13.9.2007 | 00:07
Kiljan
Jæja, loksins fór íslenskur bókmenntaþáttur í loftið. Mikið sem maður hefur nú beðið eftir því og fullkomlega óskiljanlegt hverskonar þæfingur það hefur verið hjá RÚV að vilja ekki halda úti svona prógrammi. Að vísu er þetta góður tími, það er jú bókmenntahátíð í Reykjavík og fyrir vikið sægur af frambærilegu fólki á ferð. Egill sýndi það í Silfrinu að hann er eiginlega bestur þegar hann tekur viðtöl á ensku og það kom fram í kvöld. Fínt spjall við Ayaan Hirsi Ali og svo við þær stöllur Tracy Chevalier, Yasmine Crowther og Marina Lewycka.
Hirsi Ali og J.M. Coetzee koma reyndar með miklu trukki inn í bókmenntahátíðina með erindum sínum og spjalli um pólitík og stefnumið vestrænna samfélaga. Erindi Coetzees í hátíðarsal Háskólans var til að mynda að mínu viti hápunktur hátíðarinnar fram að þessu. Magnað erindi sem setti hugleiðingar hans sjálfs sem rithöfundar í stórt samhengi sem við erum öll hluti af. Hann nánast sannaði grundvöll þess að bókmenntir eigi að þrífast sem sérstakt áhrifasvæði heildrænnar hugsunar um mann og samfélag utan stofnana ríkis og sterkra fyrirtækja.
Ég vona hins vegar að hlutur álitsgjafanna í Kiljunni eigi eftir að slípast. Páll Baldvin var skarpur og beittur sem gagnrýnandi í sjónvarpi, en ég held að ég sé ekki að bulla þegar ég segi að hann hafi nú ekki verið leiftrandi af fjöri. Kolbrún Bergþórsdóttir er hins vegar fjörug og hrifnæm en verður óörugg um leið og umráðasvæði hennar sleppir. Fyrir vikið varð umræðan svolítið skrítin. Allir voru með einræður og enginn talaði saman eða spann áfram þráð hins. Páll Baldvin setti á mjög skrítna ræðu um einhvers konar svik útgefenda við málstað bókmenntanna vegna þess að þeir hefðu gefið út þýðingar á verkum höfundanna sem komu á bókmenntahátíð. Það var að skilja á honum að þetta væru upp til hópa svo slöpp verk að þau ættu það ekki skilið að vera þýdd á íslensku og að bókmenntahátíðin væri einhvers konar "set up" til að redda réttindakaupum forleggjara. Þetta er diskússjón sem ég held að aðeins örfáir innvígðir hafi skilið eða þá yfirleitt haft áhuga á. Um þetta mál höfðu Kolbrún eða stjórnandinn heldur ekkert að segja.
Hér hefði þó mátt benda á tvo meginpunkta sem skipta máli í þessari þó svo fremur tæknilegu umræðu: Annars vegar að nú stendur fyrir dyrum ný skipan mála í útdeilingu þýðingarstyrkja með stofnum bókmenntasjóðs skv. lögum sem afgreidd voru frá Alþingi síðasta vor. Þýðingarsjóður hefur verið lagður niður. Hins vegar að útgáfa þýðinga í harðspjöldum til gjafa um jólin er eftir sem áður erfið og það hefur ekkert breyst. Hins vegar er greinilega að myndast áhugaverður markaður fyrir þýðingar í kiljum. Menn eru að þreifa á formatinu þessa dagana. Bjartur/Veröld gefa t.d. út þýðingar bæði í kilju og innbundnar. Eddan eða Forlagið bara þýðingar í kilju á meðan smærri forlög eins og Jentas halda sig við innbundna formið. Bók Hirsi Ali, Frjáls, er svo innbundin og er greinilega teflt inn á jólamarkaðinn. Mynd Páls Baldvins er því sem er að gerast er því einfaldlega ónákvæm og ástæða til að reka það ofan í hann.
Svo fóru menn í að ræða hið nýstofnaða Forlag, sameiningu JPV útgáfu og Máls og menningar. Sú umræða snerist eingöngu um persónu Jóhanns Páls Valdimarssonar og svo "Schadenfreude" yfir hvernig komið væri fyrir Máli og menningu að geta ekki einu sinni druslast til að reka eigið forlag sjálft. Raunar hefur verið kostulegt að fylgjast með því hvernig allir eru nú farnir að líta Jóhann Pál skyndilega allt öðrum augum en áður undanfarna daga. Nýi sterki maðurinn horfir öðru vísi við flestum nú þegar hann ber ábyrgð á svo miklum hluta einkarekinnar bókaútgáfu á Íslandi. Menn skildu því sáttir með það að nú væri JPV "kóngurinn".
En eftir þennan þátt er ég á því að Egill hafi verið rétti maðurinn. Ef honum lukkast að hafa útlendinga í að minnsta kosti helmingi þáttarins hverju sinni verður þetta án efa gott prógramm.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.