28.4.2007 | 11:15
Bréf til Maríu - lesið hana!
Ég varð fyrst var við bókina Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson þegar ég sá henni bregða fyrir á metsölulista Eymundssonar um daginn. Svo keypti ég hana og hef vart getað lagt hana frá mér síðan. Þrátt fyrir miklar annir, flutninga og hrakhólavist, hef ég legið í henni hvenær sem stund gefst og ég er sannfærður um að þessi bók eru stóru tíðindin á hérlendum bókamarkaði þetta vorið. Hún hefur ekki verið markaðssett með miklum látum, ég held t.d. að ekki neitt einasta viðtal hafi birst við höfundinn. Það er hins vegar bara skandall að lunginn úr Kastljósþætti skuli ekki hafa verið helgaður Einari Má eða þá gott, stórt viðtal í helgarblaði. Bókin er það sem frasaorðabókin kallar "tour de force" - og þar sem allir eru svo pólitískir þessa dagana hlýtur þessi bók að vera sannkölluð himnasending fyrir alla þjóðfélagsrýnana.
Það sem er ekki hvað síst svo gleðilegt við þessa bók er hve glúrinn stílisti höfundur er, hve hugsunin er lipur og létt og að textinn er þrátt fyrir deiluritseðli sitt miklu nær skáldskap en þurrleginum sem íslenskir fræðiritahöfundar virðast oft vanda sig við að brugga fyrir lesendur sína. Að ekki sé talað um alla þá "talsmenn" fyrirtækja og rannsóknastofnana sem eru eins og bilaðir ipodar sem hökta á milli stafrænna búta á minniskubbunum sínum. Hér eru andlegar hræringar síðustu 50 - 60 ára eða svo skilgreindar og ofnar saman við sjálfsævisögulega frásögn sem er í grunneðli sínu harmræn. Hinn einlægi réttlætissinni leitar þjóðfélagsgerðar þar sem menning, menntun, velsæld og jöfnuður fara saman og telur sig hafa eygt hana í velferðarþjóðfélaginu en spyr um leið hvað veldur því að þróunin er í öfuga átt, burt frá þessum gildum til meiri ójöfnuðar, óánægju, baráttu, kúgunar og misréttis í öllum vestrænum þjóðfélagögum. Og af hverju ráðandi stétt og ráðandi fjölmiðlar telja þessa þróun þá einu réttu og veg til betra lífs. Hér er á ferð sagnfræðileg greining á "frjálshyggju", "alþjóðavæðingu" og "markaðsvæðingu" síðustu áratuga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.