Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Það gengur fé úti í Esjunni

Neðst við mynni Gljúfurárdals var tvílemd golsótt ær, ákaflega útigengin að sjá, í tveimur reifunum og ekki vaðandi í spiki, né heldur gemlingarnir og hafði eytt morgninum í að sniglast fram með ánni í von um að komast yfir á frerabrú en þrátt fyrir mikla snjókomu í fréttunum er enginn vetur til fjalla, það er varla nokkur snjór upp í efstu brúnir og Glúfuráin hvergi allögð. Eðlilega komst styggð að rollunni þegar við komum þarna að en hún fór ekki langt, rétt upp í Búa og var enn á svipuðum slóðum þegar við komum niður af Kambshorni.

Sunnan undir Kerhólakambi, í drögunum ofan og austan við Sauðagil, var hópur af fé, einar sjö kindur, og augljóst að engin þeirra hafði komist á hús í haust, eða í það minnsta varla haft þar viðkomu ef svo er. Þarna voru eldri ær og gemlingar og merkilega lítið styggt, horfði á okkur ganga framhjá og hafði það svo sem ekki sem verst því það er ágætlega gróið þarna uppfrá eftir að skriðunum neðantil sleppir og auðvitað varla nokkur snjór.

En ætla eigendurnir þá ekki að hleypa til í ár eða sleppa þeir kannski bara hrútunum lausum líka? Í það minnsta veit ég að fyrir norðan heiðar yrði allt vitlaust ef fréttist af því að fé gengi enn úti í fjöllum og gerðir út leiðangrar til að heimta það. En það má greinilega allt í Esju. Kannski eiga einhverjir Kjalnesingar þetta, kannski bóndinn í Varmadal, sem ég rakst einu sinni utan í Búa og brá óþyrmilega við, hélt ég hefði séð huldumann. En hann var þá að reyna að fiska gemlinga úr sjálfheldu og var að reyna að síga á milli sillna en björgunarsveit á leiðinni honum til aðstoðar. Ef þetta hefði verið á Vestfjörðum hefði það komið í fréttum að björgunarsveit hefði bjargað fé í sjálfheldu en því nær sem maður er borginni, þeim mun aftar á merinni lenda málefni útigangsskepna. Helstu dýraplagaramál landsins koma upp í þjónusturadíus frá höfuðborginni.

Og ef einhver Kjalnesingur les þetta: Gáðu nú að fénu þínu í Glúfurdal. Fyrir tveimur árum hröpuðu Varmadalsgemlingarnir á ís niður í glúfrið og annar drapst. Maður sér beinin þarna enn. Kannski fáum við Esjufarar nýtt hræ fyrir vorið? 


Nóttin var sú ágæt ein

Það er langt síðan fólk hætti að gefa mér bækur í jólagjöf. Ég tók eina bók upp úr bréfi vegna þess að ég hafði keypt hana sjálfur fyrir fé frá ömmu minni. Sonur minn fær heldur engar bækur. Huguð góðvinkona hans gaf honum þó Einar Áskel og sem betur fer vantaði hana í safnið. Fólk gerir ráð fyrir að maður eigi allar bækur sem er náttúrlega ekki satt. Mig langar enn í fullt af bókum en það eru yfirleitt fræðibækur sem maður rekst á þegar blaðað er í Bókatíðindum og aldrei eru auglýstar. Þá hefur maður sterklega á tilfinningunni að maður sé að uppgötva eitthvað nýtt.

Það var því ekkert "þú sofnar seint um þessi jól!" hjá mér en um miðja jólanótt vaknaði ég við að tunglið skein framan í mig. Það stóð hátt á vesturhimni, lýsti upp Faxaflóann svo björt röst náði frá glerveggnum í stofunni út að Garðskagavita og nokkrar skýjalufsur sem rak úr suðri gerðu birtuna síst minni, juku aðeins á dularáhrifin. Reykjaneskaginn og fjallaröðin frá Vífilfelli út að Keili var uppljómuð nema hvað kólgubakki teygði sig yfir Sveifluháls eins og grá krumla. Þetta var veður eins og þau sem búa í rómantískum kvæðum eftir Uhland eða Goethe á hans dulmagnaðasta skeiði. Kastali stendur á hamri hátt en helsærður riddari æðir á fáki gegnum skóginn í tunglsbirtunni í kappi við vættir og ógnir. Hann nær fundi sinnar elskuðu en dreyrinn drýpur úr brynju og kastalafrúin reikar æ síðan um skógana og vei þeim sem á vegi hennar verða. Þetta er nótt eins og í sögu eftir Tieck, eins og í Rúnabergi, þar sem óendanlegir villiskógar og hrikalegir hamrar bergja tælandi dísir og eðalsteina sem kasta ævilangri bölvun á hver þann sem villist inn í þeirra seiðhjúp. Að baki öllu þessu ólgar eitthvað heitt og dimmt: Hræðilegt ósegjanlegt leyndarmál sem vafið er í hjúp ævintýris og næturljóða. Eckbert der Blonde, Eggert Glói, geymir skelfingu sifjaspells og svika í blóðinu. Álfareið Goethes fjallar í grunninn um óttann við skelfingar barnamisnotkunar og hina óútskýranlegu illsku níðingsins sem reikar um skóginn í leit að barnungum drengjum.

Þessi ægifagra og ógnblíða sjón fékk mig þó að endingu til að vinda mér nokkrar aldrir aftur fyrir rómantík, að jólabókinni minni. Hún er nýútkomin og geymir safn ljóða Einars Sigurðssonar frá Eydölum í Breiðdal (1539-1626), sem raunar var norðlenskur, alinn upp í Aðaldal og eyfirskrar ættar. Hún er að sönnu ekki ein af hinum miklu jólabókum ársins og kannski svolítið hörð undir tönn, því flest kvæðin geyma óblandaða lúterska kenningu eins og hún var kennd af siðbreytingarfrömuðum. En Einar á raunar eitt "hitt", Nóttin var sú ágæt ein, sem að sönnu er enn sungið og á allra vörum, svo að hann er áreiðanlega fjörugri sem skáld en margur annar. En mörg kvæða hans eru hrein áróðurskvæði, til að mynda lofgjörð hans um gæði Íslands, sem hljómar eins og nýársávarp forseta Íslands, til að mynda telur Einar Ísland standa Indíalöndum miklu framar um öll heimsins hnoss. Erindi kvæðisins er að steypa saman vegferð Íslands og vegferð lútersks siðar, þetta tvennt haldist hönd í hönd báðum til hagsbóta. Ég mæli hins vegar óhikað með bókinni, eins og ritdómararnir segja. Hún er til fyrirmyndar hvað varðar frágang á kvæðum fyrri alda vegna þess að útgefandinn, sveitungi minn og nafni, Kristján Eiríksson, heldur í senn í talsverða textafræðilega nákvæmni, um leið og hann ofgerir henni ekki í framsetningu, kvæðin eru stafsett upp á nútíma vísu, en mikið apparat í bókarlok sýnir hvaðan þau koma og þar geta menn kafað ofan í bókstafinn. Stuttur og snarpur inngangur segir svo það sem segja þarf um Einar og hans ævi. Miklar útleggingar á textunum er hér hins vegar ekki að finna og það ætlar Kristján öðrum. Þrátt fyrir að við teljum okkur flest trúuð erum við hins vegar börn í guðfræði. Við skiljum ekki upp né niður í því sem fram fer í þessum textum, og samt er það okkur í raun alls ekki framandi, heldur einmitt mjög nálægt, ef við tækjum lúterska trú okkar alvarlega og settum okkur inn í þær forsendur sem liggja lútersk-evangelísku þjóðkirkjunni okkar til grundvallar. En þar með er ekki sagt að það breyti neinu, ekki líður fólk fyrir þennan skilningsskort svo sem. 

Á síðustu áratugum 19. aldar og í upphafi 20. aldar snerist útgáfa á Íslandi og á íslensku í Kaupmannahöfn að talsverðu leyti um að koma handritaforða þjóðarinnar á þrykk. Síðan hrakaði þessu aftur og útgefendur sem voru í sviðsljósinu voru þeir sem töluðu til hins almenna markaðar. En áhugi þeirra sem voru á snærum hins opinbera á því að umporta handritum virtist líka dofna og textaútgáfur voru fáar og langt á milli þeirra. Prentkostnðar- og menntabylting samtímans hefur síðan snaraukið þessa útgáfu að nýju og síðasta áratuginn eða svo hafa komið út nokkrar bækur á ári sem geyma áður ótútgefna texta á íslensku. Þetta hefði einhvern tíma þótt merkilegt en nú finnst okkur þetta sjálfsagt. Það er veruleiki útgáfunnar í dag. Menningarverðmæti eru afstætt hugtak og útgáfan ein sog sér breytir ekki mynd okkar af fortíðinni. Það þarf meiriháttar markaðsátak til þess, áróður eins og þann sem siðbreytingarmennirnir höfðu uppi og náðu fyrir vikið að setja mark sitt á íslenska menningu fram til þessa dags. Trúarumræða dagsins í dag stendur í skugganum af siðbreytingunni: Sá sem er á móti kirkjunni er jafnframt á móti ríkinu og grunnskipan veraldarinnar. Þannig hefðu Einar Sigurðsson, Guðbrandur, Ólafur frá Sauðanesi, Arngrímur lærði og hinir Hólamennirnir séð það. Það er því hressandi fyrir alla þá mörgu sem finnst nú "vegið að grunngildum þjóðarinnar" að taka sér þessa bók í hönd og lesa um náðarverk heilags anda, þakklætisvísur fyrir stórvirki endurlausnarans og erfðasyndina sem blóð Kristí þvær okkur af sem og fórnardauða frelsarans sem gerir okkur hólpin ef aðeins samviskan er nógu mjúk og móttækileg á iðranina. Allt þetta og miklu fleira í næstu bókabúð.


Hverjir eru að selja?

Listi Félagsvísindastofnunar um bóksölu síðustu viku var birtur í Morgunblaðinu í morgun, síðasti listi fyrir lokun markaða á sunnudagskvöld. Hann er því ráðgefandi um þessa síðustu daga jólasölunnar.

Að venju eru 50 sæti í boði, raunar 51 sæti að þessu sinni, því tvær bækur skipta með sér 10 sæti barnabókalistans, hafa verið hnífjafnar. Flokkarnir eru: Íslensk og þýdd skáldverk, Ljóð, Íslenskar og þýddar barnabækur, Almenn rit og Ævisögur.

Samkvæmt listanum er Forlagið, hin sameinuðu JPV útgáfa og Eddu útgáfa, með 7 titlum færra á listnum nú miðað við samanlagðan titlafjölda fyrirtækjanna í fyrra. Í fyrra voru þessi tvö fyrirtæki með samtals 32 sæti á listanum. Nú er Forlagið með 25 titla, eða helming allra mest seldu bókanna. Miðað við umfang fyrirtækisins er það fullkomlega eðlilegt og í samræmi við samlegðaráhrifin sem vænta mátti. Óhætt er að fullyrða að ekkert íslenskt forlag hafi nokkurn tíma haft svo sterka stöðu. Næst á eftir er hitt sameina fyrirtækið Bjartur/Veröld með 7 titla en var með 5 í fyrra samanlagt. Frá báðum þessum forlögum koma þær fréttir að salan sé með eindæmum góð í ár og öll strik beina leiðina upp. "Hástökkvari ársins" er svo án efa Salka, sem nú er með 3 bækur á topp 50 en var með enga í fyrra. Leyndarmálið eftir Rhondu er til að mynda ein mest selda bók ársins og Salka hefur náð góðum árangri með Postulín Freyju Haraldsdóttur og Ölmu Guðmundsdóttur auk þess sem Skáld Rósu saga séra Gísla Kolbeins mælist á lista.

En ef sameinað Forlag er með 7 færri titla á listum í ár og ef B/V er með 7, s.s. tveimur fleiri en í fyrra, þýðir það að 5 sæti eru fyrir aðra. Fyrir vikið má sjá fleiri útgefendur á topp 50 nú en í ár, eða þremur fleiri, 16 nú en voru 13 í fyrra. Annars er niðurröðunin á þennan veg:

  • Forlagið 25
  • Bjartur/Veröld 7
  • Salka 3
  • Hagkaup 2
  • Hólar 2
  • Uppheimar 2
  • Andi 1
  • Friðarsetur Holti 1
  • Helgi og Hjálmar 1
  • Setberg 1
  • Skálholtsútgáfan 1
  • Skjaldborg 1
  • Skuggi 1
  • Sögur 1
  • Tindur 1
  • Útkall 1

Fyrir ári síðan leit niðurröðun forlaganna á lokalistanum fyrir jól þannig út:

  • Edda útgáfa - 17 sæti
  • JPV útgáfa - 15 sæti
  • Bjartur - 4 sæti
  • Útkall - 3 sæti
  • Hólar - 2 sæti
  • Nýhil - 2 sæti
  • Hagkaup - 1 sæti
  • Setberg - 1 sæti
  • Skjaldborg - 1 sæti
  • Skrudda - 1 sæti
  • Tindur - 1 sæti
  • Uppheimar - 1 sæti
  • Veröld - 1 sæti

Staða Hagkaupa á þessum listum hefur alltaf vakið spurningar. Hagkaup eru að sjálfsögðu ekki eiginlegur bókaútgefandi sem hefur aðalstarf af bókaútgáfu og selur bækurnar langt undir því verði sem eiginleg forlög geta treyst sér til að bjóða bækur á. Hagar djöfluðust sem þeir gátu fyrir tveimur árum til að komast inn á þessa lista en þá hélt Félag íslenskra bókaútgefenda sig fast við þá meginreglu að bækur yrðu að vera í almennri sölu til að komast þar inn. Hagar svörðu með því að koma Hagkaupsbókunum inn í Pennann/Eymundsson. Þeim hefur verið mikið í mun að sanna að Hagkaupsbókin sé alltaf mest selda bókin. Nú bregður svo við að Hagkaupsbókin endar í þriðja sæti á aðallista en Hagkaup er raunar með tvær bækur inni á honum, jafnmargar og B/V, þannig að Hagar (Baugur Group) blandar sér þar með í slaginn. Eignarhald Baugs á Skugga forlagi gerir það svo að verkum að segja má að Baugur sé með þrjár bækur á aðallista þetta árið. Niðurröðun forlaga á aðallista er annars þannig nú:

  • Forlagið 4
  • B/V 2
  • Hagkaup 2
  • Skuggi forlag 1
  • Útkall 1

Það sem vekur kannski mesta furðu er að Harry Potter kemst ekki inn á aðallista og þar er engin barnabók í ár. Áhyggjurnar af verðstríði á leikfangamarkaði myndi hafa áhrif á barnabókasölu hafa því kannski átt rétt á sér, eða þá að sala á fullorðinsbókum hefur einfaldlega aukist. Enginn treystir sér til að fullyrða nokkuð um það á þessari stundu.


Ríkisútgáfan

Af hverju eru bækur sem ríkisstofnanir gefa út seldar á markaði en ekki bara gefnar? Voru skattgreiðendur ekki búnir að standa straum af framleiðslu þeirra? Af hverju er vinnsla þeirra ekki boðin út eða er það hlutverk til dæmis Lýðheilsustöðvar að vera bókaútgefandi? Nú hefur sú stofnun farið í miklar kynningarherferðir með tvær útgáfubækur sínar í haust og í dag má sjá blaðaauglýsingar frá stofnuninni sem blanda sér í jólaslaginn.

Að vísu má segja það þeim hjá Lýðheilstustöð til hróss að allur ágóði af útgáfu bókarinnar Velgengni og vellíðan rennur til góðgerðarmála þótt óljóst sé raunar hvaða samtök nákvæmlega fái afraksturinn. Höfundur bókarinnar er Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sálfræðingur, sem jafnframt er starfsmaður stofnunarinnar og bókin skýrir út hugmyndafræðina á bak við Geðorðin 10 sem skreyta ísskápa á nær öllum íslenskum heimilum. Fyrr í haust vakti bókin Holdafar - hagfræðileg greining eftir Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur mikla athygli en útgefandi hennar er líka Lýðheilsustöð. Eitt af markmiðum Lýðheilsustöðvar er að sjálfsögðu að fræða en útgáfustarf hennar er enn eitt dæmið um að á sama tíma og ríkið eyðir vart nema 50 milljónum í beina styrki til bókaútgáfu gegnum Bókmenntasjóð er eytt mörg hundruð milljónum á ári til bókaútgáfu á vegum hins opinbera sem fram fer á vegum stofnana ríkisins. Það er enginn efi á því að að þeir sem sinna útgáfu árið um kring og hafa reynslu af frágangi, framleiðslu, markaðssetningu og sölu bóka, myndu sinna þessari starfsemi miklu markvissar.


Topp 50

Það skiptir engu máli þótt út komi 800 bækur, 1000 bækur, 1500 bækur fyrir hver jól. Á endingu eru það bara 50 bækur sem komast á blað á metsölulista Morgunblaðsins.

