24.10.2007 | 23:30
Einnar bókar útgáfur
Eitt af því sem er svolítið sérstakt við íslenskan bókamarkað er sá mikli fjöldi útgefenda sem gefa út eina til þrjár bækur á ári og koma þeim að í bókabúðum. Ef marka má Bókatíðindi sem og skráningar inn í kerfi Eymundssonar eru þetta um 70-80 aðilar sem munu nú um jólin tefla bókum sínum inn á samkeppnismarkaðinn. Allir þessir aðilar dreifa sjálfir bókunum sínum, sjá sjálfir um að selja þær, fjármagna sjálfir prentun þeirra og eru oftar en ekki sjálfir annað hvort höfundar, kápuhöfundar, umbrotsmenn eða jafnvel allt þetta og meira til. Það gefur auga leið að í þessum hópi er fæstir eiginlegir "fagmenn" í bókaútgáfu og auðvitað er tilgangurinn með þessum útgáfum misjafn. Hins vegar eru allir á því að bækur þeirra eigi erindi við almenning og menn láta á það reyna. Sumt af þessu er ákaflega metnaðarfull verkefni sem oft ættu meiri athygli skilið.
Ef sölulistar eru skoðaðir frá undanförum árum sést að aðeins í algerum undantekningartilvikum ná þessar smáútgáfur mælanlegum árangri á metsölulistum. Undantekningarnar eru til að mynda bækur Þorgríms Þráinssonar, sem hann hefur gefið út sjálfur á undanförnum árum, og svo stórvirki á við Kjarvalsbók Nesútgáfunnar, en eðli málsins samkvæmt gaf hún ekki út fleiri bækur það árið.
Það væri forvitnilegt að skoða stöðu þessarar útgáfu fyrir heildarsamhengið, því þetta fyrirbæri hefur verið ótrúlega lítið rannsakað. Þau fyrirtæki sem stunda bókaútgáfu af þrótti og hafa fjölda starfsfólks láta fyrirferð litlu útgáfunnar oft fara í pirrurnar á sér, vegna þess að stærstu bókabúðirnar virðast taka öll verk þeirra inn og "trufla" stóru útgáfurnar og borðpláss þeirra. Fyrir neytendur er þetta án efa mjög gott því fyrir vikið eykst vöruúrvalið, en þá segja prófessjónal útgefendur að fæstar þessara bóka séu stílaðar upp á neytendur. Leiðarmerki smáútgáfunnar sé fyrst og fremst hugarfarið að "koma þessu út".
Hvað sem því líður verður að segja að eitt er stórkostlegur galli á þessu kerfi. Það er nánast enginn infrastrúktúr til í dreifingu og sölu á þessum verkum. Hver einasti smáútgefandi er sjálfur að dreifa bókunum í sínum skutbíl og sjálfur að geyma þetta í bílskúrnum sínum. Fyrir vikið verður merkilega stór hluti bókamarkaðarins í raun að neðanjarðarfyrirbæri þótt hann eigi það í raun ekki skilið. Hvernig haldið þið að það sé fyrir smásala að panta inn bækur frá tugum birgja sem fæstir eru eiginleg fyrirtæki, heldur fólk úti í bæ? Væri ekki þægilegra ef til væri einn staður sem sæi um þetta allt? Skorturinn á eiginlegu dreifingarsentrali er mikið vanþroskamerki íslensks bókamarkaðar.
Í vikulegum pistli sínum greinir innkaupastjóri íslenskra bóka hjá Eymundsson, Bryndís Loftsdóttir, eilítið frá þessu fyrirbæri og bendir réttilega að eitt af gróskueinkennum íslensks bókamarkaðar er þessí útgáfa. Við hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda höfum reynt að benda fólki á að fyrir þessa aðila er nánast enginn vettvangur til kynningar betri en Bókatíðindi. Þar eru þeir á jafnréttisgrundvelli með sín verk og þar geta þeir komið t.d. verði á framfæri svo kúnnar geti haft bein samskipti við þessar litlu útgáfur. Við höfum haldið því fram að helsta réttlæting birtingar leiðbeinandi útsöluverðs í Bókatíðindum, nokkuð sem er annars ekki hlutverk heildsölustigsins, sé sé fjöldi þessara minni útgáfna. Þær séu í raun að birta verð sín þarna á smásölustigi því kannski tvær til þrjár bókaverslanir eru með allt þetta úrval til sölu. Megnið af kúnnum leiti á endanum beint til útgáfunnar, enda miðast útgáfan oft við að selja til ákveðins hóps.
Fyrir nokkrum dögum fór ég í Bókabúð MM við Laugaveg og gerði mér sérstakt far um að skoða þessar bækur. Það verður að segjast að margt af þessu er að sönnu mjög þröngt og höfðar til fárra en er oft um leið svo dásamlega sniðugt í eðli sínu að maður getur ekki annað en dáðst að framtakinu. Ein þeirra bóka sem ég rakst á er til dæmis heildaryfirlit um brúargerð á Íslandi sem Verkfræðingafélagið hefur gefið út. Stór hnulli allur í lit sem rekur sögu brúarsmíði á Íslandi frá upphafi með uppdráttum, ljósmyndum og nákvæmum frásögnum. Þetta hef ég hvergi séð auglýst né nokkurn mann ræða um, en þetta er til! Örugglega á einhver eftir að skrifa sögu bundins slitlags á Íslandi og gefa út litprentaða bók um málið. Ég bíð spenntur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.