Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Penninn ræðst gegn kiljuútgáfu

Félagið Penninn á Íslandi ehf. var stofnað eftir að eldra félag, Penninn hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 3. apríl síðastliðinn. Þetta félag er í eigu Nýja Kaupþings banka hf. sem þremur vikum fyrr hafði tekið yfir rekstur félagsins af fyrri eigendum. Þetta fyrirtæki er stærsti einstaki endursöluaðili bóka á Íslandi og skiptir þá ekki máli hvernig er mælt. Bókaútgefendur eiga gríðarlega mikið undir góðum samskiptum við fyrirtækið og erfiðleikar þess hafa jafnframt mikil áhrif á afkomu bókaútgefenda. Sem betur fer fóru gjaldþrotaskiptin betur með útgefendur en á horfðist sökum þess að birgðir færðust yfir til nýju kennitölunnar. Yfirlýst stefna forstjóra og forvígismanna Pennans á Íslandi ehf. var að vinna náið og dyggilega með bókaútgefendum og öðrum við að tryggja að Íslendingar héldu áfram að vera bókaþjóð. Þar með að tryggja að öll virðiskeðjan frá höfundum til lesenda virkaði og gæti staðið undir sér, en það hefur verið eitt af kraftaverkum okkar menningarlífs að eiga tiltölulega sjálfbæran bókabransa.

Í morgun rak alla útgefendur landsins í rogastans. Í Fréttablaðinu blasti við auglýsing og umfjöllun um að Penninn hefði ákveðið að gjaldfella allar nýjar kiljur, þó ekki með samráði við birgja, enda höfðu útgefendur ekkert heyrt af þessari ráðstöfun fyrr en nú, heldur með því að búa til birgja úr manninum á götunni. Öllum kiljum frá árinu 2007 til dagsins í dag, séu þær í söluhæfu ástandi, má nú skila til Pennans og fá kr. 200 fyrir. Síðan geta kúnnar keypt þessar sömu kiljur með 80% afslætti frá hefðbundnu kiljuverði á kr. 400. Kaupi maður tvær fær maður þá þriðju frítt, s.s. þrjár "notaðar" kiljur á kr. 800.

Markmiðið segir Penninn vera að auka lestur, koma til móts við neytendur sem hafi ekki mikið fé á milli handanna, fá Íslendinga inn í búðirnar í júlímánuði. Allar eru þessar röksemdir mjög undarlegar frá sjónarmiði útgefenda. Í fyrsta lagi hefur bóksala á árinu verið mjög góð og bókabransinn einn af þeim fáu geirum sem ekkert hafa gefið eftir í kreppunni. Í öðru lagi hafa kiljur ekkert hækkað frá því í febrúar 2008, ÞRÁTT FYRIR að útgefendur taki á sig sífellt meiri kostnað við prentun. Framlegðarhlutfallið er m.v. óbreytt verð á kiljum fyrir löngu komið niður fyrir sársaukamörk. Í þriðja lagi er júlí einn sterkasti sölumánuður á kiljum á árinu.

Ekkert sem Penninn boðar stenst. Þetta eru óskiljanleg rök því enn furðulegra er að sjá eitthver bissnesvit í þessu dæmi. Penninn segist einmitt ekkert græða á þessu því það sama gangi yfir erlendar kiljur. Ef ætlunin er að styðja við lestur landsmanna, hefði þá ekki verið ráð að fá útgefendur og hvað þá rithöfunda, í lið með sér og gera eitthvað sem allir myndu vilja standa að og væru stoltir af?

Þessi ráðstöfun er árás á tekjumöguleika rithöfunda sem fá 23% af andvirði hverrar seldar kilju, en að sjálfsögðu ekkert í endurnýtingarprógrammi Pennans. Með öðrum orðum: Penninn hlýtur að ætla sér að koma höggi á útgefendur og höfunda. Það er eina haldbæra skýringin á þessari undarlegu ráðstöfun. Öll önnur rök eru haldlaus.

Af hverju er fyrirtæki sem er í umsjá ríkisbanka tímabundið og hlýtur á þeim tíma að vilja halda sjó fyrst og fremst að standa í skæruhernaði? Er það s.s. vilji Nýja Kaupþings hf. að Árni Þórarinsson, Arnaldur Indriðason, Auður Jónsdóttir, Hallgrímur Helgason og Yrsa Sigurðardóttir, svo nefnd séu nöfn nokkurra íslenskra höfunda sem nú nýverið hafa komið út í kilju, fái engar tekjur af hugverkum sínum? Er þessu fólki illa við íslenskar bókmenntir?


Upprisa Máls og menningar

Miðpunktur Reykjavíkur er á horni Laugavegar og Vegamótastígs. Ef marka má nýlega skoðanakönnun um örlög Bókabúðar Máls og menningar er yfirgnæfandi meirihluti höfuðborgarbúa og nágrennis sammála þessari fullyrðingu. Ég held að öllum hafi komið á óvart hve sterkar tilfinningar lætu á sér kræla eftir að spurðist að Bókabúð Máls og menningar myndi ekki hafast lengur við í húsnæði sínu á Laugavegi 18. Þetta var eins og staðfesting þess að heimurinn væri ekki lengur í lagi.

Nú hafa lyktir orðið þær að gamla Bókmenntafélagið, hið eigendalausa en þó ekki hirðislausa eignarhaldsfélag hafi ákveðið í félagi við Iðu að opna bókabúð eftir að Penninn flytur nú í haust. Eigendur húsnæðisins, Kaupangur, hafa ekki viljað endurnýja leigusamninginn við Pennann, af þeirri einföldu ástæðu að leigan var ódýr, en fá nú greinilega meira fyrir sinn snúð.

Þetta eru gleðileg málalok. Líklegast er þarna líka komin aukin samkeppni á heilsársbóksölumarkaði. Penninn hefur verið langmikilvægasti endursöluaðili íslenskra bóka alla þessa öld og staða hans styrktist sífellt. Svo varð fyrirtækið gjaldþrota og er nú í eigu Kaupþings banka. Það er engin framtíðarlausn og þótt hún virki í bili er ljóst að núverandi eigendur munu ekki reka fyrirtækið til eilífðar. Spurningin "hvað verður?" hangir alltaf yfir, hvernig svo sem gengur frá degi til dags.

Um leið er þetta svolítið kaldhæðnislegt alltsaman. Ástæðan fyrir öllu havarínu er jú að eigendur húsnæðisins vildu fá hærri leigu. En áður áttu Vegamót, félag í eigu Bókmenntafélagsins, húsnæðið, svo salan á því er í raun ástæðan fyrir því að bókabúðin var í hættu. Með því að stíga inn nú er komin enn einn hlykkurinn á þeirri snúnu leið sem Bókmenntafélag Máls og menningar hefur gengið í gegnum á heilum áratug. Fyrst var rekstrinn seldur undan Eddu, sem Bókmenntafélagið átti þá hlut í, árið 2002, síðan var húsnæðið selt 2007 til að fjármagna sameiningu JPV-útgáfu og útgáfuhluta Eddu útgáfu undir heitinu Forlagið þar sem Bókmenntafélagið á 50% hlut. Þar með er Bókmenntafélagið aftur farið að reka búð og forlag eins og það gerði fyrir 10 árum síðan, en nú í félagi við fjölskyldu Jóhanns Páls Valdimarssonar annars vegar og Iðu hins vegar. En það sem er enn skemmtilegra er að Arndís í Iðu var einmitt verslunarstjóri Bókabúðar Máls og menningar um það leyti sem búðin var seld, þannig að "allir komu þeir aftur".

Bókmenntafélagið er þannig búið að ná mestu af vopnum sínum aftur, nema náttúrlega húsnæðinu sem Kaupangur á enn sem fyrr, það glaðbeitta félag sem borgarbúar urðu að greiða lausnargjald fyrir 19. aldar götumynd Ólafs Magnússonar þegar timburhjallarnir við Laugaveg 4. og 6. voru seldir. Nú er s.s. nýi samkeppnisaðilinn í bókabúðabransanum jafnframt annar aðaleigandi stærsta forlagsins. Það væri fremur kjánalegt að halda því fram og hvað þá trúa því að þar verði hagsmunir ekki stilltir saman.

Ástæðan fyrir því að Bókabúð Máls og menningar virkaði var ekki síst sú að búðin var í fararbroddi nýrra verslunarhátta: Sérhæfing, langur opnunartími, kaffihús, upplestrar í búðinni og annað menningarstarf, en um leið var framlegðin tjúnuð upp með sölu á sérvettum, lundastyttum og stílabókum. Það var "atmó" í búðinni sem þrátt fyrir sívaxandi póleringu og standardíseringu Pennaáranna yfirgaf aldrei staðinn.

Nú geta þeir sem ætluðu að hlekkja sig við stigann geymt keðjurnar sínar fram að næsta baráttumáli. Bókabúð Máls og menningar er komin til að vera í miðpunkti Reykjavíkur.


Æsingaland

Vofur Hugos Chavezar og Ernestos Moralesar ganga nú um landið. Og það sem er merkilegast! Þær sjást einkum á heimilum Sjálfstæðismanna.

