Tvítugt tossabandalag

Í Lesbók Morgunblaðsins í dag má sjá nokkuð kynduga umræðu spinnast sem gaman væri að vita hvernig blasir við þeim sem hefja nám í hugvísindum við HÍ þessi misserin og fæddir eru á árunum 1985-1988. Þetta fólk getur af eðilegum orsökum ekki rekið minni til þess hvað efst var á baugi í bókmenntaumræðunni um það leyti sem það útskrifaðist af fæðingardeildinni, en er þó líklegast nauðbeygt til að setja sig inn í þá fremur skrítnu flokkadrætti sem hin annars líflega bókmenntaumræða níunda áratugar 20. aldar einkenndist af til að geta haldið parlúr við prófessorana sína.

Þannig breður svo við að Ástráður Eysteinsson, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, og raunar óefað einn áhrifamesti fræðimaður hérlendis í bókmenntafræði síðustu tvo áratugina, telur sig knúinn til að svara ummælum Einars Más Guðmundssonar í viðtali sem birtist við Einar í Fréttablaðinu á Þorláksmessu. Ritstjóri Lesbókar fær prik fyrir að birta stutt brot úr ritdómi Ástráðs í Skírni árið 1987, einfaldlega fyrir þær sakir að ég velti fyrir mér þegar ég byrjaði að lesa grein Ástráðs: Um hvað fjallaði þetta nú alltsaman aftur?

Þetta er vægast sagt undarleg umræða. "Svar" Ástráðs er til að mynda svo sem ekkert svar, enda engu að svara nema því, sem sérhver sem hefur áhuga á bókmenntalífinu og bókaútgáfu getur sagt sér: að Ástráður hefur með þessari einu undantekningu ekkert sinnt höfundarverki Einar Más sérstaklega. Ummæli Einars eru síðan óneitanlega nokkuð óvægin í ljósi þeirrar velgengni og virðingar sem hann nýtur, en það sér hver maður að hin þreytandi klisjuumræða um Vogana er náttúrlega engum manni samboðin og honum hlýtur að leyfast að benda á rispurnar í þeirri plötu.

Mér finnst hins vegar ágætt framtak að rifja upp þessa umfjöllun í Skírni á sínum tíma, því svo ég taki dæmi af sjálfum mér, sem er eðliegt á þessum vettvangi, þá vakti þessi grein hjá mér, þá nýskriðnum út úr menntaskóla, fræðilegan áhuga á verkum Einars Más og það algerlega óháð því hvort mér finndist dómurinn vera neikvæður eður ei. Skáldsögur Einars, Reykjavíkurþríleikurinn sem nú er svo nefndur, höfðu gríðarleg áhrif á mig eins og flesta þá á mínu reki sem á annað borð lásu bækur. Riddarar hringstigans töluðu til að mynda beint við unglingsvitundina og Vængjasláttur í þakrennum var sú goðsögumynd af bernskunni sem maður þurfti til að sætta sig við leiðindi áttunda áratugarins, sem voru ægileg. Þannig séð voru þessar bækur einskonar jákvæð sjálfsmyndaruppbygging sem sýndu manni umhverfið í algerlega nýju ljósi og Einar hafði með ummælum sínum í fjölmiðlum og öðrum skrifum mikil áhrif á bókmenntauppeldi mitt síðar. Ég held að ég hafi ákveðið að lesa Günter Grass sem allra fyrst á frummálinu vegna þess að EMG sagði að hann væri magnaður höfundur, sem kom síðan aldeilis á daginn.

En að endurvekja pólaríseringu níunda áratugarins þar sem "módernistarnir" voru öðrum megin en hinum megin "sagamennirnir", sem þó áttu algerlega samleið í raun og veru en létu persónuleg málefni og einfaldan misskilning trufla sig. Æi, erum við ekki komin aðeins lengra en það?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband