25.9.2007 | 22:08
Já, fyrirgefið, reaksjóner kaupstefna!
Maður má hafa sig allan við að "hafa rétt eftir" þessa dagana. Baldri Kristjánssyni finnst ég ekki hafa rétt eftir sér og ekki vera nógu málefnalegur, sem er áreiðanlega rétt, ég bara get ómögulega stillt mig um að nota tungumálið og þá umræðuhefð sem það geymir þegar menn byrja að daðra við hugmyndina um að kannski sé það ekkert svo merkilegt eftir allt saman. Við sem höfum lifibrauð okkar af útgáfu og skriftum og eyðum öllum okkar stundum í lestur og umsýslan með þau mál vitum svo sem gjörla að íslenska er fráleitt eina tungumálið í heiminum. En við vitum líka að í áranna rás hefur aukist pot úr ýmsum áttum, pot þeirra sem vill þoka íslenskunni til hliðar, ekki tilviljanakennt og út í bláinn, heldur kerfisbundið og í algerlega ljósum tilgangi, nefnilega til að gera samfélagið hér "alþjóðlegra". Það er hins vegar enginn að fara að kjósa um þessi "alþjóðlegheit" og raunar á enginn einu sinni að velta því fyrir sér með hvaða hætti þau eiga að koma yfir okkur, það er bara talað um þetta eins og náttúrulögmál, eitthvað sem verði að gerast því annars ... förumst við, verðum hungurmorða, eitthvað hræðilegt. Áhugasömum um þessa valdataktík skal bent á tvö nýleg rit sem fjalla um hvernig svona poti er beitt: Draumalandið og Bréf til Maríu. Um leið er fjöldi gáfaðs fólks að rannsaka afstæða stöðu tungumálsins í menningunni. Stéttbindingu þess, hvernig notkun þess útilokar suma en innlimar aðra, hvernig það "einangrar" okkur, hugmyndafræðina, orðræðuna, kynlæga kúgunarstrúktúrana osfrv. Það er einfaldlega hluti af gagnrýnu ferli hugvísinda að fást við slíkar spurningar.
En þegar til kastanna kemur, þegar það verður pólitísk stefna að mjaka tungumálinu burt sem hindrun í samskiptum í viðskiptum og stjórnsýslu, þá veit maður að verið að afturkalla þá grundvallarhugmynd að íslenskan sé lýðræðislegt samskiptamál. Þá fyrst eru búnar til hindranir milli hinna ómenntuðu og hinna menntuðu, milli þeirra sem eiga og þeirra sem ekkert eiga. Og þá er verið að ýta notkun móðurmálsins út úr turnum valdsins. Það myndi á aðeins örfáum áratugum í raun gera íslenskar bókmenntir og fræði á íslensku að furðufyrirbæri áþekku því sem ritað er á bretónsku eða slavónsku eða einhverjum Alpadíalektum í Sviss og Ítalíu, styrktu fyrirbæri sem bara málvísindamenn og gamalt fólk geta notað sem samskiptatæki. Það má vera að ég hafi rangt fyrir mér, en ég trúi því einlæglega að um leið og við sláum af kröfunni um á íslenskan sé notuð alltaf á öllum sviðum samfélagsins séum við að setja þetta hingnunarferli í gang og þar með smám saman tapa tengslum okkar við hina dauðu. Auden sagði einhvern tíma að eina markmið skáldskapar væri að geta rabbað við dáið fólk. Minningar genginna kynslóða sem frásagnir og ljóð hafa bundið í orð, keimur af horfnum heimi sem orðin flytja með sér, þær dularfullu kistur sem töfraorðin uppljúka. Um leið og við sneiðum af þessum stóra líkama annan litla putta verður auðveldara að skera burt stórutá og síðan fylgja aðrir limir með uns fátt er eftir nema visið hjarta.
Já og Viðar Þorsteinsson , heimspekingur, sagði í mikilli grein á Kistunni að ég færi rangt með. Ég hefði sagt að hann hefði sagt reaksjóner bókmenntahátíð í Morgunblaðinu, en hann hefði í raun sagt reaksjóner kaupstefna. Hann er ekki hress með nýafstaðna bókmenntahátíð og finnur henni í raun allt til foráttu. Gagnrýni hans á Ali Hirsi og Jung Chang er ómakleg út frá mörgum hliðum, en makleg ef maður er þeirrar skoðunar að þetta fólk sé þrátt fyrir velmeinandi skoðanir handbendi bandarískrar heimsvaldastefnu og alþjóðlegs áróðurs gegn múslímum til að undirbyggja hugmyndafræðilega stríðsrekstur Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í Vestur-Asíu. Nú, eða þá þeirrar hugmyndafræðilegu blindu sem stýrir hugmyndum markaðsfólks um Kína, sem ég tek undir með honum að er óþolandi. Að sjá viðskiptamenn, þjóðhöfðingja og stjórnmálamenn í sífellu mæra það skelfilega þjóðfélag er með ólíkindum. Það er hlutverk gagnrýnna fræða að afhjúpa dulda hugmyndafræðlega strúktúra sem stýra mannfólkinu og Viðar tekur mikla glæsirispu í því í grein sinni á Kistunni.
En ...
Hann gjörsamlega drullar upp á bak (svo ég grípi til handhægs frasa frá Gillzenegger) þegar hann fer að lýsa öllum höfundum á bókmenntahátíð sem miðjumoðsfólki og peðum. Þótt hann deili ekki fagurfræði sinni með t.a.m. Tracy Chevalier, er hún engu að síður gríðarlega áhrifamikill höfundur sem hefur lagt mikið til ákveðinnar bókmenntategundar sem almenningur þekkir betur en margar: upmarket main stream fiction. Fyrir tilstilli fólks eins og hennar fara margir að lesa bækur og sækja í þær hugblæ liðinna tíma. Respect! Roddy Doyle er eins og margir höfundar af hans kalíberi, hann heldur áfram að skrifa, hann á sér traustan aðdáendahóp og hann heldur áfram. Bækur eins og The Woman who Walked into Doors, er til að mynda meistaraleg frásögn um heimilisofbeldi, einstök bók raunar. Til samanburðar má geta manns sem kom hingað árið 2000, Magnus Mills sem þá hafði slegið í gegn af því að hann hafði verið strætóbílstjóri. Hefði hann komið nú, hefði VÞ sjálfsagt púað yfir því að hann væri bara peð. En síðan Mills skrifaði bókina The Restraint of Beasts, sem var hans eina útgefna verk um þetta leyti og hafði þá verið þýdd á allar heimsins tungur, hefur hann skrifað miklu betri bækur, sem raunar hafa ekki selst jafn vel. En hann heldur engu að síður ótrauður áfram með sitt, vilji maður fylgjast með því. Raunar er ein besta skáldsaga sem ég hef lesið á 21. öld saga hans Three To See a King, sem er fantasía með dularfullum og óhugnanlegum hugblæ en jafnframt iðandi af húmor, minnti mig helst á bestu bækur Brautigans.
En Viðar hefur raunar rétt fyrir sér þegar kemur að samanburði Græna-ljóss hátíðarinnar og Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík. Hvílíkur munur á prógrammi og metnaði. Og fyrir vikið: Það er rétt hjá honum að af þessu má bókmenntahátíð í Rvk. læra ef hún á ekki að staðna og tréna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.