Stórbrotinn útgefandi í stappi við fjármagnseigendur

Eitt helsta mál útgáfubransans í hinum enskumælandi heimi um þessar mundir eru átök forlagsstýrunnar Judith Regan og yfirmanna hennar í fjölmiðlaveldi Roberts Murdochs; hinn misþokkaði útgáfukóngur þar með talinn. Þótt Regan sé ekki þekktur persónuleiki í hérlendum fjölmiðlakreðs hefur hún að mati jafnt hatursmanna og viðhlæjenda verið einn aðsópsmesti útgefandi Bandaríkjanna mörg undangengin ár og þokað þeim bransa enn lengra upp í kjöltuna á sjóbissnessinum og skandalpressunni en áður var talið gerlegt.

Fyrir tveimur árum innsiglaði hún tengsl þessa tveggja stólpa menningariðnaðarins með því að færa útgáfu sína, Regan Books, til Los Angeles frá New York, en þar er eins og kunnugt er miðstöð bókaútgáfu í Bandaríkjunum. Þetta imprint hefur verið sterk tekjueining innan HarperCollins útgáfunnar og hún hefur notið sérstakrar náðar í News Corp.-veldinu sem góðvinur Róberts sjálfs og fengið að valsa um allar hunda og katta grundir með tékkheftið.  Hún er heilinn á bak við bækur á borð við How To Make Love Like A Porn Star, æviminningar Jennu Jameson, og hún kom auga á útgáfupótensíal Michaels Moores áður en hann trylltist yfir ritskoðun Regan Books (forlagið gerði ítrekað kröfur um endurritun á viðkvæmum post 9/11 köflum eins og MM reifar í formála sínum að breskri útg. Karlanna) á Heimskum, hvítum körlum og fór yfir á Time Warner (sem nú er reyndar orðið franskt fyrirtæki, þannig að Moore er nú gefinn út af Evrópumönnum; hefnd heimsvæðingarinnar). Hún gerði líka útgáfusamninga við útvarpsmanninn Rush Limbaugh sem skrifaði tvær bækur um ævi sína og skoðanir snemma á 10. áratug 20. aldar, The Way Things Ought To Be, og I Told You So sem báðar komust í efsta sæti metsölulista NYT. Frá Regan Books hefur komið mikill straumur metseldra frægðarmennabóka og útgáfukatalóginn er í senn furðulegur og frumlegur, kaffiborðsbækur eftir fræga innanhússhönnuði innan um dramatískar skandalsögur og afhjúpanir, íþróttabækur eins og Kanar eru svo hrifnir af og svo patríótískar stríðsbækur í bland við hreinræktaða trylla.

En nú "skeit hún upp á bak" eins og Gillzenegger hefði orðað það. Bókin How I Did It, sem O.J. Simpson ritaði í félagi við draughöfund og fjallaði um hvernig hann hefði hugsanlega ráðið sáluga eiginkonu sína og ástmann hennar af dögum, þótti fara yfir mörk velsæmisins auk þess sem málsóknir af hálfu ættingja hinna látnu blöstu við. Murdoch þvoði hendur sínar, stöðvaði útgáfuna, rifti samningum og rak síðan frú Regan í lok vinnudags föstudaginn 16. des. Nú hefur lögfræðingur Regans boðað málsókn á hendur HarperCollins og News Corp. fyrir meiðyrði, en að sögn talsmanna HarperCollins á Regan að hafa sagt útgáfustjóra HarperCollins, Jane Friedmann, og fleiri gyðingættaða starfsmenn útgáfunnar hafa blásið til "júðsks samsæris" gegn sér. Judith blessunin á sér fáa fylgismenn á þessum erfiðu tímum því ekki hefur vantað á henni kjaftinn og hún látið flest flakka um kollegana og hina ölluráðandi agenta í áranna rás.

Án efa er það einhver snarbilaðasta útgáfuhugmynd allra tíma að fá mann sem sýknaður var í réttarhöldum af morðákæru til að skrifa bók um það hvernig hann hefði getað framið morðin. Og ekki nóg með það: Hún kom líka tveggja þátta sjónvarpsprógrammi um sama mál á koppin og var víst búin að landa kvikmyndaréttinum líka. Ég sæi íslenska útgefendur vera búna að blása í flesta sína herlúðra til að tilkynna slíka alslemmu í afleiddri réttindasölu. En þetta var of mikið fyrir fólk og nú veit enginn hvað verður um Regan Books. Kannski er það líka áminning um að fara varlega í nefna fyrirtæki í höfuðið á sjálfum sér. Enginn ræður jú sínum næturstað.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband