Hvenær varð meistaraverk til á þremur mánuðum?

Úthlutanir á starfslaunum listamanna eru jafnan mikið stressmál hjá stéttum rithöfunda, myndlistarmanna, tónlistarmanna og leiklistarfrömuða. Rithöfundar taka þessum úthlutunum jafnan sem einskonar stóradómi um sín verk. "Þeir færðu mig niður um flokk," segja menn þegar þeir fá laun í 6 mánuði í staðinn fyrir 12, rétt eins og þar með sé einhver opinber stofnun að lýsa yfir skoðun sinni á verkum þeirra. Ungir rithöfundar ræða oft ákvarðanir úthlutunanefnda eins og verið væri að ráða í tiktúrur illgjarnra og lyginna goðmagna sem hylja "stóra planið" bak við moðreyk stöðugra blammeringa. Þau kosmísku öfl sem talin eru ráða dreifingu skattfjár til listastarfsemi eru á einhvern hátt handan við alla skynsemi, sama hver situr í nefndinni. Sumir listamenn eru með einhvers konar galdraformúlur á takteinum þegar þeir skila af sér umsóknum. Menn ráða í táknin og það sem fyrir þá ber á leiðinni með umslagið til þess mikla Móloks sem tekur við vonum og þrám hinna skapandi stétta.

Sumar úthlutunarnefndir eru greinilega með menningarprógramm, vilja til að mynda gefa nær gleymdum höfundum séns, ég minnist einnar slíkrar nefndar sem vakti mikla úlfúð í hópi atvinnurithöfunda fyrir um áratug síðan. Einn og einn lætur sig svo hafa það að skrifa í blöðin (æ sjaldnar þó) til að spyrja "af hverju ekki ég?" Aðrir til að spyrja: "Af hverju ekki X? Hann er snillingur og þarf marga munna að metta. Hvaða rugl er þetta?" En svo eru nefndir eins og sú sem nú starfar sem ákveður að best sé að nota "haglabyssuaðferðina". Þá er þessum naumu fjármunum sem ekkert hafa hækkað í 15 eða 20 ár smurt þunnt og sem víðast svo allir fái eitthvað. Þetta byrjaði fyrir einum tveimur, þremur árum. Þá sá maður að aftur komu inni þessir tveir og þrír mánuðir sem voru standard úthlutun áður en þessu kerfi var tekið tak á seinni hluta níunda áratugarins. Í staðinn fyrir að allir væru að fá smápeninga sem væru of litilir til að hægt væri að lifa af þeim og of miklir til að hægt væri að deyja af þeim var ákveðið að veita myndarlega styrki til þeirra sem störfuðu að ritstörfum af fullri einurð og gefa þeim tíma til að skrifa. Lægsti styrkurinn var hálft ár, hæsti þrjú ár, en margir fengu eitt ár og stundum tvö.

En nú hefur þessu verið snúið við. Fullt af fólki fær þriggja mánaða starfslaun sem ég hef ekki hugmynd um hvað menn halda að geri eiginlega fyrir listina. Starfslaunasjóðurinn er grundvöllur þeirrar gullaldar í skáldsagnaritun sem hófst um miðjan níunda áratuginn og stendur kannski enn að einhverju leyti með óvæntum krimmasnúningi. Þar fengu menn og konur frið í nokkur ár til að skrifa en þurftu ekki sífellt að búa til nýja umsókn til að fá aðra þrjá mánuði til að nota til að fjármagna stutt hlé áður en brauðstritið byrjaði að nýju. Afleiðingin er að aldrei hafa fleiri íslenskar bækur verið þýddar á erlend tungumál. Samtímabókmenntir okkar byggjast ekki á einum HKL með mörgum sveltandi smástirnum í kringum þann Stóra björn, heldur mörgum sjálfstæðum sólkerfum sem hvert með sínum litum og plánetum aflar lesenda heima og heiman.

Þessi stefna sem útdeiling starfslauna rithöfuna er lent í nú er leið inn á villigötuna. Aftur virðist stefnan að miðjumoð sé best. Menn þora greinilega ekki að taka ákvarðanir og fá svo brjálaða og svekkta rithöfunda í hausinn, heldur ákveða að dreifa smásporslum víða. Auðvitað er grundvöllurinn sá að það vantar fjármuni í pottinn, það er hin raunverulega ástæða. En rústum ekki góðum árangri og kerfi sem hefur sannað að það fúnkerar til þess að búa til smásporslusýstem sem mun ekki nema að takmörkuðu leyti fleyta bókmenntaskrifum áfram. Eða hvenær var meistaraverk samið á þremur mánuðum? Ritstörf eru fullt starf og bókaútgáfa á Íslandi hefur notið þess í um tvo áratugi að það virtist almennur skilningur allra að svo væri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband