Hvernig má bjarga samkeppnishæfni Íslands með barnabók

Niðurstöður úr hinni alþjóðlegu PIRLS könnun um lestrarkunnáttu 9 ára barna á Íslandi eru ekki mjög uppörvandi. Í landi þar sem metnaður okkar stendur til að vera sífellt í hópi hinna bestu, ekki síst á sviðum menntunar, er 32. sæti af 45, eða rétt við meðallag, ekki ásættanlegt. Þar að auki eru það mikil vonbrigði að sjá að lestrarkunnáttunni hrakar lítils háttar miðað við síðustu könnun árið 2001.

Þessar niðurstöður eru líka áhyggjuefni fyrir bókaútgefendur, rithöfunda og aðra sem vinna að bóka- og blaðaútgáfu og menningarmiðlun. Við sem vinnum við bókaútgáfu og miðlun texta viljum ekki aðeins að fólk lesi og lesi mikið. Við vitum einfaldlega að útbreiðsla þekkingar er grunnurinn að því að samfélagið í heild spjari sig. Þetta snýst ekki aðeins um að fólk kaupi einni eða tveimur skáldsögum meira á ári, þetta snýst um að að fólk hafi getu til að tileinka sér hvaða lesmál sem er. Ekki aðeins er það niðurstaða úr mörgum rannsóknum að lestrarkunnátta er lykillinn að velgengni í námi, heldur hafa einnig kanadískir hagfræðingar gert nákvæma úttekt á sambandi lesleikni eða lestrarkunnáttu við hagvöxt og þróun svokallaðra "þekkingarhagkerfa" sem byggjast á því sem bandaríski hagfræðingurinn Richard Florida kallaði "skapandi stéttir".

Það er næstum ótrúlegt að sjá að það virðist vera beint samband milli lestrarkunnáttu fullorðinna og síðan samkeppnishæfni og góðra lífsskilyrða. Lestrarkunnátta er því ekki bara spurning um að geta litið í blöðin eða kíkt inn á netið. Því betri lestrarkunnátta, því meiri líkur eru á að samfélagið í heild spjari sig í hinni alþjóðlegu baráttu um fjármagn, hæfileikafólk, hugmyndir og bætt lífsskilyrði.

Grunnurinn að lestrarkunnáttu er lagður á unga aldri. Lestrarkunnátta næst kannski síst með því að kíkja í skólabækurnar. Hún næst með því að lesa sem flest og sem fjölbreyttast úrval bóka. Í ár standa íslenskir útgefendur sig sérstaklega vel í þessum efnum. Boðið er upp á metfjölda barnabóka í ár eða um 300 titla, þar á eitthvað að vera fyrir alla.

Bækur eru ekki dýrar. Allra síst barnabækur. Fyrir nokkra þúsundkalla má auðveldlega leggja grunn að bættri samkeppnishæfni Íslands í framtíðinni. Sterku samfélagi menntunar, hugmyndaauðgi og framsýni. Eitt leikfangið enn mun ekki breyta neinu, en bók breytir öllu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband