi sig á Miklabanka og duldist Færeyingum náði Hafró því í gegn að minnka þorskveiðikvótann enn fiskveiðiárið 93/94. Í skjálftanum nú yfir lækkun kvótans niður í 130.000 tonn gleymist að í þrjú ár samfleytt um miðjan tíunda áratuginn voru aflaheimildir þorsks ekki nema 155.000 tonn. Þetta var jafnframt erfiður tími. Lausafé var mjög af skornum skammti í samfélaginu sem leiddi til þess að margur athafnasamur maðurinn missti allt sitt og atvinnuskorturinn var tilfinnanlegur, ég man eftir að hafa í ársbyrjun 1993 sótt um eitt aumt lagerstarf hjá ávaxtaheildsölu ásamt 400 öðrum. Í fjölmiðlum var atvinnuleysið framreiknað: Ef 4000 manns fóru árlega út á vinnumarkaðinn og ef 4000 manns til viðbótar vantaði starf, þá vantaði 24.000 störf eftir þrjú ár og engin ný störf voru í augnsýn. Þetta leit ekki vel út.

Vestfirðingar heimtuðu að sleppa við kvótaskerðingu því þeir væru sérstakir um leið og þeir kröfðust þess á fá frjálsar hendur við fjöldaslátrun á hvölum, þeim ógurlegu ófreskjum sem sífellt sitja á því lúabragði að borða lífverur hafsins. Þeir mótmæltu því líka að það vantaði fisk á miðin, það væri allt vaðandi í þorski – „maður skilur bara ekki hvað þessir háu herrar suður í henni Reykjavík eru að hugsa“. Helst ætti að veiða 280.000 tonn, ef ekki 300.000. Svo var talað um „sértækar aðgerðir“. „Hrun blasir við á Vestfjörðum“ – hljóðar ein fyrirsögn þessa tíma. „Stóráfall fyrir byggðarlögin við sjávarsíðuna“ – hljóðar önnur. Það mætti birta allar fréttir sumarsins 1992 óbreyttar nú nema hvað skipta þyrfti út nöfnum ritstjóra Fréttablaðsins, seðlabankastjóra, forstjóra Landsvirkjunar og fríþenkjarans fyrir nýtt og ferskt fólk.

En lærðum við eitthvað á þessu? Jú, við lærðum að sjávarútvegurinn er ótraustur, óáreiðanlegur og hverfull atvinnuvegur. Verið getur að hann gufi upp einn daginn og beri aldrei aftur sitt barr. Það varð viðhorfsbreyting í íslensku þjóðfélagi. Við áttuðum okkur á að ef þetta samfélag á að verða eitthvað á næstum öldum verðum við að kveðja sjávarútveginn og horfa annað. 

 


Keppt í hugleiðslu á landsmóti UMFÍ

Renndi við á landsmóti UMFÍ í morgun, rétt til að sjá hvernig þetta liti út, en það var dauft yfir mannskapnum og hrollur í fólki. Enginn vissi heldur klukkan hvað atriðin byrjuðu eða yfirleitt hvað væri næst á dagskrá. Í fréttaskeyti á forsíðu landsmótshluta heimasíðu UMFÍ er sagt að glíman hafi verið flutt upp í Lindarskóla en síðan verður maður að spóla fram og aftur í dagskránni til að finna klukkan hvað glíman byrjar og endar. Ég er ekki alveg viss um að þetta mót sé fyrir almenning.

Raunar skemmti ég mér ágætlega á síðasta landsmóti á Króknum. Til dæmis fór ég á skotfimikeppni í reiðhöllinni Svaðastöðum. Það var eins og að fara á myndlistarsýningu. Mér fannst ég vera á Documenta í Kassel. Risastór höllin var galtóm utan hvað tveir einbeittir eldri menn og þrjár feitlagnar unglingsstúlkur stóðu með heyrnarskjól og litlar byssur og skutu ótrúlega vegalengd á litla og ómerkilega hringi dregna á þunn pappírsblöð sem maður rétt grillti í. Ein stúlka sat svo með fartölvu á borði og starði á hana með svipuðu augnaráði og múmía af 18 konungsættinni. Steinhljóð var í salnum nema litlir smellir heyrðust í sífellu og svo einhverskonar suð þegar blöðin sem skotið var á gengu fram og aftur á þráðum sem strengdir voru milli veggja. Ég settist niður og reyndi að skilja það sem fram fór. Það var ómögulegt. Enginn sagði mér hvað gekk á og engar upplýsingar var að hafa auk þess sem ég var eini áhorfandinn. Þetta var í raun alls ekki íþróttakeppni fyrir almenning heldur verkefni til að túlka, aðstæður sem maður gekk inn í og lét orka á sig.

Eftir því sem maður sat lengur urðu smellirnir þekkilegri og fjarlæg einbeiting skotmannanna færði yfir mig höfgi, þeir létu líka eins og ekkert skipti máli nema þeir einir. Ég fann að hugurinn róaðist, mér gekk betur að einbeita honum að því að vera bara til en hugsa ekki um það sem á eftir kom eða allt það ókláraða sem alla jafna bíður manns. Það var fagmennska í uppsetningu skotpallana sem ég hafði ekki tekið eftir strax. Fallegt til dæmis hvernig ómeðhöndlaður krossviður var notaður og svo var yfirborð malarinnar á hallarbotninum með sterka efnislega tilvísun auk þess sem sagi hafði verið stráð hér og þar til að undirstrka hana. Ég sá að þetta fólk var greinilega að vinna með tilvísun til hugleiðsluhefðar zen-búddismans, með áherslu á abstrakt form sem endurgerðu ímyndað landslag í mölinni. Einbeiting skotmannanna minnti á hefðir japanskra bogmanna sem einnig spretta úr zenhefðinni. Marksæknin, ein helsta þráhyggja samtímans, og inntak móts á borð við landsmóts UMFÍ, var því endurgerð sem gjörningur fimm einstaklinga, tveggja karla og þriggja stúlkna og varð um leið hlaðin innri spennu. Segja mátti að hér væri hin óþekkta miðja sjálfs landsmótsins sem þó stóð á jaðri þess. Hér var sjálf orkumiðstöð íþróttanna, en þó handan keppninnar, þar sem íþróttamaðurinn og hugur hans stendur einn andspænis efninu sem hann verður að sigrast á til að hljóta verðlaun. Þetta hafði djúp áhrif á mig. Skotkeppnin sagði mér að það væri jákvætt ef hópur listamanna myndi vinna með UMFÍ á næsta móti við að rannsaka andlega innviði íþróttanna. Það myndi vera jafnmikið ef ekki meira við alþýðuskap og aðrar keppnisgreinar á þessum landsmótum sem maður verður hvort eð er að giska á í hverju felast, hvar þær fara fram og klukkan hvað.


Skotinn fyrir að skrifa

Í Fréttablaðinu í dag er stutt grein um örlög Önnu Polítkovskaju, rússnesku blaðakonunnar sem var myrt 7. október í fyrra. Tilefnið er að blaðamaður hefur verið að glugga í enska þýðingu á safni eftirlátinna greina, A Russian Diary, sem Random House gaf út í Bandaríkjunum en Harvill Secker í Bretlandi fyrir rétt rúmlega mánuði síðan. 

Þetta er ágætis grein og þörf áminning um að frelsi til að tjá sig og koma upplýsingum á framfæri er langt í frá sjálfsagt í löndum sem eru í næsta nágrenni við okkur. Þá er ég ekki að tala um frelsi til að bulla og rugla og ryðja dónaskap yfir náungann eins og margir bloggmenn virðast álíta að sé kjölfesta tjáningarfrelsisins, heldur einfaldlega frelsið til að segja satt og rétt frá því sem gerist og tjá skoðanir sínar á þvi. Eins og Jón Ólafsson heimspekingur segir í greininni er ofbeldiskúltúr viðloðandi Rússland og leigumorðingjar og störf þeirra nánast hluti af daglegu lífi. Það er einmitt talið að Anna Polítkovskaja hafi verið myrt af leigumorðingja, en hún var skotin frammi á gangi í blokkinni sinni þegar hún var að koma heim.

Viðbrögð Pútíns forseta yfir morðinu voru vægast sagt ótrúleg. Í þrjá daga eftir morðið heyrðist ekki múkk frá embættinun þangað til hann sagði í sjónvarpsávarpi að þetta væri smáatburður sem engu skipti, gildi Polítkovskaju í pólitísku lífi Rússlands hefði verið gróflega ofmetið.

Um þetta leyti var Polítkovskaja orðið þekkt nafn. Ég man eftir að hafa séð bók hennar um Tjetjeníu á dagskrá umræðna um stríð og vandamál víða um lönd. Bókin er til á ensku og heitir A Small Corner of Hell: Dispatches from Chechnya og var gefin út af háskólaútgáfu Chicago háskóla í USA árið 2003. Anna vann sem blaðamaður fyrir dagblaðið Novaja Gazeta og sagði frá hrikalegum stríðsglæpum rússneska hersins og stjórnvalda í Tjetjeníu: pyntingum, fjöldaaftökum og þeirri staðreynd að rússneskir hermenn halda alla jafna líkum fallinna Tjetjena "í gíslingu" og selja þau síðan á svimandi  háu verði til ættingjanna. Þetta stríð er enn í gangi þrátt fyrir að átökin séu ekki jafn mikil og áður. Rétt fyrir dauða sinn birti Polítkovskaja grein um Tjetjeníu þar sem hún segir frá pyntingum og gervifréttum sem héraðsstjórnvöld búa til og eiga að draga upp jákvæða mynd af ástandinu. Hún hafði m.a. undir höndum myndbandsupptökur af pyntingum á meintum hryðjuverkamönnum.

Alþjóðasamtök útgefenda, IPA, heiðruðu minningu Polítkovskaju við athöfn á bókamessunni í Höfðaborg nú um miðjan júní. Tilefnið var að veitt voru svokölluð Frelsisverðlaun útgefenda, en þau voru fyrst veitt í fyrra á bókamessunni í Gautaborg. Einn af þeim sem sátu í undirbúningsnefnd þessara verðlauna var Sigurður Svavarsson hjá Eddu sem veitti Félagi íslenskra bókaútgefenda forstöðu árum saman. Í ár hlaut verðlaunin Trevor Ncube, útgefandi frá Zimbabve. Hann er einn þeirra sjálfstæðu afrísku útgefenda sem hafa haldið uppi stöðugri baráttu fyrir útgáfu- og prentfrelsi og eru óþreytandi að benda á að framfarirnar sem afrískir leiðtogar syngja fagra söngva koma ekki nema með því að fólk fái að tjá hugmyndir sínar og skoðanir í friði fyrir ritskoðun, kúgun og öðrum hremmingum.

Um leið var minningu þeirra Hrant Dinks (en um ástandi í Tyrklandi bloggaði ég í vetur ) og Önnu Polítkovskaju sýndur heiður. Þau voru bæði myrt fyrir að skrifa og gefa út það sem þau trúðu að skipti máli til að gera samfélög sín betri, lýðræðislegri og umburðarlyndari.


Jólabækurnar 2007

Þótt sumarvertíðin í bókaútgáfu sé nú í raun fyrst að fara almennilega í gang og enn séu væntanlegir nýir titlar á markað eru flestir á bókaforlögunum með hugann við haustið og jólin. Á næstu vikum verður hulunni svipt af heitustu titlunum. Óvæntir höfundar verða blásnir upp og almenningi gerð grein fyrir hvað hann á í vændum á haustdögum. Enn eina ferðina mun jólabókaflóðið fara af stað og ef straumar síðustu ára renna enn sinn veg munu um 700 titlar keppa á markaði þar sem eitthvað um 700 milljónir eru í pottinum.

Frá sjónarhóli menningarinnar, þjóðmenningarinnar, er þessi gríðarlega útgáfa, sem að langstærstu leyti er kostuð af einkaaðilum, tákn um trú okkar á bókmiðlinum sem slíkum og raunar líka trú okkar á möguleika tungumálsins því samfara þessari útgáfu má sjá að ýmsir nýir efnisflokkar sem áður hafði ekki verið fjallað um á íslensku eru brotnir undir málplóginn. Frá sjónarhóli þeirra sem um menninguna fjalla í fjölmiðlum, sem eru í raun ekki nema um tugur manns eða svo, er þetta annað hvort hálfgerð vitleysa (hvað er maður búinn að heyra oft kveinstafina um að dreifa nú útgáfunni, líkt og fyrirtækin starfi eftir kröfum nokkurra menningarblaðamanna en ekki viðskiptavina sinna) eða tækifæri til að spyrja: "Hver verður aðalbókin í ár?" "Hvað verður hittið núna?" (Ég hef ekki tölu á hve oft ég hef heyrt þessa spurningu.) Frá sjónarhóli eiginlegra bókaútgefenda er ýmislegt við þessa miklu útgáfu að athuga. Aukningin í útgáfunni er mest hjá litlum aðilum, fólki sem ætlar sér ekki prímert að græða á útgáfu en vildi gjarnan sjá rit sitt útgefið. Vegna þess hve línan hér á landi er þunn milli vel útgefinnar alvöru bókar og þess sem á útlendum málum er nefnt "vanity publishing" skirrast menn alla jafna við að fordæma þessa þróun. Hún lýsir miklum krafti, hún sýnir hve lýðræðislegur þessi bransi er í raun, en um leið gerir hún þeim sem ætla sér að hafa atvinnu af útgáfu erfitt fyrir. Þetta er í raun ekki ósvipað og ef 200 aðilar hérlendis myndu hver um sig bjóða fram sína fatalínu og ætlast til að Hagkaup, Svövuveldið og Rúmfatalagerinn seldu þær allar.

Þessi lýðræðislega opnun (allir geta gefið út það sem þeim sýnist, það er ekkert mál og kostar ekki mikið) er nokkuð sem t.d. stjórnmálamenn í Evrópusambandinu og ýmsir þrýstihópar um afnám höfundarréttar og opnun á rafrænum skjölum til almennings setja á oddinn. Samtök evrópskra útgefenda, FEP, hafa hins vegar miklar efasemdir um að þessi leið sé vænleg til að tryggja fjölbreytni og gæði bókaútgáfu álfunnar. Þau hafa einmitt haldið "vanity publishing" hugtakinu á lofti, enda hefur það holan og hlægilegan hljóm úti í stóru löndunum. Í bestu skáldsögu Umberto Ecos, Pendúll Foucaults, lýsir hann einmitt á mjög kómískan hátt starfsemi "vanity publishing" forlags í Mílanó sem gengur út á að búa til bækur á kostnað höfundanna sem allt eru vellauðug skúffuskáld sem eiga sér þann draum heitastan að sjá eftir sig útgefið verk. Forseti FEP, Svíinn Jonas Modig, hefur til að mynda ritað að útópía Evrópusambandsins um að allir gefi út það sem þeim sýnist á netinu, hafi ekkert annað en dauða alvöru upplýsingamiðlunar í för með sér. Gæðaaðhald forlaga, strangt val á útgáfubókum, mikil og virk ritstjórn, virðing og hár standard á frágangi tryggi að yfirleitt sé hægt að verðleggja upplýsingarnar. Með því sé höfundum tryggð réttlát afkoma af starfi sínu. Um leið og höfundarréttarhugtakinu sé varpað fyrir róða sé efnahagslegum grundvelli hundruð þúsunda Evrópubúa svipt burtu. Annars verður allt höfundarstarf unnið sem sjálfboðavinna, kostað af fyrirtækjum eða borið uppi af opinberum stofnunum. Í markaðshagkerfi þýðir það í raun hrun samfélagslegar innistæðu þessarar starfsemi, hún er orðin að marklausu föndri.

Útgefendur hérlendis hafa sjaldan gagnrýnt þróun undanfarinna ára þar sem sífellt fleiri bækur eru gefnar út af "ekki"-útgefendum. Um leið hefur heldur engin umræða farið fram um það hvernig útgáfulandslag við viljum sjá. Við erum að sönnu með markað sem heldur uppi nokkrum fyrirtækjum, en þau standa öll í miklu stappi við að halda sér á floti og þurfa nú ekki aðeins að keppa sín í milli, heldur í æ meira mæli við yfirfullar bókabúðir af bókum sem margar hverjar eru einfaldlega "vanity publishing". Er það gott eða vont?


Á Esju

Í gærkvöldi blasti við okkur Magga furðuleg sjón, nokkuð sem við höfum aldrei orðið vitni að áður. Við hittum mann uppi á Þverfellshorni Esju sem var að lesa bók. Hann hafði gengið áleiðis að efri vörðunum tveimur upp af horninu þangað sem fæstir nenna að fara og sat þar í makindum í góða veðrinu og las.

Það er ekki oft sem logn er þarna uppi, en það var svo sannarlega í gærkvöldi, nánast reyndar hitasvækja. Við hittum þau hjón Þórarinn Eldjárn og Unni og Unnur skýrði út fyrir okkur fyrirbærið: hafgolan berst ekki upp, hún er bara á láglendi og þá er logn til fjalla. Þegar búið var að segja manni þetta áttaði maður sig á að þetta er rétt, en það var traustvekjandi að heyra þetta frá alvöru veðurfræðingi, þetta var nánast eins og ritskýring við ferðina.

En lesandanum á Esju brá nokkuð því við komum aftan að honum, átti greinilega ekki von á því að fólk kæmi neðan af Esjunni sjálfri. Við fórum nefnilega upp Gunnlaugsskarð og gengum svo hringinn niður á Þverfellshorn og vorum rasandi yfir hve margir voru á leið upp, löng röð göngufólks fikraði sig nær. Ég hafði það sterkt á tilfinningunni að þetta fólk væri á leið að skríni eða helgidómi. Á útbúnaði margra og stuttu spjalli við þá mátti sjá að þessi ganga var nýjung í þeirra lífi en allir voru ákveðnir að komast upp, enda færið sjálfsagt aldrei betra en nú, stígarnir þurrir og auðgengir og keðjurnar sem Höskuldur í ÁTVR og FÍ komu upp fyrir tveimur eða þremur árum eru nánast bylting og hafa leitt af sér að aftur hefur troðist einn fastur stígur. Á tímabili var allt Þverfellshornið orðið að einum vaðli því fólk óð upp þar sem því sýndist og engar leiðbeiningar voru um uppgöngu.

Keðjurnar minntu mig á að þegar þær voru "vígðar", tók Halldór Ásgrímsson þátt í athöfninni. Honum var málið skylt enda þá orðinn að ástríðufullum Esjugöngumanni. Ég rakst á hann nokkrum sinnum utan í horninu en aldrei tókum við tal saman utan einu sinni vorið 2003. Þetta var krítískur tími hjá Framsókn mitt í miklum atgangi um skipan ráðuneyta og stjórnarmyndunarvafstur þar sem Össkur hrærði upp í liðinu með gylliboðum eins og við vitum nú. Ég var þá á leiðinni upp í hreinni skemmtigöngu og fór mér ekki óðslega. Gekk lögboðna stíginn upp með Mógilsánni og þar áfram upp skáann utan í Þverfellshorninu. Þar sem ég kem suður fyrir hornið situr sólin ofan á Kambshorninu og skín beint framan í mig svo ég blindaðist alveg og horfði því niður í götuna.  Allt í einu verð ég var við að maður kemur á móti mér og eins og Esjufara er siður lít ég upp til að bjóða góða kvöldið en blindast um leið og sé ekki nema útlínur göngumannsins. Hann kemur nánast eins og út úr sólarkringlunni, helst líkur grísku goði, kannski Appolón og ég stari píreygður á en lít svo niður þar sem maðurinn segir ekkert, muldra svo ofan í svörðinn "Gott kvöld". Við það nemur goðið staðar. Ég lít upp. Þar sé ég vinalegt andlit Halldórs. Hann er rjóður í vöngum og yfirbragðið óvenju létt, ég hugsa að honum sé farið líkt og mörgum, að þeir kasta af sér hamnum á fjöllum og út í náttúrunni og eru þar í raun þeir sjálfir. Halldór býður nú gott kvöld en ég sé á honum að hann vill segja meira svo ég staðnæmist. "Ætlarðu upp?" spyr Halldór og lyftir um leið annarri hendi með tónfalli og sveiflu sem ósjálfrátt minnti mig á Óla Jóh. Ég jánka því. "Alla leið upp?" Jú, það var ætlunin. "Vildurðu þá vera svo vænn að skrifa nafnið mitt í bókina, ég gleymdi því nefnilega áðan." Ég jánkaði því og ætlaði svo að spæna af stað en um leið kom upp í mér strákurinn svo ég vildi spyrja hvaða nafn ég ætti að setja í bókina. Halldór virtist hafa áttað sig á þessu smáræði því hann staðnæmdist sjálfur eftir að hafa tekið tvö skref niður á við: "Það er Halldór," sagði hann. "Halldór Ásgrímsson." Og þakkaði fyrir sig.

Upp kominn skrifaði ég nafnið mitt. Síðan skrifaði ég "Halldór Ásgrímsson". Tveimur dögum síðar fór ég aftur upp og kíkti þá í bókina. Fyrir neðan nöfnin okkar Halldórs hafði einhver skrifað: "Davíð Oddsson".

 


Auðnin

Að undanförnu hef ég verið að lesa mig í gegnum sögu umhverfisstefnunnar. Það stakk mig allt í einu að þrátt fyrir mikla umræðu um umhverfismál undanfarin misseri að þá veit maður nánast ekkert um sögu þeirra hugmynda sem maður sjálfur og aðrir halda á lofti. Mér hefur komið á óvart að þessi saga er merkilegri og margbrotnari en ég hélt og að hugmyndirnar hafa tekið ótal beygjur og króka. Og að því sögðu saknar maður náttúrlega dýpri umfjöllunar um hérlendar hugmyndir en ef til vill er einhver sagfræðispíran nú að vinna að henni. 

Það sem sérstaklega hefur vakið athygli mína er að sjá hve fáar heimildir eru til um róttæka náttúruhyggju fyrir miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Flestir sem vildu vernda náttúruna eða mærðu óbyggðirnar fram að því voru þeirrar skoðunar að þær væru einskonar endurhleðslustöð fyrir úrkynjaða nútímamenn sem ekki fengju raunveruleg viðfangsefni lengur að glíma við (Guðmundur Einarsson frá Miðdal er án efa svipmesti talsmaður þessa viðhorfs hér á landi, heillandi lýsingar hans í höfuðriti hans Fjallamenn og í Árbók FÍ þar sem sagt er frá suðurjökulum valda því að maður skammast sín fyrir að húka í bænum þegar sólin skín og fjöllin ljóma) eða að náttúran væri á einhvern hátt andlegs eðlis, yfirskilvitlegur veruleiki og heilagur, og því væri nútíminn og veraldarhyggja hans óvinur hennar.

Þessi viðhorf eru hins vegar mannhverf, hafa yfirleitt velferð mannsins og hamingju að leiðarljósi, og eru því náskyld þeim hófsömu viðhorfum sem við sjáum nú birtast í kolefnisjöfnun, landgræðslu, sambúð nýtingar og verndunar og þjóðgarðastofnun með "bættu aðgengi" að ýmsum náttúruperlum sem talið er ýmsum framkvæmdum á hálendinu til tekna. Það verður að segjast að slíkt er sannarlega "lýðræðislegt", kannski líka "skynsamlegt", en það er hressandi að taka upp bók sem ég þekkti ekki áður og mér skilst að hafi verið grundvallarrit á þeim miklu umbrotatímum um 1970. Þetta er bókin Desert Solitaire eftir Edward Abbey.

Hér er á ferð hrífandi rödd sem mærir auðninar sem veruleika í sjálfu sér. Náttúruna á ekki að vernda "til einhvers", heldur raunverulega "til einskis". Náttúra auðnanna, eyðimörkin, fjöllin, firnindin eru "annar veruleiki" og andmennskur. Við mennirnir verðum að kyngja því í auðnunum að þessi veruleiki er algerlega hlutlaus gagnvart okkur, hann fagnar okkur ekki, hann gerir ekkert við okkur, hann er bara. Reyndar dettur Abbey líka í hetjutal líku því sem sjá má hjá Guðmundi frá Miðdal, mennirnir þurfa þessa ómennsku veröld til að átta sig á sjálfum sér, á náttúruleika sínum. En það er hressandi að lesa ómengaðan viðbjóðinn sem Abbey hefur á skipulögðum þjóðgörðum með "góðu aðgengi", "ferðamannaiðnaðinn" sem er versta skammaryrði í hans munni. Hann ritar: "Við ökum ekki bílum inn í dómkirkjur, tónleikasali, listasöfn, dómssali, svefnherbergi eða önnur heilög vé okkar menningar, þannig eigum við líka að koma fram við þjóðgarðana okkar." Engir vegir, engin "aðstaða", ekkert "aðgengi".

Æi hvað það er upplífgandi að sjá svona alvöru málamiðlunarleysi í öllum málamiðlununum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband