Stolið og stælt

Þegar fréttir tengdar hinum alþjóðlega útgáfubransa frá síðasta ári eru skoðaðar er eins og aðeins tvennt hafi verið merkilegt: Google og svínarí.

Þótt nokkrir þessara svindlstorma hafi verið bundnir við drykkjarílát náðu nokkrar lægðir að dýpka það snarplega að fólk missti æruna. Þó komust sumir í var eins og Ian McEwan sem kollegar úr öllum heimsins áttum slógu fyrir skjöldum þegar hann var sakaður um að hafa hnuplað textum annarra í löngu útgefinni skáldsögu, Amsterdam, sem hann hlaut fyrir Booker verðlaunin á sínum tíma. Að einhverju leyti má segja að Dan Brown hafi einnig bjargast úr sinni hildi þegar það undarlega höfundareyki Michael Baignent og Richard Leigh kærðu hann fyrir ritstuld og náðu svo langt að koma honum fyrir dóm í London. Þeim þótti sem öllum meginhugmyndinum í Da Vinci lyklinum hefði verið stolið úr gömlum megabestseller þeirra, The Holy Blood And The Holy Grail, sem fyrst kom út árið 1982 og þeir rituðu í félagi við þriðja mann, Henry Lincoln. Ég mæli raunar með þeirri bók, sérstaklega ef menn hafa lesið Lykilinn, því hugmyndir hans verða í raun vart skýrar fyrr en ofsóknarbrjáluð furðuflétta þessa "sagnfræðiverks" er skoðuð. Réttarhöldin urðu reyndar þegar á leið stórmerkileg þar sem Dan Brown lýsti eiðsvarinn dæmigerðum vinnudegi sínum sem og vinnulagi (en þær upplýsingar höfðu ekki komið fram áður). Kom þá upp úr pokunum að konan hans er potturinn og pannan í ritferli hans. Hún vinnur forvinnuna og sankar að sér upplýsingunum, raðar saman brotunum, les yfir textann hans og "editerar" auk þess sem hún er einskonar umboðsmaður hans. Sjálfur vaknar hann klukkan fjögur á morgnana og skrifar til átta eða þar um bil, þá er friðurinn úti að hans mati og einbeitingin horfin. Hann gerir ýmsar leikfimiæfingar á milli skriftarlota, en ver síðan deginum í stúss. Konan hans er hins vegar eins og útspítt gæra að lesa sér til um sögu kvenna í árkristni, raða saman ættartölum Mervíkinga og skima eftir undarlegum teiknum í sveitum og bæjum Frakklands, rétt eins og aðrir sem hafa étið við garðann í þessu sauðahúsi dellufræðanna.

Dan Brown var náttúrlega sýknaður - enda hafði enginn svo sem búist við öðru - en allt þetta tilstand náði engu að síður að koma höggi á hann, það er í það minnsta skoðun nokkurra bandarískra blaða, t.d. The Post og LA Times. Hann var settur í sama mengi og helstu konungar ritstuldarins og svindlsins - og sú konungaröð var orðin nokkuð löng vestur í Bandaríkjunum þegar upp var staðið.

Þar ber náttúrlega hæst lygalaupinn og rauparann James Frey sem mölbrotinn gekkst undir dóm sjónvarpsþjóðarinnar og játaði syndir sínar en uppskar ekki fyrirgefningu, heldur reiði sjálfrar Ophru Winfrey sem aðallega var svekkt yfir að hafa verið plötuð og sem niðurlægði Frey með því að játa eigin niðurlægingu. Öllu sorglegri var saga indverskættuðu stúlkunnar Kaavya Viswanathan sem til skamms tíma var táknmynd velgenginnar eftir hafa aðeins 17 ára að aldri fengið hálfa milljón dala í fyrirframgreiðslu fyrir tvær óskrifaðar bækur frá Little, Brown og hafið stuttu síðar nám við Harvard. Í marsbyrjun 2006, skömmu eftir útkomu bókar hennar How Opal Metha Got Kissed, Got Wild, and Got a Life var þessi nokkuð fyrirsjánlega og formúlukennda "young adult" bók (eða YA eins og bókmenntagreinin heitir einfaldlega í fagpresunni) fyrir barðinu á heiftarlegri gagnrýni um að þar væri gengið skör framar í ritstuldi en venjan er í formúlubransanum, bókin var í kjölfarið innkölluð og höfundinum gert að skila peningunum.

Lítum nánar á þessi tvö tilfelli:

Saga James Frey hófst þannig að Mölbrotinn (eins og drykkjumannaævisaga Freys heitir á íslensku, A Million Little Pieces heitir hún á frummálinu) varð til í kollinum á höfundi fyrir einum fimm til fjórum árum og var þá ekki minningabók, heldur einskonar frjálsleg skáldleg útfærsla á lífshlaupi hans. Hins vegar hafði enginn áhuga á þannig skáldverki og umboðsmaður hans var gerður afturreka með þennan samsetning hjá einum 17 forlögum! Þá hugkvæmdist Frey nokkuð sem síðar átti eftir að koma honum í koll: Hann ákvað að láta sem þetta væri allt satt. Í kjölfarið ákvað Dobleday imprintið að taka hana upp á sína arma og bókin kom út árið 2003 og var talsvert mikið lagt í markaðssetninguna. Þrátt fyrir að fjölmargir í bransanum könnuðust við kauða og forsögu handritsins og þrátt fyrir að ýmsir gagnrýnendur (t.d. gagnrýnandi NYT og staðargagnrýnendur í miðvesturríkjunum þaðan sem Frey er ættaður) settu mikla fyrirvara við sannleiksgildi þessarar frásagnar og gæði hennar tókst engu að síður að afla henni nægilegs fylgis á markaði til að vegur hennar ykist smám saman. Um mitt ár 2005, einum tveimur árum eftir að bókin kom fyrst út, var síðan hafin ný herferð, eftir að bókin hafði setið lengi á trade paperback non-fiction listum NYT og PW. Þá blésu vindar þannig að sögur af þessum toga, sannar sögur af ævintýrum glæpamanns og fíkils, voru í mikilli eftirspurn og svo viðburðarrík og spennandi var saga Freys að Ophra Winfrey vakti heila nótt og las. Þann 26. október 2005 fór í loftið þáttur Ophru sem hét "The Man Who Kept Oprah Awake At Night". Allt starfslið þáttarins las bókina og grét, fólk vakti, fólk borðaði ekki, heldur las Mölbrotinn upp til agna. Þannig hljómaði lýsing blaðamanns vefblaðsins The Smoking Gun á atburðum:

In emotional filmed testimonials, employees of Winfrey's Harpo Productions lauded the book as revelatory, with some choking back tears. When the camera then returned to a damp-eyed Winfrey, she said, "I'm crying 'cause these are all my Harpo family so, and we all loved the book so much."

Það er sjálfsagt mörgum kunnugt að þessi þáttur sendi Frey og bók hans upp í skýin. Bókin var mest selda bók í Bandaríkjunum árið 2005 og var vikum saman í efsta sæti metsölulista NYT. Um leið varð Frey sjálfur að frægðarmenni sem fengið var til að koma fram við margskonar tækifæri og segja sögu sína. En aðeins nokkrum mánuðum síðar, í janúar 2006 sprakk loftbelgurinn. Frásögn The Smoking Gun var sett á vefinn og í henni var afhjúpað að Frey hefði ekki getað reynt það á eigin skrokki sem hann sagðist hafa lent í. Eftirgrennslan sýndi að hann sjálfur hefði hvorki verið jafn djúpt sokkinn í fen fíknarinnar og hann gaf sig út fyrir, né hefði honum tekist að komast jafn duglega í kast við lögin og hann sjálfur taldi. Hælbítar hans bentu á að lögregluskýrslur segðu aðra sögu, þeir bentu á að ómögulegt væri að hann héldi út rótarnám án deyfingar (það var til að sanna hve dofinn Frey var orðinn) og að hann hafði flogið milli hinna amerísku stranda ósjálfbjarga og í sárum sínum í lörfum sem hefðu verið "útataðir í hráka, hori, blóði, hlandi og ælu" og að enn fáránlegra væri að hann hefði drepið katólskan prest í París eftir að sá hefði reynt að þukla á pungnum á honum við skriftir (ferð Freys til Parísar var farin til að farga sér í Signu!). En þeir komust líka að því að þrátt fyrir að Frey hefði ítrekað sagst hafa setið margoft í fangelsi hefði hann aldrei komist nær því en svo að hafa farið á lögreglustöð til að hjálpa vini sínum út úr steininum, að unglingsáraafbrotaferill hans hefði í raun vart verið til og að margar persónur bókarinnar væru helber tilbúningur. Nú væri þetta alltsaman í sjálfu sér ekkert mál, hefði Frey sjálfur ekki ítrekað lýst því yfir og reynt að mikla sem mest að þetta væri allt satt. Hámarki náði þessi yfirlýsingagleði hjá Ophru sem lýsti manninum sem kraftaverki.

Eftir fálmkenndar tilraunir höfundar og forlags við að neita ásökunum The Smoking Gun og í kjölfarið allra helstu fjölmiðla USA neyddist Random House til að játa að þeir hefðu verið plataðir. Furðulegt nokk jók það aðeins söluna á bókinni um hríð, en að endingu var sú yfirlýsing gefin út að Frey hefði verið leystur frá samningum sínum við forlagið, að framhald Mölbrotins kæmi ekki út og að Random House myndi endurgreiða öllum sem keypt hefðu bókina beint af forlaginu. Í stórundarlegum þætti hjá Ophra þar sem Frey reyndi að slá vopnin úr höndum gagnrýnenda sinna var hann grillaður af spjalldrottningunni sem lét hann finna til tevatnsins og sagði að hann hefði blekkt þjóðina og ætti að skammast sín. Samkvæmt síðustu fréttum er það líka rétt. Bransinn skellti á hann dyrunum og síðan hefur ekki heyrst frá honum meir.

Eftirmál urðu nokkur því mikil og heit umræða var innan bransans um hver ætti eiginlega að taka ábyrgðina á svona uppákomum. Mega forlög bara plata lesendur sína og láta svo eins og ekkert hafi í skorist? Talsmenn forlaganna sögðu að þau gætu ekki gátað bækur sem þau gæfu út, það væri út í hött. Þau yrðu að treysta höfundum sínum. Um leið bentu gagnrýnendur á að áður fyrr hefðu ritstjórar forlaganna eimitt gert þetta, gátað útgáfubækurnar, en nú væru forlögin fyrst og fremst markaðsdrifin fyrirtæki sem reyndu að koma bók út eins hratt og hægt væri til að spara kostnað og létu sensasjón ráða fremur en fagleg vinnubrögð. Líklegast hafa báðir rétt fyrir sér, en ef eftirspurn eftir sensasjón eykst er líka freistingin til að svindla meiri og þá eru varnarmekkansimarnir inni á forlögunum orðnir svo veikir að þeir standast ekki þetta áhlaup. "Heiðursmannasamkomulagið" sem gilti um að hafa það sem sannara reynist gildir einfaldlega ekki í bókaútgáfu lengur - amk þeirri bókaútgáfu sem einbeitir sér að snöggri sölu. Þar með verða báðir aðilar, höfundar og forlög, að veðja á sensasjónina, og láta svo hitt ráðast. Þetta er kannski svolítið sorgleg niðurstaða, en endurspeglar hvernig útgáfa í stóru löndunum er komin þétt upp að blaðaútgáfu, netmiðlun og sensasjón, og sækir raunar samfélagslegt vægi sitt sífellt meira í fréttatengsl. Það þarf ekki að skoða það grannt að það sama er uppi á teningnum hérlendis líka.

En þá aðeins um hana Kaavya Viswanathan. Gullfalleg stúlka sem virtist vera að gera þetta allt rétt nema það eitt að bókin sem "hún" skrifaði var minnst eftir "hana". Það kom nefnilega í ljós þegar nánar var skoðað að "bókmenntaframleiðslufyrirtækið" Alloy Entertainment býr til bækur eins og hennar og að fyrirtækið er ábyrgt fyrir stórum hluta af YA framleiðslu Bandaríkjanna. Þetta fyrirtæki og önnur slík vinna hins vegar þannig að nánast enginn veit af þeim. Sögur sem t.d. hafa komið út á íslensku og þykja mjög góðar, eins og Gallabuxnaklúbburinn, sem er bókaflokkur um vinkvennahóp, er að mestu unninn "eftir hugmynd" þess sem titlaður er höfundur, Ann Brashares, en er í raun afurð slíks "bókmenntaframleiðslufyrirtækis" þar sem láglaunahöfundar Alloy Entertainment raða saman textunum og "vinna bókina". Þetta er alþekkt úr ástarsagnabransanum t.d. hjá fyrirtækjum eins og Harlequin (en þaðan koma Rauðu seríurnar frá Ás-útgáfunni), munurinn er sá að þessar YA bækur eru ekki gefnar út undir ákv. vörumerki, heldur koma út hjá þekktustu forlögum hins enskumælandi heims og neytendur skynja þær ekki sem kalkúlerað kollektíft verk, heldur sem höfundarverk. Hluti höfundarlauna þessara verka fer til framleiðslufyrirtækjanna og þau reikna sér "þróunarkostnað" sem annað hvort höfundur, umboðsmaður eða forlag greiða, venjulega allir þrír. Þessi fyrirtæki stytta sér stundum leiðina og þá er "ritlán" góð aðferð. Fegurðardísin Viswanathan lenti raunverulega í klemmu sem varðaði hana ekki neitt, hún var fórnarlamb "framleiðsluafstæðna" kapítalískrar bókaútgáfu og sem slík uppskar hún meðaumkun starfsbræðra á borð við Salman Rushdie, sem kom henni opinberlega til varnar. Hún fékk skítinn og skömmina, "bókmenntaframleiðslan" heldur hins vegar áfram með alla sína hnyttnu YA titla með pastelkoverum og teiknuðum stelpum með handtöskur í gellustellingum sem alltaf eru að gera eitthvað skemmtilegt og mátulega hættulegt án þess að fara yfir strikið. Þegar síðast fréttist af How Opal Metha Got Kissed, Got Wild, and Got a Life voru eintökin sem seldust fyrir innköllun (heil 8.000) til sölu á uppsprengdu verði á e-bay. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband