Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012
8.1.2012 | 14:53
Hlutverk Pennans í íslenskri bókmenningu
Allt hlutafé Pennans á Íslandi ehf. sem er nú í eigu Eignabjargs ehf., dótturfélags Arion banka, hefur verið boðið til sölu í einu lagi.
Það hefur legið fyrir lengi að Eignabjarg /Arion banki myndi bjóða Pennann til sölu á fyrsta ársfjórðungi 2012 og endurskipulagning fyrirtækisins miðast við það. Frá því að Penninn á Íslandi ehf. var stofnaður um mánaðarmótin mars/apríl 2009 hefur þetta fyrirtæki verið grunnstoð íslenska bókabransans. Rannsóknarsetur verslunarinnar á Bifröst hefur tekið saman tölur frá bókaútgefendum um tekjur og samsetningu á þeim árin 2009 og 2010 og samkvæmt þeim koma 54% af tekjum félagsmanna í Félagi íslenskra bókaútgefenda frá almennum bóksölum, þar sem hlutdeild Pennans er langtstærst, um 80-90%.
Þegar Penninn hf. fór í þrot í ársbyrjun 2009 blasti hrikaleg staða við bókaútgefendum. Ofan í efnahagshrunið virtist sem langstærsti endursöluaðili bóka á Íslandi myndi verða gjaldþrota og draga megnið af bókaútgáfu landsins með sér. Þá tóku forsvarsmenn hins nýja fyrirtækis, sem var í eigu Arion banka, þá merkilegu ákvörðun að greiða að stórum hluta það sem bókaútgefendur áttu inni hjá þrotabúi Pennans í gegnum nýja fyrirtækið, tóku yfir skuldir þess að hluta og stóðu skil á þeim eftir að hafa samið við birgja. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að þessi ákvörðun var ekki léttbær fyrir efnahagsbókhald Pennans á Íslandi ehf. og margir hafa orðið til að gagnrýna afleiðingar þessarar ákvörðunar - þá staðreynd að Arion banki varð að leggja fyrirtækinu til fé.
Séð frá menningarpólitískum forsendum hafði þessi ákvörðun hins vegar mikið gildi. Hún hafði grundvallaráhrif á afkomu íslenskra bókaútgefenda, rithöfunda og þeirra fjölmörgu einstaklinga og skapandi fólks sem gefur út bækur og tjáir sig á Íslandi. Bókamarkaður okkar og ekki síst sölustefna Pennans / Eymundssonar hefur verið að bjóða til sölu í helstu verslunum nánast allt sem út kemur á Íslandi. Það þýðir að um 170 aðilar geta árlega vænst þess að það sem þeir gefa út sé miðlað í gegnum endursölukerfið til kaupenda. Þetta er einn af hornsteinum bókmenningar okkar og þeirrar staðreyndar að við teljum okkur bókmenntaþjóð.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að síðustu ár hafa verið stormasöm. Það hefur verið mjög mikilvægt fyrir bókaútgefendur að vita af traustum bakhjörlum á markaðinum. Á sama tíma hafa gjaldþrot og nauðungarsamningaferli Office 1, A4 og svo gjaldþrot BMM verið þung högg fyrir útgefendur.
Við megum ekki gleyma því að miðlun ritaðs máls er þrátt fyrir allt ekki bara einkamál rithöfunda og útgefenda og svo óskilgreins hóps endursöluaðila. Útgáfa bóka og texta er hornsteinn þess að móðurmál okkar og samskiptatæki, íslenskan, fái yfirleitt þrifist. Við erum stolt af bókmenningu okkar sem hefur sýnt sig að er meiriháttar fyrirbæri sem hefur gildi langt út fyrir mörk þeirra sem lesa og tala íslensku. Íslenskir rithöfundar njóta þess nú að þeir eru lesnir á tugum tungumála og að íslenskar bókmenntir eru hluti af "heimslitteratúrnum". Staða Íslands á Bókastefnunni í Frankfurt am Main nú nýverið staðfesti þetta á svo magnaðan hátt að þetta ætti héðan í frá að vera fullkomlega óumdeild staðreynd.
En bókmenning okkar þrífst ekki án grunnstoða. Þær eru nokkrar: til að mynda starfslaunakerfi rithöfunda og fræðimanna, áhugi og vilji íslensks almennings til að kaupa bækur á markaði (yfir 70% Íslendinga gefa t.d. bækur í jólagjöf) og svo lestrarkennsla í skólum og miðlun lesefnis til barna og unglinga. Þessi síðast talda stoð er því miður stöðugt áhyggjuefni, nýjar rannsóknir sýna það, og staðreyndin er að svo áratugum skiptir hefur ekki verið jafn litlu kostað til að kaupa bækur fyrir grunnskólanemendur og nú eftir hrun.
Ef almenningur á þess heldur ekki kost að nálgast úrval íslenskra bóka allt árið í góðum bókaverslunum um allt land þá brestur þar meginþráður. Þrátt fyrir örsmæð sína er íslensk bókaútgáfa ákaflega lítið styrkt af hinu opinbera og sinnir samt því að gefa út kennsluefni fyrir alla nemendur eftir að grunnnámi sleppir, gefa út undirstöðurit, fræðsluefni, niðurstöður rannsókna, skáldskap, ljóð, barnabækur og skemmtiefni - allt vegna þess að til eru fyrirtæki sem geta hagnast á því að selja þessar vörur.
Því er það mikið áhyggjuefni fyrir alla sem starfa við að gefa út bækur: rithöfunda, bókaútgefendur, prentara og dreifingaraðila, hvernig söluferli Eignabjargs ehf. á Pennanum á Íslandi lyktar. Við vonum öll að þar verði metnaður fyrir bóksölu hafður að leiðarljósi og þróaðar leiðir til að styrkja heilsársmarkað fyrir bækur en ekki öfugt.
Bækur | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)