Þegar hann var birtur fyrst í ár upp úr miðjum nóvember benti samsetning hans til þess að nýjustu atburðir í forlagsheimum hefðu haft áhrif á valdahlutföllin. Í stað þess að Edda útgáfa og JPV væru á tveggja turna tali sem heysáturnar fyrir neðan hefðu ekkert í var komin breiðsíða smárra og meðalstórra forlaga og risinn eini, Forlagið, rétt með helming bóka á lista. Ekki var hins vegar við öðru að búast en að auglýsingaþyngd og almennur skriðþungi hins sameinaða fyrirtækis myndi skila sér þegar nær drægi jólum og það varð raunin. Á síðasta lista var hlutfall Forlagsins komið upp í 27 bækur af 50. En þá eru eftir 23 sæti og þar er hin sameinaða bókaútgáfan, Bjartur/Veröld, búin að hreiðara um sig í skugga risans, með 8 titla. Síðan koma fastir áskrifendur á borð við Útkall en enn eina ferðina tekst Óttari Sveinssyni að mokselja bók eftir sig, ótrúlegur árangur það.

Síðan eiga útgáfur á borð við Skugga, Setberg, Sölku, Sögur, Uppheima, Skjaldborg, Hagkaup og Nýhil eina til tvær bækur þarna sem er svipað hlutfall og undanfarin ár.

Nú á fimmutdaginn kemur svo lokalistinn fyrir jól. Hann dregur upp endanlega mynd af því hvernig markaðsslagurinn þessi jólin hefur artað sig. Eitt árið birti Morgunblaðið 15 bóka lista í staðinn fyrir 10. Þeir listar voru miklu skemmtilegri því þá sá maður stærra hlutfall af heildarútgáfumagninu birtast í markaðsuppgjörinu. Vonandi taka Mbl. og Félagsvísindastofnun þann hátt upp að ári. Í staðinn fyrir topp 50 er þá kominn topp 75 sem segir miklu meira um raunveruleika bókaútgáfunnar þegar 800 til 1000 nýir titlar eru í boði.


Sjónarmið eilífðarinnar

Pétur Gunnarsson rithöfundur og formaður Rithöfundasambands Íslands ritar hugvekju í Morgunblaðinu í dag um gildi hlutanna. Skemmtileg lesning, ekki síst fyrir þá sem eru nú að berja bumbur neyslunnar. Opinberar þá skemmtilegu þverstæðu að bókaskrif og bókaútgáfa eru í stöðugu reiptogi. Allt frá því prentverkið varð til og bækur urðu fyrsta staðlaða og fjöldaframleidda varan sem seld var viðskiptavinum á markaði hefur þessi markaðsdrifni áll í bókafljótinu dregið til sín skáldastráin. Þau veita síðan viðspyrnu, mismikla eftir anda tímans hverju sinni. Þau horfa til stjarnanna en framleiðendurnir að ósnum.

Af hverju kaupir fólk svona mikið af bókum?

Það er sama við hvern er talað. Hvort sem það eru smásalar eða útgefendur. Allir staðfesta að bóksala ársins 2007 sé það sem af er umtalsvert meiri en hin fyrri ár svo nemur í sumum tilvikum um 20% aukningu. Auðvitað ber að taka slíkum tölum frá útgefendum með fyrirvara þar sem vertíðin er ekki enn á enda runnin og hinir víðáttumiklu bókalagerar eru nú dreifðir um allar koppa grundir, allt frá Strax á Skagaströnd til Office 1 í Vestmannaeyjum, Bónuss á Seltjarnarnesi til Nettóstórveldisins á Akureyri, en söluaukning endursöluaðila segir sitt.

Og þá byrja menn að spá. Af hverju kaupir fólkið svona mikið af bókum?

