Jöfnunarnefnd vanmetinna og ofmetinna

Það er skrítin lenska í bókmenntaumræðunni að geta sjaldnast nefnt lítt þekkt skáld á nafn án þess að þurfa að hnykkja svo á því í leiðinni að hann eða hún eða það séu vanmetin. Sá góði fræðimaður Matthías Viðar Sæmundsson heitinn var alltaf mikill áhugamaður um þessi vogaskálafræði. Svo mikill raunar að ákafinn í að stilla lóðunum upp á nýtt skyggði oft á helsta styrk hans sem lá í orðræðugreiningunni, Matthías sá einfaldlega stórar línur þar sem aðrir sáu bara spörð og lagða. Ég man að Þórarinn Eldjárn gerði grín að þessu í viðtali og kom með þennan gullvæga frasa, sem alltaf situr í mér, að Matthías væri sjálfskipaður formaður jöfnunarnefndar vanmetinna og ofmetinna. Mér sýnist nokkrir vilja nú taka sæti hans.

Þannig eru vogaskálavísindin nánast ergilegur blettur á einni "vanmetnustu" bók síðasta árs, Nýr penni í nýju lýðveldi eftir Hjálmar Sveinsson sem forlag hans Omdurman gaf út, frásögn af síðustu ævidögum og rithöfundaferli Elíasar Marar. Þessi bók ætti að vera kennslubók öllum skrásetjurum í tækni við að miðla ævi, starfi og lífi viðfangsefna sinna. Hún er skrifuð af innblásnum áhuga á ekki aðeins ævi eins manns, heldur brennandi áhuga á að greina aðstæður hans hverju sinni og setja þær í samhengi, sjálfstætt og án þess endilega að láta viðfangsefnið um að túlka þær. Þegar Hjálmar dregur til að mynda upp skrif Elíasar Marar um London frá 5. áratugnum upp úr glatkistunni verður til ekki aðeins ný mynd af skáldinu, heldur líka nýr sjónarhóll til að horfa á eftirstríðsárin. Ég hafði gríðarlega gaman af þessari bók, sem er persónuleg og gagnrýnin, borin uppi af sterkri sýn höfundarins á lífsverk Elíasar og kjarki hans við að fullyrða, segja frá og lýsa. Hjálmar er mjög góður penni, textinn er þéttur, safaríkur og margbreytilegur og í honum er sífellt verið að opna göng og vegi í allar áttir, rétt eins og textar samtímans hljóta að gera ef þeir eiga að læra eitthvað af "framleiðsluafstæðum síðkapítalismans", hinni miklu verksmiðju Netinu, þar sem við vinnum öll í sjálfboðavinnu við að gera Microsoft, Google, Apple og Morgunblaðið að stórveldum.

En vogaskálafræðin urðu mér þung í skauti. Að halda því fram að Elías Mar sé vanmetinn og að honum hafi verið ýtt út í skuggann er ekki í eðli sínu röng staðhæfing, hún bara leysir engan hnút. Hún staðfestir bara enn einu sinni að það er einhver "kanóna", eins og það er kallað, stórvesíraveldi menningarinnar þangað sem mönnum eins og Elíasi hafi hingað til ekki verið hleypt en nú eigi að opna fyrir þeim dyr. Jöfnunarnefnd vanmetinna og ofmetinna þyrfti þá að funda og raða kapalnum upp á nýtt og þá þyrftum við líka að fá að vita, hverjir eru það sem eru hefðarveldi 6. áratugarins? Líklegast eru það fjórir eða fimm póstar: "atómskáldin", "póst-atómskáldin", Laxness og Þórbergur og Birtingshópurinn. Sjötti áratugurinn var eitt frjóasta sköpunartímabil Þórbergs, tímabil ævisögu Árna Þórarinssonar, Sálmsins um blómið og fleiri rita. Halldór sendi frá sér þrjár stórkostlegar skáldsögur og fékk Nóbelinn. Atómskáldakynslóðin bjó til gull úr tungumálinu, ægifagra og magnaða músík sem mætti heyrast miklu oftar og meira, á þessum tíma komu út margar helstu ljóðaperlur íslenskrar bókmenntasögu og það gildir raunar jafnt um atómskáld, póst-atómskáld og Birtingshóp. Elías Mar orti ekkert sem stenst því snúning, það er nú einu sinni bara þannig. En Hjálmar staðsetur snilld hans á hárréttum stað: Hann veitti lífsviðhorfum og tungumáli þéttbýlisins farveg, lagskiptum veruleika þar sem fátæklingar, gagnsterar, vandræðabörn, drykkjufólk, hermenn og eiturlyfjaneytendur fengu mál. En það gerir Elías Mar ekki "vanmetinn". Samhengið til að túlka hann þannig hefur einfaldlega ekki verið til. Hver átti að meta hann öðru vísi? Því ef maður les Sóleyjar sögu út frá hugmyndum t.d. um fagurfræðileg átök við skáldsagnaformið, margröddun, margræðni eða bara út frá klassískari hugmyndum um formfestu, þá er þetta misheppnað listaverk. Bókin er brokkgeng, ómarkviss, full af prédikanakenndri hugmyndafræði, íhaldssamri þjóðernishyggju sem síðan passar ekki við aðra parta bókarinnar. Þetta er fullkomlega tvíátta verk og þurfti engin kaldastríðsvísindi til að átta sig á því. En með alternatíva bókmenntasögu að vopni sem hefði félagsleg málvísindi að kjölfestu sem og félagslega og hugmyndalega greiningu liti málið öðru vísi út. Hjálmar hefur lagt sitt af mörkum til þess með þessari bók.

Annar jöfunarmaður er Egill Helgason sem þráspurði í Kiljunni hvort Vilhjálmur frá Skáholti væri ekki áreiðanlega vanmetinn. Flestir voru á því. Hann var nokkuð brattur við vogaskálina. Henti stórum lóðum á hana svo Vilhjálmur var skyndilega sagður vera eitt helsta skáld Íslendinga á 20. öld! Hendingin, Fyrst þeir krossfestu þig Kristur, hvað gera þeir þá við ræfla eins og mig? var sögð ein magnaðasta hending bókmenntasögunnar, perla í kórónu bókmenntasögu síðustu aldar. Ég verð að viðurkenna að þetta stóð í mér.

Á námsárunum í HÍ las ég skáldskap Vilhjálms út af verkefni sem okkur var ætlað að gera um "borgarskáld", sem er eitt af þessum úldnu viðfangsefnum sem manni er þvælt í gegnum í náminu. Seinna fór ég í gegnum verk hans þegar ég vann í því mikla rottu- og hamsturshjóli, Orð í tíma töluð, snallyrðasafni Tryggva Gíslasonar, sem Mál og menning lét ganga út á þrykk árið 1999. Þá gat ég vigtað hann í samanburði við hina, Einar, Davíð, Tómas, Þorstein Erlingsson, já, jafnvel Höllu Eyjólfsdóttur og Jón Magnússon (hvort tveggja mjög "vanmetin skáld"), sem og náttúrlega eftirstríðsáraskáldin, og fannst hann satt best að segja fullkomið miðlungsskáld, ef ekki þaðan af verra. Klisjur, sjálfvirkar hugsanir og fremur grunn og almenn hugmyndafræði haganlega rímuð. Hvað heita þannig menn, jú hagyrðingar er það ekki. Vilhjálmur frá Skáholti var góður hagyrðingur, maður á borð við Sigga í Krossanesi sem talinn var mestur höfuðsnillinga í mínu ungdæmi norður í Skagafirði og á örugglega jafn margar snilldarhendingar og Vilhjálmur. Egill gat greinilega ekki bakkað þetta upp með alvöru spekingum, vegna þess einfaldlega að það myndi enginn alvöru fræðimaður nenna að skrifa grein um skáldskap þar sem svo lítið er að finna. Systkinin Kristjónsson voru því fengin til að vitna sem og starfsmaður verslunarinnar Kristjónson og Co., Valdimar Tómasson. Jóhanna af þeirri augljósu ástæðu að hún býr í Skáholti og Bragi vegna þess að hann er jú hvort eð er alltaf í þættinum og getur sagt svo skemmtilega frá gömlu Reykjavík. Þetta var allt á kjaftasögustiginu, var Vilhjálmur launsonur Einars Ben. var aðalmálið! En það er svo sem rétt og kom vel fram að margir hafa tónsett kvæði hans. Það er vegna þess að þau eru rímuð og stuðluð og henta vel til söngs, eru alþýðleg og kátleg og fara vel í munni. En þetta er ekki seriös ljóðlist.

Mér fannst Egill opinbera vel í þessum þætti að bókmenntaskilningur hans er "borgaralegur" eins og það var kallað áður en við urðum öll að misvelstæðri miðstétt. Ég sé hann til að mynda ekki fjalla um lifandi stórskáld eins og Þorstein frá Hamri eða Hannes Pétursson, Kristínu Ómarsdóttur, Steinar Braga og Steinunni Sig. með þessum hætti. Honum finnst gaman af því að fjalla um skrítimenni og kynlega kvisti, en hefur ekki áhuga á bókmenntagildi ljóða. Það sést líka á því við hverja hann talar þegar ljóð ber á góma. Hann talar fremur sjaldan við fólk sem hefur lengið í ljóðum og reynt að greina þau. Hugmyndir hans um skáldskap komu líka berlega í ljós í sumar þegar hann hneykslaði ungu ljóðskáldin með því að lýsa frati á samtímaljóðlist almennt. Þar var "frændi hans" Jón Helgason efstur á blaði yfir alvöru átórítet og kannski er það nú þannig að maður sem dó árið 1986, gaf út síðustu ljóðabók sína 1976 og hafði mestan áhuga á bókmenntum fyrri alda sé í raun helsta heimild okkar um samtímaljóðlist. Yfir því þarf maður ekki að æsa sig, þannig er þetta bara. Kostir Kiljunnar eru ótvíræðir, ekki síst þeir að hann nær til stærri hóps en þess sem alla jafna myndi fylgjast með svona prógrammi.

Eftir slædmyndasjó Hannesar Hólmsteins, sem hefði í raun átt að heita "Davíð og ég", sat hins vegar sú spurning hvort Davíð Oddsson sé vanmetinn eða ofmetinn?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband