Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007
27.2.2007 | 10:43
Óskarsmyndir eftir bókum
Ótrúlega margar myndir sem tilnefndar voru til Óskarsverðlauna eru byggðar á bókum. Hollywood er reyndar gríðarlega fíkin í bækur og sum bransablöð bókaiðnaðarins birta mánaðarlega skýrslur yfir hve margar bækur hafi verið seldar til Hollywood. Auðvitað er verður ekki nema brotabrot af þessu að bíómynd og sumt verður ekki einu sinni góð bíómynd, en þegar kemur að því að heyja að sér efni leitar kvikmyndagerðarfólk ótrúlega oft í bækur. Þeir sem eru að kvaka yfir því að íslensk kvikmyndagerð sé alltof tengd bókmenntum og bókum hafa einfaldlega rangt fyrir sér, þannig er þetta út um löndin víð og fer fremur vaxandi en hitt.
Það hefur líka gleymst að Al Gore hafði ekki aðeins hönd í bagga með heimildarmyndinni An Inconvenient Truth, upphaflega var þetta og er bók eftir hann, ansi hreint fallega unnin og myndskreytt rit sem hefur selst ákaflega vel um heim allan. Raunar fékk þessi sama bók svonefnd Quills bókmenntaverðlaun í USA nú fyrir áramót en þar reynir bókabransinn að herma eftir glamúr Óskarsverðlaunaafhendingarinnar með nánast engum árangri. Almenningur tók ekkert eftir þeim verðlaunum og almennt voru menn á því að athöfnin hefði verið frámunalega leiðinleg.
Síðasti konungur Skotlands, sagan um Idi Amin eftir Giles Foden er upphaflega bók, skáldsaga/frásögn sem kom út árið 1998 og vakti raunar talsverða athygli þá. Það hefur ratað í fjölmiðla að Balthasar Kormákur var næstum því búinn að kaupa réttinn á bókinni og sem ég veit að er satt. Óttar Proppé mælti með henni við mig á sínum tíma og þetta var ákaflega forvitnileg lesning, bók af þeirri tegund sem grípur mig helst, sem eru ótrúlegar og reifarakenndar frásagnir sem gerðust mestanpart í raun og veru og varða rás sögunnar en lúta lögmálum skáldsögunnar. Bókin er komin út hjá Faber í nýrri kilju.
Notes on a Scandal eftir Zoe Heller kom út fyrir þremur árum og þótt myndin með Dench og Blanchett hafi ekki fengið óskar er þetta ein þeirra mynda sem mesta athygli vöktu af óskarstilnefningunum.
Children of Men, hin dimma framtíðarmynd um barnlaust samfélag, er byggð á sögu gömlu glæpasagnadrottningarinnar P.D. James, The Children of Men, sem kom út árið 1992.
Venus sem gamla brýninu Peter O'Toole í aðalhlutverki, en hann var tilnefndur í áttunda sinn fyrir besta leik í aðalhlutverki, er skrifuð af Hanif Kureishi, sem hefur verið í sérstöku uppáhaldi hjá Bjarti þar sem bækur hans hafa verið gefnar út hér á Íslandi og kom raunar hingað á bókmenntahátíð fyrir nokkrum árum. Almennt er álitið að myndin og tilnefningin hafi hækkað gengi Kureishis sem var sannast sagna orðið nokkuð bágborið. Hann sló í gegn á tíunda áratugnum með bókinni Budda of Suburbia en íslensku eru fyrir hendi bækurnar Náðargáfa Gabríels (2002) og Náin kynni (1999) eða Intimacy, en eftir því framhjáhaldsdrama var líka gerð kvikmynd sem yrði áreiðanlega bönnuð í innra kerfinu á Hótel Sögu.
Mynd Clints Eastwoods, Bréf frá Iwo Jima, er eins og nafnið bendir til byggð á bréfum sem gefin voru út í bókarformi og raunar hefur myndin vakið athygli ekki aðeins á þeim, heldur nokkrum öðrum útgáfum á stríðsbréfum japanskra hermanna sem komið hafa út á ensku á síðustu árum. Bréfin voru eins og kunnugt er rituð af Kuribayashi hershöfðingja og yfirmanni heraflans á Iwo Jima eyju og bera titilinn Pictures, Letters from Commander in Chief í enskri útgáfu japanska forlagsins Shogakugan. Ævisaga hershöfðingjas, So Sad To Fall In Battle : An Account of War eftir Kumiko Kakehashi, kom nýverið út á ensku á imprinti Random House Presidio. Bréfasafn sjálfsmorðsflugmanna í ritstjórn Emiko Ohnuki-Tierney sem University of Chicago Press sendir frá sér er líka talsvert í umræðunni.
Little Children hefur fengið rífandi dóma hérlendis og fékk nokkrar tilnefningar. Bókin er eftir Tom Perotta, virtan höfund og enskukennara við Yale og Harvard, og kom út árið 2004. Hann er einnig meðhöfundur handritsins að myndinni og bókin var á sínum tíma kosin besta bók ársins af NYT og fleiri blöðum í USA. Önnur mynd Election, sem frumsýnd var árið 1999 er einnig byggð á samnefndri bók hans.
Síðan er það náttúrlega The Devil Wears Prada, en sú mynd kom mér að minnsta kosti hressilega á óvart og mér fannst algerlega réttlátt að Maryl Streep væri tilnefnd til besta kvenleikara í aðalhlutverki fyrir hana. Sagan er eftir Lauren Weisberger og kom út árið 2003, varð umsvifalaust metsölubók og hefur verið þýdd á öll heimsins tungumál, nema íslensku. Er raunar sannfærður um að hún hefði orðið metsölubók í kilju, en líklegast er of seint í rassinn gripið nú. Bókin er enn á metsölulistum í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi og var raunar ein mest selda bók Frakklands á síðasta ári.
Bækur | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2007 | 09:37
Lægri vaskur á bókamarkaði
Þann 1. mars næstkomandi hefst hinn árlegi og klassíski bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda í Perlunni og stendur til 11. mars. Þann 1. mars verður virðisaukaskattur á bækur líka lækkaður úr 14% í 7%. Lækkun virðisaukaskatts á bækur kemur því ofan á ríflega afslætti og ætti að gera það fýsilegra en nokkru sinni að uppfæra heimilisbókasafnið.
Lækkun og raunar afnám virðisaukaskatts á bækur er gamalt baráttumál bókaútgefenda og höfunda, en þegar skipt var úr söluskatti yfir í virðisaukaskatt um 1990 voru bækur undanþegnar skattinum og svo var fram til ársins 1993 að þáverandi ríkisstjórn lagði hann á í tilraunum sínum til að ná höktandi íslensku hagkerfi þessara þrengingarára aftur á skrið. Á meðan þessu fór fram urðu margskonar breytingar á skattprósentu á bækur í nágrannalöndunum. Árið 1993 var 14% skattur síður en svo óvenjulegur á Norðurlöndum ef framtíðarlandið Noregur er undanskilið þar sem enginn virðisaukaskattur hefur verið lagður á bækur nokkru sinni. En skattbreytingar í Finnlandi og í Svíþjóð þar sem skatturinn er nú kominn niður í 7 og 6% valda því að íslenski vaskurinn var orðinn nokkuð kjánalegur í evrópsku samhengi.
Þann 1. mars gerist það að íslensk vask-prósenta á bækur verður í efra milliþrepinu í evrópskum samanburði en enn hafa stjórnvöld og ef til vill ekki almenningur heldur viðurkennt þau meginrök fyrir því að bækur bera engan virðisaukaskatt líkt og í Bretlandi og Írlandi að tjáningu borgaranna eigi ekki að skattleggja. Ódýrar bækur og ódýrir fjölmiðlar séu mikilvirk tæki til að viðhalda frjálsu samfélagi, örva þátttöku borgaranna í samræðu um mikilvæg mál og láta í sér heyra.
En á meðan ber að fagna því sem vel er gert. Á Stóra bókamarkaðinum í Perlunni verður hægt að kaupa bækur á einstaklega hagstæðu verði með nýrri og hagstæðri virðisaukaskattsprósentu.
Bækur | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2007 | 10:42
Nú þegar allir eru femínistar
Steingrímur J. Sigfússon segist vera"róttækur femínisti". Hallgrímur Helgason skammar kynbræður sína fyrir að "kvenelta" eina kvenmanninn sem hugsanlega gæti orðið forsætisráðherra eftir næstu kosningar. Sambloggarar á borð við minn gamla góða samstarfsfélaga Hrannar B. Arnarsson skamma huldukarlana í athugasemdakerfunum sem óskráðir jafnt sem fullskráðir marínerast í eigin fantasíulegi og sjá fyrir sér heitar pornóstjörnur rjúka í klámiðnaðinn knúðar af óseðjandi kynlífslöngun. Og rifjast þá upp að jafnvel Ingvi Hrafn sem alltaf er alveg við það að opna fyrstu sjónvarpsstöðina í heimi þar sem hrafnar sjá um dagskrágerð, telur sig álíka róttækan femínista og Steingrímur J. Svo trommar hver sómamaðurinn fram eftir annan og fordæmir klámsálirnar sem ætla að eiga náðuga stund í Bændahöllinni og nú nenni ég ekki einu sinni að setja hina skyldubundnu fyrirvara hingað inn um að ég sé að sjálfsögðu á móti þessu líka. Það er bara einfaldlega það sem menn verða að gera núna því allir vilja vera "róttækir femínistar". Nú þegar borgarstjórinn og ritstjórn Morgunblaðsins komplett eru orðin óskabörn femínismans.
Það sem er athyglisvert í þessu öllu er að enginn er þess lengur umkominn að taka ekki afstöðu til femínisma. Þarna gæti orðið ein meginlína pólitískra átaka næstu kosninga, en auðvitað hlaut að koma að því. Eftir dauða stéttastjórnmálanna er kynjapólitík eitt helsta svið pólitískrar umræðu vorra daga, gömlum kommum og bláum höndum til ómældrar mæðu. Því skammar til dæmis höfundur bókar um baráttu mæðgna við karlveldið (Barist fyrir frelsinu), Björn Ingi Hrafnsson, Steingrím J. fyrir að vera karlremba og byggir það á bókinni Stelpan frá Stokkseyri þar sem Margrét Frímannsdóttir segir nokkuð dæmigerða eineltissögu af barátunni við ósýnilegar fordómamyllur sem mala henni í mót. En það er greinilegt að þetta er þungt högg, pólitískt séð, enginn vill vera karlremba, allir vilja vera femínistar. Það sem tekur við er skilgreiningin á því hve mikill femínisti maður er og hvernig.
Það er hins vegar grunsamlega lítið til af litteratúr á íslensku um femínisma, um jafnréttissjónarmið og ýmsar meginröksemdir sem liggja að baki mörgu af því sem heyrist í umræðunni. Þegar Sóley Tómasdóttir (einn ritstjóra bókarinnar Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð, sem ætlað er að varpa ljósi á reynslu kvenna af barnsfæðingum og viðhorfum umhverfisins til þeirra) þarf til að mynda að svara nafnlausum draugaher klámfantasíumanna með því að segjast víst hafa áhuga á kynlífi (!) þá vantar líkegast gagnáætlun femínista um hvernig ríki fantasíunnar í kynferðismálum án valdbeitingar og kynjamismununar líti út. Vísi af því má sjá á bloggsíðu Elísabetar Ronaldsdóttur. En fyrst að allir eru orðnir femínistar (nema náttúrlega klámvæddi draugaherinn með pornófantasíurnar sínar um æstar kellingar sem dreymir um að komast í klámið) langar mig til að benda á bók sem er ansi góð sem inngangur að skilningi á ýmsum deilumálum samtímans. Til dæmis upplifuninni af mismunun stelpna og stráka innan fótboltafélaga, upplifuninni af því að umgangast klámvædda jafnaldra sína af strákakyni og fleiri slíkt. Þetta er sú prýðisbók Píkutorfan (Forlagið 2000) sem þær Belinda Olsson og Linda Skugge ritstýrðu á sínum tíma og var þýdd á íslensku af Bríeti, sem ég veit ekki hvort enn starfar, einkum af þeim Hugrúnu Hjaltadóttur og Kristbjörgu Konu.
Nú þegar allir eru orðnir femínistar - í það minnsta í orði kveðnu - þá er þessi bók nánast skyldulesning. Í kjölfarið þyrftum við síðan nýtt hugmyndafræðilegt grundvallarrit á íslensku sem gæti brynjað jafnt stjórnmálamenn sem almenning með rökum þegar mál á borð við klámráðstefnur og kosningar til stjórnar KSÍ ber á góma. Ef menn vilja endurheimta fantasíuna úr heilanum á klámvæddum porningum verðum við líka að fá að heyra hvernig það getur farið fram.
Bækur | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2007 | 13:46
Menningararfurinn heim - alla leið heim
Áformum Landsbókasafnsins um stafrænt þjóðarbókasafn lýsti kunningi minn á þá vegu að það væri líkt og maður hefði í fyrsta sinn heyrt um Kárahnjúkavirkjun síðasta vor: Stíflan næstum fullbyggð en enginn hefði haft hugmynd um framkvæmdirnar. Landsbókasafnið hefði þegjandi og hljóðalaust byggt upp nútímalega menningarmiðlun fyrir þjóðararfinn.
Í sunndagsblaði Morgunblaðsins lýsir tilvonandi landsbókavörður, Ingibjörg Sverrisdóttir, þessum áformum fyrir alþjóð og í síðustu viku var fjallað um þau á Morgunvaktinni á Rás 1. Hún kynnti þau á morgunverðarfundi Félags íslenskra bókaútgefenda á Grand Hótel þann 9. febrúar síðastliðinn og vakti erindi hennar þar hvað mesta athygli, enda er þar að verða til stökkpallur fyrir stafrænni dreifingu á efni sem ekki er höfundarréttarvarið til alls almennings, ekki aðeins dagblaða og tímarita, heldur einnig bóka, hljóðefnis og jafnvel myndefnis. Ég mæli til dæmis eindregið með því fyrir þá sem ekki hafa farið inn á timarit.is að drífa sig þangað og blaða í tímaritum frá 19. öld, sem er hrein skemmtun. Morgunblaðið er nú tiltækt nánast í heild sinni á netinu, 365 er að skanna inn Vísi, DV, Dagblaðið og Daglaðið Vísi í samstarfi við safnið og svo var tilkynnt í síðustu viku að Amtsbókasafnið á Akureyrir ætli sér að ráðast á dagblöðin sem eftir eru: Dag, Tímann, Alþýðublaðið, Þjóðviljann. Á meðan þessu vindur fram er áfram haldið með innskönnun á eldri bókum og handritum úr handritasafni Landsbókasafns, en það á eftir að verða gríðarleg lyftistöng fræðum hérlendis að hafa handritin á vefnum. Maður sér til að mynda ítrekað hér á bloggsíðunum hvernig bloggarar nota þessa gagnabanka til að rifja upp gömul mál, tengja samtímðina við fortíðina og halda sambandi við hana, því það fennir fljótt í sporin.
Á fyrrgreindum morgunverðarfundi var fyrst og fremst verið að taka stöðuna. Tryggvi Jakobsson, útgáfustjóri Námsgagnastofnunar, brá upp mynd af því hve mikið er í boði fyrir krakka og unglinga á skólaskyldualdri á netinu af fræðsluefni sem Námsgagnastofnun býður upp á. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við HÍ lýsi því frábærlega hvernig stafræn tækni gjörbyltir rannsóknum á tungumálinum og hve mikilvægt það er að hafa stóra rafræna gagnabanka eða dæmasöfn til að ganga í. Hann tók sláandi dæmi um hve nákvæmin verður mikil þegar segja á til um hvernig nota skal orðasambönd þegar hægt er að nýta sér stór dæmasöfn.
Þeir einu sem lýstu stafrænum textum, dreifingu þeirra og miðlun, sem viðskiptatækifæri, var Ragnar Oddur Rafnsson frá Urði ehf. sem vinnur að stofnun fyrirtækisins netbok.is. Þar er stefnt að því að nota DRM tækni til að opna markað fyrir stafrænt textaefni sem er ásættanlega varið fyrir höfundarrétthafa. Fyrir höfunda dagsins í dag, sem og útgefendur, er þetta það sem í raun skiptir máli. Hvernig hægt verður að búa til dreifikerfi fyrir rafræna texta sem býr til tekjur.
Stórhuga áfrom Landsbókasafnsins geta hins vegar vel farið saman við tekjuhlutann. Ef gegnir.is verður miðstöð miðlunar menningararfsins er vel hugsanlegt að ef góð varnarlausn finnst megi leiða leitendur áfram að netbúð fyrir raftexta og/eða texta í bókarformi. Leiti maður til að mynda að bókinni Þetta eru asnar Guðjón eftir Einar Kárason, sem ekki er fáanlega á almennum markaði, þá geti maður keypt hana sem rafbók, og hugsanlega í framtíðinni fengið hana senda heim í vönduðu kiljubandi sem "print on demand" bók, eða hugsanlega sótt hana í næstu bókaverslun. Að mörgu leyti býður okkar litli markaður upp á einstakt tækifæri til að nota stór stafræn miðlunarverkefni á borð við þau sem Landsbókasafnið stendur fyrir, prenttækni, sölukanala sem eru fyrir og rafbókavörn til að gera textaheim íslenskunnar tiltækan í heild sinni.
Bækur | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2007 | 09:31
Nokkrir snjallir
Edda útgáfa flutti sig um set nú um áramótin, yfirgaf turninn á Suðurlandsbraut, afhenti hann stórkapítalinu alfarið og fór upp í gamla Tal-húsið í Síðumúla. Í tilefni af flutningunum bauð Eddan upp á fiskisúpupartí í gær og þar var saman kominn vænn skerfur af andlegum aðli þessarar þjóðar. Eins og venjulega gafst manni ekki tækifæri á að ræða við alla en maður hitti "nokkra snjalla" eins og þeir segja fyrir norðan.
Hellamaðurinn Björn Hróarsson lék á alls oddi og sagði magnaðar sögur af neðanjarðarstússi sínu. Ég fór um daginn á fund sem Hagþenkir blés til í ReykjavíkurAkademíunni og þar rakti Stefán Pálsson sagnfræðingur og hatursmaður Moggabloggsins helstu afrek í fræðaútgáfu síðasta árs. Staldraði hann þar sérstaklega við bók Björns, sem er raunar ekki bók, heldur bækur, og eiginlega ekki bækur, heldur bautasteinn, og kvað upp úr um að svona ættu fræðibækur að vera. Þarna væri lýst mögnuðum fyrirbærum, einstökum á heimsvísu, búið að uppgötva nýja sneið af Íslandi sem aldrei hefði þekkst fyrr og maður fengi allt um þetta að vita, nema bara það hvar þessir hellar allir væru! Mörgum þeirra væri vísvitandi haldið leyndum. Það var þó ekki alskostar rétt hjá Stefáni, nákvæmar GPS tölur eru afast í skrá í bókinni, en hvað um það. Það sem honum fannst mest til koma var sérviska bókarinnar. Að í inngangskafla væri skammardemba um svívirðilega framkomu Steingríms Hermannssonar við breska hellarannsakendur og erlenda vísindamenn fyrir áratugum síðan en ekki almenn fræði um tengsl hella við þjóðtrú og sögu þjóðarinnar og annað slíkt sem mönnum þykir nauðsynlegt að hafa í inngangsköflum alþýðlegra fræðirita. Eitt er einkenni þess mikla fræðara Björns Hróarssonar og þótt maður hafi aldrei leitt hugann að hraunhellum fyrr á ævinni er maður skyndilega harðákveðinn í að demba sér niður í jörðina og skoða þessi feikn eftir að hafa rabbað við hann í smá stund.
Annar snjall var Þórarinn Eldjárn. Sem sambloggarar bárum við saman bækur okkar um reynsluna af þessum miðli og skeggræddar voru sögulegar breytingar á forminu. Barst þá talið að aðsendum greinum í Morgunblaðinu, að bloggið hefði orðið einskonar framhandleggur þeirra. Þá upplýstist að Þórarinn hefði eitt sinn platað alþjóð með grein í Velvakanda og urðu margir undrandi þegar þeir heyrðu af stórkostlegri fléttu skáldsins sem hafði ekki aðeins fleygt sinni nöldurskjóðu inn um paradísarhlið Velvakanda undir fölsku nafni, heldur fengið jafnvel nákomið fjölskyldufólk til að kveina yfir kverúlansinum í blaðinu. Tilefnið hafði verið tillaga þingmanns um niðurfellingu á vörugjöldum á skauta. Brást þá herramaður nokkur illa við og sagði að það væri óráð því fátt hefði stuðlað jafn mikið af reykingum ungmenna og skautaiðkun á Tjörninni. Og ekki nóg með það, hann hafði eftir starfsmanni borgarinnar, sem var nafngreindur, að endurnar á Tjörninni væru domm eftir mikla skautadaga, þá hefðu þær verið að narta í stubbana. Niðurfelling á vörugjöldum á skauta myndi aðeins auka á þessa ósvinnu.
Þetta lyfti móralnum allmikið og átti nú hver sögu af samskiptum sínum við Velvakanda. Besta sagan af því held ég að hafi komið frá Margréti Tryggvadóttur rithöfundi og myndritstjóra sem sagði að félagi sinn sem er í leiguflugi á vegum Avion Group hafi fyrir venju að lesa upp úr Velvakanda um borð í vélunum þegar flogið er um erlendar slóðir. Full vél af fólki en enginn skilur neitt nema íslensku flugfreyjurnar og þegar "This is the captain speaking" brestur á hljóma gullkorn úr Velvakanda: "Grámann er fallegur högni og hans er sárt saknað. Ef einhver hefur orðið hans var ... Um daginn varð ég fyrir óskemmtilegri reynslu ..."
Það er flogið í 30.000 feta hæð yfir Karíbahafinu. Grámann er enn týndur í Reykjavík.
Bækur | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2007 | 15:09
Pamuk kominn í útlegð
Um nokkra hríð hefur því verið spáð að tyrkneski nóbelsverðlaunahafinn í bókmenntum Orhan Pamuk myndi þurfa að flýja land vegna ógnana og hótana af hálfu þjóðernissinnaðra Tyrkja. Í kjölfar morðsins á armenskættaða blaðamanninum Hrant Dink nú í janúar, nýafstaðinna réttarhalda gegn rithöfundinum Elif Shafak sem og kæru á hendur Pamuk sjálfum og raunar kæru á hendur 60 öðrum rithöfundum og blaðamönnum fyrir að misbjóða "æru Tyrklands" var ljóst að Pamuk yrði ekki lengi stætt á því að búa í sinni heittelskuðu Istanbul.
Hann er nú kominn til New York og hefur sagst dvelja þar um óákveðinn tíma. Hann tók út hálfa milljón dollara og fór. Enginn þorir að segja það opinberlega en öllum má vera ljóst að hann er farinn í útlegð, enda komust hvaða vitleysingar sem er upp með að hóta honum lífláti og barsmíðum óátalið. Í landi eins og Tyrklandi þar sem stjórnarskrárbundinn aðskilnaður er á milli trúarbragða og valdstjórnar virðist þessi ærumeiðingarklausa í lögunum vera einskonar ventill fyrir þá sem blanda saman þjóðernisstjórnmálum og trúmálum. Tyrkneska ríkið rekur gríðarharða afneitunarstefnu þar sem kerfisbundið er reynt að koma í veg fyrir að skipulögð útrýming Armena í upphafi 20. aldar og tyrkneska ríkið séu á einhvern hátt spyrt saman. Það furðulega er að þessi samtenging nær einnig til Ósmanaveldisins sáluga sem tyrknesk stjórnvöld telja sig þurfa að vaka yfir þótt horfið sé í hringiðu aldanna. Pamuk, líkt og svo margir aðrir blaðamenn og rithöfundar í Tyrklandi, hefur árætt að skrifa um þessa viðburði, en raunar eins og skáldsagnahöfundum er eiginlegt, með því að draga margskonar sjónarhorn inn í myndina. Þeir sem þekkja verk Pamuks og þær margbrotnu frásagnir sem hann býr til vita að heimskan á bak við kærur og ásakanir þjóðernissinnaðra landa hans eru undarlegar, svo vægt sé til orða tekið.
Það var ekki tilviljun að Pamuk hlaut Nóbelsverðlaunin í fyrra. Augu heimsins beinast nú að Vestur- og Mið-Asíu sem aldrei fyrr. Stóru átakalínur sögu 21. aldar eru þar. Þetta er landsvæði ótæmandi möguleika, nýrrar nýlendustefnu gamla heimsveldisins og svæði þar sem nýja heimsveldið Kína seilist til áhrifa. Þarna eru líka heimkynni spámannlegra baráttuhópa sem bíða eftir að þurrka út Babýlon vestursins og kannski er þetta landsvæði að endurheimta mikilvægi sitt í sögu mannkyns, þá stöðu sem það hafði í þúsundir ára. Þarna er líka einstök nútímaleg hámenning því verk eins og þau sem Pamuk skrifar verða ekki til nema í fjölþjóðlegu, menntuðu og lifandi samfélagi þar sem sagan er eins og iðustraumur.
Á meðan reyna Tyrkir að komast inn í Evrópu og gera sig gildandi þar á bekk. Á meðan þessum ofsóknum sem lögregla og dómskerfi taka fullan þátt í heldur áfram er sú barátta í raun vonlaus. Tyrkland er siðferðilega ekki þess umkomið að teljast fullgildur þátttakandi í bandalagi sem hefur letrað frelsi, jafnrétti, virðingu og samvinnu á sinn skjöld.
Bækur | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2007 | 13:20
Áróðursverðlaunin?
Þegar Íslensku bókmenntaverðlaunin voru veitt 2. febrúar síðastliðinn mátti vera ljóst að ekki yrðu allir á eitt sáttir um niðurstöðu dómnefndar. Þegar við verðlaunaafhendinguna varð ýmsum heitt í hamsi, einna heitust var þó Kolbrún Bergþórsdóttir sem lýsti því yfir við hvern sem heyra vildi, og þar með verðlaunahafana sjálfa, að hvorugur væri þess verðugur að hljóta verðlaunin. Þetta endurtók hún í viðtali við Ísland í dag. Til upprifjunar skal þess getið að verðlaunahafarnir voru þeir Andri Snær Magnason sem hlaut verðlaunin í flokki rita almenns efnis fyrir Draumalandið - sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð og Ólafur Jóhann Ólafsson sem hlaut verðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir sagnasafn sitt Aldingarðurinn.
Morgunblaðið birtir svo þann 13. febrúar grein eftir Tryggva Gíslason, fyrrum skólameistara MA og magister í íslensku, þar sem svipuð sjónarmið koma fram. Hann telur hvorugan verðlaunahafann vera þess verðugan að hljóta viðurkenninguna. Einkum er hann ósáttur við að Andri Snær Magnason hljóti verðlaunin fyrir Draumalandið, enda sé þar ekki um að ræða fræðibók, verkið innihaldi ekki annað en áróður (þetta hétu deilurit á öldum áður) og sé því ekki tækt skv. reglugerð um verðlaunin sem finna má á heimasíðu Félags íslenskra bókaútgefenda www.bokautgafa.is. Hvað varði verk Ólaf Jóhanns Ólafssonar efast hann um að það jafnist á við bók Hannesar Péturssonar Fyrir kvölddyrum.
Sjónarmið Tryggva hafa oft komið fram í umræðunni á undanförnum árum. Raunar verður Tryggvi óvænt að bandamanni "póstmódernistanna" svonefndu sem á stundum hafa látið verðlaunin hafa það óþvegið. Þegar gagnrýnin er skoðuð nánar sér maður hins vegar að fólk er einfaldlega ósátt við hverjir fengu þau og hverjir voru tilnefndir. Tilhneigingin er hins vegar til að setja þá gagnrýni fram á almennari forsendum: Dómnefndir eru óhæfar sökum menntunarskorts , bókaútgefendur vilja bara nota verðlaunin í áróðursskyni osfrv.
Félag íslenskra bókaútgefenda hefur langt í frá bara látið þessa gagnrýni eins og vind um eyru þjóta, heldur rætt hana á sínum vettvangi. Ég gerði þetta meira að segja að umtalsefni í ræðu sem ég hélt við verðlaunaafhendinguna á Bessastöðum. Hér eru tvær glefsur úr þeirri ræðu þar sem reynt er að skýra sjónarmið okkar sem að verðlaununum stöndum:
Ítalski fagurfræðingurinn Benedetto Croce hélt því fram að rétt mat á gæðum listaverka væri öllum í lófa lagið. Raunar væri það svo að þess fremur að vænta að einfeldningar og alþýðufólk eins og hann orðaði það af umburðarlyndi aðalsmannsins væru þess fremur umkomnir að fella dóma um gott og vont á kjarnyrtan hátt en lærdómsmennirnir. Að vísu hefðu lærdómsmennirnir vinninginn þegar kæmi að hinu stærra samhengi, en hann hélt alla tíð fram óbrigðulli þekkingu allra mannsbarna á listrænu gildi. Við vissum innst inni hvað væri góð list. Við einfaldlega sæjum heiminn þeim augum. Einhvern veginn svona held ég að við hugsum líka um um samveru íslenskra bókmennta og íslenskra lesenda. Allir hafi óbrigðula þekkingu á listrænu gildi. Þegar Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót fyrir einum 16 árum var það raunar gert í trausti þess að tilnefningar dómnefnda væru hvatning fyrir aðra til að leggja sitt mat á verkin. Ætlun verðlaunanna var að vekja umræður, að spyrja: Hvað finnst þér? Alltaf í trausti þess að hver sem er geti svarað.
Og niðurstaðan var svo þessi eftir að reifuð hafði veirð gagnrýni á verðlaunin og hugsanlegar breytingar á þeim:
Ekkert af þessu breytir því þó að það er bjargföst skoðun okkar sem að verðlaununum stöndum að þau hafi sannað gildi sitt. Með þeim hafi tekist að koma á fót grunnstofnun til að heiðra íslenskar bókmenntir og fræðastörf, peningaverðlaunum sem standa styrkum fótum, verðlaunum sem ætlað er að lyfta höfundum og verkum þeirra ár hvert og sýna þeim þann sóma og virðingu sem starf þeirra krefst. Um leið eru verðlaunin okkur alþýðumönnum hvatning til að reyna á innsæi okkar og mat á listrænu og fræðilegu gildi. Að treysta okkar eigin sýn á gæði og erindi verkanna. Hvað sem líður öllum stundlegum ávinningi sem útgefendum hlotnast af tilnefningum og verðlaunum eru höfundarnir og verk þeirra í öndvegi. Við erum að heiðra djúprættustu menningararfleið okkar Íslendinga: Bókmenntir og ritmenningu.
Bækur | Breytt 14.2.2007 kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2007 | 17:09
Tími stórvirkjanna
Það vakti athygli þegar tilkynnt var að tveir reyndustu og ástsælustu bókarhöfundar okkar úr sagnfræðingastétt, þeir Guðjón Friðriksson og Jón Þ. Þór, hefðu tekist á hendur að rita sögu Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands. Á bak við útgáfuna standa miklir sjóðir athafnamanna, Maersk gamli og Jóhannes í Bónus ýta verkefninu úr vör. Útgefandi er ekki enn fundinn.
Þetta er spennandi verkefni og bætist í hóp þeirra stórvirkja sem út hafa komið á undanförnum árum. Kirkjusagan, Íslenskt mál, Íslensk bókmenntasaga, Saga biskupsstólanna, Íslensk orðabók, Saga stjórnarráðsins og svo eru í gangi verkefni á borð við Kirkjur Íslands, sem virðist ætla að verða ein viðamesta útgáfuröð sem sögur fara af hérlendis, nú þegar eru komin átta bindi og samt aðeins búið að tæpa á þremur prófastdæmum! Ef skyggnst er lengra aftur blasa við bautasteinar á borð við Saga Reykjavíkur og nú er loksins gangur í útgáfunni á Sögu Íslands á vegum Hins íslenska bókmenntafélags. Í undirbúningi er svo íslensk listasaga sem Listasafn Íslands hefur forgöngu að og Edda ætlar að gefa út.
Þetta eru gríðarlega stór verkefni þar sem oft - raunar oftast - fara fram frumrannsóknir og mörg þeirra eru myndarlega styrkt af opinberu fé. Nú koma síðan hinir nýju sterku menningarsjóðir sem orðið hafa til í kjölfar hinnar gríðarlegu fjármunamyndunar hérlendis. En stundum spyr maður sig líka: Þetta eru stór og mikil bindi sem kosta tugi þúsunda. Má ekki finna einhvern milliveg til að koma þessari þekkingu á framfæri? Minni bækur? Rafræn miðlun þar sem leita má í efninu og skoða það í bútum?
Það skal tekið fram að saga Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands á ekki að vera nema tvö bindi og höfundarnir vilja að þau verði áhugaverð og skemmtileg fyrir allan almenning.
Bækur | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2007 | 09:58
Ísland - best í stjórnsýslu!
Viðskiptaþingi er nú lokið. Ekki var að þessu sinni aðeins boðið upp á hefðbundna vitnisburði trúaðra eins og venjan er á vakningarsamkomum af þessu tagi, heldur raunverulegt og gáfulegt innlegg í umræðu sem skiptir máli og snýst um ímynd Íslands. Simon Anholt setti landið, þjóðina, stjórnsýsluna, ferðamennsku, útflutning og innflutning fólks auk menningarinnar á vogarskálar og niðurstaðan var án efa í ósamræmi við það sem við flest höfum haldið, og þó.
Fyrir okkur sem vinnum í menningargeiranum og raunar fyrir mig sem hef árum saman verið með puttana í útgáfu á ferðamannabókum og ljósmyndaverkum er það svolítið kyndugt að sjá hve stjórnsýsla hefur styrka stöðu í ímyndarvoginni miðað við menningu og menningararfleið þjóðarinnar. En í sjálfu sér er það ekki að undra því kynning íslenskrar menningar erlendis hefur í raun byggst upp á einkaframtaki. Þar hefur hver unnið sitt, en við höfum ekki í höndunum heildstætt menningarútrásarplan, jafnvel þótt við í raun gætum tiltölulega auðveldlega komið því á koppinn fyrir í mesta lagi 500 milljónir, sem er náttúrlega ekki neitt nú um stundir.
Bókaútgáfan hefur fyrir sitt leiti takmark sem er að Ísland verði svokallað gestaland á bókamessunni í Frankfurt árið 2011. Slík uppákoma myndi hafa gríðarlegt vægi fyrir íslenskar bókmenntir á stærsta útflutningsmarkaði sínum og vera leið að öðrum málsvæðum Evrópu, ekki síst Austur- og Mið-Evrópu þar sem mestur vöxtur og uppgangur er nú í álfunni. Um 15.000 blaðagreinar myndu birtast um Ísland í þýskumælandi prentmiðlum það árið. Hundruðir klukkustunda af ljósvakaefni yrðu tileiknaðir íslenskri menningu. Nokkrum lykilverkum yrði snarað á þýsku og 120 milljónum gert þannig kleift að hafa raunverulega innsýn í íslenska menningu í gegnum aldirnar.
Eitt af því sem hefur borið á góma og verður vonandi hægt nú þegar ný bókmenntalög verða væntanlega samþykkt á alþingi er að stórefla kynningu bókmennta erlendis. Eitt af því sem þar myndi skipta máli er að fá tvo til að vera menningarlegir sendiherrar, skipuleggja fyrirlestraferðir, standa fyrir markvissum fundum, hugsanlega í samstarfi við útrásarfyrirtæki. Um leið þurfum við að hugsa eilítið "þjóðlegar" að tengja saman listir og fyrirtæki þannig að skapandi vinna beggja varpi ljóma á þá ímynd sem íslensk fyrirtæki og íslenskir listamenn þurfa allta á einn eða annan hátt að fást við þegar þeir hasla sér völl á erlendri grund.
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2007 | 11:52
"Svo stoppuðum við í sjoppunni á Hveravöllum"
Fyrir áratug fór ég Kjalveg í rútu Norðurleiðar ásamt þýskum vini. Þetta var raunar síðasta áætlunarferðin það árið, komið fram í september og orðið haustlegt á hálendinu. Þessi hálendisáætlunarleið var nokkuð skondið sambland af skemmtireisu og hefðbundinni rútuferð norður. Sjaldnast var stoppað lengi á hverjum stað, en bílstjórinn átti alstaðar kaffiafdrep. Um leið og hann kom út mettur af jólakökum og kaffi varð maður að drífa sig, sama hversu fallegt útsýnið var og sama hversu hverir, fossar og jöklar blikuðu. Meinlegastur var eftirreksturinn líklegast á Gullfossi þar sem við hlupum að fossinum og aftur til baka og rétt náðum í rútuna fyrir brottför. Óþolinmóður bílstjórinn stóð í sínum bláa búning með snjáða miðatöskuna á mjöðm og skimaði norður í átt að Bláfelli og Kerlingafjöllum eins og þaðan væri að vænta mikilla tíðinda, kannski hóf Níðhöggur sig einmitt þaðan til flugs.
Þarna uppgötvaði ég í fyrsta sinn óhjákvæmlega hnignun hálendisins. Að þess væri ekki langt að bíða að það yrði úti um ævintýrið. Kjalvegur er einkum sunnantil nokkuð seinfarinn slóði þótt hann hafi raunar stórbatnað á þessum tíu árum, en í fallegu veðri er þessi leið algerlega stórbrotin, ekki síst vegna útsýnisins til Langjökuls, Kerlingarfjalla og svo yfir heiðalöndin þegar halla tekur norður af. En perlan er náttúrlega Hveravellir. Það er sannarlega gaman að koma að Hveravöllum og það fannst greinilega fleirum. Skálavörður og veðurathuganafólk sögðu mér strax þá, árið 1996, að fólk liti á þessa leið sem sunnudagsrúnt í æ meira mæli. Það kæmi á nærbolnum með sprungið dekk og börnin með sólgleraugu og á stuttbuxum í aftursætinu og yrði alveg brjálað þegar það uppgötvaði að það var engin sjoppa þarna. Raunar var einn slíkur ferðamaður einmitt að ýta úr vör þegar við komum þarna á rútunni. Þau voru að verða nokkuð bensínlítil en höfðu fastlega gert ráð fyrir að geta keypt þarna dropa. Mér fannst þetta súrrealísk firring (og þetta var fyrir 10 árum). Að þessar stóru hálendisleiðir eins og Kjölur væru bara hver annar rúntur. Nú eru menn komnir svo langt frá efnisheiminum að þeir skynja ekki einu sinni hæðina yfir sjávarmáli, þeir ætla að bruna þarna yfir árið um kring jafnvel þótt þarna uppi sé um vetur einfaldlega annað loftslag en niður á jafnsléttu. En margt ýtir undir þessa tilfinningu og ýtti strax þá. Landsvirkjun var búin að fullganga frá mannvirkjum sínum við Blöndu. Eitt af því var að byggja upp veg meðfram stíflulóninu og þar er nú svo sem nútímalegur uppbyggður og upphækkaður vegur. Smám saman, án þess að virðist nokkurrar umræðu, hefur þessi uppbyggði vegur teygt sig lengra suður í átt að Hveravöllum, og nýir vegir hafa verið lagðir þvers og kruss í kringum lónið sem síðan hefur stækkað talsvert frá því stíflan í Blöndu var byggð. Galtará þar sem Jónas greiddi lokka elskunnar sinnar og balarnir sem lágu að henni eru til að mynda að mestu horfnir, enda étur lónið alltaf úr bökkunum vegna misgengis á hæð yfirborðsins, eins og þekkt er með uppistöðulón.
Hnignunin er því fyrir löngu hafin. Í fyrsta lagi er búið að breyta gríðarlega landslagi við Kjalveg norðanverðan. Í öðru lagi er langt síðan hugarfarsleg hnignun okkar hófst, mjög margir, alltof margir, skynja ekki hálendið annað en sem vettvang nýrra "tækifæra" og eru pirraðir yfir því að þar vantar sjoppur og bensínsölur, dekkjaverkstæði og grill. Hraðbraut yfir Kjöl væri einfaldlega harmleikur. En í raun og veru er bygging hennar rökrétt afleiðing af þeirri grundvallarafstöðu sem hinn þögli meirihluti hefur þegar tekið: að það eigi að vera sjoppa á Hveravöllum. Þegar menn fara að metast um hver komst hraðast yfir Kjöl segir sá sem var tvo tíma við hinn sem var einn og hálfan: "En, við stoppuðum náttúrlega í sjoppunni á Hveravöllum."
Bækur | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)