Dagur barnabókarinnar

Í dag, 2. apríl, er alþjóðlegur dagur barnabókarinnar. Tilefnið er að þetta er fæðingardagur þjóðskálds Dana, hins mikla ævintýrasmiðs Hans Kristjáns Andersen. Nokkrum sinnum hefur verið reynt að hefja þennan dag til vegs og virðingar hérlendis en ekki tekist sem skildi og fáir þekkja hann.

Nú hafa IBBY samtökin haft forgöngu um að koma þessum degi á kortið og vilja stuðla að því að hann verði eftirleiðis einn af hápunktum bókaársins. Af því tilefni er vakin athygli á barnabókum í Borgarbókasafni, sýning tólf barnabókateiknara er í Ásmundarsafni en það sem líklegast ber hæst er verðlaunaafhending þar sem nýjum barnabókaverðlaunum IBBY og Glitnis verður hleypt af stokkunum. IBBY hefur jafnan veitt svokallaða Vorvindaviðurkenningu hvert ár og taka þessi nýju verðlaun, sem eru peningaverðlaun, við henni.

Umræðan um barnabækur og gildi þeirra er merkilega mikil og mjög margir hafa áhuga á að vegur þeirra sé sem mestur en þetta debatt fer að mestu fram á sporbaug sem er utan við daglegt vafstur höfuðfjölmiðla okkar. Útgáfa barnabóka, ekki hvað síst þýddra barnabóka, er vaxandi og nokkrir íslenskir höfundar hafa búið til heilt úníversum af sögum og karakterum sem eru nú byrjaðir að ferjast milli kynslóða þótt sumt af því efni sem gert hefur verið fyrir börn á Íslandi hafi orðið eftir í sínum tíma og eigi erfitt um útgöngu þaðan.

Mér finnst hins vegar að þessi mikli fjársjóður sé stundum frátekinn fyrir þá sem lesa. Eitt af megináhersluatriðum okkar útgefenda og allra sem vinna við bækur og útgáfu er að stuðla að auknum lestri: Við vitum einfaldlega að það er öllum til heilla. En við verðum líka að viðurkenna að til er hópur, sjálfsagt nokkuð stór hópur, kannski upp í 40% landsmanna, sem ekki lesa bækur sér til ánægju. Hins vegar myndi sama fólk vilja sjá ýmsa karaktera úr barnabókaflórunni í öðrum myndum: Sem teiknimyndir, sem fígúrur, sem myndir á ýmsum varningi, sem efni í öðrum miðlum.

Síðasta sumar fórum við fjölskyldan í frábært skemmtihús í miðborg Stokkhólms, Junibacken, sem er einskonar upplifunarsenter þar sem sænskar barnabækur og þeirra kúltúr er hylltur. Þetta var snilldarstaður sem bauð í senn um á möguleika til að leika sér, ferðast í gegnum sagnaheim Astridar Lindgren og djöflast um í Sjónarhóli sem hafði verið reistur þarna inni í mínatúrmynd með öllu tilheyrandi og engum bannað að snerta neitt. Góðir menn á borð við Dr. Gunna, hafa oft bent á sorglegan skort á tækifærum til að "gera eitthvað með krökkunum um helgar" á höfuðborgarsvæðinu. Það væri rakin snilld að eignast svona hús einhvers staðar á fallegum og björtum stað sem gæti verið mótvægi við leiksvæði krakka í verslunarmiðstöðvum og líkamsræktunarstöðvm sem eru alltaf í kjallaranum eða á einhverjum dimmum stað, líkt og börnin séu geymd í bunker á meðan foreldrarnir fegra líkama sinn og sál í birtunni ofanjarðar.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband