Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
25.8.2007 | 13:36
Skiptir eignarhald lesendur máli?
Áfram heldur söluferli og sundurbútun Eddu útgáfu hf. og nýjustu vendingar eru að félagsráð Máls og menningar hefur nú samþykkt að hjóla í kaupin á útgáfuhluta Eddunnar. Heimildir greina að stemmningin hafi verið létt á fundinum og góður rómur gerður að þessari tillögu, enda nokkrir þar á bekk sem töldu krullið við stórkapítalistann Björgólf Guðmundsson hreina ósvinnu, í skásta falli illan biðleik. Þar með hefur stjórn Máls og menningar heimild til að ganga í málin. Náist ásættanlegt verð fyrir einu eign Máls og menningar, um 1000 fermetra að Laugavegi 18, er ljóst að ekkert er í veginum fyrir að þetta gangi eftir og að í jólaslagnum í ár verði það Mál og menning sem tefli fram sinni breiðsíðu, frjáls og frí undan kapítalinu. Mál og menning verður þá langstærsta útgáfufyrirtæki landsins, með næstum milljarð í veltu, rétt helmingi stærri en næst stærsta útgáfufyrirtæki landsins, Námsgagnastofnun, og ríflega helmingi stærri en næst stærsta útgáfufyriræki á neyslumarkaði, JPV.
Margir, ólíklegasta fólk raunar, hefur spurt mig að undanförnu hver eigi eiginlega Mál og menningu. Annars vegar finnst fólki það einfaldlega óþægilega óljóst hver ráði nú stærstu bókaútgáfu landsins og raunar megninu af útgáfusögu síðustu 70 ára, en hins vegar hafa einkavæðingar og athafnamannahoss orðið til þess að fólk er orðið samdauna eignarréttarsífrinu. Það verður alltaf einhver að eiga allt. En einmitt vegna þess að samfélagið hefur tekið stórstígum framförum í kapítalískum hugsunarhætti er þessi spurning fullkomlega lögmæt. Ég get ekki svarað þessari spurningu til fulls, til þess brestur mig einfaldlega þekkingu. En eftir því sem mér skilst er þetta einhvern veginn svona:
Mál og menning-Heimskringla ehf. er félag sem stofnað var eftir sameiningu Máls og menningar og Vöku-Helgafells árið 2000 og fer með eignarhluta Máls og menningar í félaginu. Þetta félag kaupir nú útgáfuhluta Eddu útgáfu hf. og endurvekur þar með í raun gömlu Mál og menningu. Eini tilgangur þessa félags er rekstur eignarhaldsfélaga, s.s. utanumhald um eignarhlutinn í Eddu og húseignina að Laugavegi 18. Utan um rekstur húseignarinnar Laugavegur 18 er síðan annað félag, gamalt og gróið, sem er Vegamót ehf. sem væntanlega hefur þjónað sínu hlutverki eftir sölu húseignarinnar. Síðan er gamla félagið, Bókmenntafélagið Mál og menning, sem er hið gamla bjarg. Þar er æðsta stofnunin einskonar kaupfélagsstjórn, félagsráð, sem félagar í félagsráði kjósa sjálfir í eftir að mælt hefur verið með einhverjum góðum í stað hinna. Þessi stofnun hafði í upphafi það hlutverk að halda utan um pólitísku línuna í hinu sósíalíska útgáfufélagi og auðvitað eymir enn eftir af því. Það er ástæða fyrir að Björgólfur hikar við að selja AB í hendurnar á kommunum, þótt sósíalistarnir í MM hafi orðið að kyngja því að HHG notaði Laugaveg 18 sem gólfteppi þegar hann smurði þar ganga með rjóma Sjálfstæðisflokksins hér um árið. Félagsráð hefur svo skipað stjórn og það er raunar þessi stjórn sem öllu ræður, þar var stjórnarformaður Þröstur Ólafsson en er nú frá með gærdeginum forstjóri Eddu útgáfu hf., Árni Einarsson, sem kemur raunar einnig eins og stormsveipur inn í umræðuna um miðborgina í Fréttablaðinu í dag og er eini maðurinn með konkret tillögur um lausn á þeim mikla fyllerísvanda sem að henni steðjar.
Ég hef stundum spurt mig að því sem gamall "félagsmaður" Máls og menningar, en félagsmenn voru þeir sem áskrifendur voru að Tímariti Máls og menningar, hver hafi eiginlega ákveðið þetta eignarhald og stefnu fyrirtækisins. Líkt og í Sparisjóðunum eða Kaupfélögunum er þetta "fé án hirðis" sameignarfélagið er í raun í höndunum á þeim sem eru þegar fyrir á sessi sínum og höfundar, starfsmenn, lesendur, bókmenntaáhugafólk, þeir hópar sem Mál og menning taldis sig þó þjóna fyrst og fremst í menningarbaráttu sinni, höfðu náttúrlega ekkert inngrip í tannhjólin, nema þá takmarkað, því nokkrir rithöfundar eru svo sem í félagsráði. Sem neytandi gat maður náttúrlega bara gefið frat í þetta og gert eins og hörðustu Sjallarnir, sleppt því að kaupa bækur frá MM, en það var náttúrlega bara bjánaskapur. Mótsögnin er hins vegar að félagið er í grunninn pólitískt félag, kannski menningarpólitískt, með strúktúr frá tímum fjöldahreyfinganna þegar hugsjónamenn litu réttilega svo á menntun þjóðarinnar og framför hennar í andlegum efnum byggði á öflugri bókaútgáfu, einhvers staðar varð alþýðan að komast í lesefni á vægu verði sem var ekki bara eitthvert bjánasull. En hvernig lítur þetta út núna á öld eignarréttarins, stafrænnar miðlunar og fjölmenningar? Og hverjir eru núna félagsmennirnir sem á að skipa í "félagsráð", eru einhverjir félagsmenn? Á kannski að fara að afla þeirra núna?
Hér er á ferð stærsta bókaútgáfa landsins með langöflugusta útgáfulistann, flesta stóru höfunda þessa lands innanborðs, gríðarlegan "bakklista" eldri verka og hefur nánast allan okkar menningaraf á sínum snærum. Er það heillaspor fyrir svo mikilvægt fyrirtæki að það hafi sama eignar- og stjórnunarstrúktúr og var hugsaður sem pólitískt mótunartæki árið 1960 nú eða þá bara 1976?
En þegar allt kemur til alls er aðalmálið náttúrlega bara þetta: Lesendur skiptir eignarhald á útgáfufyrirækjum aldrei neinu máli. Ef fyrirtækið ber gæfu til að þjónusta íslenskan bókamarkað þannig að hann haldi áfram að vera öflugur og bækur haldi áfram að vera mikilvægur miðill, já ef fólk langar í bækurnar frá þessu fyrirtæki, þá er þetta í raun smámál.
Bækur | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2007 | 14:45
Leyndarmálið orðið að átakamáli?
Leyndarmál Rhondu Byrne er svo eftirsótt að nú er bitist um hver hafi réttinn á því að gefa það út á DVD með íslenskum texta. Í gær trommaði upp í fjölmiðlum hinn glaðbeitti erfðaprins íslensku plöggkrúnunnar, Ísleifur Þórhallsson eða Ísi eins og hann er þekktur "á götunni" og sagðist vera með réttinn á íslensku útgáfunni á DVD. Hann lét líka fylgja að myndin væri að fara á nærri 5000 kall "á svörtu".
En málið mun vera flóknara. Umboðsskrifstofa Rhondu Byrne kannast víst ekkert við að Ísi sé með réttinn á íslenskri útgáfu DVD gerðar Leyndarmálsins, þ.e. myndarinnar, og þessi 5000 kall er alls ekki á svörtu því myndin fæst í Pennanum og fleiri búðum og náttúrlega hjá útgefanda Leyndarmálsins á Íslandi, Sölku. Penninn mun ekki vera neitt sérlega hress yfir því að fullkomlega löglegur innflutningur þeirra á Leyndarmálinu frá enskum ströndum skuli vera kallaður "svartamarkaður" og rétthafi Leyndarmálsins mun hafa talið sig með öll réttindi til hérlendrar útgáfu á jafnt prent- sem myndefni og nýtur þar stuðnings Rhondu sjálfrar.
Hvernig allt er svo í pottinn búið í raun og veru mun skýrast. En þetta er náttúrlega ekki annað en vísbending um að allir vilja komast að leyndarmálinu.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2007 | 22:30
Hver er leyndardómurinn á bak við Leyndarmálið?
Mest selda bókin á Íslandi undanfarnar vikur er Leyndarmálið eftir Ástralann Rhondu Byrne. Hún verður mest selda bókin á Íslandi næstu vikur í viðbót, raunar eru yfirgnæfandi líkur á að hún verði í kringum topp sölulista Eymundssonar fram að fyrstu viku nóvember eða svo þegar jólaskriðann veltur inn úr prentsmiðjunum. Ástæðan er einföld: Það kemst enginn hænufet án þess að minnst sé á Leyndarmálið. Síðast í dag sagði umboðsmaður Íslands nr. 2, hann Ísi, að rétturinn á mynd Rhondu lægi hjá sér og hann byggist við metsölu, DVD diskurinn gengi hér á hátt í fimmþúsundkallinn á svörtum. Þá eru ekki þeir meðtaldir sem horfa á þetta á netinu. Það er einhver svartigaldur í þessu sem tryllir. Sjálfsagt ástæðan fyrir því að Time valdi hana Byrne sem eina af 100 áhrifamestu einstaklingum heims.
Bókin hefur verið í kringum topp þýska "Sachbuch" listans nú undanfarnar vikur og á toppi "Advice"-lista New York Times. Enn á eftir að gefa hana út í nokkrum menningarlöndum og því mun lögmál aðdráttaraflsins enn eiga eftir að veiða fleiri sálir í net sín. Þetta er allt hið magnaðasta mál og raunar verður maður stundum smá smeykur þegar maður heyrir fólk tala um þetta. Þetta hljómar eins og ný trú, leyndarmálskirkjan, og fólk vitnar, líf þess hefur breyst, það sá nýja merkingu, það varð heilt og sama sér maður ef skoðaðar eru erlendar bloggsíður og ýmsar spjallrásir. Leyndarmálið hrifsar til sín sálirnar. Larry King fjallaði endalaust um Leyndarmálið, Ellen DeGeneres fjallaði endalaust um Leyndarmálið og síðan Ophra, sem hefur séð ljósið í Leyndarmálinu. Rhonda Byrne er í augum milljóna nánast heilög manneskja. Hvað er þetta eiginlega?
Skemmtilegust er þó umræðan sem sumir brydda uppá þar sem borin eru saman lögmál adráttaraflsins hjá Rhondu og önnur lögmál sjálfshjálpargúrúa. Er nóg að trúa eða verður maður líka að gera? Er nóg að hugsa um það sem maður vill, eða verður maður að trúa á það sem maður vill? Það sem slær mig mest í þessu er að skv. frásögn ástralskra vefmiðla fékk Byrne hugmyndina úr eldgamalli sjálfshjálparbók þar sem vísindahugsun, nútímatrú og kalvinískri dugnaðarhyggju var blandað saman til að búa til nýjar sálir fyrir sölu- og iðnaðarsamfélag Ameríku. Þetta var bókin The Science of Getting Rich eftir Wallace Wattles sem kom út árið 1910. Þar er á ferð myndhverfing. Aðdráttaraflið, það sem stjórnar hreyfingum agna í kringum segul t.d., virkar líka í mannheimum. Það sem fer út, fer aftur inn. Betra að þetta sem fer út og inn sé gott. Byrne kynntist um leið því nú er kallað NLP - taugaforritun - og hvers konar hugarþjálfun sem skiptir orðið mjög miklu til að mynda við þjálfun íþróttamanna. Allt kom þetta saman í myndinni Leyndarmálið. Síðan kom bókin. Nú er Rhonda orðin ein af stóru nöfnunum.
Það sem við köllum nú sjálfshjálp var frá því í fornöld ein af uppistöðum siðfræði og klassískrar heimspeki: Hvernig rækta ég sjálfan mig? Sjálfshjálp, "Erbauung" var ein af grundvallarstoðum mótmælendaboðunar. Sjálfshjálparbækur voru þýddar á íslensku strax á 16. öld og prentaðar á Hólum og seinna í Skálholti, Hrappsey, Leirárgörðum og Viðey. Prentmenningin og ráðgjöf við að lifa lífinu og takast á við erfiðleika þess eru samferðarmenn. Mér finnst magnað að sjá þetta virkar enn í dag. Að orðin skuli hafa þennan mátt að þúsundir sjá líf sitt umhverfast.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2007 | 10:22
Minningargrein um Bol Bolsson
Í Lesbók Mbl. um síðustu helgi skrifaði ég smá pistil um opna samfélagið og gervisjálfsmyndir bloggara og viðbrögð "alvöru" fjölmiðla við trúðum og búktölurum. Hún fer hér á eftir:
Ýmis teikn eru um að hið svonefnda blogg sem Morgunblaðið rekur og blandar við fréttaveitu sína á Netinu sé í nokkru afhaldi hjá forvígismönnum blaðsins. Þannig hefur mbl.is verið mikið í mun að halda sæti sínu sem vinsælasti fréttavefur landsins í mælingum og nú hafa með stuttu millibili birst tveir leiðarar í Morgunblaðinu sem draga fram kosti netvæðingar fyrir samfélagið allt, hins opna samfélags. Það má lengi rekja sundur hvað býr í orðinu opið og þeim draumalandstón sem það inniber, sú var tíðin að opin verk (í merkingunni listaverk) áttu að hrista heiminn til nýs skilnings á sjálfum sér; meira að segja Umberto Eco komst fyrst til frægðar fyrir bók sína um opna verkið. En nú um stundir er opnunin stafræn. Hún er í fyrsta lagi pólitísk draumsýn um óheftan aðgang að upplýsingum sem hvort eð er má finna á stafrænu sniði, en aðeins á lokuðum kerfum. Eins og leiðarahöfundur Morgunblaðisins reifar í erindi sínu þann 13. ágúst síðastliðinn, er kominn tími til að íslenskar sveitastjórnir nýti sér netið í meira mæli. Tæknin er til staðar. Nú er að hleypa almenningi í bókhaldið. Í öðru lagi þýðir opnunin að hverskonar stífni við að miðla höfundarréttarvörðu efni með stafrænum leiðum verði afnumin, gáttirnar verði opnaðar. Sterk undiralda er meðal netverja í þessa átt og jafnvel innan Evrópusambandsins eru að verki kraftar sem virðast ætla að knýja fram að öll hugverk sem sambandið styrkir verði opin, æði oft í fullkomnu trássi við höfunda og útgefendur. Við sem erum sannfærð um að framtíð frjálsrar tjáningar í markaðssamfélagi felist í því að áfram verði eignarréttur á hugverkum erum skeptísk á þessa þróun, en það breytir því ekki að þarna er þrýstingurinn. Þeir sem nú fást við fjölmiðlun og útgáfu verða að lesa í þessi kort. Morgunblaðið eyddi gríðarlegum fjármunum, kröftum og tíma í að netvæðast. Nú telja margir að verið sé að uppskera. Þarna sé starfandi sterk fréttaveita með víðlendu umræðukerfi sem jafnframt er mikilvægur auglýsingamiðill.
Og nú er verið að taka frekari skref í átt að því að tengja þá sem fréttirnar skrifa á mbl.is (og mættu hugsa oftar: hvernig segir maður þetta á íslensku?) við notendur og bloggara. Nú getur maður prjónað við fréttir og sent inn eigin myndir af atburðum. Svo sía þeir á ritstjórninni úr það sem vert er að birtast. Á þetta er ekki komin mikil reynsla en Morgunblaðið kynnti hugmyndafræðina í leiðara þann 9. ágúst og þar var tæpt á því að góð reynsla hefði hlotist af hinu svonefnda bloggi á blog.is. Einn traustasti bloggari þessa lands, Salvör Gissurardóttir, hristi hausinn á bloggi sínu yfir þessu hátimbraða orðalagi og benti á hið augljósa. Þrátt fyrir að mbl.is hafi veðjað á stafræna framtíð miðlunar virðist sjálfsmyndin enn prentsvört. Þetta sést raunar ekki aðeins á orðalagi eins og þessu, heldur líka á því hvernig Morgunblaðið tekur á sjálfsmyndarspursmálinu mikla. Þar er alls ekki átt við sjálfsmynd blaðsins. Þar er átt við hinar margbreytilegu sjálfsmyndir bloggaranna, ekki síst þær sem eru ekki raunverulegar, hvað sem orðið raunverulegur þýðir nú í hinum stafræna heimi.
Nú er nýafstaðinn mikill stormur á blog.is sem þegar þetta er ritað hefur verið þagað um í prentheimum. Bolur nokkur Bolsson, sem var augljóslega flippbloggari, stormaði inn á Moggabloggið, teikaði hverja einustu frétt á mbl.is (algerlega kerfisbundið, hann sagði skoðun sína á ÖLLUM fréttum) þusaði þar einhverja innantóma vitleysu og tókst á viku að verða að vinsælasta bloggara þessa umræðuvettvangs þjóðarinnar, eins og Morgunblaðið kýs sjálft að kalla blog.is. Þá afhjúpaði dengsi sig, í ljós kom að kjötveran átti sér annað greni í stafræna skóginum, bloggaði líka hjá samkeppnisaðilanum visir.is, var auk þess blaðamaður á Fréttablaðinu og raunar tilnefndur til Blaðamannaverðlauna Íslands nú í vetur fyrir skrif sín um mismunun í fjárframlagi til kvenna- og karladeilda í fótbolta. Afleiðingin var að ójöfnuðurinn var leiðréttur. Maðurinn heitir Henry Birgir Gunnarsson og hann settist óðar upp í stríðsvagn sinn, ók með herfangið um aðalgötur netsins og undir sigurboga Baugsmiðlanna, hæðandi Moggabloggið og fréttakommentin. Hann hafði eins og hann segir sjálfur (http://blogg.visir.is/henry - sótt 14.08.2007) gert tilraun og hún heppnast betur en hann hafði nokkurn tíma þorað að vona: Ég hef sýnt vel fram á fáranleika Moggabloggsins. Fréttatengdu bloggin eru óþolandi, of áberandi í fréttunum en virka og skila heimsóknum. Einhverra hluta vegna sækir Bolurinn í þessi blogg og það er ljóst að engu breytir hversu ómerkilegt bloggið er. Fólk vill augljóslega alltaf lesa þó svo viðkomandi fari í taugarnar á þeim [sic].
Hvernig bregst mbl.is eða blog.is við þessu? Eins og Henry rekur sjálfur voru viðbrögðin taugaveiklunarleg og fálmkennd. Athugasemdir teknar út af síðunni og henni lokað, að minnsta kosti tímabundið. Álíka atburðir urðu reyndar í vor þegar Hrólfur nokkur Guðmundsson, sem lengi hafði rifið kjaft á blogginu, reyndist vera and-sjálf kjötveru sem hafði annað sjálf heimavið. Utan á hann hengdist undarleg rödd Emils nokkurs sem blog.is lokaði á og varð tilefni mikilla skrifa meðal bloggara um hvort slíkt mætti eða ei: Það varð smá lokun í opna samfélaginu. Raunar má Bolur eiga það að skoðanir hans voru á engan hátt særandi eða dónalegar, raunar öfugt við það sem margt fólk lætur sér um munn fara þegar það bregst við fréttum á mbl.is. Þar er stundum svo mikill kjaftháttur að mann rekur í rogastans. En við erum jú í opnu umhverfi.
Þegar Morgunblaðið rekur þessa þróun í sínum flaggdálkum er ætíð gert ráð fyrir samfellu sjálfsverunnar. Að fólk hafi ekki áhuga á að skipta sér upp í deildir og vera með búktal. Fyrirfram er gert ráð fyrir því að þeir sem ræða saman séu upplýstar skynsemisverur sem vilja taka þátt í málefnalegri samræðu um hag þjóðfélagsins. En eins og dæmin sanna þá er þetta ekki svona. Takmarkanir opna samfélagsins virðast mestar þegar því lýstur saman við trúðana, bullarana, klikkhausana, öfgafólkið og brjálæðingana. Hvar eiga vondir að vera í opna samfélaginu?
Bækur | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2007 | 23:01
Skáldsaga um Halldór Laxness
Sat úti á svölum í Atlantshafsblámanum í dag og las ævisögu Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson, skautaði eiginlega yfir hana með hraðlestrarprógrammi þegar hún kom út. Miklu skemmtilegra að lesa hana núna. Á milli þess sem ég horfði suður á Keili og Hálsana tvo, sólina "gylla voga" og þökin á Bessastöðum og svaraði ágengum spurningum sonarins um hvað þetta og hitt héti, eða hvað það væri eða þá (eitthvað sem byrjaði fyrir nokkrum dögum) hver ætti það, þutu þriðji og fjórði áratugurinn framhjá.
Eitt stakk mig nú sem ég hafði ekki mikið höggvið eftir fyrr. Einn vetur, frá hausti 1931 til vors 1932, er Halldór í launaðri vinnu í eina skiptið á sínum fullorðinsárum. Hann var "móttökustjóri", eins og það heitir nú, hjá Ríkisútvarpinu. Mér fannst skyndilega þarna komin frábær hugmynd að stuttri skáldsögu. HKL er dyravörður og eins og nafni hans Guðmundsson lýsir er hann alltaf frábærlega kurteis og stímamjúkur en er þess á milli kjaftfor í blöðum. Meira að segja Guðmundur frá Sandi þakkar honum fyrir að vera sér svo vænn í útvarpinu þrátt fyrir að þeir væru einsog hundur og köttur á prenti. Sagan gæti heitið upp á kafkaísku "Frammi fyrir útvarpinu" eða "Dyravörðurinn". Þetta gæti verið "pastiche"-saga. Samin með sömu aðferð og HKL ritaði Gerplu. Að sagan hefði hugsanlega getað verið skrifuð af manni sem hefði verið uppi á fjórða áratugnum. En hver skrifar þessa bók?
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2007 | 09:58
Man Booker langi listi
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2007 | 23:24
Breytist Edda í AB?
Um fátt hefur verið meira rætt í dag á meðal þeirra sem eru í bóka- og menningarbransanum en kaup Máls og menningar á útgáfuhluta Eddu og sundurhlutun fyrirtækisins. Sitt sýnist hverjum eins og gengur. Hins vegar má segja að fyrstu fréttirnar af sölunni og það sem heyrðist handan yfir fortjaldið hafi ekki gefið alveg rétta mynd af stöðunni eins og hún er kynnt nú.
Þannig blasir það nú við að í raun hættir Edda útgáfa starfsemi frá og með 1. október næstkomandi. Jólabækur fyrirtækisins koma ekki út hjá Eddu útgáfu, heldur hjá ónefndu fyrirtæki sem mjög miklar líkur eru á að muni heita Mál og menning. Mál og menning kaupir bækurnar á lagernum og þá útgáfusamninga sem liggja þeim að baki, annað ekki. Ekki fyrirtækið sem slíkt eða heiti þess. Þetta þýðir að Edda útgáfa verður í raun lögð niður sem bókaútgáfa frá og með 1. október og er úr sögunni. Útgáfubækur Eddu útgáfu, þe. undir þeim merkjum, má telja á fingrum annarrar handar: Fyrst Íslensk orðabók í ritstjórn Marðar Árnasonar, síðan hinn mikli Íslandsatlas. Það mun líklegast fljótt fenna yfir Eddunafnið í íslenskri útgáfusögu.
En bíðum við. Almenna bókafélagið var skilið eftir. Þessi smáklausa í sölusamningnum þótti of smá til að menn væru að gaspra henni sérstaklega á torgum þangað til blaðamaður á Fréttablaðinu rak í þetta augun og sló því upp sem fyrirsögn. Þar sem Eddu útgáfu nafnið verður eftir hjá Ólafsfelli ehf., þ.e. í ranni Björgólfs Guðmundssonar, má í raun segja að frá og með 1. október n.k. verði Edda útgáfa að Almenna bókafélaginu, svona tæknilega séð. Hvað Ólafsfell ætlar að gera við AB/Eddu útgáfu er hins vegar ekki vitað. Almenna bókafélagið fór sem slíkt á hvínandi kúpuna um miðjan tíunda áratuginn, svanasögngurinn var um jólin 1993 þegar -- kaldhæðnislegt en satt -- aðalhöfundar forlagsins höfðu þá árin áður verið hinir feykilega hægri sinnuðu eða hitt þó heldur Einar Már Guðmundsson, Tolli og Megas. Þessa menn töldu forvígismenn hins "borgaralega" forlags mikið kappsmál að gefa út.
Þessi gjörningur sýnir hve grunnt er á pólitíkinni í þessu öllu. Að þarna er einhvers staðar enn verið að hugsa á pólitískum línum sjötta og sjöunda áratugarins. Jafn framsækið og það nú er. Hins vegar verður þessi aðskilnaður svolítið skrítinn í raun. Vaka-Helgafell eignaðist Almenna bókafélagið eftir gjaldþrot þess um miðjan tíunda áratuginn. Í nokkur ár komu engar bækur út undir merkjum þess. Árið 1999 var svo stofnuð einskonar deild í Vöku-Helgafelli undir nafni AB og Bjarni Þorsteinsson varð útgáfustjóri þess. Fyrst kom út ein bók, Þjóðsögur við þjóðveginn, eftir Jón R. Hjálmarsson. Á næstu árum sá Bjarni, sá mikli sómamaður, um AB. Hann bjó til flotta ferðabókalínu, fyrst með vegabókum Jóns R. Hjálmarssonar og seinna bækur á borð við Gengið í óbyggðum og Ekið í óbyggðum. Hann átti hitt á borð við sögu KK sem Einar Kárason skráði, en samstarf þeirra ber enn ber frjóan ávöxt í ágætum útvarpsþáttum og á sviði eins og kunnugt er.
En stóri átakapunktur í seinni og skemmri sögu þessa forlags var án efa fyrsta bindi ævisögu Halldórs Laxness eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, Halldór, sem kom út árið 2003. Atburðarásin sem leiddi af þeirri útgáfu varð svo margslungin og undarleg að einhvers staðar á leiðinni tapaði maður þræðinum. Eitt er víst að hann fór úr höndum Eddu og svo að í byrjun árs 2005 urðu einar skipulagsbreytingarnar af mörgum hjá fyrirtækinu og þar með var AB lagt niður. Árin 2005 og 2006 og fram til 1. október á þessu ári starfar og starfaði AB sem eitt af nokkrum "óvirkum" imprintum Eddu á borð við Iðunni, Forlagið og Þjóðsögu. Það er því tilfinningagildi hinnar borgaralegu útgáfu sem eitt situr eftir. En kannski átti undanskotið að koma í veg fyrir einhvers konar vúdú-hefndar athöfn fulltrúaráðs Máls menningar á síðustu eintökum "Halldórs" sem hefndarráðstöfun fyrir svívirðingu hægri klíku Hannesar á heilögum véum Laugavegs 18 þar sem hann hélt sigurreift útgáfupartí fyrir jólin 2003. Enn heyrir maður sósíalíska intellektúela frýsa af pirringi yfir þeim gjörningi.
Já, og Björgólfur fékk víst heldur ekki Rúbluna upp í andvirði útgáfunnar, að minnsta kosti ekki ennþá. Laugavegur 18 er nú til sölu. Heimskringla er í fjáröflunarherferð til geta nú sinnt sínu eina skilgreinda hlutverki samkvæmt samþykktum sínum sem er bókaútgáfa. Annan tilgang hafði það félag aldrei. Það verður fróðlegt að sjá hvernig gengur að safna peningum í baukinn. Því félagið þarf fé til að byggja upp alvöru útgáfu. Svo lokar sjoppan og Edda er úr sögunni. Nú klórar bransinn, þar á meðal flestir helstu rithöfundar þjóðarinnar, sér í kollinum og hugsar með sér hver skollinn taki við.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2007 | 00:01
Eddan seld og klofin
Það hefur legið í loftinu um margra mánaða skeið að Ólafsfell ehf., menningareignafélag Björgólfs Guðmundssonar, vildi selja meirihlutaeign sína í Eddu útgáfu. Nú er það gengið í gegn en um leið hefur félaginu verið skipt upp. Annars vegar í útgáfuhlutann sem Mál og menning eða Heimskringla ætlar sér nú að kaupa (ef hin dularfulla kaupfélagsstjórn sem ber nafnið "fulltrúaráð" samþykkir það - fé Máls og menningar er "án hirðis" eins og Pétur Blöndal myndi segja). Hins vegar í bókaklúbba Eddu sem Ólafsfell á áfram en hljóta að vera líka til sölu og berast þá böndin að öðrum rekstraraðilum sem notað geta áskriftar- og dreifingarkerfi þeirra, t.d. Árvakur eða 365. Dekkun Edduklúbba í ákveðnum aldurshópum er nánast skuggaleg. Eddu klúbbarnir eru eitt best geymda leyndarmál íslenskrar útgáfu.
Það eru meiriháttar tíðindi að langstærsta bókaútgáfa Íslendinga hefur ekki aðeins verið seld heldur líka klofin í tvennt í leiðinni. Nú eru sjö ár liðin nánast upp á dag frá því að Edda miðlun og útgáfa var sett á fót með sameiningu Máls og menningar og Vöku-Helgafells. Á þeim tíma var nýbúið að veita miklu fjármagni inn í íslenska bókaútgáfu með stofnun fyrirtækisins Genealogia Islandorum sem átti nokkra útskanka á borð við ættfræðiútgáfu og það sem þá hét JPV Forlag og var stýrt af Jóhanni Páli Valdimarssyni. Stutt var þá síðan Fróði hafði keypt Iðunni fyrir metfé og því virtist um mitt sumar 2000 sem íslensk bókaútgáfa stæði á þröskuldi mikillar umbyltingar. Nú, sjö árum síðar, blasir það dagljóst við að þessar ferðir voru ekki til mikils frama. Fróði fór á hausinn með brauki og bramli og milljónir á milljónir ofan töpuðust. Tug ef ekki hundruð milljóna gjaldþrot Geneologia Islandorum var gerð upp fyrir löngu en Jóhann Páll hirti JPV nafnið og breytti Forlag í Útgáfa og kom niður standandi, eftir sat kolkrabbinn gamli með sárt ennið. "Útrás" Máls og menningar inn á lendur fjármagnsins beið skipbrot, draumurinn um allsherjar útgáfurisa reyndist hálfgerð martröð, en MM náði því þó sem "fólksmunnurinn" sagði stundum að hefði verið hin raunverulega ástæða stofnunar Eddu miðlunar og útgáfu, Halldóri Laxness. Í Eddu er hvernig sem á það er litið samankomin nánast öll útgáfusaga Íslendinga á 20. öld, allt frá Helgafelli og Heimskringlu til Ísafoldar, Forlagsins, AB, Iceland Review, Iðunnar og Þjóðsögu auk margra fleiri útgáfumerkja. Nú hefur þessum menningarfjársjóðum verið kippt inn úr kulda fjármagnseigenda og aftur settir inn í sjálfseignarstofnunina MM. Stjórn MM er enn skipuð þeim sömu og fóru af stað fyrir sjö árum síðan og fyrirtækinu er stjórnað af gömlum MM mönnum svo búast má við að fæstir taki mikið eftir breytingunum. En um leið er eðlilegt að maður spyrji: Til hvers var þá þetta allt?
Ég vann hjá Eddu í rúm sex ár og hugsa hlýtt til þessa furðulega tíma. Hvað sem öllu fjármálavafstri leið var fyrirtækið stútfullt af hæfileikafólki sem var hvert öðru klárara, skemmtilegra og sniðugra. Hvort sem Edda heldur áfram að heita Edda eður ei er ljóst að með sölunni til MM er settur punktur, þótt ekki væri fyrir annað en að fyrirtækinu hefur verið skipt upp.
En íslensk bókaútgáfa virðist ekki eiga gott með að laða að sér alvöru fjárfesta, þeir geta greinilega ekki fundið fé sínu ábatasaman farveg á þessu sviði. En það er svo sem heldur ekkert séríslenskt fyrirbæri. Megnið af stórum útgáfufyrirtækjum heimsins hafa þröngt eignarhald, oft fjölskyldu eða fámennan einbeittan fjárfestahóp, sem kippir sér ekki upp við lítinn vöxt, en horfir til lengri bylgjulengda. Það er hins vegar spurning hvað skuldsett og eignalaus Heimskringla verður burðug til að byggja upp framtíðar útgáfufyriræki. Það fylgdi nefnilega með í kaupunum að Björgólfur fengi Rúbluna við Laugaveg 18 upp í söluverðið (en fyrst að Alþýðuhúsið við Hverfisgötu varð að snobbbælinu 101 hótel þá er það líklegast ekkert svo voðalegt). Hvað íslenska bókaútgáfu og íslenskt höfundarsamfélag varðar yrði það hins vegar áfall ef það mistækist. Það tekur óralangan tíma að púsla svona félagi saman aftur.
Bækur | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2007 | 23:10
Bláu varðliðarnir
Í síðustu Lesbók Mbl. skrifaði ég pistil um Bláu varðliðana:
Á Íslandi eru um þessar mundir starfandi tvær sveitir byltingarmanna. Annars vegar starfar hópur stjórnleysingja og andstæðinga alþjóðafyrirtækja að því að knésetja stjóriðju á Íslandi. Hins vegar starfar Samband ungra sjálfstæðismanna að því að við fáum enn meira af því sama: enn meiri launaleynd, enn meiri lækkun skattprósentu og enn minni upplýsingar úr álagningarskrám skattstjóra.
Báðir hóparnir nýta sér fjölmiðla markvisst í baráttunni. Uppákomur á borð við Kringlumessuna" og skattklukkuna" hafa mikið áróðursgildi en leiða líka óhjákvæmilega til ágengra skoðanaskipta við þá sem eru ósammála byltingarmönnum. Eins og jafnan með framvarðarsveitir málstaðsins er að baki þeim fylking samúðarfólks sem þó hrýs hugur við öfgum aðgerðarsinna. Það kann að virðast mótsagnakennt, en er þó röklegt, að málflutningur byltingarhópanna miðast alla jafna við þetta samúðarfólk fremur en óvinina: Barátta ykkar skilaði okkur umbótum, hún skilaði okkur mikilvægum vegvísum á leiðinni til sigurs, en hún var ekki sigurinn sjálfur ... osfrv." Framvarðasveitin ætlar sér að starfa í fremsta vegavinnuflokkinum á hraðbraut sögunnar. Hún hefði hins vegar ekki fengið verkið hefði brautin ekki þegar verið lögð af fyrirennurum. Því þarf hún nú að sýna fram á að enn séu lönd að vinna. Báðar fyrrgreindar byltingarsveitir hafa þannig að markmiði að auka frelsi öllum til handa, en telja um leið að almenningur hafi ekki enn skilið inntak frelsisins. Fámennur hópur verður því að leggja allt í sölurnar fyrir málstaðinn.
Stjórnleysingjarnir töluðu raunar lengi vel ekki sannfærandi íslenskri röddu. Forvígismaður þeirra kom fram í fréttum og í Kastljósi þar sem hann hikstaði á frösunum, sletti ótæpilega og minnti á mann sem festist í unglingastælum og komst ekki þaðan út, eitthvað sem hendir oft gamla töffara. En nú bregður svo við að fleiri hafa fengið málið í þessum hópi og þeir eru einbeittari í sinni tjáningu. Nú hljóma í fjölmiðlum ógnvænlegir og um leið alþjóðlega viðurkenndir frasar með tilgerðarlausum íslenskum framburði. Maður þenur hljóðhimnur þegar rætt er um pólitískar handtökur" sem beinast jafnt gegn þeim sem taka þátt í aðgerðunum" og þeim sem styðja þær á vettvangi þrátt fyrir að vera ekki beinir gerendur sjálfur". Og svo stóra bomban: Til að stöðva stóriðjustefnuna verður að beita jafnt löglegum sem ólöglegum aðgerðum." Hér talar stefnufestan sjálf. Grónir náttúruverndarsinnar og þeir sem óttast að við lendum öll á launaskrá Rio Tinto áður en við getum talið upp að tveimur standa hjá og drepa tittlinga. Þetta fólk getur ekki hugsað sér að klifra upp í krana eða hlaupa öskrandi um götur Reykjavíkur til að bjarga Þjórsárverum en er fyrir vikið orðið að endurskoðunarsinnum" eins og það hét hjá kommunum. Í augum byltingarmannsins eru málamiðlanir dauðinn.
Á hinum vængnum heldur byltingarsambandið Samband ungra sjálfstæðismanna áfram ódeigri baráttu sinni fyrir framgangi borgaralegra stefnumiða. Stundum hvarflar að manni að sambandið þjáist af ímyndunarveiki eða kunni ekki á klukku því málflutningurinn tekur jafnan mið af þjóðfélagsástandinu árið 1979. Tryllt ríkisafskiptafólk virðist vaða uppi, algerlega blindað í villu sinni. En eftir því sem hin breiða samúðarfylking miðstéttarinnar umfaðmar fleiri markmið aðgerðahópsins og eftir því sem þeirra menn" eru lengur við völd digna baráttumálin, orðið fáfengilegur kemur æ oftar upp í hugann þegar aðgerðir SUS ber á góma. Hinir bláu varðliðar fá að vísu hvert ár nýtt tækifæri til að sýna í verki andstöðu sína við birtingu álagningarskráa hjá skattstjóranum í Reykjavík; stundum með líkamlegri (og þá ólöglegri) andspyrnu, stundum með gagnskráningu" eins og þeir beita í ár. Ódýr minnisbók hefur verið lögð fram á skattstofunni og á henni stendur Gestabók fyrir snuðrara" um leið og byltingarverðirnir voma á göngum eins og soltnir úlfar og mæna djöfullegu augnaráði á hverja aðvífandi hræðu. Ætlar þessi virkilega að láta undir höfuð leggjast að skrá sig í snuðrarabókina?
Mótsögnin er hins vegar að sjálfsagt hafa engir jafn mikinn áhuga á birtingu þessara upplýsinga og einmitt samflokksmenn SUS-ara af eldri kynslóð sem stytta sér stundirnar með því að rannsaka skrána og líta á það sem sjálfsagða afþreyingu. Sú hugsun að ég rjúki nú af stað, skoði álagningu nágranna minna í Skerjafirðinum og klagi svo í Hr. Skatt er mér og öllum þeim sem ég hef haft kynni af um dagana svo undurfurðuleg að hún stappar nærri sturlun. Þess vegna hefur bakland SUS þrátt fyrir valdasetu á annan áratug líka ekki haft minnsta áhuga á að koma til móts við þetta mikla baráttumál frelsisliðanna. Það myndi nú aldeilis heyrast kurr í félagskaffinu í Valhöll. Slagur Mannlífs og Frjálsrar verslunar á tekjublaðamarkaðinum sýnir líka að þessar upplýsingar eru verðmæt vara. Vilja bláu varðliðarnir skerða frelsi útgáfufyrirtækjanna Heims og Birtíngs til að auka tekjur sínar?
Og þannig heldur baráttan áfram. Varðliðar stjórnleysisins berjast áfram vonlítilli baráttu við Vélina miklu. Bláu varðliðarnir halda áfram að færa okkur frjálsar útvarpsstöðvar, sölu fleiri ríkisfyrirtækja og lægri skatta. Fylgist ekki lögreglan áreiðanlega með þessu fólki?
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2007 | 11:52
Í Draugadölum
Hver einasti blettur á Snæfellsnesi virðist hafa orðið fyrir barðinu á yfirskilvitlegum öflum. Svo yfirskilvitleg eru þau að á þessu þurrasta sumri allra sumra sáldruðu þau yfir okkur Magnús Viðar slíkum endemis feiknum af regni og stormi að við hröktumst neðan úr fjallgarðinum og enduðum í borgara á Vegamótum, ekki þurr þráður á okkur. Hugsunin var að ganga endilangt nesið, frá Oddastaðavatni í Hnappadal að Beruvík undir Jökli, en eftir tvo óveðursdaga ákváðum við að láta nótt sem nemur.
Kominn heim í hlýjuna fór ég að fletta upp í bókasafninu og lesa mér til, opnaði meira að segja Eyrbyggju. Um leið gengur að manni samfelld draugahjörð þar sem nykrar, skrímsli og ókunn öfl raða sér í fylkinguna svona til bragðbætis. Fúsi sem tók sér far með bílum um Kerlingaskarð var án efa ekki fjarri okkur þegar við skröngluðumst niður á gamla veginn ofan úr lágskýjunum. En því miður virðast skrímslin á Vatnaheiði hafa nú breyst í stíflugerðarmenn eða þá að þeir í Miklaholtshreppi vilja í eitt skipti fyrir öll girða fyrir nykra og skrímsli með nógu háum stíflugarði.
En sá sem hefur heyrt vindinn hvína í fjöllunum á Snæfellsnesi veit að það er ekki einleikið hvað býr í þeim. Þungar drunur sem bylja hátt upp í skýjunum þar sem dularfullar klettamyndir brjótast annað slagið gegnum þykknið. Við sváfum fyrstu nóttina í Draugadölum upp af Álftafirði. Það fór vel um okkur en ég hef draugana grunaða um að hafa fengið lánaðan vasahnífinn minn. Um nóttina skullu byljir á tjaldinu svo það lagðist nánast saman og ofan í andlitið á manni en réttist aftur um leið og kyrrði. Lognið virtist hættulegt, grunsamlegt og gott ef eitthvað bærðist ekki úti í þokunni.
Svo risum við úr rekkju og héldum af stað. Enn slotaði ekki regninu og nú bættist við þokan. Skyggni um 30 metrar. Það er hægt að ganga eftir gps tæki en það er ekki beinlínis skemmtilegt og þegar maður gengur þannig tímunum saman er líkt og maður sé staddur utan þessa heims og viti í raun ekkert um það lengur hvort raunveruleikinn sé til. Allt er grátt, vindurinn hvín og regnið bylur og dularfullir sandar sem við vissum ekki að væru í vesturhlíðum Ljósufjalla virtust óendanlegir en um leið nánast eilífir, einskonar frumspekilegur staður þar sem enginn gróður eða kennileiti eru. Bara svört jörð, grár himinn, vindur og regn. Frumheimur.
Þórður á Dagverðará segist í Jöklarabókum sínum hafa skotið brimil sem vóg hálft tonn. Fullorðinn maður gat ekki tyllt niður tám ef hann sat á honum. Ég trúi þessu alveg eftir villudaga á Snæfellsnesi.
Bækur | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)