2.1.2008 | 00:13
Bókaannáll 2007
Íslenski bókabransinn horfir á bak um margt merkilegu ári í sinni 467 ára sögu, en fyrsta sannarlega prentaða bókin á íslensku, Nýja testamentið, var sett á markað sumarið 1540 af útgefanda sínum og þýðanda, Oddi Gottskálkssyni.
Ég lék mér að því í hefðbundinni nýársgöngu minni á fjall í nágrenni Reykjavíkur - þar sem sú margtroðna slóð Þverfellshorn Esju varð fyrir valinu (og ekki sá ég rollurnar frá því um daginn, er einhver búinn að sækja þær?) - að tína til í huganum það sem í raun og veru skipti máli í bókaútgáfunni á árinu og það sem mun hafa áhrif til framtíðar.
Að mínu vitu eru þetta stóru póstarnir:
- Nýja Biblíuþýðingin
- Lækkun virðisaukaskatts á bækur
- Sameiningar bókaforlaga (MM og JPV, Bjartur og Veröld)
- Stofnun Bókmenntasjóðs
- Afnám einkaleyfis ríkisins á sölu námsgagna fyrir grunnskólanemendur
- Góð jólavertíð, metfjöldi í Bókatíðindum og nýir bókakaupendur
- Negrastrákafárið
1. Biblían
Engum blöðum er um það að fletta að útgáfutíðindi ársins var útkoma nýrrar Biblíuþýðingar. Drög nokkurra kafla höfðu birst áður og raunar var þegar byrjað að gagnrýna þýðinguna fyrir fáeinum árum síðan, Jón Axel Harðarson málfræðingur ritað til að mynda grein strax árið 2005 þar sem hann tíndi til nánast öll deiluefnin sem brunnu á mönnum í haust. Einkum voru það áhrif líffræðilegs kyns á málfræðilegt kyn sem honum þótti of glannaleg nýbreitni sem og þýðingar "lykilhugtaka" á borð við það sem hét í eldri Biblíuþýðingunni "kynvillingur". Þetta var stuttlega rifjað upp í innlenda fréttaannál RÚV á gamlárskvöld. Innslag frá Gunnari í Krossinum talaði sínu máli. Við þessu mátti búast og viðhorf samtímans hlutu að hafa áhrif á endanlegan frágang textans og maður vissi líka fyrirfram að hljóð myndi heyrast úr smásafnaðahorninu.
Nýja útgáfan er mun fallegri en fyrri útgáfur. Hún er lesvæn, aðgengileg og vel hönnuð og einstaklega fallega prentuð. Biblíuþýðendur ráða nú yfir meiri og dýpri þekkingu á aðstæðum og samfélagi þeirra sem rituðu þessa texta, þeirra sem söfnuðu þeim saman í eitt bindi og sem mótuðu viðhorfin að baki textunum. Þessa sér stað í þýðingunni og hugsunin er að jafnvel þótt viss hátíðleiki máist út sé nákvæmnin meiri. Sumir bentu þá að ekki væri mikil nákvæmni fólgin í að þýða ávarpsorðið "bræður" sem "systkini", en aftur og enn var eins og fæstir hefðu sett sig mikið inn í sögulega túlkunarfræði eða þýðingarfræði almennt. Færslan úr einu menningarsvæði yfir í annað virtist fyrst og fremst spurning um að fletta upp í orðabók. Einhvers konar endanleiki þekkingarinnar var hafður að forsendu fyrir öllum umræðum. Kannski er Biblíufélagið eða þýðendahópurinn með einhver námskeið en mér finnst miklu meira hafa heyrst í gagnrýnendum um þessi atriði. Væri ekki hægt að vera t.d. með sjónvarpsþætti þar sem söguleg vitneskja okkar þó ekki væri annað en um Jesú væri á borð borin? Bara að segja frá því að Jesú átti stóra fjölskyldu, bræður og systur, myndi koma fullt af fólki nokkuð á óvart.
En þegar umræðan um kynvillinga og ávörp á borð við "systkini" og fleira úr Kvennakirkjuranni var meira og minna afstaðin hófst önnur umræða sem snerist minnst um guðfræði en fremur um stíl. Þýðendahópurinn þótti draga niður hátíðleika málsins, fletja það út og slíta úr samhengi biblíumálsins eins og það hefur þróast allt frá Hómelíubókinni og Stjórnarþýðingunni á miðöldum til síðustu Biblíuútgáfunnar 1981. Ég man eftir að hafa heyrt menn kasta þeirri hugmynd á loft fyrir áratug að gefa út eldri þýðingar, til að mynda Viðeyjarbiblíuna frá 1841, til mótvægis við þessa "vatnsþynntu þýðingu" sem Biblíufélagið væri að boða. Þessi rödd heyrðist raunar ekki hátt og skýrt fyrr en um miðjan nóvember þegar ég eiginlega fyrir tilviljun rak augun í dálk Jóns G. Friðjónssonar í Morgunblaðinu um íslenskt mál. Þar kvað hann svo sterkt að orði að þýðingin væri vart boðleg. En meira var handan við hornið ...
Tveimur dögum síðar var haldin ráðstefna um þýðinguna í Skálholti. Þar stilltu þeir sér upp sem áður höfðu gagnrýnt þýðinguna, t.d. Jón Axel Harðarson og Guðrún Þórhallsdóttir, sem helst hefur haft sig frammi af þeim sem gagnrýna líffræðilega umritun málfræðilegs kyns í íslensku, auk náttúrlega Jóns G. og samkvæmt fregnum blaða stóð vart steinn yfir steini þegar þau höfðu lokið sér af. Þrátt fyrir að ýmislegt félli Jóni G. Friðjónssyni í geð, var hann samt á því að framsetningin væri svo slöpp að betra hefði verið að sleppa útgáfunni. Frásögn Morgunblaðsins af þessari ráðstefnu beindi sjónum að tvennu: Í fyrsta lagi átti einn af forkólfum þýðingarinnar, Guðrún Kvaran, þau svör ein við gagnrýninni að þýðendurnir hafi orðið að gera eins og erindisbréf þeirra sagði, sem hafi skorið þeim of þröngan stakk og að sér dytti ekki hug annað en þeir fjölmörgu sem unnu að þýðingunni hefðu unnið gott starf. Í öðru lagi fannst manni nánast óskiljanlegt að þetta risaverkefni sem svo margir unnu við og kostaði svo mikið skyldi ekki hafa verið látið í hendur manns eins og t.d. Jóns G., bara til yfirlestrar. Eða las hann þetta yfir og henti þessu svo í þýðendateimið með lunta? Guðmundur Andri Thorsson ritaði nú í desember pistil í Fréttablaðið þar sem hann lýsti einmitt furðu sinni yfir að starfandi rithöfundar skyldu ekki hafa verið látnir fara höndum um textann. Bara svona til að tryggja að hann væri stíllega boðlegur sem íslenska (en ýmis dæmi sem Jón G. tekur eru svo óíslenskuleg að furðu vekur). Maður undrar sig aðeins á þessu, en auðvitað þekki ég ekki alla málavexti.
Í nýársdagspredikun sinni ræddi svo biskup, Karl Sigurbjörnsson, um Biblíuþýðinguna og lauk lofsorði á þá sem þýddu og sagði Biblíuna þola rannsókn og gagnrýni. Þýðir það þá að við sjáum brátt endurskoðaða Biblíuþýðingu?
2. Lækkun á Vsk
Virðisaukaskattur á bækur og fjölmiðla var ekki tekinn upp þegar söluskattinum var breytt í virðisaukaskatt árið 1990 af menningarlegum ástæðum. Það lágu hins vegar engar menningarlegar ástæður að baki þegar 14% skattur var lagður á bækur og tímarit árið 1993 af hinni kátu Viðeyjarstjórn, heldur vildu þeir sem nú eru sífellt mærðir fyrir að hafa "bjargað hagkerfinu" og "opnað það" fækka skattgötum svokölluðum. Slík viðhorf eru nú úrelt hjá öllum stjórnmálflokkum nema Vinstri-grænum sem aldrei vildu lækka né afnema virðisaukaskatt á bækur af þeim ástæðum. Það voru heldur ekki menningarleg rök sem stýrðu lækkun virðisaukaskatts á bækur úr 14% niður í 7% þann 1. mars 2007, heldur var 14% þrepið einfaldlega lagt niður. Merkilegri en lækkunin á bókaskattinum var í raun lækkunin á geisladiskaskattinum úr 24,5% niður í 7% því það þýðir að sama skattprósenta er á hljóðbókum og prentuðum bókum, nokkuð sem er mikið bitbein í nágrannalöndum okkar. Þótt að gamla slagorðið "Don't tax reading" sem breskir bókaútgefendur hafa jafnan notað þegar koma á skatti á bækur á Bretlandseyjum (en þar er enginn vaskur á bókum) fái ekki mikinn hljómgrunn hér sem fyrr er 7% skattur ásættanlegur í evrópskum samanburði og öfundarefni t.d. Dana, sem enn burðast með fullan 25% skatt á sínum bókum.
3. Sameiningar
Það hafði legið fyrir nokkra hríð að Edda-útgáfa hf. yrði ekki langlíft fyrirtæki í þeirri mynd sem það var rekið frá árinu 2002 til 2007, með Björgólf Guðmundsson og tengda aðila sem kjölfestu og Útgáfufélagið Mál og menningu sem minnihlutaeiganda. Björgólfur vildi bakka út úr félaginu og MM taka á sig stærri skuldbindingar. Vendingar sumarsins og haustsins 2007 voru hins vegar nokkuð óvæntar þótt síðar kæmi í ljós að þessi atburðarás hafði gerjast lengur og verið betur hönnuð en menn héldu þegar tilkynnt var um samruna "útgáfuhluta Eddu-útgáfu" og JPV útgáfu í lok ágúst.
Í sjö vertíðir, frá 2000 til 2006, höfðu JPV og Edda verið höfuðkeppinautar á íslenskum bókamarkaði. Edda bólgnaði út á sínu fyrsta starfsári en minnkaði síðan nánast stöðugt uns hægt var að pakka bókaútgáfuhluta hennar snyrtilega saman í höfuðstöðvum JPV á Bræðraborgarstíg í desember 2007. Það voru mikil umskipti frá því fyrirtækið leigði 7 hæða hús við Suðurlandsbraut og var með starfsemi á einum 5 þeirra (þá var talað um að gott væri að hafa eina hæð til að hlaupa uppá þegar fyrirtækið stækkaði) og mörg hundruð starfsmenn haustið 2001. Þótt það sé ekki nógu kunnugt almenningi starfar Edda-útgáfa hf. enn og er blómlegra fyrirtæki en nokkru sinni fyrr að kunnugra sögn, skuldlaust að kalla með góðan traustan rekstur sem felst í traustum áskrifendahópi ýmissa bóka- og blaðaklúbba. Það er alfarið í eigu félags í eigu Björgólfs Guðmundssonar, en hver framtíðin verður, fæst ekki upp gefið. Miklar sögusagnir voru uppi um að Morgunblaðið eða jafnvel Birtíngur myndu vilja eignast það, en þær hafa dáið aftur.
Sameiningu JPV og MM (eða "útgáfuhluta Eddu") undir nafni Forlagsins hefur verið vel tekið í bókabransanum, ekki hef ég heyrt í neinum sem er henni virkilega andsnúinn, og virðist hafa heppnast betur en nokkur þorði að vona. Verkefnin eru auðvitað risavaxin og auðvitað er sameiningin "innlimum" Eddu í JPV, en góð jólavertíð 2007 og ákveðni þeirra sem áfram héldu í að láta hlutina virka virðist hafa skilað sér.
Hin sameiningin var sameining Bjarts og Veraldar, tveggja eðlisólíkra forlaga, sem hvort um sig eru mjög mótuð af persónuleika útgáfustjóranna Snæbjörns Arngrímssonar og Péturs Más Ólafssonar. B/V er nú næst stærsta forlag landsins og fór ákaflega vel út úr jólavertíðinni 2007, líkt og raunar Forlagið líka. Það má gera því skóna að sameinuð muni forlögin brjótast út úr fyrri skapalónum og miða að því að vera alvöru valkostur við risann hinum megin við þilið á Bræðraborgarstígnum.
4. Bókmenntasjóður
Ný lög um sjóðakerfi bókaútgáfunnar voru samþykkt á síðustu þingdögum fyrir kosningar í mars 2007. Þar með er loksins kominn vísir að því að hægt sé að beina fé hins opinbera sem renna á til bókaútgáfu í einn skynsamlegan farveg þar sem stefnumótun hefur farið fram um hvernig beri að deila út þessum fjármunum og hvað beri að styrkja. Stjórn Bókmenntasjóðs hefur ráðið framkvæmdastjóra, Njörð Sigurjónsson, sem brátt lýkur doktorsprófi í menningarstjórnun í London og hefur kennt menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Miklar vonir eru bundnar við að hann láti til sín taka á vettvangi kynningarmála erlendis og skapi bókmenntunum öflugri sess sem einni af burðarstoðum ímyndar Íslands á alþjóðavettvangi. Þar er allt til reiðu en hefur skort á að láta kné fylgja kviði.
5. Grunnskólamarkaðurinn opnast
Það er í raun skandall að á sama tíma og það hefur í raun verið letrað á skjöld Sjálfstæðisflokksins að stuðla að markvissri tilfærslu á rekstrarþáttum ríkis til einkaaðila hefur markaður fyrir námsgögn á skólaskyldualdri verið tæknilega lokaður og samkeppni þar lítil sem engin. Frá því á fjórða áratug 20. aldar hefur Ríkisútgáfa námsbóka, seinna Námsgagnastofnun, haft þessa útgáfu með höndum. Á sama tíma hefur útgáfa á námsefni utan skólaskyldunnar verið alfarið á höndum einkarekinna útgáfufyrirtækja og hafa nú á síðustu árum Edda og Iðnú verið þar atkvæðamest. Lög um nýjan námsgagnasjóð sem einnig endurskoða hlutverk Námsgagnastofnunar og þróunarsjóðs námsgagna voru samþykkt á vorþingi 2007.
Þótt þau kvæðu á um að þegar í haust ætti að úthluta 120 milljónum til kaupa á námsefni sem skólarnir gátu valið sjálfir stóð stöðugt á reglugerð um málið og þegar hún loks kom í nóvember og fjármununum var úthlutað heyrðu fæstir í útáfunni af því. Í raun breytist fátt í fyrstu. Einnig er mjög óljóst hvort útgáfufyrirtæki eiga að þróa námsbækur nú vegna þess að breytingar á lögum um öll skólastigin frá 2 ára til tvítugs standa fyrir dyrum. En glufan hefur verið opnuð. Þessi meginmarkaður bókaútgáfunnar í nágrannalöndum okkar, þ.e. einkarekinna útgáfufyrirtækja, er loksins að opnast. Nú ríður á að nýta tækifærin þótt augljóslega sé menntakerfið enn ekki einu sinni sjálft búið að átta sig á aðstæðum.
6. Metfjöldi titla í Bókatíðindum og góð jólavertíð
Það er sífellt gefið meira út fyrir samkeppnismarkaðinn. Það voru 800 titlar í Bókatíðindum í ár og hafa aldrei verið fleiri. Það þróast nú líka ný tegund sjálfsútgáfu þar sem ævisögur, fræðibækur og handbækur eru gefnar út á kostnað einstaklinga. Ekki veit ég hvort þetta efni selst mikið og stundum er það beinlínis undurfurðulegt auk þess sem erfitt er að nálgast það nema kannski í tveimur bókabúðum, en þótt þetta sé ósköp krúttlegt er þetta ekki allt mjög faglegt frá sjónarhóli alvöru bókaútgáfu. "Vanity publishing" yrði sumt af þessu efni kallað í útlöndum.
Jólavertíðin var góð. Um það ber öllum saman. Bækurnar fengu sinn skerf af almennri aukningu í verslun. Mikið úrval hjálpaði til að gera bækurnar sýnilegar og höfðaði til neytenda. Mikið kapp var lagt í markaðssetningu bóka í ár, það komst enginn í gegnum meðalauglýsingatíma í sjónvarpi nema sjá bókaauglýsingu. Þriggja ára sonur minn segir enn "Skrudda" með miklum þjósti við og við þótt hann sé hættur að segja "Englar dauðans" með dramatískri rödd eins og hann gerði fyrir jólin. En svo styrkist enn og aftur hinn nýi "aðventumarkaður", þar sem fólk kaupir einfaldlega bækur fyrir sjálft sig til að lesa og hendir þá kannski annarri sem það ætlaði kannski ekkert endilega að lesa en hafði heyrt að væri áhugaverð með. Helber gjafamarkaðurinn skýrir ekki alfarið þann gang sem er í bóksölunni. Kiljusala á nýjum þýðingum á vorin og sumrin er annað teikn um breytt neyslumynstur. Ef tekst að fá aðventulesendurna til að bæta við sig aukatitli af nýrri bók í kringum páska eða Viku bókarinnar væri orðinn til nýr bókamarkaður, nokkuð sem bæði útgefendur, fjölmiðla og aðra dreymir um.
7. Negrastrákafárið
Þegar bók fær sérstakt skets um sig í Áramótaskaupi er hún búin að meika það. Það tókst engum nema Tíu litlum negrastrákum og "Ruddu"-útgáfunni. Raunar var það eitt fyndnasta atriði hins annars arfaslappa skaups, þegar drengurinn hrópaði Sieg Heil lak ég niður af hlátri. Afleiður fársins á borð við Tíu litlir kenjakrakkar þeirra Eldjárnssystkina Sigrúnar (fálkaorðuhafa) og Þórarins sýndu að menn voru til í að sjá kómískar hliðar á því. Á tímabili rauk bókin út en svo hljóðnaði um hana þegar nær dró jólum. Umræðan opinberaði ákveðið naívitet andspænis arfleið okkar. Við erum fyrir löngu búin að átta okkur á að fortíðin er ekki bara ein sigurganga, Breiðavíkurdrengir, Íslensku nasistarnir, hlerunarfólkið, innra eftirlitið, barnaníðingarnir osfrv. hafa fært okkur heim sanninn um að fortíðin er vettvangur sársauka og jafnvel skelfingar. Nú er kominn tími til að beina sjónum að kynþáttahyggju og afstöðu stjórnvalda og almennings til útlendinga og sjá þetta í sögulegu ljósi.
En að það þurfi að banna fólki að gefa út bækur á borð við Tíu litla negrastráka ... hver á að úrskurða um það að svona bók sér hættuleg. Sérstök eftirlitsnefnd hins opinbera eða refsiglaðir bloggarar? Því gat enginn svarað. Hámarki náði dellan þegar spurt var: "Hver er munurinn á að brenna bók og gefa hana út?" Enda dó umræðan þar með. Hins vegar væri vert að háskólastofnanir hérlendis héldu henni áfram á hærra plani. Gagnkvæmt tjáningarfrelsi virðist ekki vera almennt viðurkennt á Íslandi. Ef skoðanir sem koma fram í bókum eða í fjölmiðlum stuða okkur erum við til í að banna þeim sem þær hafa að birta þær. Ef marka má marga sem tóku þátt í "negrastrákaumræðunni" voru þeir alveg öruggir á því að lög í þá veru væru nú þegar til. Ýmiss konar "hate speech" lög eru til í nágrannalöndum okkar, oft sett eftir langvinnar umræður um tjáningarfrelsið, en þörf væri á að fleiri og betri rök væru til á vopnahillunni næst þegar svona mál koma upp. Þá væri þetta skrítna fár þó í það minnsta til einhvers.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.