Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Kommúnistar í Reykjavík

Í gærkvöldi var hægt að hlusta á fyrirlestur við Háskóla Íslands um hvernig kommúnismi ætti að takast á við kapítalisma og ríkisvald og greiningu á stöðu kapítalismans á 21. öldinni og hlusta á harða gagnrýni á sósíalisma sem hækju kaptíalískra framleiðsluhátta og kúgunartæki mergðarinnar. Salurinn var fullur og allir kinkuðu kolli. Fyrir ári hefði slíkt verið óhugsandi.

Ég hafði hlakkað mjög til fyrirlestrar þeirra Michaels Hardt og Antonios Negri sem fram fór á Háskólatorgi í gærkvöldi. Ég er sjálfsagt ekki einn um að hafa á undanförnum árum sótt andlega næringu í ritið Empire þar sem innri mótsagnir þeirrar þjóðfélagsgerðar og skipulags myndaðist eftir "sigur nýfrálshyggjunnar" voru útlistaðar. Á góðærisárunum leið manni stundum eins og þetta væri eihvers konar forboðið rit, að það sem þarna stæði, sem og seinni bók þeirra, Multitude, væri eins og fjarlægur ómur, en nú virðist móttökutæki flestra vera betri fyrir boðskap þeirra félaga. Allir vilja heyra gagnrýni á kapítalismann og ríkisvaldið sem studdi hann með ráðum og dáð.

Salurinn var að sjálfsögðu fullur, en þó ekki eins smekkfullur og ég hafði ímyndað mér að hann yrði. Erindin voru ekki neitt popp svo sem heldur. Hardt fjallaði um mjög áhugavert efni sem brennur í raun sem eldur á öllum sem fást við "óefnislega framleiðslu" þessi misserin, sem er að óefnisleg framleiðsla hefur tekið stöðu iðnaðarins sem inntak kapítalískra framleiðsluhátta. Hann skýrði út hvernig mótstaða gegn þessum framleiðsluháttum á borð við sjóræningaútgáfur og rán á höfundarréttarvörðu efni birtir hina raunverulegu dýnamík framleiðslunnar, en að vörnin hefti flæðið. Í þessu ferli reyni kapítalisminn að slá eign sinni á sameiginleg verðmæti líkt og félagstengsl, lífverur, hugverk og svo framvegis. Framleiðslan byggi hins vegar ekki á eign, heldur á sameign. Án sameignar væri engin framleiðsla. Það var auðvelt að byggja hér brú yfir í kvótakerfið, sameign sem hefur verið eigngerð af kapítalismanum og hann minntist meira að segja á það, en enginn spurði um það eftir á.

Um Negri heyrði ég fyrst talað í Siena sumarið 1994 þegar ég fór á fyrirlestur þar sem fyrrverandi RAF menn töluðu um ríkiskúgun, en Negri var dæmdur til fangelsisvistar fyrir aðild sína að og stuðning við RAF á áttunda áratugnum. Ég held meira að segja að hann hafi verið ennþá inni á þeim tíma, sat líka lengi í einangrun. Ég man eftir því þá hvað þetta lið var gallhart en um leið mjög yfirvegað og málefnalegt. Ítalir búa alltaf að því að hafa átt Gramsci. Með hans hugmyndir um yfirráð og mergð að vopni tóku RAF mennirnir í sundur gangvirki ríkisins sem þjónustustofnun fyrir kapítalismann. Negri var á sömu buxunum í gærkvöldi. Einn punktur, sem ekki er ókunnur þeim sem hafa lesið Empire og Multitude, var athyglisverður. Sú hugsun að frelsunin, frelsun fjöldans og mergðarinnar frá firringunni og kúguninni gæti ekki farið fram með hliðsjón af draumsýninni um afturhvarf til upprunalegs ástand frelsisins. Það væri einfaldlega ekki til vegna þess að kapítalisminn framleiðir ekki vörur, heldur framleiðir hann félagsleg vensl og sjálfsverur. Framleiðsla hans á sjálfsverum hafi eyðilagt alla von um endurfundi við draumsýnina en í staðinn búi hún líka til ný tækifæri til andstöðu og nýs skipulags.

Spurningatíminn var frekar brokkgengur. Einhver hamraði á klassískum hugmyndum um hlutverk einstaklingsins í breytingum, að "athafnamaðurinn" yrði að taka áhættu, annars kæmist sagan ekki úr sporunum, sem var skrítinn málflutningur miðað við að bæði Negri og Hardt líta ekki á einstaklinga sem gerendur í sögunni og Hardt sagði einfaldlega: "Áhætta sem slík er heimskuleg." Jón Baldvin Hannibalsson kom með fína spurningu sem varð Negri tilefni til að undirstrika að hugmyndin um þjóðríkið er löngu fallin, öll söguleg ferli 21. aldar eru hnattræn ferli. Einn spurði um valdbeitingu og Negri tók góða og gegna Gramci-íska og Foucaultíska afstöðu til málsins og ýtti hugmyndinni um átakalausa baráttu út af borðinu. Jafnvel svokallaðir friðarsinnar beittu valdi og oft með mjög áhrifamiklum hætti, það væri fáránlegt að láta sér detta í hug að umbyltingar í stjórnmálum færu fram án valdbeitingar. Maðurinn sat jú í fangelsi þannig að þetta var ekki alveg óvænt. Í lokin náðu þeir að fjalla aðeins betur um kommúnismann sem Negri talaði jú um í sínu erindi.

Ég hélt í það minnsta ekki að ég myndi framar á ævinni sitja fyrirlestur í Reykjavík þar sem maður fjallaði um hvernig kommúnisminn getur tekið völdin af kapítalisma og ríkisvaldi. En í gærkvöldi var það hægt. Svona langt erum við komin. Mér vitanlega var enginn alþingismaður eða áhrifamaður í efnahagslífinu staddur þarna. Allir voru að búa sig undir næsta morgunverðarfund um "Sigur í samkeppni", "Leiðtogahæfni" eða "Stjórnunarstíl sprotafyrirtækja". Sagan heldur áfram.


Bókastefna, er hún að verða til?

Í ítarlegum stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar má sjá að mikill metnaður er til að efla íslenska menningu. Ekki á aðeins að vinna í því að innleiða tillögur þingsályktunar um íslenska málstefnu sem samþykktar voru á síðasta Alþingi, heldur á nú hvorki meira né minna að móta "menningarstefnu til framtíðar í samráði við listamenn og aðra þá sem starfa að menningarmálum".

Þetta er ný sýn á hlutina því það tilheyrði í raun hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins (en hann hafði forræði menntamála á sinni könnu um nærri tveggja áratuga skeið) að það væri ekki hlutverk hins opinbera að móta sérstaka stefnu í menningarmálum. Meginlínur ætti að draga upp og síðan væri það annarra að fylla út í myndina. Þetta er stundum mjög sniðugt, en líka stundum uppspretta mótsagna. Hvað bókaútgáfuna varðar var mótsögnin sú að ríkisvaldið stóð sjálft í stórfelldri útgáfu og útdeilingu styrkja til bókaútgáfu án þess að hafa gagnsæjar reglur um hvernig slíku fé skyldi ráðstafað eða bauð ekki út samninga um útgáfu stórvirkja á borð við Stjórnarráðsöguna, Sögu kristni á Íslandi, Tónlistarsögu Íslands eða Listasögu 20. aldar. Á bak við þessar ákvarðanir var að sönnu "menningarstefna", en hún miðaðist við þarfir valdamanna eða áhrifafólks innan stofnana hins opinbera, ekki við að hlúa að bókaútgáfu sem atvinnugrein. Hins vegar þótti og þykir enn gott að grípa til einkarekinnar bókaútgáfu þegar þörf er á, t.d. þegar "íslenska bókaþjóðin" er nefnd á nafn.

Ég veit ekki til þess að menn hafi þorað að setja fram verkefnalista um hvað íslenskt málsamfélag eigi að ráðast í að gera, en ef það væri gert, og ef það yrði "menningarstefna" að ráðast í þessi verkefni og þau síðan boðin út, gæti það orðið mjög athyglisverð tilraun til að ráðstafa fjármagni sem áður hefur þótt sjálfsagt og handan allra umræðu að ráðstafa í að styrkja bókaútgáfuna og það fagstarf sem þar er unnið og um leið að tryggja að þessi verkefni fái sem besta útbreiðslu. Verkefni sem maður hefur séð ráðist í hér og þar í heiminum á borð við að þýða "100 bestu bækur allra tíma" (Noregur) eða jafnvel "1000 bestu bækur allra tíma" (Dubai) eða að búa til "þjóðarbókasafn" þar sem samanlagður bókmennaarfur heils málsvæðis er gefinn út eru dæmi um þannig "draumaverkefni" sem þurfa þó í raun ekki að kosta svo óskaplega mikið ef rétt er á málum haldið. Aðalmálið er að atvinnugreinin eflist við þetta starf.

Því eins og góður og margreyndur sænskur bókaútgefandi sem ég þekki segir alltaf: "Það er ekkert mál að gefa út bækur, það hins vegar mál að selja þær." Sambland menningarstefnu og markaðsvinnu er ekki sérgrein ríkisins og á heldur ekki að vera það. Þetta er hins vegar það sem bókaútgáfan gerir alla daga, auðvitað með misjöfnum árangri, en íslenska bókaþjóðin er bókaþjóð vegna þess fyrst og fremst að einkareknar bókaútgáfur djöflast árið um kring við að koma vöru sinni í hendur á lesendum. Bókaútgáfa er fyrsta dæmið í sögunni um slíkan atvinnurekstur: fjöldaframleiðslu á staðlaðri vöru sem seld er á markaði. Inni í þessu grundvallarmódeli má hins vegar sprikla á margvíslegan hátt, enda kjósa um 150 lögalðilar og einstaklingar árlega að gefa út þær rétt rúmlega 1500 bækur sem hér koma út. Þetta kerfi skapar ekki aðeins virðisauka í langri keðju sem nær frá höfundum, hönnuðum, umbrotsmönnum, prenturum, myndvinnslufólki, lagerfólki, bílstjórum, bóksölufólki, dreifingaraðilum, auglýsingastofum að skattinum sjálfum (bókaútgáfan leggur meira til sameiginlegra sjóða en hún fær úr þeim á móti, jafnvel þótt starfslaun rithöfunda sé reiknuð með), heldur tryggir það einnig vettvang til að tjá sig og koma skoðunum sínum á framfæri.

Til að kerfið virki þarf innra stoðkerfi: Það þurfa að vera til góðar dreifileiðir - verslanir þar sem almenningur gentur gengið að bókum - , öflug og sterk bókasöfn sem tryggja að almenningur hafi aðgang að bókum og fræðslu hvenær sem er til framtíðar, það þarf að vera til stoðkerfi sem sér um að búa bækurnar til prentunar og miðla þeim til almennings, slíkt er ekki sjálfgefið, og það þarf að vera pólitísk sátt um að þetta starf sé mikilvægt fyrir málsamfélagið og hið opinbera styðji með ráðum og dáð við að gera málsamfélaginu kleift að starfa eðlilega með það einfalda og lýðræðislega sjónarmið að leiðarljósi að allir geti gengið að upplýsingum og allt sem nöfnum tjáir að nefna á móðurmáli sínu.

Það kom berlega í ljós þegar þingsályktun um íslenska málstefnu var lögð fram að jafnt fræðimenn, skólar, rithöfundar, orðabókasmiðir og aðrir gera ráð fyrir að þessi grunnstoð menningarmiðlunar á Íslandi virki einfaldlega og um það þurfi ekkert frekar að ræða. Þetta kom mjög flatt upp á okkur bókaútgefendur, því við höfum nánast engar spurnir af vinnunni við gerð þessarar málefnu nema óbeint í gegnum rithöfunda. Samt byggist stór hluti af þeirri "innleiðingu" íslenskrar málstefnu sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanumm á að láta að gefa út hitt og þetta, allt frá orðabókum, fræðibókum og barnabókum til nýrra kennslubóka í íslensku osfrv. Þetta er verkefni sem verður aðeins leyst af þeim sem hafa þekkingu, getu og bolmagn til að gera það, en þá verður stuðningurinn við þessi verkefni líka að vera ljós og skýr og innleiddur á faglegri máta en hingað til.

En stærsta verkefnið er hvernig hægt er að horfa út fyrir bókina og skapa hér grundvöll fyrir atvinnurekstri í rafrænni útgáfu, sem og að hvernig á að móta sýn á mikilvæg mál dagsins í dag, svo sem stafræna endurgerð menningararfsins, aðkomu stórfyrirtækja á borð við Google sem og þær aðstæður sem munu skapast þegar ný lestrartæki flykkjast inn á markaðinn en íslenskir lesendur og útgefendur verða útilokaðir frá helstu veitum þeirra á borð við Sony búðina fyrir Sony Reader eða Amazon.com. Við höfum í þessum efnum verið sofandi og slöpp en á næstu árum þarf að taka afdrifaríkar ákvarðanir sem munu geta haft stefnumarkandi gildi fyrir framtíðina og ekki síst framtíð íslenskunnar sem tungumáls í hópi lifandi tungumála.

Nýrri ríkisstjórn er óskað velfarnaðar. Það verður spennandi að sjá hvernig ný menningarstefna, já, ný bókastefna, artar sig.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband