Ferðabækur

Um daginn bloggaði ég um ferðamannabækur. Hélt að þetta væri lítil saklaus færsla en fékk meiri viðbrögð við henni en vant er um mitt blogg. Þetta voru engar skammir, fremur vangaveltur um hvernig lýsa eigi landinu fyrir ferðafólki og svo leiðrétti Páll Ásgeir Ásgeirsson þann misskilning að hann hefði varpað upp rómantískri sýn á Hornstrandir í pistli í Morgunblaðinu síðasta sumar. Þar gerði ég mig sekan um að vitna eftir minni, sem maður skildi aldrei gera, allt er alltaf öðru vísi en mann minnir.

Sveitungar að norðan fundu svo að ýmsu. Ég hefði til að mynda gleymt nýju Árbók Ferðafélags Íslands, sem ég þó bloggaði um einhvern tíma í vetur þegar ég vissi að von var á henni, en hún er nú helguð Austur-Húnavatnssýslu sem er án efa eitt misskildasta svæði landsins. Jón Torfason ritar þá bók og FÍ blés til kynnisferðar á slóðir hennar rétt eftir hvítasunnu en þá var ég í Japan svo ég komst ekki í hana. Ég verð hins vegar hvergi var við að bókin sé komin út, allra síst á vef FÍ þar sem síðasta árbók kom út árið 2003.

Öðrum sveitunga fannst ég ómaklega vega að hinni miklu byggðasögu Skagfirðinga, einu voldugasta grundvallarriti um eina byggð á Íslandi sem út hefur komið. Það var nú ekki ætlunin, ég skil mætavel að það er ekki ferðabók, en ferðabókahöfundar nýta sér alla jafna slík rit og mér vitanlega er ferðamönnum ekki boðið upp á að kynnast byggðinni sem svo mikil elja hefur farið í að lýsa. Ferðamenn fara út í Drangey og nú er hægt að sigla út í Málmey og svo fá menn leiðsögn um Hólastað og þar er nú í sumar við leiðsögu sá margbrotni stórsnillingur og fyrrum samstúdent, Guðmundur Brynjólfsson úr Vogum á Vatnsleysuströnd, einn mesti sagnamaður sem Ísland hefur alið, þannig að engum ætti að leiðast þegar hann fer að þylja upp úttektir Hólastaðar og leika uppvakningu Galdra-Lofts auk náttúrlega virkisgerðar Jóns Arasonar og prentsmiðjustarfs Guðbrands en mest hlakka ég þó til að sjá hann lýsa og leika þann mikla atburð þegar Hóladómkirkju tók af í ofsaveðri árið 1627!

Það væri gaman að fá einhvern á borð við Ósk Vilhjálmsdóttur með hægagangshugsun sína til að finna upp á sniðugum sögugöngum um helstu ógnarstaði skagfirskrar sögu. Ganga sem hæfist við Flugumýri til að mynda og endaði á Örlygsstöðum gæti verið ákaflega skemmtileg og forvitnileg ferð þar sem komið yrði við á einum þremur stórum manndrápsstöðum frá Sturlungaöld, Miklabæjar Solveigu yrði kippt inn í röðina, Skúla Magnússyni og Akramönnum öðrum, Bólu-Hjálmari, Djúpdælingum og öðrum slíkum og svo fengi maður í leiðinni að kynnast smá sporði úr Tröllskeggnum fjöllum.

En enn bíð ég eftir fleiri ferðabókum þetta sumarið. Hornstrandir Páls Ásgeirs virðist enn sem fyrr eina eiginlega bókin í þeim flokki sem enn er út komin. Talandi um Hornstrandir. HDSC00387ér er hetjumynd sem Maggi vinur tók af mér undir Hrolleifsbungu í Drangajökli í júlílok í fyrra. Við vorum þarna á leið niður af jöklinum eftir að hafa farið yfir hann frá Kaldalóni og erum á leið í sund í Reykjafirði. Jökulruðningarnir sem urðu eftir þegar jökullinn í Reykjafirði hopaði alla 20. öld settu hins vegar strik í reikninginn. Reyndar skríður nú jökullinn þarna fram og er svakalega sprunginn. Við fórum upp á Hljóðabungu, horfðum ofan í sprungurnar og hrylltum okkur.


Erindi bókmenntanna

Kristín Ástgeirsdóttir skrifaði hér á Moggabloggi í gær frábæra færslu um erindi bókmenntanna og þeirrar staðreyndar að æ sjaldnar er vitnað til samtímabókmennta og æ brotakenndar til sígildra bókmennta í samfélagsumræðunni. Það er einfaldlega eins og helstu viðmið okkar menningar og viðmið tungumálsins séu flestum horfin. Hún vitanaði til Toril Moi, þeirrar miklu fræðikonu, sem hafði tekið eftir því að bókmenntir skiptu ekki lengur máli í kvennabaráttunni og til þeirra væri ekki lengur vitnað. Þetta væri annað en á áttunda áratugnum þegar konur notuðu texta til að sjá sig og sjálfsmyndir sínar í gagnrýnu ljósi og virkjuðu bókmenntir í pólitískum tilgangi.

Enginn sem fylgist með bókmenntum samtímans og umræðum í samfélaginu getur horft fram hjá því að fáir nota bókmenntir sem lykilinn að raunverulegum álitaefnum samtímans. Það er vitnað í bloggskrifara, kannski í einn eða tvo fræðimenn eða pistlahöfunda, en bókmenntir, og þótt að væri ekki annað en ljóðhefð þjóðarinnar eða Íslendinga sögur, eru ekki það hnitakerfi sem menn staðsetja umræðu dagsins í.

Ég held hins vegar að þetta snúist í raun meira um viðtökur bókmennta og væntingar til þeirra en bókmenntirnar sjálfar. Þversögnin er að meira er keypt af bókum en nokkru sinni fyrr og meir skrifað en nokkru sinni en bókmenntir, líkt og önnur listaverk reyndar líka, skilgreina ekki eða teikna upp veruleika okkar. Hann er svo staðbundinn, svo "punktúell", að hefð og saga hverfa og um leið missum við minnið og missum líka að vissu leyti stoltið, hugmyndina um okkur sjálf sem hluta af sögu og áframhaldi.

Þetta er þróun sem margir hafa verið að skrifa um undanfarna áratugi og hafa túlkað með ýmsum hætti. Sumir hafa orðið að einskonar andlegum gúrúm með því að kokka upp líkön og lýsingar á þessu tímaleysi og hröðun, góðkunningjar Lesbókarinnar á við Paul Virilo og Baudrillard. En nýverið var mjög vel fjallað um þetta hjá Einar Má Jónssyni í Bréfi hans til Maríu, þeirri frábæru bók, þar sem hann hefur eðlilegar húmanískar áhyggjur af hvarfi þeirrar grundvallarmenningar sem borið hefur uppi vestræna hugsun og vestræna sögu í nokkur árþúsund. Nútímafjölmiðlun er einskonar barbarismi, einskonar gotainnrás í Rómaveldi andans, og hroðinn, allt frá klámi til ofbeldisleikja, frægafólksslúðurs og almennrar dellu, sest í tannhjól menningarinar eins og jökulleir uns allt höktir. Ný viðmið í menntun og markaðsvæðing menntunar sem hafnar tveggja alda gömlu háskólamódeli Humbolts þar sem þekkingaröflun var hafin til vegs og virðingar sem merkileg starfsemi í sjálfu sér koma svo til skjalanna af fullum þunga. Menntun er einskonar iðnaður í nútímanum sem hefur beina praktíska skírskotun. Húmanísk rannsókn á textum og menningarbrotum "bara af því að" verður nú hlutskipti nokkurra sérvitringa, ríkra furðumenna og skringilýðs. Í þessu andlega tómarúmi verða pistlahöfundar og sérfræðingar "í málefnum þessa og hins" að helstu parametrum andlega lífsins. 

En ef við skrifuðum upp samtímasögu okkar út frá túlkun á listaverkum þá væri niðurstaðan áreiðanlega mjög athyglisverð. Gleymum því ekki að mikið af því sem við þykjumst vita um heiminn er upphaflega túlkun á textum, mjög oft bókmenntatextum.  


Bloggfærslur 26. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband