1.11.2007 | 17:42
Bókabrennur
Í svo mikið öngstræti er umræða um bókaútgáfu og prentfrelsi á Íslandi komin að einn höfuðbloggari landsins, Katrín Anna Guðmundsdóttir, veltir fyrir sér á bloggsíðu sinni hver munurinn sé á því að "gefa út bók sem byggir á rasisma og að brenna sömu bók?" Að sjálfsögðu er hún að vísa til mest seldu bókar á Íslandi þessa stundina, Tíu litlir negrastrákar eftir Gunnar Egilsson með myndum Muggs.
Það verður vel ljóst af orðum hennar að hún veltir fyrir sér ákveðnum möguleika. Hún er ekki að hvetja til þess að brenna ákveðna bók. Og hún segist heldur ekki vera að hvetja til bókabrenna.
Ég á hins vegar svolítið erfitt með að líta svo á að þessi spurning: Hver er munurinn á því að halda fram skoðun með að gefa út bók og halda fram skoðun með því að brenna bók? sé meinlaust akademískt verkefni. Þetta er ögrandi spurning sem ætlað er að magna upp deildur enda hafa margir lagt orð í belg á bloggsíðu Katrínar. Hún er greinilega undir það búin því hún skrifar: "Spurningarnar hér fyrir ofan eru partur af mínu málfrelsi og ætlaðar sem umræðugrundvöllur. Ég býst þó við að sumir eigi ekki eftir að greina á milli þess að hvetja til einhvers athæfis og að velta upp spurningum."
Vandamálið er að með þessum spurningum haslar hún sér völl sem er einfaldlega rangur miðað við tilefnið. Hún notar eitt helsta og elsta mælskufræðitrikk heimsins: Hún skilgreinir umræðuna og spinnur hana svo þaðan.
Eitt af því mikilvægasta sem umræðan um Tíu litla negrastráka hefur leitt af sér er að einmitt meirihluti þjóðarinnar, og raunar útgefendurnir þar með taldir, litu ekki svo á að þetta væri bók þrungin kynþáttahyggju. Þegar Katrín Anna Guðmundsdóttir segir síðan í einni af mörgum athugasemdum sínm við athugasemdir annarra:
ég er sammála því að bókin á heima í fullorðinsbókahillunni en ekki barnabókahillunni (samt með þeim formerkjum að þetta sé kynþáttahatur, það er ekki eins og allt fullorðna fólkið hafi skilið það við sig) - en ég er líka á því að fólk hefði átt að hafa vit á því að gefa hana ekki út. Útgáfan er vitnisburður um rasisma og sorglegt að sjá að þau hafi í alvörunni ætlað að heiðra minningu einhverra með því að endurútgefa kynþáttafordóma eftir þá...
þá er hún að gefa sér að allir hafi verið meðvitaðir um kynþáttahyggju bókarinnar. Það voru þeir jú einmitt ekki. Og hvers vegna hefði fólk átt að vera meðvitað um þessa kynþáttahyggju? Engar grundvallarrannsóknir á kynþáttahyggju á Íslandi liggja fyrir. Engin sérstök umræða hefur farið fram um hlutverk kynþáttahyggju í íslenskri menningu. Hvaðan hefði eiginlega þeim fjölmörgu sem ekki hafa þjálfað sig í að lesa hugmyndafræði út úr listaverkum og fjölmiðlum átt að koma þessi vitneskja? Ekki er Katrín Anna í það minnsta að fræða okkur um það. Hennar hlutverk er greinilega að hræra í tilfinningapottinum.
Ég veit að Katrín Anna Guðmundsdóttir er margreynd baráttukona sem hefur einmitt verið ötul við að lesa hugmyndafræðina út úr því sem aðrir telja meinlaust. En þegar "akademíska" spurningin um hvort ekki sé jafn mikið tjáningarfrelsi að brenna bók og að gefa hana út er hrokkin fram á varirnar er dagljóst að umræðan um samband bókaútgáfu og samfélagskilnings þarf að skiljast við hinn hvatvísa vettvang bloggsins og fara annað. Með fullri virðingu fyrir þessari spurningu hefði Katrín Anna átt að undirbúa og undirbyggja þessa umræðu eilítið betur svo hægt væri að taka mark á henni. Hún vildi búa til hasar og fékk hann. En svona áróðursbrellur eru ekki til þess fallnar að byggja upp virðingu fyrir tjáningarfrelsi og baráttu þeirra sem vilja gera meðborgurum sínum ljóst að kynþáttahyggja er aðför að meðbræðrum þeirra.
Að brenna bók er auðvelt. Maður gerir það bara heima hjá sér í baðkarinu. En þannig fara ekki bókabrennur fram. Þær fara fram á torgum þar sem valdhafar safna saman fólki til að horfa á upplög bóka sem bannaðar eru í Ríkinu fuðra upp. Sá sem brennir bók vill setja strik undir reikninginn. Loka á málið. Og býr í leiðinni til píslarvotta. Og þegar fólk er farið að brenna Tíu litla negrastráka ... þá fyrst fáum við alvöru rasista.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.