Sundur og saman

Tilkynnt var nú á miðvikudaginn að bókaútgáfurnar Bjartur og Veröld hefðu sameinast. Þótt veltutölur og stærðartölur í bókaútgáfu séu því miður ekki alltaf á lausu er þó hægt að segja með nokkurri vissu að þriðja stærsta bókaútgáfa landsins á samkeppnismarkaði hafi orðið til við sameiningu Bjarts og Veraldar.

Þessi fyrirtæki eru raunar eðlisólík og fátt með þeim sameinlegt nema það eitt að eigendurnir og útgefendurnir búa báðir erlendis og þurfa því eitthvert hald hérnamegin Atlantshafsins ef reksturinn á að skila þeim björg í bú.

Bjartur er fyrir löngu orðið sterkt vörumerki. Þetta er skapandi, duttlungafullt, útsjónarsamt og stefnufast merki sem hefur sótt styrk sinn í smæðina og sérstöðuna: Alltaf hlakkar fólk jafn mikið yfir því að Potter og Brown skuli koma út hjá Bjarti en ekki Eddu eða JPV (og þaráður MM og Vöku-Helgafelli). Þýðingalisti neon-klúbbs Bjarts er í heimsklassa og á innlenda listanum eru bæði handhafi Ísl. bókmenntaverðlaunanna og handhafi Norrænu bókmenntaverðlaunanna. Hins vegar hefur Bjartur eins og fleiri forlög orðið fyrir barðinu á upplausn vistabands íslenska höfundasamfélagsins því þaðan hafa farið einir tveir nokkuð fyrirferðarmiklir höfundar: Bragi Ólafsson og Guðrún Eva Mínervudóttir. Útgáfa á skáldskap er langhlaup og það þarf mikið úthald, stefnufestu og öruggan smekk í fagurfræðilegum efnum til að gefa sig að slíkri starfsemi. Rekstrarlega eru slík fyrirtæki svo óútreiknanleg að hefðbundnir fjárfestar sjá þar ekki hag sínum borgið á nokkurn hátt, varla ímyndarlega einu sinni, því það er betra að skína skært einu sinni en vera í hálfskímu um langa hríð. Það eina sem réttlætir að fólk sinni skáldverkaútgáfu er óbilandi trú á gildi skáldskaparins.

Veröld er nýtt fyrirtæki sem á tvö starfsár að baki. Þarna voru vanir menn að verki og náðu strax fautaárangri á markaði með tvær metsölubækur á topp tíu jólin 2005. Um leið skaut Veröld Yrsu Sigurðardóttur upp á stjörnuhimininn og Pétur Már Ólafsson hefur haldið áfram að ýta henni að heimsbyggðinni. Óviðráðanlegir atburðir settu strik í reikninginn og starfsemin var ekki mikil árið 2006, mér telst til að þá hafi þrjár bækur komið út auk kiljuútgáfu á téðri Yrsu, en árangurinn svo sem fínn miðað við það. Yrsa var í hópi mest seldu skáldverkahöfunda ársins 2006.

Eigendur hins nýja sameinaða útgáfufélags, Snæbjörn Arngrímsson og Pétur Már Ólafssson, hafa ólíkan stíl sem útgefendur. Snæbjörn er hinn lágmælti en um leið óútreiknanlegi raunsæismaður sem stefnir að hinu ómögulega - svo vitanað sé í Einar Má og anarkistana - en Pétur er frábær markaðsmaður sem hefur sannkallað sölunef og kann að setja hlutina í samhengi. Eitt fyrirtæki, tveir listar eða mun Pétur nota hæfileika sína til að selja Jón Kalman og Snæbjörn og hans fólk varpa nýjum ljóma á viðtalsbækur og krimma? Svarið við þessu fæst ekki fyrr en í haust. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband