Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
26.8.2008 | 14:13
Níve í Kyrrahafi
Einhver sagði mér að sérstök bloggsíða hefði verið stofnuð til höfuðs málvillum og ambögum á mbl.is. Það er rosalega leiðinlegt að vera nöldrari en ég ákaflega erfitt með að sjá enska stafsetningu á Kyrrahafsríkjum, vegna þess að okkur ber að venja okkur á að rita nöfn þessara ríkja, sem eiga það sameiginlegt með okkur að vera eyríki, upp á íslenska venju.
Niue heitir Níve á íslensku í leiðbeinandi lista utanríkisráðuneyti og íslenskrar málnefndar. Ég vona svo að menn hætti líka að skrifa Palau í staðinn fyrir Palá, Tokelau í staðinn fyrir Tokelá, Tuvalu í staðinn fyrir Túvalú og svo framvegis. Þess ber að geta að helsta útflutningsafurð síðastnefnda landsins er lénið tv. Niue er raunar ekki alveg sjálfstætt því það er sjálfsstjórnarsvæði undir vernd Nýja-Sjálands.
En það er ánægjulegt að börn þessa fátæka lands sem er rúið öllum sínum náttúruverðmætum vegna þess að þeim var mokað burt af námufyrirtækjum án þess að nokkuð sæti eftir annað en "afleidd störf" fái nú tækniaðstoð.
Öll börn á Niue fá fartölvu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2008 | 23:45
Sonur Framþróunarinnar Miklu
Það besta við stöðugt flakk milli borgarhluta á skólaárum mínum var að á hverju ári blasti við ný sýn á Reykjavík. Einn veturinn gekk ég hvern dag fram á hæðarbrúnina austan við Háaleitisbraut þaðan sem Elliðaárdalur, slakkarnir upp af honum og fjöllin í austri og norðri, blasa við manni í mo<rgundýrðinni eins og mikilúðleg fyrirheit um að lífið nemi ekki staðar á Grensásvegi.
Í froststillum að hausti þegar bílaraðirnar neðan úr Árbæ, Mosó, Breiðholti og hinu nýtilkomna Grafarvogshverfi strengdu sitt band eftir Miklubrautinni í morgunsólinni, sá maður gufumekki frá nýjasta orkuundri Íslendinga við sjónhring, hvítar súlur úr holum Nesjavalla sem enginn Íslendingur - að mig minnir, en minnið blekkir - sá nokkurn meinbug á að væru boraðar. Almenningur fylgdist spenntur með byggingu þessa mannvirkis og lagningu hinnar miklu hitaleiðslu frá virkjun til borgar og skynjaði þar þytinn af framskriði tímans. Þetta var líka á einu þessara blessuðu bjartsýnisskeiða sem þessu landi eru sendar við og við af forsjóninni til þess að espa óhlýðugan vinnulýðinn með fyrirheitum um stórt heljarhopp upp í betra stand, aðeins til að fá síðan aftur á sig eitt heljarstraff fyrir dreissugheitin. Hvítar gufusúlur voru þá um stundir sérlegur bendifingur þess að þjóðfélagið kæmist kannski lengra en að Grensásvegi.
Þegar ég átti leið fyrir skemmstu um Fellsmúla árla dags þótti mér sem ég lifði aftur þessa haustmorgna fyrir um tuttugu árum. Nema að nú sá ég ekki fjarlæg reykmerki handan við Hengil - sem frá þessum stað líkist einna mest stórum hundi sem liggur fram á lappir sér - heldur stóð heil breiðsíða gufustróka þráðbeint í loft upp við sjónrönd, líkast því sem tröllauknir varðmenn stæðu vakt um borgríkið. Þessi hvítu gufusverð hafa nú í rétt fimm ár klofið austurhimininn, ýmist mörg eða fá eftir hentugleikum bormanna og Orkuveitu Reykjavíkur. Manni finnst að það hafi verið í gær að borflokkur sló upp búðum neðan við Víkingsskálann í Sleggjubeinsskarði þar sem hlíðin angaði eitt sinn öll af brennisteini og gufum, en þegar ég heimsótti þær gömlu slóðir fyrir skemmstu voru umbreytingarnar meiri en mig grunaði, og það aðeins á örfáum árum.
Orkuver er nú þarna til húsa í risastórum kassa sem nýútskrifaður tæknifræðingur virðist hafa rissað upp við eldhúsborðið á laugardagssíðdegi yfir einum köldum. Horfinn er metnaðurinn sem lyftir til að mynda orkuhofinu Svartsengi yfir teknókratíska meðalmennskuna. Leiðslur liggja í krókum um landið eins og ormar sem hafa lognast útaf í turnstiga og þrátt fyrir þrábeiðni margra, meðal annars Landverndar, um að þær verði felldar betur inn í umhverfið, virðist sem tuddaleg þrákelkni sé helsti Þrándur í Götu þess að nýting hinnar grænu ofurorku sem heimurinn hrópar á sé í raunverulegri sátt við umhverfið. Hellisheiðarvirkjun er fagurfræðilegt skrímsli sem virðist beinlínis byggt til að storka öllum málamiðlunum. Hvers vegna er manni fullkomlega óljóst, því kostnaðarrökin, jafn falleg og þau virðast í bankanum, fölna fljótt þegar orkuverin eru sett í ímyndarlegt samhengi. Það er eitthvað alveg óendanlega skakkt að byggja grænt orkuver og storka í leiðinni öllum hugmyndum um sátt við umhverfið.
Fjársjóðirnir undir Hellisheiði og Hengli hafa verið á valdi ótrúlegrar atburðarásar undanfarið ár. Þeir sem bera hag heildarinnar helst fyrir brjósti, ekki hvað síst ritstjóri Fréttablaðsins, fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, kölluðu ákaft eftir því að fundin yrði pólitísk lausn á málefnum Reykjavíkurborgar hið fyrsta svo hægt verði að moka upp gullinu af heiðunum: Með almannahagsmuni að leiðarljósi. Þeir hafa nú verið bænheyrðir. Sömu kröfu gerir Þorsteinn einnig til ríkisstjórnarinnar. Hún verði með almannahagsmuni að leiðarljósi að beita sér fyrir nýtingu jarðhitans norður í Gjástykki og í Fremrinámum. Hann er samstiga norðlenskum grátkörlum í því að harma þá einföldu staðreynd að nýverið ákvað umhverfisráðherra að fylgja lögum en ekki iðnvæðingardraumum og fara fram á heildstætt mat á umhverfisáhrifum orkuvinnslu, línulagningar og byggingu stórrar verksmiðju í Suður-Þingeyjarsýslu. Líkt og fjármálalífið talar Þorsteinn um að nú sé þörf á risaskrefum í orkunýtingu hérlendis til að sporna gegn kaupmáttarrýrnun og gjaldmiðilsveiklun. Hefði þetta verið uppi fyrir tuttugu árum síðan held ég að fáir hefðu orðið til andmæla. Nú tala menn hins vegar með mælskufræðilegum þrótti um hvítagullsvinnsluna því yfir öllu hangir Demóklesarsverð almenningsálitsins: Enn hefur engin ný skoðanakönnun hrakið þá frá í vetur sem sagði að meirihluti Íslendinga vildi fara sér hægt í orkuvinnslumálum. Nú þarf að fanga sálir.
En hvorki Þorsteinn Pálsson né bankastjórar Landsbanka og Glitnis eru sérstakir ástríðuberserkir. Þeir eru menn hinnar hófsömu röksemdafærslu nauðhyggjunnar sem gefst vel á sinn rúðustrikaða hátt þegar hún segir: Þetta er eina leiðin, hana verðum við að ganga. Eldheitasti iðnvæðingar- og orkunýtingarsinni landsins er nefnilega ekki úr þessari sveit, heldur er hann samflokksmaður umhverfisráðherra. Léttsvæfi urriðadansarinn Össur Skarphéðinsson stakk á einni viku í tvígang niður penna til að rissa upp stóru drættina í draumsýn sinni um Iðnríkið Ísland. Hann hitaði upp í Morgunblaðinu miðvikudaginn 6. ágúst, eyddi að mestu púðrinu í að skamma forstjóra og fjármálamenn fyrir aumingjaskap og vælukjóahátt, sem virðist raunar vera í tísku hjá ríkisstjórninni þessar vikurnar, einhvers konar samræmdar smjörklípuaðgerðir til að beina andlitum burt frá aðgerðarleysisstefnunni", en sýndi svo að til væru menn sem hugsuðu stórt: hann sjálfur.
Í Fréttablaðinu sunnudaginn 10. ágúst var svo hleypt af Stóru Bertu. Eftir lesturinn duldist engum að ef Össur fær einhverju að ráða verða slík stórkostleg umskipti í atvinnusögu Íslendinga á næstu misserum að líkja má við upphaf vélbátaútgerðar eða komu fyrsta togarans. Raunar hefur farið furðu hljótt um þau miklu tíðindi sem ráðherrann flytur í Fréttablaðsgrein sinni, sem virtist raunar hafa verið skrifuð í kaffiboði með Þorsteini Pálssyni, nema hvað eriftt er að sjá fyrir sér að nokkur annar en ráðherrann geti haft jafn ríkulega á tilfinningunni að hann sé handbendi sögunnar í stórstökki hennar framávið. Stundum er sagt að það sé þroskamerki á stórum stjórnmálahreyfingum að þar séu uppi mörg og margvísleg sjónarmið, en bókstafurinn talar sínu máli. Grein Össurar er á eins öndverðum meiði við málflutning hins umhverfissinnaða arms Samfylkingar og hugsast getur. Ekkert nema æsilegt ímyndunarafl getur skipað þeim Dofra Hermannssyni eða Þórunni Sveinbjarnardóttur undir sama stjórnmálahátt og rúmar þann sem brosir feimnislega til fögru dísarinnar Sögu á höfundarmyndinni í Fréttablaðinu.
Hvítagullið í heiðinni og í óbyggðum Fremrináma og Þeistareykja er slíkt verðmæti á heimsvísu að ólíðandi er að grípa ekki tækifærin undir eins. Jafnvel umdeildar framkvæmdir sem fjölmiðlar höfðu fjallað gagnrýnið um dagana á undan eins og línulagningin frá Blöndu til Akureyrar sem þeir í framsveitum Skagafjarðar eru á móti af smekkvísinni einni saman - tilfinning sem virðist hafa hlaupið undan Syni Framþróunarinnar Miklu - verða í penna ráðherra að meiriháttar snarræðisákvörðunum sem hann persónulega virðist hafa tekið til að hjálpa hinu stóra hjóli tímans. Hvarvetna, í hverjum landshluta, já í hverjum firði nánast, starfar hin styrka hönd iðnaðarráðuneytis og henni þóknanlegra stofnana að því að veita framþróuninni brautargengi og alls staðar vakir ráðherrann yfir, sífellt íhugandi hvernig börn þessa fátæka lands geti séð sér og sínum sem frekast farborða í viðsjárverðum heimi.
Kreppan er heillandi tími. Hún er tími íhugunar og endurmats, tími ímyndunaraflsins. En forsjónin forði okkur frá fimm ára áætlunum, nauðhyggjulegum neyðaráætlunum, og stjórnsömum ráðamönnum sem sjá slíka tíma sem gullið tækifæri til að skilja heiminn eftir fullan af kössum og ormum handa börnum okkar að bölva yfir.
(Birt í Lesbók Morgunblaðsins 16.08.2008)
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2008 | 14:20
Steinunn Sigurðardóttir og Forlagið
Fyrir réttu ári síðan var tilkynnt að JPV útgáfa og útgáfuhluti Eddu útgáfu hf. myndu sameinast undir merkjum Forlagsins. Í ljósi þróunar efnahagsmála er ekki nokkur vafi á að þetta var giftusamleg ákvörðun sem tryggði stærstu bókaútgáfu landsins nauðsynlegan styrk á komandi óróaárum. Samruninn var að endingu samþykktur af Samkeppniseftirliti með skilyrðum eða sátt sem gerð var milli eftirlits og félags og er um margt furðulegur gjörningur en tryggir Forlaginu mikilvægan starfsfrið. Eitt af því sem þar er tíundað sem ástæða fyrir inngripi Samkeppniseftirlits er að Forlagið ráði "höfundamarkaðnum" á Íslandi, þar sem svo stór hluti íslenkra rithöfunda gefi þar út og því sé samkeppni um höfunda ekki nægilega virk. Fyrir vikið var Forlaginu meinað að gera það sem nánast aldrei er gert í íslenskri útgáfu: að gera samninga fram í tímann, að binda óskrifuð og óútkomin verk samningum við ákveðna útgáfu.
Frétt Morgunblaðsins frá í morgun um að Steinunn Sigurðardóttir sé ekki lengur meðal höfunda Forlagsins er því í raun ekki-frétt. Ekkert bindur Steinunni Sigurðardóttur, né raunar nokkurn annan höfund Forlagsins, neinum böndum við fyrirtækið, liggi ekki beinlínis fyrir samningar um næstu útgáfuverk. Það er beinlínis bannað. Einu böndin eru þau sem segja má að séu tilfinningalegs eðlis, eða að viðkomandi höfundar telja að fyrirliggjandi útgáfusamningar, þ.e. samningar sem ef til vill voru gerðir við Mál og menningu og Eddu, séu áfram vel komnir í safni Forlagsins og því sé rétt að það forvalti útgefin verk þeirra frá síðustu 7 árum og oftast raunar lengur, eins og kveðið er á um í samningsumgjörð sem Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda halda sig við og notuð er í nær öllum útgáfusamningum á Íslandi.
Þar þarf svo sem ekki að liggja fyrir neitt sérstakt "traust" milli manna, heldur einfaldur trúnaður á að báðir aðilar hagnist á sambandi sínu. Útgáfusamningasafn Forlagsins er svo gríðarlega víðtækt að gera má því skóna að mörg hundruð aðilar standi í slíku hagsmunasambandi við útgáfuna, höfundar, listamenn, ljósmyndarar og þýðendur, og uni því einfaldlega vel. Sem dæmi má taka höfund kennslubókar, til dæmis í stærðfræði eða dönsku sem samdi námsbók sem kom upphaflega út hjá Máli og menningu, Iðunni eða Vöku-Helgafelli, hefur síðan verið endurskoðuð hjá Eddu og er nú í höndum Forlagsins. Engum dettur í hug að segja þar: Á milli okkar ríkir ekkert traust, við erum skilin skiptum. Bókin er einfaldlega á markaði. Báðir aðilar hagnast og málið dautt. Síðan er gríðarlegur fjöldi útgáfusamninga sem gerðir voru fyrir bækur sem löngu eru dottnar út af markaði, hanga kannski enn inni á bókamörkuðum, en hreyfðust ekki eftir að jólavertíðinni 1998 eða 2001 lauk. Þar er heldur hvorki vantraust né traust á ferðinni, heldur einfaldur skilningur á að málum verði hvorki betur né verr komið eins og þau eru. Forlagið heldur áfram að senda yfirlit yfir seld eintök hvert ár. Stendur í skilum. Enginn getur ætlast til meiri hetjudáðar af útgáfufyrirtæki en að það haldi áfram að selja þá vöru sem það hefur í höndunum. Það er frumskilda útgáfunnar og ekkert tilfinningalegt við það.
Í raun er Steinunn Sigurðardóttir á sama báti og höfundur kennslubókar í dönsku sem kom út fyrir 10 ti 15 árum og síðan aftur endurskoðuð fyrir fimm. Enginn formlegur gjörningur liggur fyrir sem treystir bönd hennar við Forlagið til framtíðar, sérstaklega vegna þess að verk hennar áður útgefin, fylgdu með í kaupunum, enginn er skyldugur að spyrja höfunda um leyfi fyrir því að selja útgáfufyrirtækið sem gerði upphaflegan útgáfusamning við þá. Forlagið getur sagt: Við viljum selja bakklistann til þess sem hugsanlega vill gefa út verk hennar í framtíðinni, en það er ekki hægt að neyða neinn til að kaupa það sem hann ekki vill. Hér er því á ferðinni yfirlýsing frá Forlaginu og útgefenda þess um að hann vilji einfaldlega ekki gefa út verk Steinunnar Sigurðardóttur í framtíðinni. Ég minnist þess ekki að slíkt hafi áður heyrst í íslenskri bókaútgáfu, svona opinberlega. Jóhann Páll Valdimarsson er hressandi hreinskilinn í viðtalinu og teiknar mjög skýrt upp afstöðu útgefanda í þessari samningsaðstöðu. Einhver myndi jafnvel segja að hann sé hryssingslegur, því Steinunn Sigurðardóttir er að sönnu einn virtasti rithöfundar þjóðarinnar, hefur hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin og fengið mikla útbreiðslu, frábærar viðtökur og er lesin vítt og breitt. En það breytir því ekki að kannski vakna íslenskir rithöfundar nú upp við þann veruleika að forlögin eru að laga sig að kreppunni. Þau bítast ekki lengur um höfunda. Samkeppni um táknrænt kapítal þeirra er ekki sú sama og fyrir nokkrum árum. Útgefandinn hefur þær skyldur einar að reka sitt fyrirtæki sem best og standa heill með sínum ákvörðunum. Hann hefur ekki einhverjar sérstakar skyldur við íslenska rithöfunda, eins og mér heyrist stundum rithöfundar halda fram. Sú fjárhagslega og listræna áhætta sem útgefandinn tekur er alfarið hans og þá velur hann sér þá á skipið sem honum sýnist.
En hvað sem því liður mun Steinunn Sigurðardóttir halda áfram að skrifa og gleðja okkur með sínum mögnuðu verkum. Á því er enginn vafi.
Bækur | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2008 | 23:07
Til hamingju Sigurgeir!
Tilnefningar til Myndstefsverðlauna í ár voru margar og góðar. Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur fengu tilnefningar fyrir dagatölin sín og Eggert Pétursson fékk tilnefningu fyrir myndirnar sínar. Tilviljunin hagar því til að Snæfríð hannar nú hina stórkostlegu (þótt ég segi sjálfur frá) risaútgáfu á Flóruteikningum Eggerts sem útgáfan okkar Snæbjörns Arngrímssonar, Crymogea, gefur út fyrir jólin. Þessi hátíðarútgáfa verður frómt frá sagt ein glæsilegasta bók sem komið hefur út hér um slóðir, sem segir allt sem segja þarf um snilli Eggerts og Snæfríðar.
En þau fengu ekki Myndstefsverðlaunin, heldur Sigurgeir Sigurjónsson. Yfir því er ég hoppandi kátur, sem um leið er fremur sjálfhverf tilfinning því ég hef átt áralangt samstarf við Sigurgeir og samdi textann í síðustu bók hans, Hestar. Manni finnst hann sannarlega eiga viðurkenningu skilið og að raunar hafi oft verið of hljótt um þennan hægláta snilling. Um leið lyftir viðurkenningin íslenskri ljósmyndun almennt. Við eigum nokkra stórbrotna ljósmyndara sem hafa haft miklu meiri áhrif á ímynd Íslands, viðhorf okkar til lands og umhverfisins en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Sigurgeir hefur bara færst í aukana á síðustu árum, til að mynda var sýningin hans hjá Gunnar Erni sáluga í Gallerí Kambi haustið 2007 dæmi um endurnýjun hans og sköpunarkraft. Kraftmiklar myndir frá Kúbu sem sýndu veruleika ferðalangsins og súbjektíva sýn hans fremur en það sem áhorfandinn býst við þegar hann heyrir Kúbu nefnda. Háleitar loftmyndir af Íslandi sem sameinðu óhlutbunda myndsýn og vísindalega nákvæmni sem sett var fram með klassískri myndbyggingu. Í þeirri miklu bylgju loftmyndatöku sem farið hefur um ljósmyndaheiminn á undanförnum árum fannst mér Sigurgeir hafa strax hitt á persónulegan tón og náð sínum sérstöku tökum á loftmyndatökunum.
Á engan er hallað þegar sagt er að Sigurgeir er vinsælasti ljósmyndari sem þetta land hefur alið. Enginn íslenskur ljósmyndari hefur hlotið jafn gríðarlega útbreiðslu á heimsvísu og hann með bókum sínum. Í heiminum eru nú til hátt á hálfa milljón eintaka af bókum eftir hann, það er mikið "by any standards". Ég man vel þegar ég hitti hann fyrst í kjallaranum við Hverfisgötu þar sem nú er Alþjóðahúsið. Erindið var að segja honum að ég hefði tekið við útgáfustjórn Forlagsins ásamt Árna Einarssyni í ársbyrjun 2000. Hann var þá þegar orðinn einn styrkasti stólpinn í íslenskri ljósmyndaútgáfu. Stórvirkið Íslandslag hafði markað tímamót í útgáfu á landslagsljósmyndabókum var þá búin að vera á markaði í 8 ár og gengið glæsilega. Íslandslag hafði gríðarleg áhrif á ímynd Íslands erlendis. Þar teiknaði Sigurgeir í raun upp mótvífabanka Íslands fyrir metnaðarfulla áhugaljósmyndara í ferðamannastétt. Ótrúlega margir ferðuðust um landið með bókina undir handleggnum og reyndu sig við sömu staði og Sigurgeir. Litla bókin Ísland landið hlýja í norðri með texta Torfa Tuliniusar um íslenska menningu og náttúru var þá þegar orðin stöndug sölubók og búin að vera á markaði í 6 ár. Hún er enn í fullri sölu og er sú ljósmyndabók um Ísland sem nú er til á flestum tungumálum. Það er merkilegt að bók standist svo vel tímans tönn að hún sé á markaði samfleytt í 14 ár og sé allan tímann í góðri sölu.
En þegar ég hitti Sigurgeir þarna í ársbyrjun 2000 sagðist hann ekki vera með hugann við að gera bók í bráð. Hann hafði þá nýverið sent frá sér seríu af þremur litlum bókum um náttúru Íslands, fossa og Reykjavík sem nú er að mestu horfin af markaði. Rúmlega ári síðar settumst við Vicky Cribb, ferðabókaritstjóri Eddu, hins vegar niður með honum og hann sýndi okkur handritið að Lost in Iceland. Það sló okkur strax vel, en það sem gerði útslagið var kápan, hún var allt öðru vísi en maður var vanur að sjá. Svört, svolítið drungaleg og mystísk og sendi allt önnur skilaboð en vaninn hafði verið í bókum af þessu tagi. Fæðingin gekk nokkuð stirðlega vorið 2002, sem helgaðist einkum af eigendaskiptum sem þá stóðu yfir hjá Eddu útgáfu, en á endanum tókst að prenta fyrsta upplagið og það kom út í júni 2002. Tveimur vikum síðar var Lost in Iceland efst á metsölulista Pennans. Í árslok höfðu selst um 9.000 eintök af bókinni á ensku, íslensku og þýsku. Árið eftir kom svo frönsk útgáfa og síðan þá hefur árlega selst svipaður fjöldi eintaka, rétt um 9.000. Sigurgeir er margfaldur metsöluhöfundur, en árlega seljast um 15.-20.000 eintök af bókum hans. Stóran þátt í velgengninni átti Elísabet Anna Cochran, hönnuðurinn sem setti upp svo sniðuglega kápumyndina með þessum ágenga titli.
Annað ævintýri var síðan útgáfa Íslendinga sem Sigurgeir gerði með Unni Jökulsdóttur árið 2004 og sýning með myndum úr bókinni á Austurvelli. Halldór Blöndal, þá forseti Alþingis, hamaðist gegn sýningunni sem og annarri sýningu árið eftir með myndum Ragnars Axelssonar á sama stað, og megi hans skömm ævarandi vera uppi. Það virðist sem æskilegra sé að blindfullt fólk velti um grasið á Austurvelli og æli og öskri á vegfarendur en að þar séu sýnar ljósmyndir til að gleðja og prýða. Þetta voru eintóm vandræði og hefði ekki þáverandi borgarstjóri, Þórólfur Árnason og þær Höfuðborgarstofuskvísur Sif og Svanhildur bakkað þetta upp, hefði þetta líklegast aldrei orðið að veruleika. En Íslendingar slógu í gegn og sýningin varð geysivinsæl. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og varð að metsölubók, miklu vinsælli en bækur með landslagsljósmyndum almennt verða.
Síðan komu Found in Iceland, sjáfsagt glæsilegasta bók Sigurgeirs hingað til og ákveðin niðurstaða af ferli hans sem landslagsljósmyndara um leið og hún sýndi upphaf loftmyndatökunnar. Made in Iceland er nútímaleg bók um Ísland, fersk og framsækin bók sem enn og aftur nýtur þess að góður hönnuður, Lizzie, sem hannað hefur allar síðustu bækur Sigurgeirs, gerir gott efni enn betra og býr það í hendur bókakaupenda.
Ég er sjálfur ákaflega stoltur af því að hafa fengið tækifæri til að skrifa um hestamennsku í nýjustu bók Sigurgeirs, Hestar, sem kom út nú í sumar. Fyrsta stóra ljósmyndabók Sigurgeirs hét sama nafni og kom út árið 1985. Hún er löngu ófánleg en heimildagildi hennar um hestamennsku á tímamótum í upphafi níunda áratugarins og í lok þess áttunda er ómetanlegt. Ég er sérstaklega hrifinn af myndasyrpunni úr Laufskálarétt sem sýnir stóðréttir eins og þær voru hér einu sinni, ekkert nema hross og fáeinir stóðbændur. Hestamyndir eins og þær eru settar fram í fagblöðum og fagbókum eru miðaðar við að sýna hesta eins og hestamenn vilja sjá þá og þá gleymist fagurfræðin. Andi hestamennskunnar, þessi ólýsanlegi andlegi strengur sem bindur mann við skepnuna, frjálsræðið og hið draumkennda sem býr í að sjá stælt hross hreyfa sig undir knapa eða í haga, allt þetta vill hverfa þegar ráðunautamyndatæknin er í algleymi. Sigurgeir er óhræddur við að taka myndir af smáatriðum og hrossum í öllum aðstæðum, oft mjög skrítnum. Fyrir vikið nær hann líka tengslum við þá sem ekki eru hrossafólk, það skynjar hvað býr í þessum skepnum og umgengninni við þær.
Myndstefsverðlaunin eru mikil lyftistöng fyrir íslenska ljósmyndun. Til hamingju Sigurgeir!
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2008 | 23:26
Magnaður lestur
Ég lauk við að lesa handrit í gærkvöldi. Venjulega blaðrar maður ekki um svoleiðis en ég get ekki orða bundist. Þetta var nútímalegasta íslenska skáldsaga sem ég hef lesið um langa hríð. Mér fannst aftur eins og íslenskar bókmenntir væru í sambandi við samtímann og næðu að gera honum betri skil en pistlahöfundar, vísindamenn og bloggarar. Þar sem þetta er ekki auglýsing um væntanlega jólabók, heldur einfalt fagnaðarandvarp yfir því að enn skuli vera skrifaður alvöru skáldskapur á Íslandi, óþægilegur, harðneskjulegur og fallegur skáldskapur um þessa furðulegu tíma, treysti ég mér eiginlega ekki til að segja hvaða höfundur þetta var.
En hann er fæddur á ofanverðum áttunda áratug síðustu aldar, hóf feril sinn sem ljóðskáld og hefur skrifað nokkrar skáldsögur. Honum hefur verið hampað, en í raun var allt sem hann gerði tilhlaup að þessu sem hann tilreiðir nú. Ég hélt að hann væri að breytast í tamið lukkudýr yngstu skáldakynslóðarinnar en nú slítur hann taumana og rásar fram eins og óður kappreiðahestur.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)