21.9.2007 | 10:06
Umbrotatímar í bókaútgáfu
Í Kiljunni nú á miðvikudaginn var fróðlegt viðtal við "ofurútgefandann" Jóhann Pál Valdimarsson. Það sem stóð þó upp úr og varð svo sem dagljóst við sameiningu JPV og Máls og menningar, er að það eru tækifæri í íslenskri bókaútgáfu. Það er hægt að byggja upp gott meðalstórt útgáfufyrirtæki á stuttum tíma með réttum samböndum inn í höfundasamfélagið, skýrri sýn á reksturinn og áræðni í markaðssetningu. Jóhann Páll minntist líka á athyglisverða staðreynd. Hann keppti við sér miklu stærra fyrirtæki með miklu sterkari bakhjarla en blómstraði samt. Markaðsfræðin myndu segja að einmitt þess vegna hafi hann blómstrað. Hann var neyddur til hagkvæmni, útsjónarsemi og til að finna sér samkeppnisstrategíu sem skapaði honum forskot á markaðnum.
Margir hugsa á svipuðum nótum þessa dagana. Við sameininguna og umbrotin hjá Eddu útgáfu eru margir sem starfað hafa lengi í útgáfu á lausu og þeir skynja líkt og margir aðrir að ef einhvern tíma var lag til að koma útgáfu á koppinn er það nú. Sigurður Svavarsson, einn reyndasti útgefandi þessa lands, áður framkvæmdastjóri Máls og menningar, útgáfustjóri Iðunnar, einn yfirmanna Eddu útgáfu og umsjónarmaður almennrar útgáfu á þeim bæ, hefur nú látið af störfum. Ljóst er að hann íhugar gaumgæfilega stöðu sína.
Aðrar útgáfur sem fyrir eru á markaðnum skynja sig á svipaðan hátt og Jóhann Páll lýsti í viðtalinu. Ókei, nú er nýr risi á markaðnum, en þessi risi er eins og aðrir risar í sífelldri varnarstöðu, hann vex ekki mikið á þverveginn, markmiðin hljóta að vera fremur þau að fá meiri framlegð út úr rekstrinum og láta innistæður í "bakklistanum" vinna fyrir sig, fá fjárfestingarnar til að skila meiri arði. Forlagið gefur út um 200 höfunda. Það er algerlega ómögulegt að allir muni una sáttir við sinn hlut til lengdar. Því bíða nú aðrir útgefendur þolinmóðir og hugsa sinn gang.
Það er því hugur í minni útgáfufyrirtækjum þessa dagana sem telja sig standa um margt sterkar að vígi en áður. Um leið heyrir maður ótrúlegasta fólk henda á lofti hugmyndum um að fara í útgáfu. Og minna sig á að þótt úrtöluraddir heyrist úr öllum hornum sannaði þó í það minnsta "ofurútgefandinn" að þetta er hægt. Og hann segist jú ekki kunna á excel og taka helst mark á kettinum sínum sem gengt hefur stöðu stjórnarformanns um árabil.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.