Hákommúnískir demógógar hafa sprottið fram úr veggjum einbýlishúsa í Garðabæ, Keflavík og Bolungarvík. Þeir vita að heimsvaldasinnar, knúðir af hroka og græðgi, seilast nú í auðlindir og vasa alþýðu fátæks lands og ætla að arðræna það og kúga með óskammfeilnum hætti. Viðbjóðsleg svikastjórn sem keypti sér völd með því að moka brauði og brennivíni í æstan mótmælamúg notaði fyrsta tækifærið um leið og hún hafði tök á og samdi við heimsvaldasinnana. Ástæðan er að hin gerspillta valdastétt, rýtingsstungufólkið, ætlar sér með lúabrögðum að vefja landi og þjóð í kúgunarvef ESB, þetta fangelsi Evrópu sem ekki aðeins kúgar alþýðu álfunnar til ómanneskjulegs strits undir járnhæl búrókratanna, heldur útilokar í leiðinni öll frelsisöfl heimsins sem berjast hvern dag fyrir sjálfstæði sínu og reisn. Hin makráðu leiguþý Evrópuvaldsins hafa framið landráð, stungið rýtingi á bak þjóðarinnar og bundið landsmenn á klafa þrældóms um aldur og ævi, hlekkjað íslensk börn á galeiðu heimsvaldakúgunarinnar. Nú erum við reið! Við borgum ekki skuldir glæpamanna! Við heimtum að hver króna í þeirra eigu verði gerð upptæk og mokað í hít heimsvaldastefnunnar. Landráðahyskið og rýtingsstungufólkið mun fá að kenna á því! Enga nýja Versalasamninga! Við stöndum vörð við Rín ... nei, fyrirgefið þið, við ... já ...

Við stefnum hraðbyri í gott plebeískt ríki þar sem ný stjórn tekur við eftir hverja byltingu eins og í góðu upplausnarlandi. Fyrst voru það pottarnir, nú verða það golfkylfurnar.


Sorgarvinnan

Íslenska þjóðin þarf meira en nokkuð annað að vinna sorgarvinnu vegna hrunsins. Hins vegar hefur lítið verið gert í að ná tökum á einföldustu og áhrifaríkustu leiðinni til að vinna sig út úr sorginni: að segja sögu áfallsins. Í staðinn hafa ýmiss konar frávarpsaðferðir verið notaðar, ekki síst aðferð ofurjákvæðninnar. En það er sama hversu margir tromma fram og segja fólki frá því hve gríðarleg tækifæri leynist í rústabjörgun er sjálfsmynd þjóðarinnar löskuð og það er algengara en maður heldur að fólk sé í áfalli. Ef marka má þau ótölulegu vanstilltu ummæli sem birtast allajafna við hverja einustu frétt á Eyjunni eða þær ofsóknaæddu og hitasóttarkenndu bloggfærslur sem reka á fjörur manns á hverjum degi, hvað þá aðsendar greinar í blöðum, þá hefur stór hópur fólks greinilega óljósa mynd af andlegu ástandi sínu eftir hrun. Áfallið er stærra en fólk vill láta í veðri vaka.

Þegar ég heyrði Guðna Th. Jóhannesson rekja atburðarásina hrunsdagana 29. september til 9. október í Kastljósinu á þriðjudaginn fór um mig gamalkunn kennd: Ég fann að það var eins og þetta þokukennda tímabil með öllum sínum óljósu öngum og óljósu blórabögglum öðlaðist festu. Um leið áttaði ég mig á að hann er að vinna sorgarvinnuna sem við þörfumst svo mikið.

Í dag kemur bókin hans HRUNIÐ út. Enn og aftur sannar bókarmiðilinn að ekkert stenst honum snúning þegar kemur að því að ná heildaryfirsýn yfir málefni og setja fram yfirvegaða mynd af atburðum. Það erfiða einstigi sem Guðni fetaði í Kastljósviðtalinu á milli þess að taka eindregna afstöðu og afstöðuleysis er vonandi leiðarstjarna þessarar bókar sem ég hlakka til að lesa.

HRUNIÐ kemur út í kjölfar velgengni bókar Ólafs Arnarsonar, Sofandi að feigðarósi og bókar Þorkels Sigurlaugssonar, Ný framtíðarsýn, en þótt ólíkar séu taka þær báðar á hruninu út frá nokkuð skilgreindum sjónarhólum. Guðni ætlar sér greinilega víðara svið. Hvort heldur er þá þarfnast þjóðin þessara bóka. Eina leiðin til að vinna sig út úr sorginni er að segja söguna af hruninu aftur og aftur og ná þannig smám saman tökum á veruleikanum og skilningunum á honum. Þessar bækur eru gríðarlega mikilvægt framlag til að ná aftur áttum í þessu samfélagi sem manni finnst stundum að sé að drepa sig sjálft af áfallaraskaðri vitleysu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband