5.4.2008 | 00:37
Tjáningarfrelsi og höfundarréttur
Undanfarna mánuði hef ég fylgst með úr návígi nokkrum uppákomum sem hafa sannfært mig um að almennt eru Íslendingar þeirrar skoðunar að tjáningarfrelsi sé ekki mjög merkilegur hlutur. Ef hægt sé að banna tjáningu óvinsælla skoðana eigi skilyrðislaust að gera það. Furðulega oft eru þeir sem vinna við miðlun upplýsinga og hafa jafnvel ritstörf að lifibrauði þeirrar skoðunar að dómsvaldið eigi að koma til skjalanna þegar það sem útlendingar kalla "hatursorðræða" er á ferð. Jafnvel þótt annað slagið megi heyra áhyggjur, til að mynda frá Blaðamannafélaginu, um stöðu meiðyrðalöggjafarinnar virðast flestir á því að lögin og dómstólarnir eigi fremur að vernda tilfinningar móðgunargjarns fólks en frjálsa tjáningu.
Í Morgunblaðinu 4. apríl er frábært viðtal Karls Blöndal við Alan Dershowitz, sem hefur raunar gert ótrúlega marga vitlausa í gegnum árin og ég minnist þess að honum var lýst sem syni andskotans af mörgum í O.J. Simpson málinu. Ég gerði mér hins vegar enga grein fyrir hvaða sýn hann hefði á þessi mál, af hverju hann stæði í því að verja svona menn, fyrr en ég las þetta viðtal, sem er í raun ein allsherjar vörn fyrir tjáningarfrelsinu. Sú grundvallarsýn að það sé ekki hlutverk dómstóla og laga að ákvarða hvaða skoðanir megi heyrast og að einmitt "hatursorðræðu" eigi ekki að banna, er hins vegar mun erfiðari í framkvæmd en menn gætu haldið. Hann tekur dæmi af því að málflutningur Hamas eigi að heyrast í ísraelskum fjölmiðlum. Róttækt dæmi því Hamas viðurkennir ekki tilverurétt Ísraelsríkis og á sér málefnaskrá (sem lesa má hér) sem er lítið annað en samansúrraður þvættingur, uppfull af samsæriskenningum um "eðli gyðingdómsins" sem til að mynda eru teknar upp úr lygariti leynilögreglu Rússakeisara um Bræðralag Síons. En eins og hann segir: Allt á að vera uppi á borðinu. Þegar maður byrjar að banna er erfitt að hætta.
Þessi eðlilega en um leið erfiða krafa um tjáningarfrelsi er gerð flóknari vegna þess að henni er sífellt ruglað saman við eignarréttarhugsunina að baki höfundarrétti. Ég sé til dæmis að bloggvinkona mín Salvör Gissurardóttir heldur enn uppi skeleggum vörnum fyrir því að skapandi kraftar þekkingarsamfélagsins verði leystir úr læðingi með nýrri höfundarréttarhugsun sem dragi dám af nýjum miðlunarleiðum sem opnast hafa með tilkomu Netsins. Salvör er ein af þeim sem telja að leggja beri eignarrétt niður á hugverkum því hann sé ekki samrýmanlegur veruleika nútímamiðlunar og standi í vegi fyrir lýðræðisvæðingu tjáningarinnar. Hún hefur tekið einarða afstöðu með sjóræningjamiðlurum gegn höfundarréttarsamtökum og í nýrri færslu, ritaðri í tilefni af umræðunni vegna dóms Hæstaréttar í máli Laxness-fjölskyldunnar gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, stillir hún upp með mögnuðum hætti aðstæðum sem skoðanasystkini hennar um allan heim hamra sífellt á í ræðu og riti: Að höfundarréttarákvæði og skilningur laga á eignarréttarákvæðum í honum sé hindrun fyrir frjálsa tjáningu (zombí-kaflinn er kómísk perla).
