7.2.2008 | 13:18
Laxness til sölu
Á bolludag birti Samkeppniseftirlitið ákvörðun sína varðandi samruna JPV útgáfu og Vegamóta ehf. Eins og kom fram á forsíðu Fréttablaðsins í morgun vekur þar það mesta athygli að Forlaginu er gert að selja ákveðnar eignir til að "koma í veg fyrir röskun á samkeppni" eins og stendur í ákvörðuninni. Forlagsmenn eru eðlilega ánægðir með að vera lausir úr snörunni enda leitaði Samkeppniseftirlitið með logandi ljósi að öllu því sem hægt væri að nota við þetta mál. Mikla furðu vakti það hjá ýmsum einyrkjum með hve mikilli hörku eftirlitið gekk eftir upplýsingum um sölu, jafnvel þótt um aðeins eitt til tvö verk væri að ræða. Almennt eru bókaútgefendur ekki á því að þessi samruni skekki mikið myndina á markaði, þótt eðlilega séu á því undantekningar. En nú þarf að finna kaupendur að þessum "söluandlögum" eins og verkin eru kölluð sem þarf að koma í lóg. Þótt Forlagið segi það ekki opinberlega munu verkin vera þessi:
- Heildarverk Halldórs Laxness
- Íslensk orðabók
- Ensk-íslensk orðabók
- Samtíðarmenn
Meira er það nú ekki. Hafi Forlaginu ekki tekist að koma þessu í lóg innan ákv. tíma mun Samkeppniseftirlitið taka að sér að selja þetta sjálft með aðstoð tilskipaðs "söluaðila". Tekið er fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að kaupandi skuli hafa "fullnægjandi þekkingu á hinum selda rekstri og hafa fullnægjandi aðgang að fjármagni til þess að kaupa söluandlagið". Hverjir eru það? Kannski einhver ríkisstofnun, sem væri sannarlega skref afturábak. Bjartur/Veröld, Iðnú sem keypti Landmælingar, Edda útgáf hf. myndi kaupa þetta til baka sem er ákaflega ólíklegt, Námsgagnastofnun, Salka, nýtt fyrirtæki Sigurðar Svavarssonar og Guðrúnar Magnúsdóttur - Opna, upplýsingafyrirtæki, Birtíngur (365), eða eitthvað annað sem ekki er í sigtinu.
Samrunaákvæðin þýða endalok "leiðbeinandi útsöluverðs" því það skilyrði er sett að Forlagið megi ekki birta slíkt. Ljóst er að á eftir mun fylgja almennt bann við birtingum á "leiðbeinandi útsöluverði" í Bókatíðindum og þar með mun verðmyndunin fara fram í búðunum, sem venjulega eru allar með nákvæmlega sama verð á öllum bókum nema rétt nokkrar vikur fyrir jól. Nú getur maður s.s. farið að kæra Eymundsson og Iðu fyrir verðsamráð. Líklegast mun þetta þýða nokkrar breytingar á því hvernig smásalar auglýsa lækkað verð f. jólin. Þar sem ekki er hægt að auglýsa að verðið sé lækkun frá ákv. verði, þ.e. prósentulækkun, mun bein krónutala ráða meiru. Í það minnsta verður forvitilegt að sjá hvernig verðslagurinn fer fram. Bókaútgefendur hafa haft af því áhyggjur að þessar breytingar leiði til þess að almenningur skynji bókaverð hærra en áður, því almennt eru Íslendingar ekki á því að bókaverð sé hátt, enda hefur það lækkað nokkuð að raungildi undanfarinn áratug. Prósentulækkanir eru ekki vinsælar af öllum bókaútgefendum, en hafa skilað því að aldrei virðast fleiri Íslendingar hafa fengið bækur í jólagjöf en árið 2007, ef marka má rannsóknir. Ef kerfið vinnur vel, til hvers þá að breyta því? spyrja menn.
Eftir stendur að Samkeppniseftirlitið telur að samruninn sé skaðlegur samkeppni. Hins vegar er sú niðurstaða nokkuð furðuleg þegar haft er í huga að samruni Máls og menningar og Vöku-Helgafells árið 2000 var miklu stærra mál þar sem fyrirtæki sem voru í smásölu, tímaritaútgáfu, áttu bókaklúbba, hljómplötuútgáfu og höfðu yfir að ráða miklu dreifingarbatteríi sameinuðust nánast óátalið af samkeppnisyfirvöldum. Í ársbyrjun, eftir gjaldþrot Genealogia Islandorum, virtist JPV útgáfa raunverulega vera búið spil, en tókst á 6 árum að verða svo stór að nú er samruni hennar við Vegamót ehf. talin stórkostlegt hættuspil fyrir samkeppnina, svo mikið hættuspil raunar að gera þurfi miklar ráðstafanir til að vega á móti stærðinni, þótt Edda útgáf hf. hafi raunar verið bútuð í tvennt og raunar þrennt því nú berast óljósar fregnir af því að AB, em var undanskilið við sölu útgáfuhluta Eddu til Vegamóta, sé að fara að gefa út bækur.
Samt virðist Forlagið rétt hafa um 1,5 milljarð í veltu á ári sem er ekki einu sinni helmingur þeirrar heildarupphæðar sem Hagstofan talar um að bókamarkaðurinn velti, rétt 4 milljarðar. Forlagið er stærsta einkarekna bókaútgáfa landins. Næst stærsta bókaútgáfa landsins er ríkisfyrirtækið Námsgagnastofnun, sem hefur hingað til ekki þurft að hafa áhyggjur af samkeppni, þótt það sé nú að breytast. Þótt skiljanlega verði að vinna með samkeppnisyfirvöldum að því að bæta hag almennings, er ljóst að sátt Forlagsins er dýru verði keypt og er ósanngjörn. Jafnvel þetta stóra fyrirtæki stendur höllum fæti andspænis ýmsum samkeppnisaðilum, t.d. ríkisútgáfu, útgáfu félagasamtaka, útgáfum sem njóta ríkisstyrkja og eru á fjárlögum auk annars afþreyingarefnis. Saga JPV útgáfu sýnir að bókaútgáfur geta vaxið, jafnvel þótt þær séu í samkeppni við stórfyrirtæki og saga Eddu útgáfu sýnir að stórfyrirtæki í þessum viðkvæma og erfiða bransa mega ekki við minnstu mistökum: þá rúllar allt á undraskömmum tíma.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.