24.8.2009 | 23:23
Er grunsamlegt athæfi að kaupa bækur?
Undanfarna daga og vikur hefur dunið í öllum fjölmiðlum umfjöllun um hve dýrt það er að mennta sig. Þetta er ekki nýr söngur. Þetta er sami flöturinn ár eftir ár: Fjölmiðlar fara á stúfana og fárast yfir að fólk kaupi stílabækur, blýanta, yddara og skólabækur. Af hverju var ekki fárast yfir því að fólk keypti sér viðarkol á grillin eða pylsur ofan á þau í góða veðrinu í sumar? Ég veit það ekki, en það hefur komist á sá skilningur að útgjöld vegna skólagöngu barna og unglinga sem og háskólanemenda séu varhugaverð. Fjölmiðlanir eru hættir að spyrja sig af hverju þeir flyja þessar fréttir. Þetta er bara gert á sjálfstýringu. Skilaboðin eru þessi: Menntun er dýr, íþyngjandi og leiðinleg. Bækur, sérstaklega skólabækur eru fáránlegur munaður sem enginn ætti að þurfa að leggja út fyrir. Það er ekki verið að segja að það sé á einhvern hátt óréttlátt að greiða fyrir námsgögn og stílabækur. Það er verið að segja að það sé kjánalegt og að peningarnir eigi fremur að nýtast í annað.
Og nú er kreppa. Þá gerist það óhjákvæmilega að fjölmargir eiga í erfiðleikum við að bæta á sig útgjöldum sem hljótast vegna skólagöngu barnanna en fréttirnar af gangi mála eru óljósar. Um helgina fjallaði RÚV um prest í Grafarvogi sem sagði frá því að fólk leitaði á náðir kirkjunnar vegna kostnaðar við skólagöngu barnanna. Ég lagði við hlustir og hélt að þetta væri mikill fjöldi fólks. Í ljós kom að fjórir höfðu talað við hana. Allt í lagi, það er nóg, þetta er ekki gott mál. Síðan hugsar maður: Hvað er hægt að gera? Fyrir kreppu lofaði Samfylkingin því að ríkið myndi kaupa skólabækur handa framhaldsskólanemum, líkt og grunnskólanemum, en í raun er það ekki lengur flöturinn á umfjölluninni. Það er jafn dýrt að vera með barn í grunnskóla þótt skólabækurnar kosti ekkert ef marka má fréttir. Í það minnsta náði ég því aldrei í fréttinni um prestinn um hvaða skólastig hún var að tala, og á því hlytur jú að vera einhver munur, hvort um skyldunám eða valnám sé að ræða. Aftur: Hverju eiga fréttir að koma til leiðar ef þær eru þokukenndar? Í það minnsta virðist hins vegar af öðrum fréttum á RUV vera svo dýrt að koma börnum í grunnskóla að það tekur engu tali, en um það get ég ekki dæmt, enda hefur enginn fjölmiðill sett niður einfaldar tölur á blað þar sem þetta kemur fram á skýran hátt. Niðurstaðan er þessi: Við vitum ekki um hvað er verið að tala nema að ljóst að einhverjir eiga um sárt að binda eða þá að við eigum ekki að eyða fé í menntun barnanna okkar.
En í umfjöllun Kastljóss nú í kvöld kastaði tólfunum og menn fóru langt út fyrir þennan samfélagslega flöt, sem hlýtur eðlilega að vera ofarlega á baugi um þessar mundir. Þar var þeim sem kaupa námsgögn á framhalds- og háskólastigi stillt upp með leiðandi spurningum með augljósum tóni sem vildi kreista fram vandlætingu yfir bókakaupunum. Aldrei var minnst á að innfluttar v0rur hafa hér risið upp í verðskýin vegna falls krónunnar. Nýjar sendingar sem keypar voru inn á um 90 kr. evruna fyrir tveimur árum eru nú helmingi dýrari. Bjóst Kastljós við að ekkert myndi gerast? Að erlendar námsbækur, t.d. í stórum námsgreinum í HÍ svo sem viðskiptafræði og eru stöðugt endurnýjaðar myndu bara kosta svpað og áður? Nei, því bjuggust þeir ekki við og vildi vita að fólk væri að sligast undan bókakaupum og hve íþyngjandi þau væru, en ekki orð um almenna verðþróun fylgdi með. Og það sem verrra er: Það lá í fréttinni einhver pirringur, ef ekki vandlæting, yfir því að fólk þurfi yfirleitt að verða sér út um bækur til að menntast. Af hverju er annars verið að spyrja?
En öllum til upplýsingar: Innlendar bækur munu hækka nú í haust vegna þess að jafnvel þótt prentað sér innanlands þar sem launin hækka ekkert, en lækka heldur, hækka öll aðföng. Kennslubækur hafa hækkað. En þá ber þess að geta að alla þessa öld hafa bækur lækkað að raungildi. Frá því 2001 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 45% en launavísitalan um 64% (þótt hún fari nú aftur lækkandi). Á sama tíma hefur skráð listaverð sambærilegara bóka í Bókatíðindum ekkert hækkað, krónutalan stóð í stað frá 2000 til 2008.
En eigum við ekki að sýna menntun aðeins meiri virðingu nú þegar það er aftur markmið í sjálfu sér að tileinka sér þekkingu en ekki bara leið að því að komast í gott starf í banka? Þetta sífur um kostnað af því að kaupa bækur er það eina sem talað er um þegar menntun ber á góma á haustin. Það er eins og verið sé að kaupa fótanuddtæki en ekki mikilvæga leið að því að eflast og styrkjast og verða eitthvað af sjálfum sér, menntast.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.