Um leið gerir hún því skóna að þetta sé afstaða hinna uppreisnargjörnu, þeirra sem vilji leysa tjáninguna úr læðingi. Ég held hins vegar, og held að allir góðir menn og konur þessa lands og víðar geti tekið undir með mér í því, að skilgreining eignarréttar sé grundvöllur skynsamlegrar nýtingar og þess að menn fari vel með verðmætin. Verðmætasköpun í menningariðnaði er bundin skilgreiningu á eignarrétti, verndun höfundar- og útgáfuréttar. Við vitum að ný tækni ögrar þessum skilgreiningum og við vitum að upp að vissu marki eru þekkingardreifingu nú sett mörk sem ríma ekki við veruleika miðlunarleiða samtímans. En þeir sem berjast hvað mest þessi misserin fyrir róttækri breytingu á þessu eru í raun ekki torrentsíðumenn, heldur stjórnvöld, til að mynda búrókratarnir í Brussel. Hinir sem eru mjög hrifnir af afnámi eignaréttar á hugverkum eru fyrirtæki á borð við Google sem vilja búa til stóra gagnagrunna til að selja auglýsingar. Hafi verðmætasköpun slíkra fyrirtækja verið settar skorður vegna höfundarréttarávæða hingað til segja menn nú að verðmætasköpun þeirra sé á einhvern hátt "sérstök", í raun mikilvægari en hefðbundin verðmætasköpun gegnum bækur, diska og kvikmyndahús.
Með öðrum orðum: Litli Jón sem gaf út bók fyrir tveimur áratugum sem nú er uppseld á ekki rétt á greiðslu fyrir afnot af henni þegar hún er komin inn á rafrænt form, vegna þess að ekkert eintak hefur selst í 18 ár og bókin ófánanleg. Hann bjó ekki til netið, hann skapaði ekki gagnagrunninn sem bókin hans er komin í og hann hefur ekkert að segja um það hvernig frelsishetjur netsins hakka niður textann hans og nota í sín rit sem þeir gefa út og þyggja höfndarlaun fyrir í gamla góða efnislega höfundarréttarkerfinu. Hann á fyrst og fremst að vera þakklátur fyrir að hafa lagt sitt af mörkum til eflingar tjáningarfrelsinu og mögnunar á skapandi kröftum nútímans. Með öðrum orðum: Eignarrétturinn er lagður til hliðar svo skapa megi afurðir sem aðrir hagnast á. Þetta er í raun þjóðnýting á hugverkum, eða kannski alþjóðanýting á hugverkum.
Þessi mál eru til stöðugrar umræðu á alþjóðlegum vettvangi bókaútgefenda og höfunda. Ég hef ekki tölu á þeim málstofum og ráðstefnum sem mér hefur verið boðið á undanfarin ár þar sem þetta er til umræðu. "Digital rights" er skylduumfjöllun dagsins og málefni höfundarréttar eru svo sannarlega í deiglunni þessi misserin. Í þarnæstu viku er þing sambands bókaútgefenda í Evrópu sem haldið er á bókamessunni í London. Aðalumræðuefnin þar snúast um hin mörgu dírektíf sem Evrópusambandið gefur út um höfundarréttarmál. Þann 28. apríl næstkomandi verður stór ráðstefna hér í Reykjavík á vegum Fjölís um höfundarréttarmálefni, ekki síst um notkun höfundarréttarvarins efnis. Í viku bókarinnar mun verðandi heimshöfuðborg bókarinnar, Amsterdam, hýsa tveggja daga risaráðstefnu um allar hliðar höfundarréttarmála og núverandi heimshöfuðborg bókarinnar, Bogota, mun hýsa slíka ráðstefnu líka. Ég minni á að Dagur bókarinnar, 23. apríl, er í senn tileinkaður bókinni og höfundarrétti og að UNESCO helgar höfundarrétti þennan dag til að minna á að höfundarréttur og virðing fyrir honum er nauðsynleg forsenda öflugrar bókaútgáfu.
Í dag var borinn til grafar einn mikilhæfasti bókaútgefandi sem Ísland hefur átt, Ólafur Ragnarsson. Eitt af afrekum hans var að byggja upp öflugt útgáfufyrirtæki sem tókst nánast hið ómögulega, að gera verk Halldórs Laxness að meiriháttar söluvöru eftir stöðnunarskeið. Hann gerði útgáfusamning við Halldór og seinna erfingja hans sem tryggðu honum einum réttinn til að gefa bækurnar út. Aðeins af þeim sökum gat hann lagt í þær miklu fjárfestingar sem prentun fjölmargra titla sem seljast sumir hægt og hljótt fela í sér. Í umhverfinu sem Salvör mærir hefði hann ekki getað þetta því þá hefði "spennitreyja höfundarréttarins" verið afnumin og því hefðu allir getað hakkað verk HKL í spað og gefið þau út eins og þeim sýndist. Það gæti verið áhugavert að sjá útkomuna úr því "rímixi" en það hefði ekki byggt upp fyrirtæki á borð við Vöku-Helgafell. Enn og aftur: Skilgreining eignaréttar býr til verðmæti og tryggir skynsamlega umgengni við auðlindir. Hver er það aftur sem hefur varið þessa skoðun með kjafti og klóm nú hátt á fjórða áratug?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.