Ríki Satans

Þeim sló saman á undarlegan hátt fréttunum af Ríki Satans, sem Íransforseti talaði um í Róm og því Ríki Satans sem Vestfirðingar vinna nú að því að stofna. Nafnlaus fulltrúi nafnlauss fyrirtækis sem ekki má nefna vegna viðskiptahagsmuna kom í vetur hingað til lands og ákvað að einn fallegasti staður landsins væri einmitt staðurinn fyrir olíuhreinsunarstöð. Hann fékk í lið með sér svartklæddan mann sem sagður var ráða sveitarfélaginu Vesturbyggð og sagði glaðhlakkalegur, klæddur svörtu bndi og svörtum jakka og svartri skyrtu, að 99,9% öruggt væri að þessi perla náttúrunnar yrði eyðilögð. Það þarf einhverja stórkostlega tilfinningalega fötlun til að telja að Hvesta sé hinn fullkomni staður fyrir olíuhreinsunarstöð, maðurinn hlýtur því að vera ekki með sjálfum sér. Ég geri ráð fyrir að hann sé andsetinn og muni koma til sjálfs sín einn daginn og uppgötva að hann er á valdi óhreinna rússneskra anda.

Ég hélt raunar að búið væri að festa Hvestu á kort með fallegustu stöðum landsins fyrir löngu, vísa til að mynda til ljósmynda Sigurgeirs Sigurjónssonar og Páls Stefánssonar af þessum magnaða stað, meiriháttar myndir til að mynda í bókunum Landið okkar og Land, en heimamenn eru greinilega líkir mörgum öðrum sveitastjórnarmönnum, til að mynda þeim sem ráða sveitarfélaginu Ölfusi, að hata náttúruna svo mikið að þeir virðast ekki unna sér hvíldar fyrr en fegurð hennar hefur verið útmáð.

Oft les maður um heimamenn sem berjast vonlausri  baráttu við að vernda umhverfi sitt fyrir valdboðum að ofan. Á Íslandi er þessu öfugt farið. Þar berjast þeir "fyrir ofan" vonlausri  baráttu við heimamenn sem líta á það sem mannréttindi að tortíma sameiginlegum arfi þjóðarinnar, náttúrufegurðinni, sem ásamt menningu okkar, tungumáli og bókmenntum, eina ástæðan fyrir því að við eigum einhvern snefil af sjálfsmynd. En þegar hinir nafnlausu fulltrúar nafnlausra fyrirtækja sem almenningur má ekki fá að vita neitt um eru þegar búnir að tryggja sér fullan stuðning náttúruhataranna fyrir vestan er víst ekki von á góðu. Eins og maðurinn sagði, hann ræður þessu, og enginn getur sagt neitt.

Í svona stöðu er líklegast best að hætta að reyna að berjast fyrir því að náttúran verði vernduð á Íslandi. Látum hana fara til andskotans. Það er einmitt það sem "heimamenn" alls staðar vilja. Leyfum Ríki Satans að blómstra með öllum sínum nafnlausu fyrirtækjum og förum svo héðan burt til Ascension eða Madeira og látum þessa eyju verða drullunni og Rússunum að bráð. Það rann endanlega upp fyrir mér að háværum og ráðandi minnihluta þjóðarinnar er skítsama um lífið, menningu sína og náttúru. Þessir menn vilja fyrst og fremst grundvalla Ríki Satans því hverjum öðrum en djöflinum myndi detta í huga að byggja iðnaðarver einmitt á fegurstu stöðum landsins?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband