15.1.2008 | 23:42
Norrænar bókmenntir í leit að heimsyfirráðum
Á vikulegri ferð um metsölulista hins siðmenntaða heims sér maður sífellt sömu nöfnin, raunar hafa sumir höfundar verið svo lengi á metsölulistum að þeir hljóta að vera fyrir löngu dauðir þótt hvorki þeir né lesendur þeirra viti það.
Ég veit ekki hve margir íslenskir lesendur, og þá sérstaklega krimmalesendur, þekkja nafn Andrea Camillieri, en hann er einn af örfáum krimmahöfundum sem ég hef nennt að lesa mér til ánægju um ævina. Hann sló í gegn á Ítalíu háaldraður maður og síðast þegar ég vissi var hann dauður, en hann er stöðugt á listum á Ítalíu svo handritaskúffan virðist ansi djúp. Hann er til að mynda núna á toppi ítalska bóksölulistans, þ.e. þess sem upplýsingastofa bókaútgáfunnar á Appennínaskaganum, Informazioni Editoriali, tekur saman, með bókina Maruzza Musumeci, og enn er það hin pena Sellerio útgáfa í Palermo sem gefur bækurnar hans út. Bókaútgáfan sú prentar bækur bara á kremaðan eðalpappír og þær eru alltar í sömu litlu quadratstærðinni, ætli það væri ekki sagt að þær séu í 8vo broti með grallarasniði. Mjög handhægar og lesvænar bækur og dæmigerðar fyrir ítalska bókamarkaðinn þar sem útgáfur á borð við Sellerio og Adelphi eða norrænubókaútgáfuna Hyperborea gefa allar bækur sínar út í sama skrítna brotinu með sömu litlausu og ljótu kápunum. Á þessum lista er líka nafn eins leiðinlegasta rithöfundar allra tíma, Stefano Bennis, sem Ítalir virðast geta lesið út í hið óendanlega, en sem ég held ekki að nokkur annar nenni að glugga í. Mjög sérítalskur höfundur sem pínir mann með aulahúmor um sjálfsögð sannindi út í eitt.
En það vekur athygli, og kannski öfund, að Svíar koma sterkir inn á alþjóðlegu bókamarkðassenuna. Sænskir höfundar eru nú á topp 10 í Frakklandi, Spáni og Þýskalandi. Í Þýskalandi er það gamli góði Mankell með sögu sem kallast Ítalskir skór, Italienische Schuhe, í Frakklandi er það Stieg Larsson, sem er hvorki meira né minna en með tvær bækur inni á topp 10, eða tvær fyrstu bækurnar í þúsaldarflokkinum sem hann svo dó frá, og síðan Camilla Läckberg með Ísprinsessuna á topplista Spánverja, sem er eins og venjulega mjög lókal.
Stieg Larsson er langvinsælasti höfundur Svía heimafyrir. Bæði seljast bækurnar hans áfram einsog heitar lummur og hann er sá höfundur sem er mest lánaður út á bókasöfnum þar í landi. Larsson er einnig toppsöluhöfundur í Danmörku og Noregi. Nú mun loksins vera von á bókunum hans á íslensku á þessu ári, Bjartur gefur út.
Það var norskur höfundur, Per Petterson, sem náði því einn þýddra rithöfunda að komast á lista Time Magazine yfir bestu bækur ársins 2007 í Bandaríkjunum. Sagan Úti að stela hestum fékk glimrandi dóma vestra og var höfuðefni bókablaðs sunnudagsútgáfu NYT eina vikuna.
Við eigum að stefna að því fyrir hönd bókmennta okkar að ná samskonar árangri. Að skrifa fyrir heiminn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.