Byggó brennur

Ég var eilíitið undrandi yfir því að fréttin um stórbruna á Sauðárkróki var um tíma mest lesna fréttin á mbl.is. Hafði íslenskur almenningur þá svona mikinn áhuga á örlögum míns gamla heimabæjar? Bruninn bendir eina ferðina enn á þá staðreynd að gríðarlegt starf er eftir við að lyfta gamla bænum á Króknum upp og gera hann að fallegu umhverfi. Í rauninni hafa aðeins þrjú eldri hús í bænum verið gerð upp af myndarskap, gamla læknishúsið, Villa Nova og Hótel Tindastóll. Á síðustu árum hefur hræðilegum tækniteiknunar kumböldum verið hent inn í útibæinn og þar með enn aukið á glundroðann sem fyrir var um leið og ýmislegt sem þó var sjarmerandi hefur verið skipulega rifið.

Útibærinn á Króknum er því miður fremur dapurlegur staður og ber fremur merki hrörnunar og hnignunar en uppgangs. Þar ægir öllu saman í óskiljanlegri bendu byggingarstíla og fjárhagsleg not fólks af húsunum virðast ekki vera nógu mikil til að hægt sé að ráðast í að taka umhverfið í gegn. Krókurinn á ekki að skipa neinum Valgeiri á Vatni, sem bjargaði beinlínis Hofsósi frá voða og lagði grunninn að því að hægt er að hugsa sér að sá staður eigi einhverja framtíð. Nú þegar gamla Byggó er brunnið, sem auðvitað er stóráfall fyrir þann góða veitingamann og stórsnilling Jón Daníel og Öldu konu hans, þá ættu góðir menn að reyna að setjast að borðinu og sjá fyrir sér hvernig sögulegur kjarni bæjarins geti orðið til að bæta enn einum steini í annars glæsilega uppbyggingu í Skagafirði. Þar hefur tekist með góðu byggðasafni á Glaumbæ, Hólum í Hjaltadal og Hofsósi að gera héraðið tiltrekkilegt fyrir gesti og búa til vinalega umgjörð fyrir fólkið í héraðinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband