5.3.2008 | 11:27
Námsefnisútgáfa á Íslandi
Á hlaupaársdag, 29. febrúar, stóð Félag íslenskra bókaútgefenda fyrir morgunverðarfundi um námsefnisútgáfu fyrir nemendur á skólaskyldualdri. Staðan í þeim málum er eins og sakir standa nokkuð skrítin. Vorið 2007 voru lög samþykkt á alþingi um námsgagnasjóð, Námsgagnastofnun og þróunarsjóð námsgagna. Aðdragandi þessarar lagasetningar var langur og mér eldri menn höfðu oft og mörgum sinnum komið á fund ýmissa nefnda og starfshópa sem menntamálaráðuneyti hafði skipað til að ræða hugsanlegar breytingar á tilhögun innkaupa námsgagna fyrir grunnskóla og námsgagnagerð í skyldunámi. Úrskurðir Samkeppniseftirlits í fyrra í kærum Æskunnar og Árna Árnasonar á hendur Námsgagnastofnunar um mismunun á námsefnismarkaði urðu hins vegar til þess að nauðsynlegt þótti að breyta lögum um Námsgagnastofnun og um leið koma til móts við sjónarmið þeirra sem hafa talað fyrir minni miðstýringu á innkaupum námsefnis í grunnskólum.
Fyrirhugað var að formaður stjórnar námsgagnasjóðs, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, tæki til máls, en því miður átti hún ekki heimangengt sökum anna, og aðrir stjórnarmenn voru erlendis. Því varð kannski minni umræða en ella um lögin og vonir og væntinar námsgagnasjóðs. Námsgagnasjóður úthlutaði 100 milljónum á síðasta ári til grunnskóla á Íslandi (frekar lág upphæð í raun og veru, 2.300 kr. á nemanda) og mun aftur úthluta 100 milljónum nú í vor. Við bókaútgefendur höfum orðið áþreifanlega varir við að tilgangur og eðli þessa sjóðs er lítt þekktur meðal kennara, og oft einnig meðal skólastjórnenda. Mjög margir vita t.d. ekki að það er yfirleitt hægt að kaupa beint námsefni af útgefanda eða höfundi.
Þorsteinn Helgason, dósent við KHÍ og Ásdís Olsen, aðjúnkt við KHÍ ræddu námsefnisgerðina á faglegum nótum og voru í raun á öndverðum meiði. Þorsteinn er talsmaður varfærni í námsefnisgerð, þ.e. hann hugar að gæðum og gæðahugtakið er í hans augum óhjákvæmileg afleiðing faglegs ferlis í framleiðslu og umfjöllun. Hann benti á þá einföldu staðreynd að í ómiðstýrðu innkaupakerfi námsgagna yrði líka að vera til gagnrýnisapparat, þriðji aðili, sem gæti lagt mat á námsefnið þannig að kennarar og foreldrar gætu haft stuðning af slíku til að velja námsefnið fyrir nemendur. Þannig væri einhvers konar fagmiðill eða hreinlega bara venjulegir fjölmiðlar sem dæmdu námsefni mjög mikilvægur þáttur í að styðja við gæði námsefnis. Án slíks yrði öll umræða um gæði út og suður. Ég held að þetta sé hárrétt hjá honum.
Ásdís er á ómiðstýrðu línunni og raunar á þeirri línu að námsefnið sem slíkt sé ekki mikilvægt, heldur hvernig nemendum er hjálpað til að afla sér upplýsinga sjálfir. Þetta ferli sé undir kennurum komið og miðstýring upplýsingadreifingar inni í grunnskólum sé úr takti við þá skapandi krafta sem nútímasamfélagið hafi leyst úr læðingi með sinni miklu þekkingardreifingu. Framsaga hennar var fyndin, ögrandi og meðvitað mótsagnakennd - óreiðukennd, og miðaði þannig að því að brjóta niður væntingar okkar um línulega, miðstýrða þekkingarmiðlun. Vandamálið er eins og við allar slíkar kenningar að í samfélaginu eru sífelld átök sjálfsstýringar og skapandi óreiðu sem tímaskortur foreldra og kennara hneigist til að beina í sjálfsstýringarátt. Þorsteinn benti á þetta og sagði að í núverandi kerfi væri óðs manns æði að ætla að kennarar hefðu yfirleitt tíma til að taka grundvallarákvarðanir um hvernig námsefni væri miðlað til nemenda. Þeir væru að drukkna í vinnu. Undir þetta tók í umræðum Tryggvi Jakobsson, útgáfustjóri Námsgagnastofnunar. Veruleikinn þurrkar þó hins vegar ekki í burtu draumsýnina. Hún er takmark sem vonandi sem flestir vinna að. Eitt hamlar þó alltof mikið. Of lítið af þeirri þekkingu sem til er á íslensku er á rafrænu formi.
Nú er það svo að margar mismunandi skoðanir eru uppi um þessa meintu miðstýringu. Illugi Gunnarsson, nú þingmaður, stakk til að mynda niður penna um þessi mál áður en hann fór á þing og var þar að mæla með aukinni samkeppni, það væri ólíðandi að menn væru skikkaðir til að kaupa öll námsgögn frá sama útgefanda og að hann væri auk þess eini drefingaraðili námsgagna til grunnskóla. Þetta yrði líka til þess að "dugmiklir kennarar" (trúin á "dugnað" birtist í mörgum myndum) gætu aukið tekjur sínar með námsgagnaframleiðslu. Skilja mátti á honum að nú væri komið að Sjálfstæðisflokknum að brjóta niður gamla múra, hleypa frelsinu inn. Þessi sjónarmið eiga miklu fylgi að fagna meðal stærstu einkarekinna bókaforlaga landsins, en samt er eitt og annað í þessum málflutningi sem þarf að skoða nánar, eins og kom raunar fram á morgunverðarfundinum.
Kennarar halda því nefnilega margir fram að miðstýringin hafi fyrst hafist fyrir alvöru þegar sjálfstæðismaðurinn Björn Bjarnason setti nýja námsskrá árið 1999. Þar séu hendur kennara bundnar. En enn er unnið að breytingum á námsskrá og raunar skipulagi bæði, leik-, grunn- og framhaldsskóla, greinilega með þau sjónarmið að leiðarljósi að stytta námstíma og skófla krökkunum hraðar í gegnum kerfið svo hægt sé að nýta þau betur á vinnumarkaðnum og þar með stuðla að samkeppnshæfni íslenska atvinnulífsins. Þessi riðlun á kerfinu sýnist manni vera þeim nemendum mjög í hag sem búa við hvatningu að heiman og hafa skýr markmið en kannski síður hinum. Þessi breytingartími er hins vegar námsefnisútgefendum erfiður og gæti orðið til þess að t.d. námsefnismarkaður f. framhaldsskóla yrði vart svipur hjá sjón eftir nokkur ár.
Hin undarlega mótsögn er þessi: Yfirvöld menntamála treysta einkareknum bókaútgáfum alfarið til þess að sjá framhaldsskólanemendum fyrir námsefni en stíga varfærin skref í að leyfa þeim að gefa út efni fyrir grunnskóla. Í framhaldsskólageiranum ríkir samkeppni sem drifin er áfram af þörf útgefenda til að mæta óskum kennara og námsskrár annars vegar og hins vegar að vinna gegn tekjutapi af skiptibókamarkaði og ólöglegri fjölföldun hins vegar. Því er "vöruþróun" þarna mikil. Um leið verða þær raddir innan Samfylkingar háværari sem vilja að ríkið greiði námsefni framhaldsskólanemenda. Hvernig nákvæmlega á að standa að því hef ég hins vegar hvergi séð útfært, og held að núverandi kerfi sé gott því það tryggir einmitt fjölbreytni og sveigjanleika og vinnur gegn miðstýringu. Um leið er þetta mikilvægt f. bókasala. Ef einhverskonar heildarinnkaup ríkisins á námsefni fyrir framhaldsskóla væru tekin upp væri það stórkostlegt afturfaraskref. Miklu betra væri að kostnaður við námsefni fyrir framhaldsskóla væri tæklaður með einhverskonar kúponum beint til nemenda eða stærri framlögum úr þróunarsjóði námsgagna. En þar stendur hnífurinn í kúnni.
Bjarni Þorsteinsson, útgáfustjóri námsbóka og almenns efnis hjá Bjarti-Veröld, flutti hugvekju um undarlegt samband ríkisvalds og einkafyrirtækja í námsgagnageiranum. Hann benti á hvernig yfirburðastaða ríkis í útgáfu og dreifingu námsbóka fyrir grunnskóla allar götur frá árinu 1936 hefði á engan hátt leitt af sér samskonar þróun í málefnum framhaldsskóla. Fyrir vikið væru fámennir kúrsar á framhaldsskólastigi í raun námsgagnalausir. Erling Erlingsson framkvæmdastjóri IÐNÚ, sem einkum gefur út námsbækur fyrir iðnbrautir var ómyrkur í máli í umræðum og sagði að menntamálayfirvöld hefðu í raun hætt að nenna að hafa áhyggjur af iðnnámi. Til að mynda væru greinar á borð við húsasmíði án boðlegs námsefnis og í raun væri öllum sama. Á sama tíma væri sífellt verið að hamra á því opinberlega að starfsnám væri svo mikilvægt. Bjarni og Erling voru sammála um að skref hefði verið stigið afturábak með nýju lögunum í því tilliti að þróunarsjóður námsgagna væri nú alltof vítt skilgreindur og að það væri fáránlegt að hann væri sniðinn að þörfum höfunda, þegar ljóst væri að höfundar gæfu sjaldnast út námsefni að endingu. Í stað þess að stuðla að faglegri þróunarvinnu innan bókaforlaganna væri þróunarvinna námsgagna miðuð við að vera einskonar launauppbót kennara. Sjóðurinn hefði áður einungis styrkt námsefni fyrir framhaldsskóla, en styrkti nú öll skólastigin þrjú, leik-, grunn-, og framhaldsskóla. Fjárveitingar væru algerlega úr takti við þann raunveruleika.
Niðurstaða morgunverðarfundarins var að mínu viti ekki nógu skýr eða uppörvandi. Tækifærin sem margir bundu vonir við með lagasetningunni eru enn utan seilingar vegna óvissu um framtíðarskipan skólakerfisins og raunar fáfræði um hvernig nýta megi fjármuni námsgagnasjóðs. Margskonar hugmyndir og kenningar eru uppi um hvernig beri að standa að námsefnisgerð og innkaupum þess án þess að vera nógu skýrt útfærðar. Hvernig hugsa t.d. ungir jafnaðarmenn skyldukaup menntamálayfirvalda á námsefni fyrir framhaldsskóla? Um leið eru uppi augljósir hagsmunaárekstrar milli Námsgagnastofnunar og einkarekinna bókaforlaga, t.d. þegar kemur að þróun námsgagna og kynningu þeirra sem lög um Námsgagnastofnun "skikka" stofnunina til að sinna en brjóta um leið jafnræðisstöðu einkarekinna forlaga og hins ríkisrekna útgáfurisa. Nýjar kærur til Samkeppnisefirlits eru beinlíns letraðar í lagabókstafinn. Mér fannst gott að heyra hve Tryggvi Jakobsson, útgáfustjóri Námsgagnastofnunar, var jákvæður í garð breytinganna og hugsanlegrar samkeppni og fannst það benda til þess að vonandi muni eitthvað gott koma út úr þessu öllu.
Enn er hins vegar mikið verk að vinna ef þessi þróun á að skila því að verða til eflingar almennri bókaútgáfu á Íslandi og íslenskum nemendum til framdráttar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.