Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
30.1.2009 | 00:51
18 ár og hvað nú?
Nú verða vatnaskil í menntamálaráðuneyti. 18 ára samfelldri setu Sjálfstæðismanna þar lýkur, en Ólafur G. Einarsson hóf hana 1991 og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mun setja aftan við hana endapunktinn í næstu viku. Þá er forvitnilegt að líta aðeins til baka og reyna að átta sig á stefnumörkun í málefnum bókaútgáfu og bókmennta sem og höfundarréttar.
Byrjum á byrjuninni. Bókaútgáfa er menningarstarfsemi sem byggir á markaðsstarfi. Tekjur bókaútgefenda verða til hjá endursöluaðilum. Venjulegt fólk kaupir bækur og les og gefur. Það er grundvöllur bókaútgáfunnar.
Ekkert markaðssvæði í heiminum er hins vegar nógu stórt eða nógu öflugt til að standa eitt og óstutt undir skáldskapariðkun eða fræðastarfi. Styrktarprógrömm fyrir rithöfunda eru hluti af opinberri menningastefnu flestra Evrópulanda eða svæða eða fylkja innan téðra landa, það sama á við um Bandaríkin og Japan. Norðurlöndin státa öll af mjög víðtæku og öflugu styrktarkerfi sem stendur á bak við fagurbókmenntahöfunda og fræðahöfunda og felst jafnt í starfslaunum, skyldukaupum á bókum fyrir bókasöfn, stuðningsáætlunum, styrktarsjóðum á sveitarstjórnarstigi og ótal öðrum leiðum sem nýttar eru til að þétta þjóðmenningu þessara landa, skapa kraft og örva sköpunarmátt í því skyni að styrkja menningarlega innviði og efla útgeislun þeirra á heimsvísu. Fyrir vikið er t.d. kynning norskra bókmennta á heimsvísu hluti af utanríkispóltík og bókmenntakynningarfólk þeirra fer með í opinberum heimsóknum menntamálaráðherra og jafnvel forsætisráðherra til ýmissa landa.
Helsta stuðningsapparat á Íslandi við bókmenninguna eru starfslaun rithöfunda. Fyrir kreppu lá fyrir að þau yrðu hækkuð, þ.e. fjölgað, en fjöldi þeirra hefur staðið í stað frá því á tíunda áratugnum og hefur leitt af sér "haglabyssustefnu" með fjölda smáúthlutana til að ná til breiðari hóps, sem raunar er ólögleg ef lagabókstafnum er fylgt í hörgul. Þessi smástyrkjastefna er það versta hugsanlega sem til er og er dæmi um reikandi stefnuleysi og vingulshátt, sem á sér uppruna í að starfslaunin eru of fá til að ná utan um mengi starfandi höfunda. Mjög ólíklegt verður að teljast að þessar hugmyndir nái í gegn óbreyttar við þessi skilyrði, en það er raunar nýrrar eða nýrra ríkisstjórnar eða ríkisstjórna að ákveða. Það er svolítið undarlegt að allan "góðæristímann" skuli ekki hafa verið gerð gangskör að leiðréttingu, og að hún skuli allt í einu hafa dottið inn árið 2008.
Annað óskiljanlegt atriði í 18 ára sögunni er að þótt að Sjálfstæðismenn réðu ráðuneytinu svo lengi var það ekki fyrr en eftir að ráðuneyti Geirs Haarde var myndað að lög voru sett sem tryggðu betur möguleika allra útgefenda til að selja grunnskólum námsbækur, aðallega að virðist vegna úrskurða Samkeppniseftirlits þar sem gerðar voru athugasemdir við starfshætti Námsgagnastofnunar. Þetta er ákaflega dularfullt og raunar algjörlega á skjön við stefnu flokksins. Allt mátti opna og einkavæða, bara ekki tryggja að útgefendur sætu við sama borð og ríkið í að selja grunnskólum námsögn. Það verða mér fróðari menn að skýra hverju þetta sætti.
Annað sem ég hef lengi klórað mér í kollinum yfir, er að aldrei hefur verið sett upp einhvers konar stefnumótun um bókmenningu sem markaði hvert bæri að fara og gerði þar með öllum ljóst hvernig best væri að verja opinberu fé til að ná markmiðum sem sannarlega væru skýr og almennt viðurkennd. Ein framfarasinnaðasta aðgerð í þágu íslenskrar bókmenningar í tíð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur var að steypa saman þremur sjóðum í einn bókmenntasjóð og búa þar með til grundvöll fyrir skilvirkari nýtingu fjármuna hins opinbera til að styrkja menningarlega innviði samfélagsins og auka hróður landsins - í senn utanríkispólitísk og menningarpólitísk aðgerð. En þessi aðgerð var upphaflega ekki að undirlagi ráðuneytisins, heldur var þrýst á um þetta af félögum útgefenda og rithöfunda.
Ráðuneytinu er síðan gert að setja undir útgjaldaliði hjá sér ýmsa styrki til bókaútgáfu sem komnir eru til vegna "sérstuðnings" ýmist fjárlaganefndar eða menntamálanefndar eða jafnvel vegna þrýstings einstakra þingmanna. Samanlagt eru þetta styrkir sem hafa numið um 30 til 40 milljónum á ári. Bókmenntasjóður sem er þó sannarlega þjónustustofnun fyrir utanríkispólitík og innanlandsstuðning er hins vegar með 50 milljónir til umráða. Bókmenntasjóður útdeilir fjármunum eftir fyrirfram skilgreindum leiðum, hann greiðir aðeins út styrki eftir að viðkomandi verkefni hafa verið leidd til lykta og krefst árangurs. Engar slíkar kvaðir eru hins vegar á sérverkefnunum. Þar með er ekki sagt að þau séu góð og gild, það er einfaldlega bara ekkert eftirlit með því að þau séu kláruð. Þannig eru ýmis verkefni sem hlotið hafa milljónastyrki í gegnum fjárlaganefnd og menntamálanefnd sem finna má undirliðum menntamálaráðuneytis í fjárlögum sem enginn hefur síðan heyrt minnst á. Þetta gerist þegar ekki er vitað hvert á að stefna.
Eitt af því ánægjulegasta sem maður hefur kynnst á valdatíð Sjálfstæðisflokks í menntamálaráðuneyti er að það hefur verið pólitískur vilji til að styrkja grundvöll bókmenningar, sjálfan lesturinn. Markmiðin, eins og þau við útgefendur höfum upplifað þau, hafa verið mjög bundin þeim skilgreindu mælikvörðum sem koma fram í PISA mælingunni og beinst að því að lyfta undir Ísland þar, sem er í raun það sama og öll lönd í mælingunni eru að reyna. Það þykir sannað að lesskilningur er ein mikilvægasta leiðin að auknum árangri í PISA mælingu. Mjög margir hafa áhuga á að bæta lesskilning og raunar er þetta efni sem geysilegur meðbyr er með í samfélaginu yfirleitt. Hins vegar er eins og samstilling þessara krafta sé ráðuneytinu ofviða, sökum takmarkaðs mannafla, takmarkaðs fjármagns og kannski vilja líka. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig ýmsum af þeim góðu hugmyndum sem eru á kreiki í ráðuneytinu um þessi efni reiðir nú af.
Ný ríkisstjórn mun hafa takmarkaðan tíma til að marka spor. En ef marka má orðróm mun þó setjast í stól menntamálaráðherra kona sem sjálfsagt þekkir betur til bókmenningar og stöðu hennar en nokkur ráðherra menntamála fyrr og síðar, meistari í íslenskum bókmenntum, Katrín Jakobsdóttir. Það verður forvitnilegt að sjá yfirlýsingar og stefnumörkun hennar og ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í málefnum bókmenningar, ritmenningar og útgáfu.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2009 | 17:03
Félag íslenskra bókaútgefenda 120 ára
Þann 12. janúar 1889 komu saman í miðbæ Reykjavíkur þeir þrír bóksalar bæjarins "sem helzt fást við að kosta bókaútgáfur" og stofnuðu félag til að koma dreifingu og sölu bóka á Íslandi í skipulagðan farveg. Þetta félag var þá kallað "Bóksalafélagið í Reykjavík" og stofnendurnir voru þeir Björn Jónsson (1846-1912), ritstjóri Ísafoldar, eigandi Ísafoldarprentsmiðju, bæjarfulltrúi og alþingismaður, Sigurður Kristjánsson (1854-1952) bóksali og Íslendingasagnaútgefandi og Sigfús Eymundsson (1837-1911) bóksali, bókaútgefandi, ljósmyndari og athafnamaður.
Þetta er sá félagsskapur sem nú nefnist Félag íslenskra bókaútgefenda og er því 120 ára í dag. Félagið starfaði mestmegnis að sömu markmiðunum í nærfellt hundrað ár, en á níunda áratug 20. aldar verða ýmsar breytingar í smásölu, svo sem að stórmarkaðir taka að selja bækur fyrir jólin, sem breyta forsendum þeirra viðskiptareglna sem félaginu var ætlað að vinna að. Þegar bókaverð er gefið frjálst um miðjan tíunda áratuginn gjörbreyttist eðli hinnar upphaflegu stofnskrár í einu vetfangi. Þá voru öll samtök útgefenda um skipulag bókamarkaðarins bönnuð og endanlega girt fyrir fyrirbæri á borð við "bóksöluleyfi" og samræmda verðskrá sem og samræmd viðskiptakjör og skilanefndir.
Árið 1889 skipti bókaútgefndur mestu að þeir sæju sér hag í því að gefa út bækur, að eitthvert lágmarksskipulag væri á bóksölunni til að hægt væri að starfa við útgáfu. Til þess var félagsskapur þeirra stofnaður. Nú hefur félagið miklu víðfemara hlutverk. Það er sameinaður vettvangur bókaútgefenda við að skapa bókaútgáfu, lestri og bókmenningu hagfellt umhverfi, efla lestrarmenningu og stuðla að því að útgáfa íslenskra hugverka sé arðbær atvinnuvegur þrátt fyrir smæð málsamfélagsins. Íslensk bókaútgáfa er ein af meginforsendum þess að íslensk tunga fær þrifist og sé tækur miðill fyrir hugmyndir, frásagnir og ljóð.
Menningararfur okkar er fyrst og síðast textar. Í þeim fáum við innsýn í stórt samhengi, flóknar hugmyndir, já, jafnvel fegurð, sem belgir sálirnar á okkur út svo okkur finnst við snerta hringi Satúrnusar og fylgihnetti Júpíters. Á næsta ári verða 470 ár liðin síðan fyrsta prentaða bókin kom út á Íslandi. Við sem gefum út bækur í dag erum í raun ekkert að gera neitt mikið flóknara en það sem fyrsti bókaútgefandinn, Oddur Gottskálksson fékk prentara í Hróarskeldu til að hjálpa sér við: Fjöldaframleiða texta sem er bundinn í spjöld og settur á markað. Það er eitthvað dásamlega fallegt við þá sögulegu samfellu.
Þegar gengið er framhjá brunarústunum í miðbænum þar sem heimili, forlag og verslun Sigfúsar Eymunssonar, fyrsta formanns Félags bókaútgefenda stóð, er gott að hugsa til frumherjans og félaga hans. Stofnendur félagsins voru nefnilega allir einbeittir í útgáfustarfi sínu, gallharðir og óþreytandi í að koma bókum til almennings með öllum ráðum.
Bækur | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2009 | 10:20
Íslenskar bókmenntir í alþjóðlegu samhengi
Í Fréttablaðinu sunnudaginn 4. janúar var frétt um þann mikla fjölda réttindasölusamninga íslenskra bóka sem gerðir voru á síðasta ári. Þessar tölur eru í samræmi við þann stöðuga stíganda sem hefur verið í sölu útgáfu- og þýðingaréttinda íslenskra bóka á unanförnum árum. Í kjölfarið hafa einnig verið gerðir samningar um ýmis afleidd réttindi, svo sem hljóðbókaútgáfur, rafbókaútgáfur, kvikmyndaréttindi og sérútgáfur ýmiss konar.
Margir sjá miklum ofsjónum yfir þeim miklu fjármunum sem komi í kassann vegna þessara samninga. Ég hef oft sagt þá sögu að einn af bryndrekum útrásarinnar átti ekki orð af hneykslun yfir þeim upphæðum sem til umræðu eru þegar hann innti okkur hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda eftir þeim fyrir nokkrum árum. Nú er landslagið náttúrlega breytt, hver evra eða dollari skiptir allt í einu máli og enginn þykist lengur geta sett sig á svo háan hest að hneykslast á því hve tugir milljóna eru mikil smámynt. Staðreyndin er að íslenskt höfundasamfélag munar um þessa innkomu, einfaldlega vegna þess að tekjumöguleikar á heimavelli eru og verða alltaf takmarkaðir, jafnvel liðið góðæri breytti ekki miklu um tekjumynstur eða afkomu íslenskra rithöfunda, öfugt til dæmis við myndlistarmenn. Það er líka staðreynd að flestir ábatasömustu samningarnir eru til komnir vegna sölu á þýðingar- eða útgáfuréttindum íslenskra sakamálasagna. Sakamálasögur Íslendinga eru verðmætasta varan á alþjóðlegum réttindamarkaði og hafa verið það nánast alla þessa öld. Það sama gildir um önnur Norðurlönd.
Stærsti ávinningurinn og sá sem meira skiptir til langframa er þó ekki bundinn upphæðunum sem um ræðir. Hann er að íslensk bókmenning, íslenskar sögur, eru hluti af alþjóðlegum bókmenntamarkaði. Því miður hefur aldrei verið unnin nógu djúp rannsókn á því hvaða áhrif það hefur til að mynda haft á ímynd Íslands að milljónir eintaka íslenskra bóka í þýðingum eru þessi árin í umferð á meginlandi Evrópu, einkum á þýska málsvæðinu. Við vitum því í raun mest lítið um mikilvægi þess fyrir sértæk áhugamál okkar hér heima, svo sem "hver við erum", "ímynd Íslands" og annað sem við veltum fyrir okkur af meiri þunga nú en oft áður þegar landið hefur svo mánuðum skiptir verið útsett fyrir flóði greina og frétta sem allar fjalla á neikvæðan hátt um skipbrot íslensks fjármálakerfis og að stjórnvöldum og stofnunum mistókst að takast á við hrunið með röggsemi og festu.
Fjöldi réttindasamninga undirstrikar einnig að íslenska bókabransanum hefur auðnast að byggja upp þekkingu og hæfni til að flytja út íslensk hugverk. Slíkt er á engan hátt sjálfgefið og útheimtir langtímahugsun, úthald og elju. Þetta starf hefur verið unnið fyrst og fremst af einkafyrirtækjum, eintstaklingum með áhuga og eldmóð, sem lærðu af gagnvirki réttindasölu eins og hún hefur farið fram í hinum "siðaða" heimi síðan á 19. öld. Þessi lögfræðilegi og viðskiptalegi grundvöllur bókmenntaútbreiðslu er alltof oft hafður líkt og í sviga, rætt er um þýðingar og samskipti bókmenntakerfa eins og það séu fyrst og fremst ákvarðanir þýðenda sem ráði því hverju sinni hvernig slíkt fer fram. Það gleymist alltof oft að miðlun bókmennta hefst sem viðskiptasamningur og byggir á markaðsvinnu og sölustarfi.
Það er gríðarlega margt ógert í vinnunni við að útbreiða íslenska bókmenningu. Enn er enginn formlegur samstarfsgrundvöllur milli utanríkisráðuneytis, bókmenntasjóðs og réttindasölufólks forlaganna sem og útflutningsráðs. Stofnun og styrking bókmenntasjóðs árið 2007 var stórt skref framávið til að búa til grundvöll að útfluningsstoð fyrir íslenska bókmenningu en ekki síst sú ákvörðun stjórnvalda að sækja um að Ísland verði heiðursgestur bókamessunnar í Frankfurt 2011. Það er nú ljóst að þrátt fyrir að kreppi að um þessar mundir verður ekki hætt við það verkefni, enda sjálfsagt fátt heimskulegra í vitrænni uppbyggingu þjóðarímyndar sem stendur á raunverulegum grunni en ekki óskhyggju. Á þeim vettvangi mun verða til mikil reynsla, sambönd og starfsemi sem mun nýtast til framtíðar. Þegar eru risaverkefni komin af stað á borð við nýja þýðingu Íslendinga sagna á þýsku og framundan er mikið kynningarstarf á íslenskum höfundum og íslenskri bókmenningu.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)