21.3.2008 | 00:00
Froststrókur
Það var stefnt á hópferð á Skírdag upp á fjöll en svo heltust allir úr lestinni nema við Hulda sem minnkuðum aðeins umfangið og fórum bara á Vífilsfell. Í staðinn fyrir að vera komin upp á náð og miskunn torfæruböðlanna í Jósefsdal og þeirra einkavegar fórum við upp Bláfjallaafleggjarann og úr gömlu aflögðu malargrúsinni ofan við Sandskeið, síðan upp á fellin og þaðan til norðurs og upp á sjálft Vífilsfellið.
Þetta var á engan hátt stórsöguleg ferð, enda hef ég ekki tölu á hve oft ég hef komið þarna upp, en Hulda var að fara þetta í fyrsta skiptið, og það er alltaf gaman af því að sýna fólki svæðið, sem er jú eitt besta útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það er jú tiltölulega gott að komast þarna að, miðað við að það eru í raun aðeins þrjár fjallgönguleiðir á öllu höfuðborgarsvæðinu þar sem gert er ráð fyrir að fólk komi akandi í því skyni að ganga á fjöll, við Mógilsá, Helgafell og Hengilsveginn.
Fáránleiki sveitafélagasundurbútunar Reykjanessskagans er hvað sýnilegastur á Vífilsfelli sem tilheyrir þremur ef ekki fjórum sveitarfélögum: Ölfusi, Kópavogi, Reykjavík og Seltjarnarnesi, en mér skilst að Nesið sé með malarnámunar fyrir norðan Vífilsfell á sínum snærum, hvað sem því veldur. Fyrir vikið virðist öll vitræn uppbygging sem miðaði að því að gera þennan stað að alvöru útivistarsvæði vera vonlaus. Umhverfið ber líka vott rányrkjunni og skeytingarleysinu um náttúruna sem hvarvetna blasir við í nágrenni borgarinnar. Opnar og ófrágengnar malarnámur, drasl, sundurgrafnar hlíðar eftir torfæruhjól og tómlæti anspænis þörfum þeirra sem einfaldlega vilja ganga um þetta svæði en ekki moka því í burtu eða spæna það í sundur. Yfir öllu hangir svo Demóklesarsverð hins framkvæmdaglaða Kópavogsbæjar. Alltaf heyrir maður reglulega ávæning af því að þeir ætli að byggja niðri á Sandskeiði, fyrst hesthús, svo háhýsi, hlýtur að vera.
En við vorum nú ekkert að þusa um þetta uppi á fjallinu. Vorum bara minnt á þetta þegar við sáum gestabókarkassann sem merktur er UMSK og vantar nú lokið svo gestabókin var öll vatnssósa og stokkfreðin, minnti helst á ýsuflak. Á leiðinni niður skoðuðum við svo skemmtilegt náttúrufyrirbæri. Vegna þíðunnar á miðvikudag og þriðjudag var enn leysingarvatn að seitla úr skálinni sunnan og vestan við sjálfan Vífilsfellshrygginn og þetta leysingarvatn var ófreðið í lækjum og tjörnum niðri á Sandskeiði og úti á heiðinni. Hins vegar hafði frostið á Skírdag og nóttina á undan þegar skellt þykkri ískápu yfir allt uppi og við þurftum sannarlega á góðum broddum að halda. Vatnið sem kom undan ísnum var því orðið fremur lítið, eiginlega vart nema smá seitla, en nú var svo hvasst af norðvestan að lækurinn feykist beina leið í loft upp og stóð upp af brúninni eins og gosbrunnur. Vatnið féll svo til jarðar í stórum radíus svo grjótið allt og snjórinn umhverfis voru sýluð. Um leið og við komum þarna að féll smá vindregn á okkur sem fraus á jökkunum okkar þegar í stað, líkt og smáar perlur. Þetta var ótrúlega fallegt og um leið dularfullt, þótt við skildum ástæðurnar fyrir því að vatninu ringdi yfir okkur. Móbergsklettarnir voru svo hreinlega hjúpaðir og ísinn svo tær að hver smáarða sást í gegnum hann og samt var ísinn orðinn ótrúlega þykkur. Ég man ekki eftir að hafa séð þetta áður. En alltaf uppgötvar maður eitthvað og undrast yfir einhverju, jafnvel þótt það sé að koma kreppa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.