Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
21.4.2008 | 23:40
Dyr að nýjum heimi
Ég var að snattast í bílnum seinnipart mánudags þegar þýð rödd Eiríks Guðmundssonar steig upp úr hátölurunum: Hann var að tala um auglýsingu Félags íslenskra bókaútgefenda í tilefni af Viku bókarinnar. "Jæja, hugsaði ég. Fer þetta eitthvað í taugarnar oddaflugsfólkinu ?" En það var ekki. Þvert á móti var auglýsingin í Fréttablaðinu honum innblástur, þessi dularfulla mynd sem sýnir konu í vorverkunum staldra við þegar ljós berst út um dyr þar sem bókarspjald er hurðin. Mitt í áköllum fyrirtækjanna um meiriháttar niðurfellingu og ofsaafslátt virkaði þessi ljóðræna skilaboðahvíld eins og hún átti að gera: Bækur eru magnaður miðill sem býr yfir dularfullu seiðmagni - dyr að nýjum heimi.
Nú er Vika bókarinnar skollin á af fullum þunga. Á miðvikudaginn er dagskráin þéttskipuð viðburðum: Afhendingu þýðingarverðlauna á Gljúfrasteini, afhendingu barnabókaverðlauna menntaráðs Reykjavíkurborgar, Steins Steinarskvöld í Iðnó og svo allt hitt sem maður veit ekki um.
Og mér hefur verið bent á að Vika bókarinnar er alls ekki séríslenskt fyrirbæri heldur sett upp að hollenskri fyrirmynd. Þar skrifa höfundar sérstaka bók sem síðan fylgir með í innkaupum ef keypt er fyrir ákveðna upphæð og raunar var sá háttur hafður á hér í nokkur ár. Mér var líka bent á að Dagur bókarinnar er blóma og bókadagur í Finnlandi og að Helsinki er undirlögð af upplestrum, þar á meðal miklu upplestrartjaldi í miðborginni. Góð hugmynd: Ef hægt væri að endurlífa hugmyndir Vilhjálms Egilssonar um rökvæðingu íslenskra frídaga væri hægt að færa sumardaginn fyrsta yfir á Dag bókarinnar og þá værum við með bókskrúðgöngur skáta! En ef tjaldað væri yfir Lækjartorg og sett upp heilsdagsbókmenntadagskrá? Nú eða ef skrúfað væri niður í músakkinu í Smáralindinni eða jafnvel tjaldað yfir efsta dekkið á bílastæðinu við Kringluna.
Miklir möguleikar bíða ...
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2008 | 22:45
Dagar bókanna
Vika bókarinnar hefst nú á mánudaginn. Hún er séríslensk uppfinning, hnituð í kringum alþjóðlegan dag bókarinnar og höfundarréttar sem UNESCO kom á fót og setti niður 23. apríl, á messu heilags Georgs, sem alveg óvart er afmælisdagur Halldórs Laxness. Í ár er Vika bókarinnar raunar haldin í tíundasta skiptið.
Draumur bókaútgefenda, bóksala og höfunda hefur frá upphafi verið að þessi tími væri einhvers konar allsherjar hátíð bókanna, þá myndi samfélagið ekki snúast um annað en bækur í nokkra daga. Það markmið á enn eftir að uppfyllast en það má hugga sig við að skrefin í áttina þangað eru jafn mikilvæg og leiðarlokin.
Ástæðan fyrir því að UNESCO valdi þennan dag er að á messu heilags Georgs er haldið upp á sérstakan dag bóka og rósa á Spáni. En hæst rís þó hátíðin í Katalóníu. Heilagur Georg er verndardýrlingur Katalóna og þar varð til sú hefð að gefa á þessum degi sérhverjum bókakaupanda rós í kaupbæti. Úr varð svo gífurleg kaupmennskuhátíð að myndarlegur partur heildarársveltu bóksölunnar í Katalóniu grundvallast á þessum eina degi. Þar sem bóksöluhefðir okkar hafa frá seinna stríði verið í beinu sambandi við jólaverslunina og miðast við smekk annarra en kaupenda bókanna (við keyptum bækur fyrir aðra en okkur sjálf) höfum við, eins og raunar margir aðrir, séð þessa katalónsku hefð í mildu draumljósi.
Enn og aftur þurfum við meiri og betri rannsóknir á bókamarkaðinum til að geta fullyrt nokkuð um breytingar á honum en það var athyglisvert að sjá niðurstöður úr árlegri Capacent-könnun Félags íslenskra bókaútgefenda þar sem spurt var um "einkaneyslu" bókakaupenda. Þar kom fram að nálega 70% aðspurðra höfðu keypt bækur handa sjálfum sér á árinu 2007. Fólk var ekki beðið um að sundurliða það frekar þannig að hér eru áreiðanlega að hluta skyldukaup, svo sem skólabækur, en miðað við það sem bóksalar og bókaútgefendur segja er straumurinn í þessa átt augljós: Bókamarkaðurinn á Íslandi er að breytast úr gjafamarkaði í neyslumarkað.
Vika bókarinnar átti frá upphafi að vera ein af leiðunum til að gera heilsársmarkað fyrir bækur mögulegan. Það sem hefur þó breytt mestu í þá veru er ekki endilega þessi sérstaka bókavika, heldur sú staðreynd að framboð á ódýrum bókum á fyrrihluta ársins hefur tekið algjörum stakkskiptum. Nú eru komnar út um 50 kiljur það sem af er ári og það telst vera met. Kiljuútgáfa án stuðnings bókaklúbba var mjög erfið fyrir aldamótin síðustu. En síðustu árin hefur mikið breyst og nú er svo komið að kiljur eru auglýstar jafn stíft og innbundnar bækur á jólamarkaði. Vika bókarinnar er staðsett á hárréttum tíma í þessu útgáfuferli, mitt á milli vetrarmánuða og páska og síðan vorsins og sumarupphafs þegar sumarleyfismarkaðurinn tekur við. Hún er því hin fullkomni tími til að markaðssetja bækur sumarsins og minna á það sem gert hefur verið mánuðina á undan. Forsenda þess að hún sé eitthvað er líka að til séu bækur.
Fyrir tveimur árum settu Félag íslenskra bókaútgefenda og bóksalar í gang átakið Þjóðarargjöf til bókakaupa. Með því er fólk hvatt til kaupakaupa með beinum fjárstuðningi. Í raun skuldbindur félagið sig til að borga út mörg hundruð milljónir, sem er í raun ákaflega brattaralegt svo ekki sé meira sagt. Glitnir studdi átakið árið 2006 og 2007 en nú er þröngt í búi þar eins og á fleiri bankabæjum og því veður Félag íslenskra bókaútgefenda nú í verkefnið eitt og óstutt. Næsta þriðjudag hefst dreifing ávísana en jafnframt geta allir beðið um ávísanir í bókabúðum og prentað meiri peninga á bokautgafa.is. Verkefnið hefur vakið mikla athygli já systurfélögum okkar á Norðurlöndum og þykir djörf leið til að auka bóksölu á afmörkuðum tímum ársins.
Um leið þenur Félag íslenskra bókaútgfenda út starfsemi sína og hefur birtingar á auglýsingaröð sem ætlað er að sjáist næstu árin til áminningar bókinni. Fyrsta afraksturinn má sjá í opnuauglýsingu í Mogganum í dag og næstu mánuði og misseri fylgja svo fleiri slíkar auglýsingar.
Þær eru birtar vegna þess að við sem komum nálægt bókaútgáfu og miðlun ritaðs orðs erum þess fullviss að ef hér á að vera líf verður að vera til öflug menning, útbreiðsla þekkingar og samfélag sem elur á samræðu, umburðarlyndi og menntun. Við trúm því að rituð orð - prentuð orð og stafræn - séu langmikilvægustu leiðirnar til þess að skapa gott samfélag og andlega uppljómað fólk.
Bækur | Breytt 20.4.2008 kl. 07:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2008 | 00:37
Tjáningarfrelsi og höfundarréttur
Undanfarna mánuði hef ég fylgst með úr návígi nokkrum uppákomum sem hafa sannfært mig um að almennt eru Íslendingar þeirrar skoðunar að tjáningarfrelsi sé ekki mjög merkilegur hlutur. Ef hægt sé að banna tjáningu óvinsælla skoðana eigi skilyrðislaust að gera það. Furðulega oft eru þeir sem vinna við miðlun upplýsinga og hafa jafnvel ritstörf að lifibrauði þeirrar skoðunar að dómsvaldið eigi að koma til skjalanna þegar það sem útlendingar kalla "hatursorðræða" er á ferð. Jafnvel þótt annað slagið megi heyra áhyggjur, til að mynda frá Blaðamannafélaginu, um stöðu meiðyrðalöggjafarinnar virðast flestir á því að lögin og dómstólarnir eigi fremur að vernda tilfinningar móðgunargjarns fólks en frjálsa tjáningu.
Í Morgunblaðinu 4. apríl er frábært viðtal Karls Blöndal við Alan Dershowitz, sem hefur raunar gert ótrúlega marga vitlausa í gegnum árin og ég minnist þess að honum var lýst sem syni andskotans af mörgum í O.J. Simpson málinu. Ég gerði mér hins vegar enga grein fyrir hvaða sýn hann hefði á þessi mál, af hverju hann stæði í því að verja svona menn, fyrr en ég las þetta viðtal, sem er í raun ein allsherjar vörn fyrir tjáningarfrelsinu. Sú grundvallarsýn að það sé ekki hlutverk dómstóla og laga að ákvarða hvaða skoðanir megi heyrast og að einmitt "hatursorðræðu" eigi ekki að banna, er hins vegar mun erfiðari í framkvæmd en menn gætu haldið. Hann tekur dæmi af því að málflutningur Hamas eigi að heyrast í ísraelskum fjölmiðlum. Róttækt dæmi því Hamas viðurkennir ekki tilverurétt Ísraelsríkis og á sér málefnaskrá (sem lesa má hér) sem er lítið annað en samansúrraður þvættingur, uppfull af samsæriskenningum um "eðli gyðingdómsins" sem til að mynda eru teknar upp úr lygariti leynilögreglu Rússakeisara um Bræðralag Síons. En eins og hann segir: Allt á að vera uppi á borðinu. Þegar maður byrjar að banna er erfitt að hætta.
Þessi eðlilega en um leið erfiða krafa um tjáningarfrelsi er gerð flóknari vegna þess að henni er sífellt ruglað saman við eignarréttarhugsunina að baki höfundarrétti. Ég sé til dæmis að bloggvinkona mín Salvör Gissurardóttir heldur enn uppi skeleggum vörnum fyrir því að skapandi kraftar þekkingarsamfélagsins verði leystir úr læðingi með nýrri höfundarréttarhugsun sem dragi dám af nýjum miðlunarleiðum sem opnast hafa með tilkomu Netsins. Salvör er ein af þeim sem telja að leggja beri eignarrétt niður á hugverkum því hann sé ekki samrýmanlegur veruleika nútímamiðlunar og standi í vegi fyrir lýðræðisvæðingu tjáningarinnar. Hún hefur tekið einarða afstöðu með sjóræningjamiðlurum gegn höfundarréttarsamtökum og í nýrri færslu, ritaðri í tilefni af umræðunni vegna dóms Hæstaréttar í máli Laxness-fjölskyldunnar gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, stillir hún upp með mögnuðum hætti aðstæðum sem skoðanasystkini hennar um allan heim hamra sífellt á í ræðu og riti: Að höfundarréttarákvæði og skilningur laga á eignarréttarákvæðum í honum sé hindrun fyrir frjálsa tjáningu (zombí-kaflinn er kómísk perla).
Um leið gerir hún því skóna að þetta sé afstaða hinna uppreisnargjörnu, þeirra sem vilji leysa tjáninguna úr læðingi. Ég held hins vegar, og held að allir góðir menn og konur þessa lands og víðar geti tekið undir með mér í því, að skilgreining eignarréttar sé grundvöllur skynsamlegrar nýtingar og þess að menn fari vel með verðmætin. Verðmætasköpun í menningariðnaði er bundin skilgreiningu á eignarrétti, verndun höfundar- og útgáfuréttar. Við vitum að ný tækni ögrar þessum skilgreiningum og við vitum að upp að vissu marki eru þekkingardreifingu nú sett mörk sem ríma ekki við veruleika miðlunarleiða samtímans. En þeir sem berjast hvað mest þessi misserin fyrir róttækri breytingu á þessu eru í raun ekki torrentsíðumenn, heldur stjórnvöld, til að mynda búrókratarnir í Brussel. Hinir sem eru mjög hrifnir af afnámi eignaréttar á hugverkum eru fyrirtæki á borð við Google sem vilja búa til stóra gagnagrunna til að selja auglýsingar. Hafi verðmætasköpun slíkra fyrirtækja verið settar skorður vegna höfundarréttarávæða hingað til segja menn nú að verðmætasköpun þeirra sé á einhvern hátt "sérstök", í raun mikilvægari en hefðbundin verðmætasköpun gegnum bækur, diska og kvikmyndahús.
Með öðrum orðum: Litli Jón sem gaf út bók fyrir tveimur áratugum sem nú er uppseld á ekki rétt á greiðslu fyrir afnot af henni þegar hún er komin inn á rafrænt form, vegna þess að ekkert eintak hefur selst í 18 ár og bókin ófánanleg. Hann bjó ekki til netið, hann skapaði ekki gagnagrunninn sem bókin hans er komin í og hann hefur ekkert að segja um það hvernig frelsishetjur netsins hakka niður textann hans og nota í sín rit sem þeir gefa út og þyggja höfndarlaun fyrir í gamla góða efnislega höfundarréttarkerfinu. Hann á fyrst og fremst að vera þakklátur fyrir að hafa lagt sitt af mörkum til eflingar tjáningarfrelsinu og mögnunar á skapandi kröftum nútímans. Með öðrum orðum: Eignarrétturinn er lagður til hliðar svo skapa megi afurðir sem aðrir hagnast á. Þetta er í raun þjóðnýting á hugverkum, eða kannski alþjóðanýting á hugverkum.
Þessi mál eru til stöðugrar umræðu á alþjóðlegum vettvangi bókaútgefenda og höfunda. Ég hef ekki tölu á þeim málstofum og ráðstefnum sem mér hefur verið boðið á undanfarin ár þar sem þetta er til umræðu. "Digital rights" er skylduumfjöllun dagsins og málefni höfundarréttar eru svo sannarlega í deiglunni þessi misserin. Í þarnæstu viku er þing sambands bókaútgefenda í Evrópu sem haldið er á bókamessunni í London. Aðalumræðuefnin þar snúast um hin mörgu dírektíf sem Evrópusambandið gefur út um höfundarréttarmál. Þann 28. apríl næstkomandi verður stór ráðstefna hér í Reykjavík á vegum Fjölís um höfundarréttarmálefni, ekki síst um notkun höfundarréttarvarins efnis. Í viku bókarinnar mun verðandi heimshöfuðborg bókarinnar, Amsterdam, hýsa tveggja daga risaráðstefnu um allar hliðar höfundarréttarmála og núverandi heimshöfuðborg bókarinnar, Bogota, mun hýsa slíka ráðstefnu líka. Ég minni á að Dagur bókarinnar, 23. apríl, er í senn tileinkaður bókinni og höfundarrétti og að UNESCO helgar höfundarrétti þennan dag til að minna á að höfundarréttur og virðing fyrir honum er nauðsynleg forsenda öflugrar bókaútgáfu.
Í dag var borinn til grafar einn mikilhæfasti bókaútgefandi sem Ísland hefur átt, Ólafur Ragnarsson. Eitt af afrekum hans var að byggja upp öflugt útgáfufyrirtæki sem tókst nánast hið ómögulega, að gera verk Halldórs Laxness að meiriháttar söluvöru eftir stöðnunarskeið. Hann gerði útgáfusamning við Halldór og seinna erfingja hans sem tryggðu honum einum réttinn til að gefa bækurnar út. Aðeins af þeim sökum gat hann lagt í þær miklu fjárfestingar sem prentun fjölmargra titla sem seljast sumir hægt og hljótt fela í sér. Í umhverfinu sem Salvör mærir hefði hann ekki getað þetta því þá hefði "spennitreyja höfundarréttarins" verið afnumin og því hefðu allir getað hakkað verk HKL í spað og gefið þau út eins og þeim sýndist. Það gæti verið áhugavert að sjá útkomuna úr því "rímixi" en það hefði ekki byggt upp fyrirtæki á borð við Vöku-Helgafell. Enn og aftur: Skilgreining eignaréttar býr til verðmæti og tryggir skynsamlega umgengni við auðlindir. Hver er það aftur sem hefur varið þessa skoðun með kjafti og klóm nú hátt á fjórða áratug?
Bækur | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)