Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
26.3.2009 | 10:56
Blómin spretta á veggjum
Crymogea er loksins komin í eigið húsnæði eftir tvö húsmennskuár. Á Barónsstíg 27 þar sem síðast var til húsa hönnunarbúðin Herðubreið er kominn forlagskontór sem fyrst og fremst er þó sýningaraðstaða. Þar verður hægt að skoða meiriháttar innsetningu á blómahafi Eggerts Péturssonar og hina fögru bók Flora Islandica næstu daga og raunar fram yfir helgi. Allt útspegúlerað af verðlaunahönnuðinum Snæfríð Þorsteins sem hafði líka veg og vanda af hönnun Flora Islandica.
Sýningin er hluti af HönnunarMarsinum 2009. Það er kjörið að þramma á Barónsstíginn þegar hönnunarvegurinn er genginn á laugardaginn og kíkja á flórur og sækja snemmbúinn voranda í norðanáttinni.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2009 | 16:23
Stjórnin sem rústaði bókaútgáfu á Íslandi?
Ríkisvæðing Pennans undir merkjum Nýja Kaupþings er nýi veruleiki íslenskrar bókaútgáfu. Í ljósi nýsamþykktrar málstefnu sem Alþingi lagði blessun sína yfir á dögunum er ástandið í ríkisvæddu bóksölumálunum ekki bara kómískt, það er harmrænt. Hvergi nokkurs staðar í því plaggi er gaumur gefinn sérstaklega að bókaútgáfu. Hún er hins vegar kvödd til í nánast öllu liðum þess sem sérstkur inngripsaðili til styrkingar íslensku máli. Það á að efla orðabókaútgáfu, gefa út kennslubækur, auka útgáfu frumsaminna barnabóka, styrkja útgáfu fræðibóka á íslensku, efla útgáfu stuðningsrita og ýta undir útgáfu fagurbókmennta. Allt þetta á að afreka án þess að styrkja útgáfu bóka eða gefa gaum að innviðum dreifingar bóka hérlendis.
Þetta hefur einfaldlega farið fram á að mestu frjálsum markaði sem hið opinbera er að vísu sterkt á með í það minnsta tvö útgáfufyriræki og mikla útgáfu á vegum ýmissa stofnana. Bóksala hefur heldur ekki mikið kássast upp á ríkiskassann um langt skeið. Fyrir vikið hefur dreifing bóka og prentefnis, útgáfa þess og markaðssetning farið fram undir sínum lögmálum sem Samkeppniseftirlitið hefur verið helsti opinberi aðilinn til að skipta sér af.
En nú er allt breytt. Nokkrir bóksalar á borð við Bóksölu Stúdenta, Iðu og Úlfarsfell, já, Kaupfélag Skagfirðinga, svo ég nefni nærtækt dæmi, eru í samkeppni við stóra ríkisbóksölu. Fyrstu fréttirnar sem berast innan úr henni er að hún borgi ekki. Birgjar fá ekki umsamdar greiðslur nú í vikunni sem sendir að sjálfsögðu vantraustsbylgjur út í allan bransann. Maður heyrir fólk tala um að hætt að afgreiða bækur til Pennans.
Því staðan er þessi: Bóksala á Íslandi er í fanginu á ríkisstjórninni. Svo einfalt er það. Það er pólitísk ákvörðun um hvernig staðið verður að bóksölu hér næstu mánuði. Bókaútgefendur, rithöfundar, prentsmiðjur, starfsfólk við bókaútgáfu, bóklesendur: Sjálf bókaþjóðin veit ekkert um hvernig skipan verður á bóksölu á næstunni.
Það verður frábært að sjá nýja málstefnu virka á slíkum stundum. Fögur fyrirheit um að styðja við bakið á móðurmálinu með öflugasta dreifimiðil þekkingar og skáldskapar lamaðan í fangi ríkisvaldsins. Sjálfur hornsteinn, sjálf undirstaða málsamfélagsins, útgáfa bóka á íslensku, er í raunverulegri hættu. Og það undir stjórn sem vildi svo gjarnan láta minnast sín af öðru en því að hafa rústað íslenskri bókaútgáfu.
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2009 | 23:45
Bóksala á krossgötum
Á föstudaginn var það loks innsiglað sem vitað hafði verið í nokkrar vikur að myndi gerast: Penninn, langstærsti bóksali landins, varð tæknilega gjaldþrota og var tekinn yfir af Nýja Kaupþingi. Með þessu tapa eigendur Pennans öllu hlutafé sínu og bankinn leggur hér eftir fyrirtækinu til rekstrarfé. Alls kyns gróusögur eru uppi um hvernig Penninn verði hlutaður í sundur en þar sem bankinn hefur enn sem komið er ekkert gefið út um hvernig að því verður staðið er allt á huldu um nánari útfærslu þess.
Útgefendur hafa óttast þetta allt frá því um mitt síðasta sumar. Þótt það væri mismunandi eftir fyrirtækjum varð tregða á greiðslum frá Pennanum strax í sumar og ekki var um annað talað milli útgefenda hvort Penninn myndi hafa þetta af. Það sem einkum skelfir eru að bækur eru ekki höndlaðar af bóksölum eins og flestar aðrar vörur. Bækur eru sendar inn með staðgreiðslunótu en á þeim er engu að síður fullur skilaréttur. Þegar stórsöluvertíðir eru á borð við jólavertíðina, vill brenna við að greiðslur berist ekki frá endursöluaðila fyrr en nokkuð er um liðið frá sölunni og eru greiðslur oft bundnar skilum á óseldum bókum. Ótti útgefenda var að bækurnar yrðu eftir í þrotabúinu og yrðu seldar þar en þeir töpuðu öllu. Þegar komið var fram í september 2008 var panikkin orðin svo mikil að búin var til einhvers konar áætlun um hvernig standa mætti að bóksölu færi allt á versta veg.
Sem betur fer fór jólasalan þannig að Penninn stóð fyllilega í skilum og greiddi útgefendum. Þrátt fyrir erfiðleika hafa bókaútgefendur áfram fengið flestir greiðslur reglulega frá Pennanum. Hins vegar hefur það langt í frá slegið á taugaveiklunina því auðsæilegt hefur verið að fyrirtækið berst í bökkum og það má víða sjá hvernig útgáfurnar eru að reyna að skapa sér tekjur í gegnum sölu á eigin netslóðum eða með öðrum hætti.
Yfirtaka bankans mun ekki eyða þessum áhyggjum. Þótt ljóst sé að með henni hefur í bili að minnsta kosti verið tryggt að dreifing bóka á Íslandi heldur áfram með eðlilegum hætti er það nánast skelfilegt fyrir íslenska bókmenningu að vita ekki hvað bíður handan hornsins. Bækur hafa á undanförnum mánuðum ekkert gefið eftir sem vara á neytendamarkaði, raunar þvert á móti. Að baki eru góðir sölumánuðir og ákaflega vel heppnaður Bókamarkaður í Perlunni. Penninn er helsti söluaðili íslenskra bóka utan jólavertíðar. Þótt hafa beri í heiðri bjartsýnisregluna um að það sem kemur þurfi ekki að vera verra en það sem er, verður samt að horfast í augu við að dreifing bóka til íslenskra neytenda er á krossgötum. Ríkisbóksala Nýja Kaupþings er aðeins bráðabirgðaráðstöfun. Svo gæti farið að næstu jól, já, þegar í sumar, verði allt annað landslag í bóksölu á Íslandi. Enn og aftur gildir þá þar mestu að það séu aðilar sem geti staðið í skilum en dragi ekki hálfan bransann með sér á hnén ef þeim mistekst.
Bóksala er ekkert einkamál nokkurra kaupmanna. Hún er menningarleg lífæð, dreifileið upplýsinga og íslensks máls til venjulegs fólks. Það er vonandi að þeir sem véla um þetta fyrirtæki hjá Nýja Kaupþingi gleymi ekki að þeir eru ekki bara að selja kaffi og te í búðum Pennans.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2009 | 21:57
Hin ótrúlega aðsókn að Bókamarkaðinum
Bækur | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)