Gotneska Ísland

Ég held að sá eini sem minnst hefur á greiningu hins sprenglærða og fjölfróða doktors og magisters Guðna Elíssonar á gotneskri heimssýn DV og fleiri íslenskra fjölmiðla í Skírni hafi verið Þröstur Helgason, sem minnti á hana í neðanmálspistli sínum í Lesbók Mbl. um daginn.

Það er hins vegar full ástæða til að mæla með þessari grein eða öllu heldur greinum þar sem Guðna nægði ekki eitt hefti Skírnis til umfjöllunar sinnar, heldur er bæði vor- og hausthefti þessa elsta tímarits á Norðurlöndum lagt undir þessa viðamiklu úttekt á heimssýn íslensku afhjúpunarpressunnar.

Það er líklegast merki um fremur barnalega trú fjölmiðlafólks á „sannleikanum“ að framsetningarháttur fréttaefnis er nánast aldrei til umræðu. Grein Guðna er ekki hvað síst merkileg fyrir þær sakir að þar í fyrsta sinn svo ég viti til reynt í alvöru að takast á við vandann sem hlýst af mismunandi framsetningu á fréttum eftir því hvaða frásagnarmáti er valinn. Hin hefðbundna borgaralega gagnrýni á þessar áherslur í gagnrýni og greiningu er ákaflega upptekin af því að veruleikinn sé alltaf veruleiki og gáir lítt að búningi þess veruleika. Það blasir hins vegar ákaflega vel við að form framsetningar á „veruleikanum“ er meiriháttar mál í upplýsingasamfélaginu þegar tímabil DV undir ritstjórn Mikaels Torfasonar, Illuga Jökulssonar og Jónasar Kristjánssonar er skoðað. Áherslur DV á að fletta ofan af hinum hulda veruleika svo „sannleikurinn“ komi í ljós er frásagnafræðilegt mál sem snýst að síðustu um framsetningu á ákveðinni heimsmynd. Að mati Guðna er þessi heimsmynd „gotnesk“, í merkingu enska orðsins „gothic“ og þeirrar bókmenntahefðnar sem verður til í andstöðu við upplýsinguna á seinni hluta 18. aldar. Hann vísar einkum til bresku hefðarinnar, en þeir sem þekkja til þýskra og franskra texta frá þessum tíma kannast við sauðahúsið. Staðalmyndir okkar um veruleika góðs og ills, um útlit illmenna, innræti þeirra og síðan sykurhúðun hins góða (þar varð hin sentimentalíska stefna 18. aldar mikilvægur brunnur, þar sem dyggðir, mannkostir og gjörvileiki fara saman í órofa samhengi) eiga sér máttugan uppruna í þessu fjöldaframleidda afþreyingarefni sem allt til þessa dags hefur mótað ástarsögur, sakamálasögur og hryllingssögur, sama í hvaða formi þær birtast.

En það er líka nærtækt að nota þessa greiningu til þess að fara að skoða betur innflutning glæpasögunnar í íslenskan veruleika. Ég var að þrífa tölvuna mína um daginn og rakst þá á gamlan pistil sem ég skrifaði fyrir útvarpið árið 1998 og fjallaði um hræðsluvakningu þess tíma gagnvart ofbeldi og glæpum. Á þeim tíma hamaðist t.d. Morgunblaðið á því að fólki væri ekki óhætt á göngu um miðbæinn sökum ofbeldisverka, rána og glæpa og sérstaklega var á þeim tíma horft til unglinga. Taka átti upp „no-tolerance“ stefnu að bandarískum hætti og var þáverandi lögreglustjóri, Georg Lárusson, fremstur í flokki andstæðinga umburðarlyndisins. Fengnir voru hingað bandarískir sérfræðingar sem fóru hörðum orðum um ástandið, læsa átti t.d. alla graffara inni, og sæist vín á manni í miðbænum átti að taka hann umsvifalaust úr umferð. Það merkilega var, fannst mér þá, var að á sama tíma sýndu skýrslur að glæpum fór fækkandi. Glæpaaldan var ekki „veruleiki“, heldur framsetning á veruleika. Hún var frásögn um veruleika sem var ekki til nema sem frásögn.

Það er þessi afstaða fjölmiðla og raunar líka rithöfunda gagnvart veruleikanum og lífi borgaranna sem alltaf þarf að skoða. Í ár, 2007, á íslenska glæpasagan í sinni núverandi sigurmynd 10 ára afmæli. Af hverju trúum við nú á þetta form sem fyrir aðeins 15 árum síðan var talið að gæti ekki fangað veruleikann? Íslenska glæpasagan var svo fáránleg að það var ekki talið hægt að skrifa hana. Í landi þar sem eitt til tvö morð voru framin á ári hverju, svona litlu og kósí landi, var ekki ástæða til að skrifa glæpasögu. Nú, árið 2007, trúa því allir að mafíur, dópsalar, handrukkararar og vopnaðar glæpaklíkur vaði uppi og að lögreglan standi bjargarlaus andspænis ofbeldinu. Ef heimsmynd bóka þessara jóla, bóka á borð við Skipið eftir Stefán Mána, er skoðuð, er ljóst að í bókmenntunum er beinlínis verið að fjalla um þjóðfélag handan laganna. Þar sem engir fulltrúar almannavaldsins geta lengur haldið uppi lögum og reglu og þar sem ekkert samþykki er fyrir hendi um að lögin gildi fyrir alla borgara. Í staðinn ráða ofbeldismenn sem keyra sig áfram með siðleysi og líkamlegum styrk. Ef slík bók selst í 10.000 eintökum þá merkir það eitthvað. Slíkur höfundur skynjar umhverfi sitt sem lögleysu og það er valdatóm sem hann skrifar inn í og þessi tónn á samhljóm í samfélaginu.

Þetta er að mínu viti ákaflega athyglisvert og er í beinu samhengi við gotnesku heimssýnina. Við skynjum samfélagið sem frásögn af lögleysu, þar sem við stjórnvölinn er annað hvort fólk sem ekki megnar að halda aftur af henni, eða fólk sem er samsekt glæpamönnunum. Glæpir og refsing eru stóru þemu dagsins í dag. Ég hef áður skrifað hér um Óvini ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson sem er tilraun til að nálgast þetta viðfangsefni í sögulegu ljósi en vek hér athygli á annarri nýlegri bók sem verður að lesast sem hugmyndalegt skýringarrit með fjölmiðlum og glæpasögum. Þetta er bókin Brotaþolar, lögreglan og öryggi borgaranna eftir Rannveigu Þórisdóttur, Helga Gunnlaugsson og Vilborgu Magnúsdóttur og kom út hjá Háskólaútgáfunni. Þar kemur fram að helmingur svarenda í mikilli öryggisvitundarkönnun segist hafa orðið fyrir afbroti á síðustu fimm árum. Aðeins 57% tilvikanna voru tilkynnt til lögreglu. Af hverju? Það tók því ekki, „lögreglan gerir hvort eð er aldrei neitt“. Í slíku samfélagi safnar maður fóki saman í vopnað gengi og hefnir sín. Lögin mega sín einskis. Líkt og í íslenskum þriller! Sem er nóta bene ekki veruleikinn, heldur frásögn af honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband