Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Bækur vikunnar

Bækur vikunnar eru án efa tvö eðlisólík rit sem óvænt voru spyrt saman á vefsíðunni Múrinn: Stelpan frá Stokkseyri - Saga Margrétar Frímannsdóttur eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur (Hólar 2006) og Myndin af pabba - Saga Thelmu eftir Gerði Kristnýju (Vaka-Helgafell/Edda 2005).

Undarlegt samband þessara bóka fór raunar leynt þangað til að Björn Ingi Hrafnsson, höfundur bókanna Barist fyrir frelsinu (Vaka-Helgafell/Edda 2002) og Fram í sviðsljósið - Endurminningar Halldórs G. Björnssonar (Mál og menning/Edda 2001), dró það fram í sviðsljósið og benti á hve skrítið það væri að heimfæra æviminningar stjórnmálamanns upp á frásögn konu sem alla sína bernsku þoldi kerfisbundna kynferðislega misnotkun og raunar einnig vændissölu af hálfu föður síns.

Þetta er pólitískt mál að sjálfsögðu. Það var hjólað í Múrverjana á flokkspólitískum forsendum og þannig spinnst umræðan áfram. Málið er þó líklegast fyrst og fremst kynjapólítískt, og umræðuhefð okkar virðist vanbúin til að takast á við slíkt.  Annars vegar er eins og fólk sé ekki í stakk búið til að átta sig á að frásögn Thelmu af lífshlaupi sínu og systra sinna er saga af valdmisbeitingu og blindu umhverfisins á hefðargildi þess valds, vanburði þess til að draga vald fjölskylduföðursins í efa. Hins vegar er frásögn Margrétar af klassískum kynjaátökum með sínum illhöndlanlegu eineltisstrúktúrum, mismunandi átakamenningu og erfiðleikum við að umkringja og einangra deiluefni eftir hvar í kyni er staðið afgreidd sem væl eða þá glaðhlakkalega sem réttlátur dómur yfir óvininum. Pólitíkin utan flokksmyndarinnar hverfur.

Ég hef áður viðrað það hér á síðunni að bækur séu firnasterkur fjölmiðill sem brjóti mót hefðbundinnar framsetningar á umfjöllunarefnum dægurmiðla. Bók þar sem reifuð væri stjórnmálasaga síðustu áratuga sem barátta um fjölskyldugerðir, kynjavald og sjálsákvörðunarrétt einstaklingsins andspænis hefðum og fordómum: Er ekki kominn tími á þannig rit?


Arnaldur með tvær á þýska árslistanum

Þýska bókabransablaðið buchreport er frábærlega duglegt í að búa til lista yfir öll svið þýskrar bókaútgáfu. Listinn sem Der Spiegel birtir um bóksölu, eða öllu heldur listarnir - því að erlendum sið er sala almennra rita og skáldverka aldrei borin saman - er unninn af buchreport og sérstakur kiljulisti sem birtur er í sjónvarsdagskrárblaðinu Gong er einnig unnin af buchreport. Um hver árámót tekur buchreport svo saman ítarlega árslista þar sem 100 mest seldu bækur í öllum fjórum flokkum skáldverka og almennra rita jafnt innbundinna sem í kilju er birtur auk þess sem sérstakur forlagslisti er unninn sem sýnir hvaða forlög áttu flesta titla á topp 100 yfir mest seldu skáldverk.

Það er mjög forvitnilegt að skoða þessa lista og spá í hver þróunin er á þessum langstærsta útflutningsmarkaði íslenskra bókmennta, og raunar öðrum stærsta bókamarkaði heims og stærsta þýðingarmarkaði veraldar. Í skýrslu sem stofnun í fjolmiðlafræðum við háskólann í Erlangen tók saman fyrir nokkrum árum um þróun topp 100 listans í Þýskalandi frá 7. áratugnum til upphafs 21. aldar komu fram mjög athyglisverðar niðurstöður. Þar sást glögglega hve stór hluti listans eru þýðingar, um 60-70% þegar allra mest er á tíunda áratug síðustu aldar. Að sjálfsögðu var mest þýtt úr ensku en það sem var einkum athyglisvert fyrir okkur var hlutdeild norrænna bókmennta eftir miðjan tíunda áratuginn. Næst á eftir enska málsvæðinu var norræna málsvæðið stærst, með um tvo tugi titla á topp 100 þegar mest var. Norrænar bækur náðu raunar yfirhöndinni yfir bækur frá spænskumælandi löndum sem höfðu verið stærsti flokkurin á hæla enskunni á níunda áratugnum þegar suðuramerískir höfundar voru þýddir á þýsku í gríð og erg.

Eins og Halldór Guðmundsson benti á í nýlegri grein í Nordisk literatur og raunar einnig í pistli í Fréttablaðinu má að stórum hluta þakka útflutningsárangur íslenskra bókmennta á síðustu árum þessari þróun. Nú eru hins vegar blikur á lofti, hlutdeild norrænna bóka minnkar nokkuð frá því sem áður hefur verið og það sem er líka athyglisvert er að þýskir höfundar láta nú æ meira að sér kveða og ná meiri árangri, sem er grundvallarbreyting frá því sem var fyrir um áratug síðan þegar þýskar bókmenntir virtust vera í útrýmingarhættu.

Mest selda skáldsaga síðasta árs á þýska málsvæðinu var Die Vermessung der Welt eftir Daniel Kehlmann, sem raunar kom út haustið 2005, en situr sem fastast í toppsæti listans og er raunar mest selda bókin í Þýskalandi í augnablikinu. Bjartur á víst réttinn á henni og gæti vel hugsast að hún yrði neon-bók nú í sumar. Þetta er nokkuð klassísk "þekkingarskáldsaga" af evrópsku gerðinni, söguleg skáldsaga um vísindalega og menningarlega þekkingu og tilurð hennar með hefðbundnum "hvað ef?" snúningi og fjallar um æviskeið tveggja mikilmenna Alexanders von Humbolts og Carl Friedrich Gauss sem voru upp á sitt besta á fyrri hluta 19. aldar.

Magnaðasta forlag þýska málsvæðisins er hið svissneska Diogenes forlag í Zürich sem eftir að hafa hvílt sig aðeins árið 2005 kemur nú sterkt inn og á 8 titla á topp 100 yfir mest seldu skáldverkin og þar munar um að gamli góði bestsellerinn Ilmurinn eftir Süskind seldist aftur í kjölfar bíómyndarinnar sem frumsýnd verður hér í byrjun febrúar (mér var sagt hjá forlaginu að það hefðu selst 30.000 eintök á viku) sem og verk Paolo Coehlos og Donnu Leon.

Arnaldur okkar Indriðason er eina íslenska nafnið á þessum listum, og þarf kannski ekki að koma neinum á óvart. Hann á raunar enga bók á innbundna listanum yfir mest seldu skáldverkin en tvær á kiljulistanum, Engelstimme eða Röddina (44. sæti) og Menschensöhne eða Synir duftsins (62. sæti). Manni finnst þetta næstum sjálfsagt en auðvitað er þetta massaárangur hjá okkar manni. Næst er svo að taka stóra listann!

Sá norræni höfundur sem mestrar hylli nýtur er að sjálfsögðu Mankell. Á innbundna listanum er hann í 15. sæti með bókina um heila Kennedys. Næsti norræni höfundur á þeim lista er síðan Åke Edwardsson í 73. sæti. Næst kemur svo Finninn Ilkka Remes (sem sendi mér eitt sinn eitt furðulegasta kynningarbréf sem ég hef lesið) í 88. sæti og norski spútnikhöfundurinn Per Petterson með sína stolnu klára í 93. sæti. Arne Dahl, dulnefni Svíans Jan Arnalds, lokar svo listanum í 100. sæti. Oft hafa Norðurlandabúarnir verið magnaðri en þetta. Staðan á kiljulistanum er hins vegar betri.

Af 10 mest seldu skáldsögunum í innbundinni mynd er 60% þýtt og 40% þýskt. Bandaríski krimmahöfundurinn Elizabeth George, sem harðir krimmalesendur hér þekkja og hefur ritað mikla seríu um lögreglumann sinn Thomas Lynley, er í 7. sæti. Cecilia Ahern, írska stjórnmáladóttirinn og chick-lit drottningin er í 6. sæti. Donna Leon með sínar Brunetti-sögur frá Feneyjum er í 5. sæti og Frakkinn Francois Lelord er í 4. sæti með þýska þýðingu á enn einni sögunni um stressaða sálfræðinginn Hector, Le Nouveau Voyage d'Hector, ákaflega meginlandsleg skemmtisaga sem ég sæi nú ekki alveg ganga í hérlenda lesendur, fremur en þessi Hectorssería yfirleitt. Síðan er það meistari Dan Brown í 9. og 10. sæti með Engla og djöfla og Da Vinci lykilinn, en Da Vinci lykillinn er raunar mest selda kilja þýska málsvæðisins á árinu 2006 (þ.e. í Þýskalandi, Austurríki og Sviss).

Þjóðverjana á topp 10 þekkir hér ekki nokkur kjaftur en mig langar þó að minnast örfáum orðum á bókina sem er í 3. sæti, Glennkill eftir Leonie Swann. Það er án efa frumlegasti krimmi sem ég hef lesið, bráðfyndin og mögnuð bók sem fjallar um rannsókn írskrar kindahjarðar á morði á sauðamanni sínum. Bókin kom út haustið 2005 og það tók smá tíma fyrir hana að komast í umferð, enda sjálfsagt einn klikkastaði söguþráður sem sögur fara af, en hann gengur upp. Vel skrifuð, meinfyndin og sniðug útfærsla á klassísku efni. Þetta var þriðja mest selda innbundna skáldsaga ársins 2006 á þýska málsvæðinu.

Das war's!


Saga hlutanna

Í dag fengum við gesti og við það tækifæri fórum við eitthvað að tala um húsbúnað, íbúðir og húsgögn eins og oft vill verða nútildags. Sú gjörbylting hefur orðið á háttum okkar að almennt er fólk flinkt í að tala um húsgögn. Því hafði ég aldrei kynnst áður en ég fór til útlanda og hitti fólk sem hrósaði teppum eða skápum eða pennasetti í annarra manna húsum og fannst sjálfsagt að maður áttaði sig sjálfur á slíkum smáatriðum og það sem meira er: kynni að nefna alla hluti. Nú hefur þessi siðmenningarhluti sótt okkur heim. Það er til hugtak á þýsku um þessa þróun: Zivilisationsprozess. Nú heitir stóll ekki lengur stóll og borð ekki lengur borð, heldur bera hlutirnir heiti skapara sinna. Athugulir skoðendur samfélags okkar og lifnaðarhátta hafa stungið niður penna og lýst stuttlega þessari breytingu, ég nefni til að mynda frumraun Eiríks Guðmundssonar 39 þrep á leið til glötunar (bls. 92), þar sem segir:

Annar hver Íslendingur virðist standa í því að gera upp íbúð eða hús. Þegar tveir menn tóku tal saman undir húsvegg um það leyti sem ég gekk af göflunum var ekki lengur rætt um verðbréf eða fjárfestingarmöguleika, eins og gert hafði verið fáeinum misserum fyrr. Þess í stað töluðu menn fjálglega um gljástig og dúkkuhús í Skerjafirðinum, fljótandi parkett og notuðu allskyns orð sem þeir höfðu lært af Friðriki Weisshappel í sjónvarpinu.

Þessar línur voru skrifaðar árið 2004; og það sést. Frikki Weiss hefur ekki lengur neitt að segja um húsbúnað á Íslandi, hann er kominn í annað stjarnkerfi. Þannig æðir sagan áfram og okkur finnst umræða, þráhyggjur og þekktir einstaklingar sem efst voru á baugi fyrir aðeins rétt rúmum tveimur árum tilheyra furðulegri og grárri fortíð. Gummi Steingríms velti þessu fyrir sér í pistli sínum í Fréttablaðinu nú um helgina og dró að sjálfsögðu af þessu pólitíska ályktun, enda í framboði, en það sem þetta segir okkur í raun og veru, er að þótt langbylgjur sögunnar séu ekkert að kippa sér upp við þessa skammtímagleymsku og sendi áfram út á sinni tíðni, finnst okkur sem lendum í öldusveiflunum að við missum stöðugt takið á sögu okkar sjálfra. Við sem ræddum húsbúnaðinn reyndum að muna eftir hvort til væri lífstílsbiblía, húsbúnaðarsaga eða myndskreytt saga hlutanna sem okkur voru kærir, en gripum í tómt.

Hugarfars- og hversdagssagan sem reið hér húsum fyrir tveimur áratugum eða svo og var fyrir einhverju síðan allsráðandi í lokaverkefnum sagnfræðinema virðist ekki hafa skolað slíkum ritum á land. Það fer hins vegar ekki framhjá neinum sem fylgist með útgefnum bókum um allan hinn stóra heim að þessi rit koma þar út í löngum bunum. Bækur sem gætu heitið Saltstaukurinn og púrran: Líffræðibyltingin og útþensla verslunarflota N-Evrópu eða Kaffibaunin og heimsvaldastefnan eða þá Í annarra skóm - heimsviðskipti með iðnaðarvörur á 19. öld eða eitthvað þvíumlíkt. Okkar eigin hlutir eru hins vegar mállausir. Í staðinn fáum við sögur af pólitík kaldastríðsins (ekki að ég sé að sýta það svo sem) eða enn eina ævisögu kalls sem uppi var um aldamótin 1900. Saga hlutanna, sem er kannski eina sagan sem við hlutgervingarsinnar getum kallað okkar, er óskrifuð með öllu og við glutrum henni niður jafnóðum því við gleymum svo hratt og lærum svo mikið. Árið 2002 eða jafnvel árið 2004 kunnum við ekki öll þess orð yfir stóla og borð, glös og lampa. Já, var það ekki árið 2001 að við gátum borðað á Rex sem var hannaður af Conran og farið á skemmtistað hannaðan af Michael Young (hvað sem sá staður hét nú). Hvað varð um þær innréttingar? Þeim var bara hent. Bók sem sýnir veitingahús og bari árið 2001 væri hreinlega að sýna forna atvinnuhætti, horfna dýrð!

Og þar sem við sýttum þetta hvarf mundi ég eftir svolitlu. Eftir krókaleiðum áskotnuðust mér nefnilega nokkrar bækur úr dánarbúi frænda míns á Króknum fyrir stuttu. Ein þeirra er svolítið fágæti. Þessi frændi minn var sérvitur en sniðugur kall, húsasmiður sem kom undir mig fótunum sem frímerkjasafnara og bókbindara hér á bernskuárum og hafði á sínum tíma af einskærum áhuga orðið sér út um bókina Íslenzk íbúðarhús sem AB sendi frá sér árið 1959. Nokkur lífstílsblöð hafa gert þessum helsta vitnisburði módernískra lifnaðarhátta upp úr miðri 20. öld góð skil, þannig að það má vera að lesendur kannist við gripinn. En hinum skal sagt að þetta er einskonar Innlit/Útlit síns tíma, bók sem sýnir innréttingar og útlit valinna húsa í Reykjavík og nágrenni og tjá anda nútímalegra lifnaðarhátta. Þetta er sannkölluð lífstílsbiblía borgaralegs módernisma, innblástursuppspretta fyrir alla sem vilja vitna til stíls þessara ára. Það má þakka fyrir hana.

Þegar gestirnir voru farnir hélt ég áfram að blaða og fann bók sem ég keypti í Svíþjóð einhvern tíma og er skemmtileg saga af hlutum: Þetta er saga af vörumerkjum sem fóru í hundana, þrátt fyrir að hafa verið vinsæl um tíma: Betamax, töfrateningurinn ... Einstaklega líflega skrifuð bók þar sem iðnframleiðsla og spenna renna saman í eitt. Flip eller flopp? Om misslyckandets dynamik heitir hún og er eftir Lars Strannegård. Fremst í henni er tilvitunun í Bruno Latour:

NOTHING SUCCEEDS LIKE FAILURE.

 


Tvítugt tossabandalag

Í Lesbók Morgunblaðsins í dag má sjá nokkuð kynduga umræðu spinnast sem gaman væri að vita hvernig blasir við þeim sem hefja nám í hugvísindum við HÍ þessi misserin og fæddir eru á árunum 1985-1988. Þetta fólk getur af eðilegum orsökum ekki rekið minni til þess hvað efst var á baugi í bókmenntaumræðunni um það leyti sem það útskrifaðist af fæðingardeildinni, en er þó líklegast nauðbeygt til að setja sig inn í þá fremur skrítnu flokkadrætti sem hin annars líflega bókmenntaumræða níunda áratugar 20. aldar einkenndist af til að geta haldið parlúr við prófessorana sína.

Þannig breður svo við að Ástráður Eysteinsson, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, og raunar óefað einn áhrifamesti fræðimaður hérlendis í bókmenntafræði síðustu tvo áratugina, telur sig knúinn til að svara ummælum Einars Más Guðmundssonar í viðtali sem birtist við Einar í Fréttablaðinu á Þorláksmessu. Ritstjóri Lesbókar fær prik fyrir að birta stutt brot úr ritdómi Ástráðs í Skírni árið 1987, einfaldlega fyrir þær sakir að ég velti fyrir mér þegar ég byrjaði að lesa grein Ástráðs: Um hvað fjallaði þetta nú alltsaman aftur?

Þetta er vægast sagt undarleg umræða. "Svar" Ástráðs er til að mynda svo sem ekkert svar, enda engu að svara nema því, sem sérhver sem hefur áhuga á bókmenntalífinu og bókaútgáfu getur sagt sér: að Ástráður hefur með þessari einu undantekningu ekkert sinnt höfundarverki Einar Más sérstaklega. Ummæli Einars eru síðan óneitanlega nokkuð óvægin í ljósi þeirrar velgengni og virðingar sem hann nýtur, en það sér hver maður að hin þreytandi klisjuumræða um Vogana er náttúrlega engum manni samboðin og honum hlýtur að leyfast að benda á rispurnar í þeirri plötu.

Mér finnst hins vegar ágætt framtak að rifja upp þessa umfjöllun í Skírni á sínum tíma, því svo ég taki dæmi af sjálfum mér, sem er eðliegt á þessum vettvangi, þá vakti þessi grein hjá mér, þá nýskriðnum út úr menntaskóla, fræðilegan áhuga á verkum Einars Más og það algerlega óháð því hvort mér finndist dómurinn vera neikvæður eður ei. Skáldsögur Einars, Reykjavíkurþríleikurinn sem nú er svo nefndur, höfðu gríðarleg áhrif á mig eins og flesta þá á mínu reki sem á annað borð lásu bækur. Riddarar hringstigans töluðu til að mynda beint við unglingsvitundina og Vængjasláttur í þakrennum var sú goðsögumynd af bernskunni sem maður þurfti til að sætta sig við leiðindi áttunda áratugarins, sem voru ægileg. Þannig séð voru þessar bækur einskonar jákvæð sjálfsmyndaruppbygging sem sýndu manni umhverfið í algerlega nýju ljósi og Einar hafði með ummælum sínum í fjölmiðlum og öðrum skrifum mikil áhrif á bókmenntauppeldi mitt síðar. Ég held að ég hafi ákveðið að lesa Günter Grass sem allra fyrst á frummálinu vegna þess að EMG sagði að hann væri magnaður höfundur, sem kom síðan aldeilis á daginn.

En að endurvekja pólaríseringu níunda áratugarins þar sem "módernistarnir" voru öðrum megin en hinum megin "sagamennirnir", sem þó áttu algerlega samleið í raun og veru en létu persónuleg málefni og einfaldan misskilning trufla sig. Æi, erum við ekki komin aðeins lengra en það?


Gotneska Ísland

Ég held að sá eini sem minnst hefur á greiningu hins sprenglærða og fjölfróða doktors og magisters Guðna Elíssonar á gotneskri heimssýn DV og fleiri íslenskra fjölmiðla í Skírni hafi verið Þröstur Helgason, sem minnti á hana í neðanmálspistli sínum í Lesbók Mbl. um daginn.

Það er hins vegar full ástæða til að mæla með þessari grein eða öllu heldur greinum þar sem Guðna nægði ekki eitt hefti Skírnis til umfjöllunar sinnar, heldur er bæði vor- og hausthefti þessa elsta tímarits á Norðurlöndum lagt undir þessa viðamiklu úttekt á heimssýn íslensku afhjúpunarpressunnar.

Það er líklegast merki um fremur barnalega trú fjölmiðlafólks á „sannleikanum“ að framsetningarháttur fréttaefnis er nánast aldrei til umræðu. Grein Guðna er ekki hvað síst merkileg fyrir þær sakir að þar í fyrsta sinn svo ég viti til reynt í alvöru að takast á við vandann sem hlýst af mismunandi framsetningu á fréttum eftir því hvaða frásagnarmáti er valinn. Hin hefðbundna borgaralega gagnrýni á þessar áherslur í gagnrýni og greiningu er ákaflega upptekin af því að veruleikinn sé alltaf veruleiki og gáir lítt að búningi þess veruleika. Það blasir hins vegar ákaflega vel við að form framsetningar á „veruleikanum“ er meiriháttar mál í upplýsingasamfélaginu þegar tímabil DV undir ritstjórn Mikaels Torfasonar, Illuga Jökulssonar og Jónasar Kristjánssonar er skoðað. Áherslur DV á að fletta ofan af hinum hulda veruleika svo „sannleikurinn“ komi í ljós er frásagnafræðilegt mál sem snýst að síðustu um framsetningu á ákveðinni heimsmynd. Að mati Guðna er þessi heimsmynd „gotnesk“, í merkingu enska orðsins „gothic“ og þeirrar bókmenntahefðnar sem verður til í andstöðu við upplýsinguna á seinni hluta 18. aldar. Hann vísar einkum til bresku hefðarinnar, en þeir sem þekkja til þýskra og franskra texta frá þessum tíma kannast við sauðahúsið. Staðalmyndir okkar um veruleika góðs og ills, um útlit illmenna, innræti þeirra og síðan sykurhúðun hins góða (þar varð hin sentimentalíska stefna 18. aldar mikilvægur brunnur, þar sem dyggðir, mannkostir og gjörvileiki fara saman í órofa samhengi) eiga sér máttugan uppruna í þessu fjöldaframleidda afþreyingarefni sem allt til þessa dags hefur mótað ástarsögur, sakamálasögur og hryllingssögur, sama í hvaða formi þær birtast.

En það er líka nærtækt að nota þessa greiningu til þess að fara að skoða betur innflutning glæpasögunnar í íslenskan veruleika. Ég var að þrífa tölvuna mína um daginn og rakst þá á gamlan pistil sem ég skrifaði fyrir útvarpið árið 1998 og fjallaði um hræðsluvakningu þess tíma gagnvart ofbeldi og glæpum. Á þeim tíma hamaðist t.d. Morgunblaðið á því að fólki væri ekki óhætt á göngu um miðbæinn sökum ofbeldisverka, rána og glæpa og sérstaklega var á þeim tíma horft til unglinga. Taka átti upp „no-tolerance“ stefnu að bandarískum hætti og var þáverandi lögreglustjóri, Georg Lárusson, fremstur í flokki andstæðinga umburðarlyndisins. Fengnir voru hingað bandarískir sérfræðingar sem fóru hörðum orðum um ástandið, læsa átti t.d. alla graffara inni, og sæist vín á manni í miðbænum átti að taka hann umsvifalaust úr umferð. Það merkilega var, fannst mér þá, var að á sama tíma sýndu skýrslur að glæpum fór fækkandi. Glæpaaldan var ekki „veruleiki“, heldur framsetning á veruleika. Hún var frásögn um veruleika sem var ekki til nema sem frásögn.

Það er þessi afstaða fjölmiðla og raunar líka rithöfunda gagnvart veruleikanum og lífi borgaranna sem alltaf þarf að skoða. Í ár, 2007, á íslenska glæpasagan í sinni núverandi sigurmynd 10 ára afmæli. Af hverju trúum við nú á þetta form sem fyrir aðeins 15 árum síðan var talið að gæti ekki fangað veruleikann? Íslenska glæpasagan var svo fáránleg að það var ekki talið hægt að skrifa hana. Í landi þar sem eitt til tvö morð voru framin á ári hverju, svona litlu og kósí landi, var ekki ástæða til að skrifa glæpasögu. Nú, árið 2007, trúa því allir að mafíur, dópsalar, handrukkararar og vopnaðar glæpaklíkur vaði uppi og að lögreglan standi bjargarlaus andspænis ofbeldinu. Ef heimsmynd bóka þessara jóla, bóka á borð við Skipið eftir Stefán Mána, er skoðuð, er ljóst að í bókmenntunum er beinlínis verið að fjalla um þjóðfélag handan laganna. Þar sem engir fulltrúar almannavaldsins geta lengur haldið uppi lögum og reglu og þar sem ekkert samþykki er fyrir hendi um að lögin gildi fyrir alla borgara. Í staðinn ráða ofbeldismenn sem keyra sig áfram með siðleysi og líkamlegum styrk. Ef slík bók selst í 10.000 eintökum þá merkir það eitthvað. Slíkur höfundur skynjar umhverfi sitt sem lögleysu og það er valdatóm sem hann skrifar inn í og þessi tónn á samhljóm í samfélaginu.

Þetta er að mínu viti ákaflega athyglisvert og er í beinu samhengi við gotnesku heimssýnina. Við skynjum samfélagið sem frásögn af lögleysu, þar sem við stjórnvölinn er annað hvort fólk sem ekki megnar að halda aftur af henni, eða fólk sem er samsekt glæpamönnunum. Glæpir og refsing eru stóru þemu dagsins í dag. Ég hef áður skrifað hér um Óvini ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson sem er tilraun til að nálgast þetta viðfangsefni í sögulegu ljósi en vek hér athygli á annarri nýlegri bók sem verður að lesast sem hugmyndalegt skýringarrit með fjölmiðlum og glæpasögum. Þetta er bókin Brotaþolar, lögreglan og öryggi borgaranna eftir Rannveigu Þórisdóttur, Helga Gunnlaugsson og Vilborgu Magnúsdóttur og kom út hjá Háskólaútgáfunni. Þar kemur fram að helmingur svarenda í mikilli öryggisvitundarkönnun segist hafa orðið fyrir afbroti á síðustu fimm árum. Aðeins 57% tilvikanna voru tilkynnt til lögreglu. Af hverju? Það tók því ekki, „lögreglan gerir hvort eð er aldrei neitt“. Í slíku samfélagi safnar maður fóki saman í vopnað gengi og hefnir sín. Lögin mega sín einskis. Líkt og í íslenskum þriller! Sem er nóta bene ekki veruleikinn, heldur frásögn af honum.


Nýjustu vendingar

Áfram heldur sagan um þá undarlegu bók If I Did It eftir O.J. Simpson og hans draugahöfunda. Hér á síðunni var fyrir jólin fjallað um hvernig bókin gerði allt vitlaust í Murdochveldinu og leiddi af sér brottrekstur Judith Regan sem Robert Murdoch lét taka pokann sinn eftir að hún hafði hraunað yfir stallkonu sína hjá HarperCollins, Jane Friedmann, sem og aðra gyðingættaða starfsmenn forlagsins og umboðsmenn því tengda, og sagt að þau hefðu blásið til samsæris gegn sér. Murdoch kvað þá endanlega upp úr um að bókin kæmi ekki út hjá sínum fyrirtækjum og héldu menn að þar með væri málið dautt. Nú berast hins vegar þau tíðindi að rétturinn á bókinni falli höfundinum, Simpson sjálfum, aftur í skaut í lok nóvember næstkomandi þar sem forlagið muni ekki uppfylla skyldur sínar og gefa bókina út 30. nóvember 2007 eins og fyrirséð var. Það þýðir að hver sem er annar getur gert það.

Að sögn TIME eru nú evrópskir og japanskir útgefendur óðir og uppvægir að þýða bókina og gefa hana út um leið og hægt er, aðallega vegna þess hve mikla umfjöllun hún hefur fengið vegna Regan-málsins. Um leið eru menn vestanhafs á því að bókin komi út þar í landi en hins vegar er allt í uppnámi vegna þess að ættingjar Ron Goldmanns, hins myrta kokkáls, og Nicole Brown Simpson, eiginkonunnar sálugu, eru að fara í málaferli við O.J. og heimta allar tekjur af bókinni og raunar útgáfuréttinn á henni líka.

Hvað Judith Regan varðar eru menn almennt á því að hún eigi eftir að rísa á ný. Það er líka almennt talið að bókin hafi verið ofplögguð í upphafi, hefði hún komið hávaðalaust út hefði enginn sagt neitt. En saga þessa útgefanda sem fór í útgáfu eftir að hafa verið blaðamaður hjá National Enquier og velt sér upp úr skandölum og uppákomum fræga fólksins er að sönnu furðuleg og raunar einstök í hinu annars fremur dannaða umhverfi bókaútgáfunnar.

 


Að velja sér bók

Á skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda eru geymdar ýmsar minjar úr langri sögu félagsins, sem hét raunar Bóksalafélag Íslands frá stofnun þess 1889 til ársins 1975. Afar fræðandi er að skoða þær skrár sem félagið stóð að og ætlað var að kynna landsmönnum útgáfuverk hvers árs og þær bækur sem til voru á markaði.

Árum, raunar áratugum saman, kom út bæklingur sem einfaldlega hét Bókaskrá Bóksalafélags Íslands og sá einn maður, Stefán Stefánsson, um að taka hann saman í rúma þrjá áratugi eða frá 1937 til 1974. Útlit þessarar skrár var orðið afar fornfálegt þegar komið er fram á áttunda áratuginn og auglýsingagildi hennar nánast ekkert, en hún er ítarleg og það er nánast opinberun að sjá hvernig útgefendur á fyrri hluta 20. aldar og fram á sjöunda áratuginn hugsuðu starf sitt. Það sem einkum stingur í augu er hve mikill hluti bókaútgáfu hérlendis snerist lengi vel um að ljúka upp þeim handritastöbbum sem forfeður okkar aldirnar á undan höfðu látið eftir sig og rifja upp afrek genginna kynslóða.

Þær breytingar sem verða á skránni árið 1974 eru nokkuð mótsagnakenndar. Annars vegar stækkar brotið, verður nánast að tímaritabroti og auglýsingar birtast nú frá útgefendum, bóksölum og prenturum í meira mæli en áður, þar á meðal á útsíðum. Hins vegar er skráin enn formbundnari og skráningarlegri en fyrr, enda sá þjóðdeild Landsbókasafnins um hana og vann hana í samfloti við Árbók sína, sem tölvuskráningar í Gegni hafa nú útrýmt þannig að engin árleg miðlæg bókaskrá virðist lengur vera til.

Þessi háttur er hafður á til ársins 1983 að menn gefast endanlega upp á þessari formbindingu, afhenda bókasöfnum það kefli en einbeita sér í staðinn að kaupmennskunni. Morgunblaðið vann í félagi við bókaútgefendur fyrstu eiginlegu Bókatíðindin í þeim stíl sem við nú þekkjum og þau voru fylgiblað Moggans. Þau voru að sönnu í svarthvítu, en nú mátti sjá bókakápur birtast hjá titlunum í fyrsta sinn, auk þess sem skráin gengdi fremur upplýsingahlutverki fyrir neytendur en skráningarhlutverki fyrir bóksala og bókagrúskara.

Samstarfinu við Moggann var haldið áfram næstu árin en árið 1986 er síðan stigið skrefið til fulls og Bókatíðindi gefin út í glansblaðaformi í lit og dreift sjálfstætt. Við minntust þessara tímamóta eilítið nú fyrir jólin og litum svo á að hin eiginlegu Bóktíðindi samtímans stæðu nú á tvítugu. Árið 1991 breyttist svo formatið í það horf sem það hefur verið í síðan.

Til hliðar við Bókaskrána gömlu var á 6. áratug 20. aldar gefin út skrá sem ætluð var fremur til auglýsingar bóka en til skráningar og sá fyrrgreindur Stefán Stefánsson um útgáfu hennar. Þessir bæklingar eru með litprentuðum kápum, afar fallegum, og bera tíðaranda áranna milli 50 og 60 skemmtilegt vitni. Í þeim er mikið af auglýsingum, stutt formálsorð um bækur og bókaútgáfu eftir ýmsa menn, t.d. Snorra Hjartarson og Dr. Björn Sigfússon, og síðan er stutt innihaldslýsing við hvern titil eins og við þekkjum úr Bókatíðindum samtímans. Árið 1956, fyrir hálfri öld síðan, auglýsir til að mynda Setberg aftan á bæklingnum með fallegri litmynd af „blómarós“ bókina Kvenleg fegurð sem þá er til sölu á jólamarkaði. Bókin er gerð lokkandi fyrir væntanlega lesendur með eftirfarandi umsögn:

„Hér er fjallað um fegrun, snyrtingu og líkamsrækt kvenna, óæskilega fitumyndun og hvernig á að megra sig, vandamál konunnar á breytingarárunum, lækning á hörundsgöllum, hárið, fæturna, hendurnar, ilmvötn, skartgripi og margt fleira. Í bókinni má finna töflur um þyngd og mál og hitaeiningaþörf kvenna. Til skýringar efninu eru um 300 teikningar og litmyndir. Ennfremur eru myndir af fegurðardrottningum Íslands. Ritstjórn bókarinnar hefur annast frú Ásta Johnsen fegrunarsérfræðingur.“

Þessi tegund bóka er annars undantekning í útgáfulandslagi ársins 1956. Þýðingar gegna stóru hlutverki, barnabókaútgáfa er lífleg og svo er það „úrvinnsla hefðarinnar“ – ýmislegt gott úr handritastabbanum, og ýmis frumsamin verk eftir höfunda á borð við Guðrúnu frá Lundi, Geir Kristjánsson, Halldór Stefánsson, Dagbjörtu Dagsdóttur og Arnrúnu frá Felli. Það er líka athyglisvert að sjá hvernig nokkrar hugmyndir og höfundar eru enn í fullu fjöri nú hálfri öld síðar: Öldin sem leið II kemur út þetta ár, en sá bálkur hefur verið í smíðum allt frá á þennan dag, það eru ekki nema tvö ár síðan Óskar Guðmundsson lauk við að segja sögu aldanna aftur til landnáms á vegum Iðunnar/Eddu útgáfu, auk þess sem JPV er í raun að endurgera þessa hugmynd með Ísland í aldanna rás. Það er því skemmtileg tilviljun að fimmtíu árum eftir að Valdimar í Iðunni lýkur við útgáfu á annál 19. aldar gefa sonur hans og sonarsonur út heildarannál sömu aldar. Og svo er stjarna jóladagskrár RÚV árið 2006, Sigurbjörn Einarsson, með bók á jólamarkaði 1956, Meðan þín náð, sem Fróði gefur út. Þeir auglýsa bókina með þessum orðum:

„Vissara er fyrir þá, sem vilja eignazt ræður þessa vinsæla kennimanns, að tryggja sér eintak sem fyrst. Bókin verður prentuð í litlu upplagi. Kemur út fyrir jól.“


Eru bækur of ódýrar?

Nú er árið 2007 runnið upp og ég óska öllum gleðilegs nýs bókaárs. Það er svo sem engin spádómshefð að leggja merkingu í hvaða bók gluggað er fyrsta á árinu, en heiðurinn hlotnaðist að þessu sinni útgáfu Tómasar Guðmundssonar á kvæðum Stefáns frá Hvítadal sem Helgafell sendi frá sér 1945 og geymir nokkrar litmyndir eftir Snorra Arinbjarnar. Ástæðan var einfaldlega sú að ég rak augun í hana í hillunni og mundi ekki eftir að hún hefði verið hér til. Ég komst nú ekki mikið lengra en að lesa formálann áður en ég fór í mína vanalegu nýársgöngu upp á nálægt fjall, að þessu sinni Vífilsfell (engin fótspor uppi á toppi nema eftir hrafna og raunar engan að sjá í Jósefsdal og við Bolaöldu nema einn rólyndislegan mótorkrossara sem ók einn hring um dalinn í hægðum sínum og stillti sig algerlega um að djöflast utanvegar). Tómas nær ekki að lýsa nógu skýrt af hverju Stefán frá Hvítadal hreif svo ungu kynslóðina upp úr fyrra stríði, um það er Íslenskur aðall stóra heimildin. Hins vegar má hann eiga að hann gerir atlögu að virkinu og bendir á merkilegt smáatriði. Þegar hann skrifar formálann eru ekki nema rétt 30 ár liðin frá því fyrri heimsstyrjöld braust út og mannkynssagan kramdi þá rómantískru sveimhyglisskurn sem hjúpaði lítil skáldaegg þessa tíma. Eins og sjá má af sjálfsævisögum skólabróður hans, Halldórs Laxness, var þetta hreiðurrask viðkvæmum mönnum nokkuð áfall og Tómas veltir atburðum fyrir sér af engu minni gerhygli en Halldór. Ég bíð þess svo spenntur að kynna mér í vikunnu það sem mér virðist nýjasta tilraunin til að átta sig á höggbylgjum fyrra stríðs: Skáldalíf eftir Halldór Guðmundsson.

En téður Halldór, minn gamli góði samstarfsfélagi, ritar jafnan pistil um bækur í Fréttablaðinu á sunnudögum og hann bar að þessu sinni upp á gamlársdag sem ljáði erindinu kannski óvart meira vægi en ella. Það er eins og allt sem birtist í blöðunum á gamlársdag hafi einhverja sérstaka merkingu, sé ætlað til að lýsa veginn framundan eða hengja upp lampa í fortíðarkofanum. Halldór velti fyrir sér málefni sem kannski er nokkuð "bransa-intern" og er því kjörinn vettvangur að fjalla um hér þar sem þetta blogg er einvörðungu um "bransann". Ég get nefnilega ekki ímyndað mér að venjulegir neytendur geti sett sig inn í áhyggjur af því að bókaverð sé of lágt á jólamarkaði. Þeir hafi einfaldlega fagnað því og ef til vill nýtt tækifærið og keypt fleiri bækur en þeir hefðu annars gert. Eða hver kvartar yfir því að raftækjaverð eða matarverð sé of lágt? Mér finnst boðskapur Halldórs nokkuð á skjön við þá stefnu sem viðskipti hafa tekið hérlendis á undanförnum árum og raunar þær væntingar sem neytendur hafa almennt til smásölumarkaðarins. Ég endurtek: gæti einhver fulltrúi segjum matvælaiðnaðarins komist upp með að skrifa grein á borð við þá sem Halldór skrifaði um bókaverð? Verðlækkun á lambakjöti er vandamál sem verður að takast á við?

Of lágt bókaverð, of miklir afslættir og sala bóka í stórmörkuðum hafa verið stöðugt deiluefni í bókabransanum allt frá því að stórmarkaðir (Hagkaup) tóku fyrst að selja bækur undir 1980. Á þeim tíma ríkti enn algjört miðstjórnarvald í ríki bóksölunnar. Bókaverð var fast og því mátti ekki breyta. Bækur urðu að vera minnst tveggja ára gamlar áður en selja mátti þær á bókamörkuðum með afslætti og til að fá að selja bækur urðu menn að fá bóksöluleyfi sem veitt var af Félagi íslenskra bókaútgefenda eða Bóksalafélagi Íslands eins og það áður hét (Félag íslenskra bókaútgefenda breytti um nafn árið 1975). Leyfi Hagkaupa var bundið því að þar yrðu seldar bækur allt árið og ekki aðeins um jól og það hefur í stórum dráttum haldist þótt að sönnu sé úrvalið ekki alltaf mikið allan ársins hring. Þessi skipan bóksölunnar var við lýði alls staðar í Vestur-Evrópu á þessum tíma með áhugaverðum undantekningum eins og Svíþjóð og Frakklandi. Fast bókaverð var til að mynda og er heilög kú á þýska málsvæðinu og var það raunar lengi líka í löndum eins og Noregi og Danmörku. Svíar tóku þá ákvörðun að kasta fasta bókaverðinu þegar í upphafi áttunda áratugarins en Frakkar tóku þá ákvörðun árið 1981 að taka það upp aftur með svokölluðum Lang-lögum sem Íslandsvinurinn og kampavínssósíalistinn Jaques Lang setti til höfuðs FNAC verslanakeðjunni. Þar þóttust menn sjá að kominn væri útsendari heimskapítalismans og honum ætlað að útrýma franskri bókmenningu með því að bjóða bækur til sölu með afslætti.

Þetta regluverk er nú allt horfið eins og allir vita. Ekkert fast bókaverð er til, enginn krunkar sig saman um verð á bókum, hvorki á heildsölustigi né smásölustigi, enginn þarf leyfi til að selja bækur og samkvæmt samkeppnislögum er heildsölum í raun meinað að neita smásölum um að afgreiða til þeirra vöru æski þeir þess nema til komi lögmætar eða eðlilegar ástæður. Nú reyna útgefendur eins og þeir geta að opna fleiri kanala til að koma vörum sínum á framfæri, líkt og raunin hefur orðið í flestum löndum hins markaðsvædda heims. Bækur eru á bensínstöðvum, í ferðamannaverslunum, blómabúðum, heilsubúðum, barnavöruverslunum og gjafavöruverslunum, já meira að segja í Bílanaust sér maður bækur. Verðlagning þessara bóka er byggð á afkomuvæntingum smásalans því útgefendur skipta sér í raun ekkert af henni nema með afsláttarstýringu. Útgefendur hafa hins vegar talið það vera til mikilla bóta fyrir neytandann að mynda sér tilfinningu fyrir hver verðþróunin er miðað við grundvallarverð sem útgefendur eru í raun alltaf nauðbeygðir til að sjá fyrir sér vegna höfundarsamninga og til að geta sjálfir verðlagt vöruna í beinni sölu frá forlaginu. Því gefa nær allir útgefendur upp "leiðbeinandi útsöluverð", en í raun er eini vettvangurinn fyrir auglýsingu þess Bókatíðindi. Útgefendur auglýsa ekki þessi verð sjálfir, þeir sem gera það eru verslanir sem nota þau sem viðmið fyrir afsláttum sínum. Þannig nýtast uppgefin verð í raun sem grundvöllur verðstríðsins. Ef menn vilja afsláttastríðið burt er mjög einföld leið til þess: Að hætta að birta "leiðbeinandi útsöluverð" í Bókatíðindum. Þá segja menn bara að það sé ekkert "leiðbeindandi útsöluverð" til, aðeins heildsöluverð sem komi neytendum svo sem ekkert við, enda sé það einkamál útgefenda og smásala. Þessa stefnu hefur til að mynda Bjartur tekið upp að danskri fyrirmynd.

Útgefendur eru því í raun að hvetja til verðsamanburðar og búa til grundvöllinn að verðsamkeppni. Þeir þurfa meira að segja að berjast fyrir því nú að fá að birta leiðbeinandi útsöluverð því Samkeppnisstofnun hefur það mál til skoðunar. Það væri meirháttar kaldhæðnislegt ef Samkeppnisstofnun kæmist að því að slík verðbirting væri í andstöðu við markmið samkeppnislaga, að auka samkeppni og frjálsa verðmyndun á markaði. Slíkt fyrirkomulag myndi alla vegna ekki þjóna neytendum, horfi maður stíft á þeirra hag, en það myndi líklegast vera sumum bóksölum þóknanlegt. Andstaðan við stórmarkaðina og verðstríðið sem þeir hleypa af stað hefur enda - og algerlega eðlilega - verið mest þar. Og af sömu orsökum hafa menn, ekki aðeins Halldór Guðmundsson, heldur einnig mjög margir rithöfundar og andans menn, viljað stemma stigu við verðstríðum, afsláttum og uppgangi stórmarkaða í bóksölu: Þeir hafa áhyggjur af bókabúðum og þeirra lífmagni. Allir vita að hefðbundna bókabúðin sem hér áður byggði afkomu sína á föstu bókaverði en seldi líka gjafavöru og stílabækur stendur mjög höllum fæti. Slíkar verslanir eru að sönnu enn til víða, en þær geta ekki haldið í við stórmarkaðina og Pennaveldið í afsláttarbaráttunni fyrir jólin. Um leið hafa menn áhyggjur af því að með hvarfi þeirra sé úr sögunni vettvangur fyrir neytendur til að nálgast bækur allt árið og sjá eldri verk, en það er í raun eitt megináhyggjuefni útgáfunnar: Hvernig má koma bakklistum bókaútgáfunnar í verð og að neytendum.

Ég ætla ekki að hætta mér hér út í umfjöllun um gagn og gildi bókabúða og hvort hvarf litlu bókabúðarinnar eigi eftir að gera út við fjölbreytni í útgáfunni og fjölda útgefinna verka. Mig langar aðeins til að benda á þrjú atriði sambandi við þróun bókaverðs og áhyggjur af sýnileika bóka á markaði:

Í fyrsta lagi er eins og enginn hafi heyrt minnst á internetið sem söluleið fyrir bækur hérlendis nema helst Bóksala stúdenta. Frjálst bókaverð er megingrundvöllurinn fyrir því að það sé yfirleitt hægt að selja bækur á netinu og því höfum við sjálfa forsenduna í lagi, þótt kaupmynstur okkar á bókum sé ef til vill ekki nógu sveiganlegt til að geta borið uppi netverslun. Danskur kollegi sagði mér frá því nú í haust að dönsk netverslun með hljómdiska sem hann þekkti til hefði haft 16.000 titla á skrá. Af þeim hefðu 90% selst í að minnsta kosti einu eintaki síðasta árið. Netverslanir búa til "long tail", gera bakklista sýnilega og skapa arð af útgefna efninu sem forlögin eiga þegar.

Í öðru lagi sýnir útgáfusaga okkar á tímum frjálsa bókaverðsins að hrakspár um minnkandi útgáfu hafa ekki gengið eftir. Síðustu 10 árin hefur titlum sem auglýstir eru í Bókatíðindum fjölgað um nær 300! Þar vegur áreiðanlega þungt að framleiðslukostnaður lækkar sífellt. En maður er líka svolítið gáttaður yfir því hve markaðsaðgengi hérlendis er auðvelt og hve lítið mál það er fyrir útgefendur tveggja til þriggja titla að koma bókum sínum að hjá öllum smásölum. HG bendir á að markaðskostnaður aukist sífellt meira, en á móti má spyrja: Af hverju markaðssetja forlögin öll bækur sínar nákvæmlega eins? Það er enginn munur á dagblaðaauglýsingum né sjónvarpsauglýsingum forlaganna, þær eru allar eins byggðar upp og hafa allar sömu sögu að segja. Allir sem ég þekki í auglýsinga- og almannatengslabransanum býsnast yfir þessu. Þeir benda á að ef útgefandi ætlar að eyða 50 milljónum í markaðskostnað á 6 vikum ætti það að vera sjálfsagt mál að setjast niður og spá í hvort þeim peningum sé vel eytt með því að kaupa endalausar heilsíður með sítötum í dóma úr öllum himinsáttum. Minni forlög hljóta að geta komist langt á hugkvæmni í markaðssetningu og almannatengslum.

Í þriðja lagi er ekkert sem bannar hópi smærri útgefenda að standa saman í samningum við stóra endursöluaðila og rjúfa þar með einangrun sína, að því gefnu að þeir séu ekki í markaðsráðandi stöðu. Það er í sjálfu sér stórmerkilegt að Bónus skuli taka inn bækur frá útgefendum með kannski bara tvo titla í farteskinu, jafnvel bara einn, en það má gera því skóna að ef menn væru að semja um kannski 20-30 titla í einu væru afsláttarkjör önnur. Þær sögur ganga alltaf að smærri útefendur séu settir í skúfstykki af stórmörkuðum. Þeir ættu því að eiga auðvelt með að verja sig kæru ef samkeppnisyfirvöld fettu fingur út í málið. Með þessu væri tryggt að smásalinn en ekki heildsalinn tæki á sig verðlækkunina.

Að lokum: HG talar um að sú regúlering sem menn hafi vænst hafi ekki átt sér stað. Slík regúlering er í raun einskonar heiðursmannasamkomulag um að bókaverð eigi að vera í ákveðnum farvegi, sem aftur getur varla verið það sem neytendur eru að biðja um. Á meðan 700 bækur eru gefnar út hver jól og á meðan bækur seljast meir og meir vegna þess að þær lækka og á meðan nokkuð víðfemt höfundasamfélag er starfandi sem hefur tekjur af bóksölu og á meðan forlög starfa við að gefa út þessar 700 haustbækur ár hvert þá er svo sem ekki gott að sjá hvað sé eiginlega að. Auðvitað mættu forlögin hagnast meira, staðan í bransanum er ekki nógu góð, en það eru önnur viðfangsefni sem koma þar líka við sögu, s.s. slappur og ómarkviss stuðningur hins opinbera við útgáfuna, einokun ríkisins á útgáfu á námsefni fyrir grunnskóla, hár virðisaukaskattur og svo líka vandamál við að koma bakklistum í verð, hafa hemil á kostnaði og finna ný útgáfutækifæri. Nú blasir við ný löggjöf um málefni bókaútgáfunnar og útgáfu námsbóka og að vskurinn verði lækkaður, þá er bara að tækla góða netbókabúð og finna kreatífar leiðir til að koma bakklistum og bókaarfinum í verð og finna bókaútgáfunni stað á sem flestum sviðum upplýsingamiðlunar. Í þessu samhengi er frjálst bókaverð og afleiðingar þess á jólamarkaði ekki stóra vandamálið. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband