14.6.2007 | 13:24
Ferðabókavertíðin
Átti leið um miðbæinn í morgun og skyggndist um eftir nýjum bókum fyrir erlenda og innlenda ferðamenn en sá ekkert nema nýja bók Páls Ásgeirs Ásgeirssonar um Hornstrandir sem er spennandi. Minnist þess þó að það kona einhver setti ofan í við hann í fyrra vegna skrifa um Hornstrandir vegna þess að henni fannst hann full rómantískur og upphefjandi og vildi draga fram að fólk hefði búið þarna og starfað og tíndi til útsvarsgreiðslur og aðrar heimildir. Þessi skoðanaskipti sátu aðeins í mér því það er oft ótraust brúin á milli byggðasögu og útivistar. Ég var einu sinni sem oftar að fletta þriðja og síðast útkomna bindinu í Byggðasögu Skagafjarðar um daginn sem Hjalti Pálsson ritar, og er ekkert minna en eitt risavaxið stórvirki. Þar er gríðarlega mikið um upplýsingar um land og landslag en minna um hvernig er best að ferðast um það.
En sjálfsagt eiga eftir að koma fleiri ferðabækur á næstunni og ég veit að von er á stórri ljósmyndabók eftir Thorsten Henn ljósmyndara sem yrði þá nýjasta Íslandsbókin. Á metsölulista Eymundsson yfir erlendar ferðamannabækur er hins vegar nú ný bók sem kaliforníska framúrstefnuútgáfan Ginkopress gefur út, bókin Icepick eftir Þórdísi Claessen. Þórdís hefur í langan tíma safnað myndum af íslenskri götulist og er sjálf hönnuður. Hún hefur lengi verið að vinna í bók með sýnishornum af þessu og nú er hún komin á alþjóðlegan markað og virðist einnig ganga vel í Reykjavík. Athyglisverð og rosalega flott hönnuð bók sem sýnir algerlega nýja hlið á Íslandi. Það stakk mig um daginn þegar ég var á ferðalagi í Japan að það er hvergi graffití í Japan. Það er algjör hending að maður sjái graffítí í Tókíó en í Reykjavík er hins vegar í raun útkröbbuð því mikið sem maður sér er náttúrlega bara bjánalegt krass. En af hverju? Af hverju eru Íslendingar svona svakalegir graffarar?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.