Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
19.5.2007 | 14:41
Menningarstjórnin
Þeir sem lásu bækling með Menningarstefnu Samfylkingarinnar fyrir kosningar - Frjóa Ísland - hljóta að gleðjast yfir því að flokkurinn verði nú að stjórnarflokki. Þar var á ferð langsamlega einbeittasta menningaráætlun sem stjórnmálaflokkarnir sendu frá sér í aðdraganda kosninganna og vísir að framsýnni stefnu í ekki aðeins þrengstu málefnum hefðbundinna lista, heldur heildarsýn á alla málaflokka s.s. hönnun, safnamál og svo - bókaútgáfu.
Þar er því lofað að töfalda framlög til nýstofnaðs Bókmenntasjóðs og að koma á fót miðstöð bókmenntakynningar sem starfi í tengslum við sjóðinn. Um leið er talað um að breyta skattkerfi að hluta svo að tekjur af hugverkum verði reiknaðar líkt og fjármagnstekjur, rannsóknir á hlutverki lista og menningargreina í hagkerfinu verði stórauknar og setja á fót langtímaáætlun um sókn í alþjóðlegu menningarstarfi.
Og þetta er bara brot af þeim 16 liðum sem Frjóa Ísland inniheldur.
Ef aðeins helmingurinn kæmist í verk og þó að ýmisir stjóðir og stofnanir sem gamla stjórnin kom á fót verði ekki annað en styrktir og ýmis verk sem hafin voru leidd til lykta yrði þetta mesta framfarastjórn í menningarmálum sem sögur fara af.
Bækur | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2007 | 15:24
Kiljufár
Í dag sendu Eymundssonarbúðir og Pennaveldi frá sér sinn vikulega lista. Hann er nokkuð sérstakur fyrir þær sakir að allar bækurnar nema ein koma frá JPV og af 10 titlum eru allar kiljur nema tvær sem eru ferðamannabækur.
JPV fór af stað með miklu brauki og bramli nú í vor og kynnti "frumútgáfur í kilju" til sögunnar, má segja að það konsept hafi skyndilega átt sér nýja birtingarmynd. Þótt það hafi raunar verið lengi þekkt og við höfum áður séð mikla sumarsmelli sem voru "frumútgáfur í kilju" á borð við Móðir í hjáverkum eftir Alison Pearson í þýðingu Oddnýju Sturludóttur, Kvenspæjarastofuröðin og bækur Lizu Marklund. Að sögn JPV sjálfs var 2000 eintaka viðmiðið lágmark til að þetta borgaði sig. Nú er að sjá hve langt þessir nýju titlar drífa þótt mest selda bókin sem og Flugdrekahlauparinn og Þrettánda sagan séu kiljuútgáfur innbundinna verka.
En í það minnsta. Þýðingar í kilju er málið í dag. Það þýðir einfaldlega að þýðingin er á útleið sem gjafavara en á innleið sem lestrarefni fyrir bókaneytendur. Þessir neytendur vilja nýja titla og þeir virðast hrifnari af þýðingum en kiljuútgáfum íslenskra texta.
1. | Viltu vinna milljarð? - kilja |
Vikas Swarup | |
2. | Síðasti musterisriddarinn - kilja |
Khoury Raymond | |
3. | Tvíburarnir - kilja |
Tessa de Loo | |
4. | Saffraneldhúsið - kilja |
Yasmin Crowther | |
5. | Lost in Iceland |
Sigurgeir Sigurjónsson | |
6. | Hvítt á svörtu - kilja |
Ruben Gallego | |
7. | Flugdrekahlauparinn - kilja |
Khaled Hosseini | |
8. | Hugarfjötur - kilja |
Paulo Coelho | |
9. | Wonders of Iceland |
Helgi Guðmundsson | |
10. | Þrettánda sagan |
Diane Setterfield |
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2007 | 23:53
Menningaráætlun ESB
Evrópumálin virðast hafa umsvifalaust komist aftur á dagskrá um leið og kosningum lauk, líkt og nú sé tími kominn til þess að nýju að ræða pólitík í alvörunni eftir grínkosningarnar sem hefði svo sem bara mátt sleppa fyrst ekkert breyttist. Evrusóninn heldur áfram hjá háskólahagfræðingunum og svo ... er komin ný menningaráæltun! Síðustu menningaráætlanir eins og Ariadne og Culture 2000 nýttust okkur á EES-svæðinu ágætlega, til að mynda komu sæmilegar upphæðir inn í íslenska bókabransann í gegnum þýðingaáætlanir Culture 2000 og þar áður Ariadne, en nýja áætlunin er um margt djarfari en hinar fyrri og opnari. Um hana hef ég ekki enn séð staf í íslenskum fjölmiðlum en ágætis viðtal var um málið í Víðsjá við Þorgeir Ólafsson, starfsmann menntamálaráðuneytis við sendiráðið í Brussel. Þar undirstrikaði hann vel hve opin og víðfem áætlunin er og hve auðvelt er nú að fá lönd utan Evrópu inn í verkefnin. Mátti og skilja af hans ræðu að ákveðnir fyrirvarar sem hafðir voru á þáttöku Noregs, Íslands og Liechtensteins annars vegar og Tyrklands og Króatíu hins vegar séu nú úr sögunni. Það er vegna þessa viðtals sem ég leyfi mér að hafa nokkur orð um þessa nýju sjö ára áætlun.
Félag íslenskra bókaútgefenda fylgist vel með þessum málinum í gegnum aðild sína að samtökum evrópskra útgefenda, FEP, en eðlilega snýst starf þeirra að mestu um Evrópusambandið og stofnanir þess, þar sem megnið af umræðum um heildarramma bókaútgáfunnar í Evrópu fer fram á vettvangi sambandsins. Hinn knái varaformaður félagsins, Egill Jóhannsson hjá JPV, fer nú fyrir hönd íslenskra útgefenda á aðalfund samtakanna í Grikkland og vísast verður þar ekki skröfuð vitleysan. Hann mun ótrauður hella sér í líflegar umræður um alls kyns implenteríngar á hinum og þessum dírektífum sem ESB er að innleiða í aðildarlöndum sínum; þá sitja fulltrúar EES landanna og hvessa sjónum sínum inn í myrkviðin.
Þann 3. mars síðastliðinn var hinn nýju áætlun Culture 2007 hleypt af stokkunum. Hún gildir til ársins 2013, til næstu sjö ára, og er eins og fyrr segir töluvert víðfemari í hugsun en fyrri áætlanir, þótt hún taki um leið mið af t.d. Culture 2000. Áætlunin er með fjárveitingu upp á 400 milljónir evra og hefur eindregið pólitískt markmið. Henni er ætlað að breyta skynjun íbúa Evrópusambandsins og annarra á "sjálft verkefnið Evrópu" eins og það er kallað. Henni er jafnframt ætlað að breyta áliti almennings á menningarhugtakið sjálft, hvorki meira né minna, og því eru verkefnin hugsuð á breiðari grunni en fyrr. Til þess að hrinda þessu í framkvæmd eiga þeir sem sækja um styrk til verkefna að stuðla að hreyfanleika listamanna og listsköpunar innan álfunnar og auka á samskipti og gagnkvæman skilning landanna. Áætlunin á að styrkja samband Evrópulanda og raunar endurheimta skynjun Evrópumanna á að þeir tilheyri sameiginlegu menningarsvæði og eigi fleira saman en sitt í hvoru lagi. Áætlunin er með slagorð sem hljómar svo á enska tungu: Crossing Borders Connecting Cultures -- ekki ýkja frumlegt kannski, en virkar greinilega vel á júróelítuna.
Þessi þrjú markmið: Hreyfanleiki hinnar skapandi stétta Evrópu, yfirþjóðleg dreifing og útbreiðsla listaverka og sköpunar, gagnkvæm menningarsamskipti eiga að nást með því að hætta að binda áætlanir styrkþega niður í listgreinar og afmörkuð hólf. Það er ekki lengur þannig að málarlist fái sitt, skúlptúr sitt og bókmenntir sitt. Allt er nú opið og hvatt til samkrulls alls sem til er. Samt má sjá gömul og góð umsóknareyðublöð á heimasíðu sambandsins um þýðingarstyrki. Menningarskrifstofan hérlendis hefur verið sérdeilis dugleg að koma upplýsingum áleiðis um þýðingarstyrki til útgefenda og vonandi verður það áfram raunin.
Því þrátt fyrir allt erum við Evrópubúar, sama hvað tautar og raular. Evrópa er menningarlegt pródjekt og við tökum þátt í því meira en nokkru sinni.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)