Í fyrsta lagi hefur framboð aukist. Í Bókatíðindum eru 120 fleiri titlar í ár en í fyrra (prentaðir og hljóð), alls 800 titlar. Eymundsson, sem tekur nær allar bækur inn, hefur 1000 ný vörunúmer í flokknum íslenskar bækur á skrá fyrir árið í ár. Mikið vöruúrval hefur jákvæð áhrif á viðhorf neytenda, það er sannað mál. Í öðru lagi fer það ekki framhjá neinum sem horfir á sjónvarp eina kvöldstund að auglýsingar bókútgefenda eru gríðarlegar. Birtingakostnaður í sjónvarpi hlýtur að hlaupa á tugum milljóna, jafnvel fara yfir hundrað milljónirnar því það er búið að vera auglýsa stíft frá því í endaðan október. Mér var sagt að Forlagið (JPV/Mál og menning/Vaka-Helgafell) hefði verið stærsti einstaki auglýsandinn í sjónvarpi í nóvember síðastliðnum, sem segir sína sögu. Sá sem ekki tekur eftir því að bækur koma út núna fyrir jólin les ekki blöð, hlustar ekki á útvarp og hefur tekið sjónvarpið úr sambandi. En eigi hann leið í Hagkaup, Nettó, Krónuna, Bónus, Office eða ótrúlega margar Samkaupabúðir að ógleymdum sjálfum Eymundsson blessuðum auk ótal annarra verslana hlýtur hann að sjá bækur einhvers staðar á bekk. Varan er vel sýnileg.

Í þriðja lagi sýnast spámönnum ýmis teikn á lofti um að til sé að verða nýr markaður fyrir bækur sem ekki var hluti af jólamarkaðnum hér áður fyrr. Það mætti kalla þennan markað "aðventumarkaðinn". Fólk kaupir bækur handa sjálfu sér að lesa, nýjar bækur sem eru í umræðunni og fólki finnst spennandi að lesa. Æ oftar verður maður var við í samtölum við fólk og af ýmsum ummælum í fjölmiðlum og á bloggsíðum að fólk les bækur á aðventunni. Ég heyrði til dæmis í mér nákominni konu um daginn sem sagði mér að á sínum vinnustað læsi fólk skipulega flestar meiriháttar bækur þessarar vertíðar strax og þær kæmu út, og þarf kannski ekki að taka fram að menntaðar konur á fimmtugs og sextugsaldri eru í meirihluta á þessum vinnustað. Sumir segja mér að bóklesturinn sé orðinn óaðskiljanlegur hluti af aðventustemmningunni. Menn eru ekkert að bíða fram á jólanótt og að "sofna seint þessi jól", heldur demba sér strax í lesturinn. Grundvöllurinn er náttúrlega að fólki finnst verðið viðráðanlegt. Því jafnmikilvægt og hátt bókaverð er fyrir afkomu höfunda er það hemill á bókakaup. Frjáls verðlagning á bækur hefur búið til samkeppnismarkað, knúið bókaútgefendur til að leita leiða til kostnaðarlækkunar og stýrt mönnum í þann farveg að bæta upp tekjutap af fáum og dýrum seldum eintökum í að hala tekjurnar inn á magni. Oft er fussað og sveiað yfir þessum "afsláttum", en hjaðningavígin á bókaborðunum hafa áreiðanlega ekki haft það í för með sér að fólk kaupir síður bækur. Þvert á móti.


Vandinn að tilnefna

Tilnefninganefndir Íslensku bókmenntaverðlaunanna luku störfum sínum á mánudag og niðurstaðan var tilkynnt af formönnum nefndanna í Kiljukastljósi í gærkvöldi. Kiljan hélt svo áfram með umræður um verðlaunin og bryddað var upp á þeirri nýbreytni að taka stutt viðtal við þá sem tilnefndir voru. Mér er að vísu málið tengt en fannst það koma vel út og skipta máli að heyra aðeins í þessu fólki og fá stutta kynningu á bókunum, það er ekki sjálfgefið að allir þekki innihald þeirra og umfjöllunarefni til hlýtar.

Það er orðinn leiðindasiður frá því að tekið var upp samstarf við Kastljósið og Ríkissjónvarpið um að tilkynna tilnefningarnar að kveðja til einskonar andefni við dómnefndirnar, einhvers konar "advocati diaboli" sem eru þess fullvissir um að niðurstöður þeirra séu aldeilis óásættanlegar. Í Kiljunni í gær náðu þessi skyldubundnu andmæli nýjum hæðum þegar fastagestir þáttarins, Kolbrún Bergþórsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson nánast rifu tilnefningarnar í sig. Það stóð fátt eftir annað en óánægjan með val dómnefnda. Eitt var þar sagt sem var á misskilningi byggt en það voru ummæli Páls um stórvirkið eða ritröðina Kirkjur Íslands sem gefið er út af Þjóðminjasafni Íslands í samstarfi við Húsafriðunarnefnd og Hið íslenska bókmenntafélag og er heildaryfirlitsverk um friðaðar kirkjur á Íslandi. Hann skildi ekki af hverju þetta verk skyldi ekki vera tilnefnt og talaði um að æ ofan í æ væri gengið fram hjá því. Það er hins vegar erfitt fyrir dómnefndir að taka til greina önnur rit en þau sem lögð eru fram til tilnefningar af útgefendum, eins og kveðið er á um í reglugerð verðlaunanna.

Þessi andmælaskylda var fremur pínleg hér áður þegar tilnefndir höfundar voru í sjónvarpssal með gagnrýnendum og hlustuðu á þá lýsa yfir óánægju sinni með tilnefningar. Nú var þeim í það minnsta hlíft við því á gleðistundu að þurfa að fá strax framan í sig að þeir væru þessarar upphefðar fullkomlega óverðugir. Þeir fengu bara að horfa á það heima í stofu í staðinn. 

 


Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Tilkynnt verður hvaða 10 bækur verða tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2007 í Kastljósi í kvöld. Raunar er það þannig að Kiljan flytur inn í Kastljós og þar munu síðan formenn tilnefninganefndanna tveggja mæta og segja alþjóð hvaða bækur koma til álita sem verðlaunabækur í ár. Seinna um kvöldið verður svo Kiljan tileinkuð tilnefndu höfundunum sem koma fram og ræða verk sín.

Spennandi fyrir alla sem áhuga hafa á bókum.


Hvernig má bjarga samkeppnishæfni Íslands með barnabók

Niðurstöður úr hinni alþjóðlegu PIRLS könnun um lestrarkunnáttu 9 ára barna á Íslandi eru ekki mjög uppörvandi. Í landi þar sem metnaður okkar stendur til að vera sífellt í hópi hinna bestu, ekki síst á sviðum menntunar, er 32. sæti af 45, eða rétt við meðallag, ekki ásættanlegt. Þar að auki eru það mikil vonbrigði að sjá að lestrarkunnáttunni hrakar lítils háttar miðað við síðustu könnun árið 2001.

Þessar niðurstöður eru líka áhyggjuefni fyrir bókaútgefendur, rithöfunda og aðra sem vinna að bóka- og blaðaútgáfu og menningarmiðlun. Við sem vinnum við bókaútgáfu og miðlun texta viljum ekki aðeins að fólk lesi og lesi mikið. Við vitum einfaldlega að útbreiðsla þekkingar er grunnurinn að því að samfélagið í heild spjari sig. Þetta snýst ekki aðeins um að fólk kaupi einni eða tveimur skáldsögum meira á ári, þetta snýst um að að fólk hafi getu til að tileinka sér hvaða lesmál sem er. Ekki aðeins er það niðurstaða úr mörgum rannsóknum að lestrarkunnátta er lykillinn að velgengni í námi, heldur hafa einnig kanadískir hagfræðingar gert nákvæma úttekt á sambandi lesleikni eða lestrarkunnáttu við hagvöxt og þróun svokallaðra "þekkingarhagkerfa" sem byggjast á því sem bandaríski hagfræðingurinn Richard Florida kallaði "skapandi stéttir".

Það er næstum ótrúlegt að sjá að það virðist vera beint samband milli lestrarkunnáttu fullorðinna og síðan samkeppnishæfni og góðra lífsskilyrða. Lestrarkunnátta er því ekki bara spurning um að geta litið í blöðin eða kíkt inn á netið. Því betri lestrarkunnátta, því meiri líkur eru á að samfélagið í heild spjari sig í hinni alþjóðlegu baráttu um fjármagn, hæfileikafólk, hugmyndir og bætt lífsskilyrði.

Grunnurinn að lestrarkunnáttu er lagður á unga aldri. Lestrarkunnátta næst kannski síst með því að kíkja í skólabækurnar. Hún næst með því að lesa sem flest og sem fjölbreyttast úrval bóka. Í ár standa íslenskir útgefendur sig sérstaklega vel í þessum efnum. Boðið er upp á metfjölda barnabóka í ár eða um 300 titla, þar á eitthvað að vera fyrir alla.

Bækur eru ekki dýrar. Allra síst barnabækur. Fyrir nokkra þúsundkalla má auðveldlega leggja grunn að bættri samkeppnishæfni Íslands í framtíðinni. Sterku samfélagi menntunar, hugmyndaauðgi og framsýni. Eitt leikfangið enn mun ekki breyta neinu, en bók breytir öllu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband