29.11.2009 | 14:55
Sölulistaklandur
Í fyrsta sinn í háa herrans tíð er komin upp sú staða að enginn samræmdur heildarsölulisti bóka er til staðar í landinu. Morgunblaðið birtir eins og sakir standa eina samantektarlistann en hann er á mörkum þess að vera marktækur þar sem tveir stórir söluaðilar bóka taka ekki þátt í gerð hans, Penninn-Eymundsson og Bónus. Þeir sem taka þátt í gerð Morgunblaðslistans eru Hagkaup, Krónan, Samkaup-Úrval og Nettó auk Iðu og Bókabúðar Máls og menningar. Ýmsar aðrar sjálfstæðar bókaverslanir eru ekki með.
Félagsvísindastofnun sá um langt skeið um gerð samræmds heildarlista yfir bóksölu á Íslandi og um nokkurt skeið var hann samstarfsverkefni Félags íslenskra bókaútgefenda og Morgunblaðsins en Morgunblaðið fjármagnaði hann eitt síðustu árin. Í ár hefur þetta samstarf ekki verið framlengt af kostnaðarástæðum. Eymundsson sendir sinn lista vikulega og hefur gert svo frá því að flestir forleggjarar og endursöluaðilar fóru búa til eigin metsölulista fyrir um áratug síðan. JPV Forlag, síðar Útgáfa var fyrst til að hnykkja af festu á því að forlagið væri sjálft með slíkan lista og auglýsan hann. Í kjölfarið hermdu svo margir eftir. Þetta varð stundum fremur kómískt eins og þegar forlag með 4 útgáfubækur birti "metsölulista" bóka sinna.
Síðan hættu forlögin að djöflast með eigin lista, nema þá helst inni á heimasíðum sínum, en nú er þetta komið aftur og ástæðan einföld: Engin samræmd heildarmæling er til. Um leið spretta alls kyns smálistar upp.
Félag íslenskra bókaútgefenda hefur um nokkurt skeið ætlað að standa að samræmdi mælingu á bóksölu allt árið, ekki síst til að eiga í fórum sínum áreiðanlega yfirsýn yfir bókamarkaðinn til þess til að mynda að hafa einhverjar tölur í höndunum þegar við berum okkur saman við útlönd, eða bara til að hafa eitthvað í höndunum sem segir okkur hver staðan er. Viðræður við bóksölufyrirtækin um að taka þátt í slíku hafa hins vegar verið ákaflega stirðar. Jafnvel þótt óháð stofnun vinni slíka samantekt hefur mikillar tortryggni gætt.
Í Danmörku og Bretlandi sér Nielsen BookScan um að mæla þessa sölu og þar eru áreiðanlegar og sterkar tölfræðilegar heimildir um raunsölu til staðar. Það væri betra fyrir alla aðila að hafa grunn til að standa á og geta þannig mælt söluna af viti. Fram að jólum munu menn auglýsa bækur með tilvísan til hinna og þessara lista sem munu gera neytandann ringlaðan og brengla raunveruleika jólasölunnar sem er sá að um 130 til 150 útsölustaðir um landið allt selja bækur. Við þurfum að vita hvað þeir eru að selja.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.