Tíu litlir negrastrákar

Í síðustu viku boðaði Alþjóðahúsið til fundar til að ræða hugtakanotkun í samtímaumræðu um fólk af erlendum uppruna vegna endurútgáfu bókarinnar Tíu litlir negrastrákar eftir Gunnar Egilsson með myndum Guðmundar Thorsteinssonar, Muggs. Mér var boðið að koma þarna að ræða á fremur óformlegan hátt sýn bókaútgefenda á málið. Mörður Árnason og Hallfríður Þórarinsdóttir voru einnig í pontu og var ætlað að ná utan um kynþáttahyggju í hugtakanotkun hvort á sinn hátt. Ég bjóst við að fáeinar hræður myndu láta sjá sig og hnykkti því aðeins við þegar ég kom. Bæði var setið í hverju sæti og svo var þarna fullt af fjölmiðlafólki sem ég hafði ekki búist við, meira að segja sjónvarpsmyndavélar. Einhver hafði greinilega verið að vinna plöggvinnuna sína.

Skemmst er frá að segja að fjallað var um þennan litla atburð í nærri öllum fjölmiðlum. Ég hélt að síðan myndi málið lognast út af en misreiknaði það algerlega. Þeir fjölmörgu sem eiga börn af erlendum uppruna, eiga "blönduð" börn eða einfaldlega nána vini eða þá ættingja sem eru sökum hörundslitar síns á einhvern hátt skotspónn meira og minna meðvitaðrar kynþáttahyggju virðast einfaldlega hafa fengið nóg. Þeir nenna ekki lengur að burðast með óuppgerða arfleið íslenskrar kynþáttahyggju. Þeir nenna ekki að heyra fólk segja að "negri" sé alls ekkert rasískt orð, fremur en nokkur önnur orð í íslensku og að fólk hafi nú sungið Tíu litla negrastráka í æsku og ekki orðið meint af. Og það nennir heldur ekki að vera skilningsríkt andspænis viðhorfi sem bloggsíðurnar virðast nokkuð seigar að viðhalda: Hvað banna þeir nú næst? Á bara ekki að fara fram bókabrenna! Hvað sjá menn eiginlega athugavert við myndir af blökkubörnum sem eru limlest, smáð og drepin á hugvitssamlegan hátt uns frábær fjölgunarhvöt þeirra margfaldar töluna að nýju?

Ég hef fengið nokkra tölvupósta frá fólki sem hefur innt mig frekar eftir skoðun minni á málinu. Í áhrifaríkri bloggfærslu Gauta Eggertssonar - bróður borgarstjóra og undramanns að sögn allra sem til hans þekkja - sem farið hefur eins og eldur í sinu um bloggheima í gær og dag er míns óverðugs getið í sambandi við undarlega stuðningsmenn þessarar útgáfu og fólk hefur hringt í mig til að ræða málin. Í stuttu máli sagt er ekkert lát á umræðunni um Tíu litla negrastráka, hún bara magnast. Það er ekki aðeins að hvatt hafi verið til þess að bókasöfn og leikskólar kaupi ekki inn bókina. Fólk segist líka ekki ætla að koma inn í þær bókabúðir sem hafi bókina til sölu. Þeir sem tjá sig um bókina og fordæma útgáfu hennar ekki fortakslaust eru þrátt fyrir hefðbundna varnagla um að auðvitað ætli enginn að fara að kasta bókum á bál og auðvitað verði að virða prent- og tjáningarfrelsi, í fremur þröngri stöðu, nema náttúrlega að þeir kannist ekki við kynþáttahyggju og láti eins og hugmyndafræði sé ekki til.

Ég veit að þessi viðbrögð koma nokkuð flatt upp á útgefendur bókarinnar, Skruddu. Það sést líka vel á umbúnaði hennar. Hvorki útgerð hennar, formáli né annað vísar á að ef til vill sé þarna á ferð hugmyndafræði sem neytendur geti hugsanlega litið svo á að sé beinlínis teflt gegn sér og sínum nánustu og ali á andúð, ranghugmyndum og fyrirlitningu í garð litaðs fólks. Svona eftir á að hyggja er það nokkuð bratt að gefa út ómengaða kynþáttahyggju frá fyrri hluta 20. aldar árið 2007 nánast eins og ekkert sé sjálfsagðara, en hér er svo sem heldur ekki alfarið við útgáfuna að sakast. Það sem gerist hér er að samfélagið er skyndilega sett í þá stöðu að þurfa að horfast í augu við að menningararfleið Íslandinga sé að einhverju leiti byggð á kynþáttahyggju. Að barnabækur æskunnar séu hugmyndafræðilegur áróður. Að ástsæll listamaður getur verið í senn húmanisti og rasisti, líkt og svo margir samtímamenn hans. Að við þurfum að skoða samhengi arfleiðarinnar sem hugmyndafræðilega. Við höfum farið í gegnum þetta ferli að einhverju leyti með hliðsjón af kvenréttindabaráttunni og femínismanum, þótt einmitt bloggsíðurnar séu nú ekki helsti akur skilnings á sjónarmiðum femínisma, sem er svo sem annað mál. Stéttaspurningin var enn annar fasi hins sögulega uppgjörs, marxískir íslenskri fræðimenn fundu í senn frelsisstrengi fortíðar og kúgunarmekkanisma íslenskrar sögu og skrifuðu um hvort tveggja áhrifarík rit um miðbik 20. aldar. Við höfum ekki tekið útlendingaumræðuna í botn. Þeir Snorri Bergs og Einar Heimisson eru og voru álitnir hálfgerð furðumenni vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af örlögum Gyðinga á Íslandi.

En fyrst að við erum vanbúin og höfum í raun mjög litlar rannsóknir í höndunum um sögulegar víddir kynþáttahyggju á Íslandi og lifandi umræðuhefð um málið verða menn svolítið æstir og sækja því um leið nánast beint í umræðuhefðina eins og hún hefur t.d. þróast í Bandaríkjunum, þar sem hún er eðlilega hluti af réttindabaráttu svartra, sbr. hina áðurnefndu bloggfærslu Gauta Eggertssonar. Það gengur hins vegar ekki nema upp að vissu marki. Saga íslenskrar kynþáttahyggju er örugglega ekkert í grundvallaratriðum öðru vísi en saga annarrar kynþáttahyggju en hún byggir ekki á skipulögðu þrælahaldi og kerfisbundinni kúgun annars kynþáttar. Við erum einfaldlega að taka fyrstu skrefin núna þessi misserin í veröld sem sprengir þá gagnhvítu veröld sem flestir Íslendingar eldri en þrítugir ólust upp í. Ég veit að málið snýst um tilfinningar aðstandenda og ótta foreldra og ættingja við viðtökur samfélagsins við börnum sínum og sínum nánustu en séð úr kaldrananum verða viðbrögðin oft glannalega vanstillt og munu ekki leiða til neins skilnings á hlutverki kynþáttahyggju í íslensku samfélagi.

Þá grípa menn líka til styttinga til að hjálpa sér með röksemdafærsluna. Tíu litlir negrastrákar eru hvort sem fylgismönnum bókarinnar líkar betur eða verr þrungin kynþáttahyggju. Ég íhugaði málið stutta stund og gerði það strax upp við mig að ég myndi ekki lesa þessa bók fyrir hann Skírni minn því hann er ekki nógu gamall til að átta sig á hugmyndafræði. En ég held að menn þurfi að hafa meira til síns máls en bandarískt umræðusamhengi til að negla niður rasismann. Hvað gekk Muggi t.d. til? Ten Little Niggers virðist t.d. eftir því sem ég kemst næst hafa verið breskt kvæði en ekki bandarískt, en byggt á bandarísku kvæði sem hét Ten Little Indians. Bæði kvæðin eru samin á hátindi hugmyndafræðilegrar kynþáttahyggju á Vesturlöndum, rétt um 1870. Seinna var kvæðið svo myndskreytt víða um lönd og ég hef haft upp á versjónum á öllum Norðurlandamálum, hollensku, þýsku og frönsku. Leikrit byggt á kvæðinu virðist vera sett upp reglulega í mörgum leikskólum hérlendis og kvæðið er inni á heimasíðum leikskóla sem hluti af efnisskránni og ég veit að það er víða sungið, t.d. á jólaskemmtunum. Hins vegar virðist það ekki hafa haft eins sterk samfélagsleg áhrif og útkoma bókarinnar. Það er því fráleitt að láta nú eins og útkoma bókarinnar sé einhver sérstök blind framsókn þröngsýninnar. Hvaða þjóðfélagshópar á Íslandi hafa haft beinan hag af kúgun kynþátta í eigin landi? 

Á áðurnefndum fundi í Alþjóðahúsinu sagðist ég vera í þeirri óvinsælu stöðu að verja frelsið til að gefa út úrelta hugmyndafræði. Ef taka á tjáningarfrelsið alvarlega verður að taka þann pól í hæðina. Sá sem vill gefa út bókina, hvort sem það er með athugasemdum eða ekki, er í fullum rétti til þess. Ef við verjum ekki þennan rétt núna, eigum við þá að verja hann þegar bók kemur út sem vekur reiði Valdsins? En ef við fengjum sögulega úttekt á stöðu útlendinga í íslensku samfélagi og hugmyndafræði kynþáttahyggju í orðræðu menntamanna á Íslandi á 19. og 20. öld yrði loksins hægt að segja eitthvað af viti um jarðveg hinna íslensku Tíu litlu negrastráka. En ekki heldur fyrr en þá. Við eigum ekki enn deild kynþáttahyggju á Þjóðminjasafninu. Og fyrst svo er verður vart hægt að álasa þeim fjölda fólks sem finnst það sjálfsagt að gefa út Tíu litla negrastráka athugasemdalaust. Ég veit að mjög margir eru að heyra það í fyrsta sinn núna að uppáhalds barnabókin sín særir annað fólk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband